Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Kærleikurinn

Í einhverjum sjónvarpsþætti fyrir nokkru var sagt, að mannskepnan væri forrituð til að elska. Og ekki efast ég um, að það sé rétt. Þar var m.a. rifjuð upp saga af móður einni, sem fórnaði lífinu við að ná barni sínu úr gini fjallaljóns. Og öll myndum við hafa gert hið sama, vil ég meina.

Í umræðum síðustu daga og vikna, um málefni samkynhneigðra, hefur kærleikurinn iðulega borist í tal, og honum gjarnan verið beitt sem aðal meðalinu gegn þeim, sem ekki geta fellt sig við að áðurnefndum einstaklingum verði leyft að ganga í hjónaband. En þetta er dálítið hæpið vopn í baráttunni. Tökum dæmi: Sjálfum þykir mér ekki vænna um neitt en börnin mín, og oft er erfitt að neita þeim um eitthvað, sem beðið er um. En ef ég játaði sérhverri bón þeirra, undantekingarlaust, sama hversu fáránleg hún væri, myndi slíkt ekki enda nema á einn veg, með yfirgangi og frekju. Og uppeldið fara í súginn.

Ekki er það nú beint gáfulegt.

Eitthvað á þessa leið virðist mér nú samt andinn í mörgum landanum hafa verið upp á síðkastið, alla vega þeim sem hæst láta; það er klappað uppörvandi á öxl og hvíslað í eyra, að Jesús hafi verið svo góður, að hann myndi ekki í neinum kringumstæðum hafa sagt nei.

En bíðum nú aðeins hæg. Er fólk búið að gleyma því, að orð hans og gjörðir kölluðu á andsvar? Við líkþráa manninn sagði hann: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt hvarf sjúkdómurinn. Og hann bað manninn um að láta engan vita. „En far þú,“ bætti hann við, „sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“ Og við hórseku konuna: „Syndga ekki framar.“ Og í annan tíma: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu?“

Eða hvað stendur í Gamla testamentinu, helgibók þessa meistara okkar? Jú, Orðskviðirnir 3:11-12: „Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans, því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.“ Og Orðskviðirnir 10:17: „Sá fer lífsins leið, er varðveitir aga, en sá villist, er hafnar umvöndun.“

Og pistlar Nýja testamentisins eru hér engin undantekning. Í Hebreabréfinu 12:7: „Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?“ Og í Fyrra Korintubréfinu, þar sem m.a. er að finna óðinn til kærleikans, ritar Páll frá Tarsus einnig: „Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt.“

Eða eins og náttúrufræðingur einn sagði við mig á dögunum: „Allir sveppir í þessum heimi eru ætir, en suma borðarðu ekki nema einu sinni.“

Lög og reglur og ábendingar þjóðfélaganna eru til að koma í veg fyrir slysin, alls kyns rugl og vitleysu, og auðvelda þegnunum samskiptin á göngunni um lífið. Einnig í þeim löndum, sem kristin eru. Af því að einhvers staðar verður að draga línuna.

Í þessu tiltekna máli, sem ég gat um í upphafi, er reynt að ýta kirkjunni út að vegg og stilla henni þar upp. En hún styðst í, með og undir við ákveðið helgiritasafn, ævafornt að stofni til, og getur því ekki leyft sér að fara eftir duttlungum eins eða annars, ef hún á að geta talist sönn. Við erum að tala um undirstöður hennar, grundvöllinn. Í vígslubréfi mínu frá 16. júní 1985, og undirrituðu af þáverandi biskupi Íslands, herra Pétri Sigurgeirssyni, segir m.a.: „Ber honum að breyta í sérhverri grein eftir gildandi lögum og kirkjusiðum, flytja söfnuðinum Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda vorrar evengelísk-lútersku kirkju […].“ Ég veit ekki til, að búið sé að nema þetta úr gildi.

Enginn hefur leyfi til að kalla þá „farísea nútímans“, sem líta þannig til Biblíunnar um leiðsögn, og þeir eru fjölmargir á Íslandi, vel að merkja. Að ég tali nú ekki um liðnar kynslóðir.

Eflaust orkar sumt þarna tvímælis, skoðað út frá heimssýn 21. aldar. En hver á að taka að sér að grisja, ákveða hvað sé úrelt og ekki? Er virkilega nokkur þess umkominn? Hvað ef síðar kæmi í ljós, að einhver ákvörðunin var röng? Hver myndi taka afleiðingunum? Þetta er engin venjuleg bók. Ábyrgðin er mikil, og því affarasælast að fara hér með gát.

Ég er sjálfur þrælsekur, horfi framhjá þeim ritningargreinum, sem fordæma mök samkynhneigðra, og lít svo á, að Jesús hefði boðið lesbíur og homma velkomin í ríki sitt, og geri enn. Og borgaraleg réttindi á þessi hópur að fá, til jafns við gagnkynhneigða. Að sjálfsögðu. En þegar krafan er þess eðlis, að fullkomlega óeðlileg má heita, á skjön við allt, og gjörsamlega fráleit, út úr öllu korti, er rétt að staldra við. Ég minni á framanritað, um börnin mín. Hingað og ekki lengra, takk.

Fyrir ekki mörgum árum heimtuðu samkynhneigðir það eitt að fá að vera öðruvísi. Og þeir voru stoltir. En hinn góði meðbyr í íslensku þjóðfélagi að undanförnu hefur valdið því, að sá ágæti vagn fór út af sporinu. Gusturinn var sennilega of mikill og óvæntur. Og nú vafra þeir um ráðvilltir meðfram teinunum, sumir hverjir a.m.k., og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga.

Hvað varð eiginlega um „Gay pride“-hugsunina? Varð hún eftir í gömlu skónum, þegar vindsveipurinn kom?

Er að furða að maður spyrji?

Að endingu langar mig að vitna í skrif Guðmundar Pálssonar læknis, sem birtust í Morgunblaðinu 8. febrúar síðastliðinn, en undir lokin er þetta:

Getur það talist mannréttindamál að sveigja kenningu kirkjunnar til lags við óskir sérstakra hópa? Verður kirkjan í kjarna sínum ekki að geta staðið óhögguð, óháð sveiflum tímans og tískustraumum? Er viðunandi fyrir heila þjóð að breyta tvö þúsund ára gömlum siðum kristinnar kirkju vegna kynhneigðar? Finnst mér það sérkennileg sjálfshyggja – en að sumu leyti tímanna tákn í kynvæðingu nútímans. Frekar finnst mér þörf á að styrkja þessa stofnun – hjónabandið og fjölskylduna – fjársjóð menningar okkar.

Vinur er sá, er til vamms segir.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4672.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar