Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Randver Sigurvinsson

Það sem fólki er heilagt

Birting Jótlandspóstsins í Danmörku á tólf teikningum sem hæddust að Múhameð spámanni hafa vakið hörð viðbrögð múslima víða um heim og hrundið af stað mikilli umræðu um prentfrelsi, mannréttindi og árekstra menningarheima. Myndbirtingarnar og viðbrögðin við þeim er enn ein áréttingin á mikilvægi almennrar trúarbragðafræðslu enda er þekking og gagnkvæmur skilningur forsenda friðsamlegra og nærgætinna samskipta ólíkra trúarbragða og menningarheima.

Við undirrituð eigum sæti í starfshópi á vegum Þjóðkirkjunnar sem vinnur að því að efla góð samskipti við önnur trúarbrögð og gagnkvæman skilning. Þar höfum við m.a. unnið að undirbúningi að stofnun samráðsvettvangs fyrir ólík trúarbrögð hérlendis í samvinnu við Alþjóðahús og með þátttöku múslima og fleiri trúarhópa og kirkjudeilda.

Birting Jótlandspóstsins og annarra fjölmiðla á teikningunum af Múhameð spámanni er særandi fyrir múslima vegna þess að þar er hann smánaður sem hryðjuverkamaður, hæðst er að trú þeirra og neikvæðar staðalmyndir dregnar upp af þeim í anda andgyðinglegs áróðurs nazista á sínum tíma. Trú flestra múslima leggur bann við myndum af ekki bara Múhameð spámanni heldur einnig öllum öðrum spámönnum sem þeir eiga sameiginlega með gyðingum og kristnum mönnum. Þótt virða beri bann múslima við teikningum af Múhameð spámanni er ljóst að hörð viðbrögð þeirra stafa fyrst og fremst af þeirri neikvæðu mynd sem dregin er upp af þeim og trú þeirra með umræddum teikningum.

Múslimar eru meðal fjölmargra minnihlutahópa á Norðurlöndum. Birting mynda sem smána og draga dár að því sem minnihlutahópi er heilagt í trúarefnum og ýta undir neikvæðar staðalmyndir af þeim hljóta að vekja spurningar um tilganginn þar að baki, ekki síst þegar ritstjórnin veit að þær munu særa tilfinningar viðkomandi og jafnvel ýta undir úlfúð milli þjóðfélagshópa. Eftir að dönsku myndirnar birtust hafa þær m.a. orðið vatn á myllu öfgahópa sem hvetja til ofbeldis gegn þeim sem ábyrgir voru fyrir þeim. Slík viðbrögð eiga sér ekki heldur málsbætur.

Það er miður að íslenskir fjölmiðlar skuli sumir hverjir hafa birt umræddar myndir. Tjáningarfrelsi fylgir ekki aðeins ábyrgð heldur er það óhjákvæmilega ýmsum skilyrðum háð enda geta fjölmiðlar ekki birt hvað sem er, svo sem meiðyrði og barnaklám. Jafnframt telst það lögbrot að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags hér á landi.

Enginn sem vill stuðla að góðum samskiptum þjóðfélagshópa, þar á meðal trúarhópa, getur stutt birtingar á þessum myndum í fjölmiðlum á Íslandi. Þjóðkirkjan hefur átt góð samskipti við Félag múslima á Íslandi sem hefur á friðsaman hátt komið óánægju sinni á framfæri vegna myndbirtinganna og útskýrt málstað sinn. Við tökum undir ósk þeirra um að fjölmiðlar virði það sem þeim er heilagt.

Bjarni Randver Sigurvinsson, formaður starfshóps um samskipti við önnur trúarbrögð
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnisstjóri samkirkjumála á Biskupsstofu
Toshiki Toma, prestur innflytjenda

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. febrúar 2006

Um höfundinn2 viðbrögð við “Það sem fólki er heilagt”

  1. Torfi Stefánsson skrifar:

    Gott! Og til hamingju með þetta! Ég veit ekki til þess að aðrar kirkjulegar stofnanir hafi birt svo yfirlýsingu, nema þá Vatikanið.
    Ég lít nefnilega á þessa yfirlýsingu sem opinbera stefnu íslensku þjóðkirkjunnar, þar til annað kemur í ljós, enda eru höfundar hennar fulltrúar þjóðkirkjunnar í samskiptum hennar við aðra trúarhópa.

  2. Ari Bent Ómarsson skrifar:

    Ég er mjög ánægður með hvað þið (undirritaðir) sýnið gott fordæmi fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar. Vestrænar þjóðir verða að átta sig á því að þrátt fyrir að mál/prentfrelsi mega þær ekki vaða yfir trúabrögð annarra svo kallaðra “minnihluta” þjóða. Við sem teljum okkur upplýst verðum að sýna virðingu í garð annarra í stað þess að hæða og gera gys.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5628.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar