Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Til varnar fíflunum

Ýmislegt getur verið aðfinnsluvert við trúarleg viðhorf í nútímanum, ekki síst ef við setjum upp gleraugu veraldarhyggjunnar. Það er gömul saga og ný að fólk vinni illvirki af trúarlegri sannfæringu eða taki upp á einhverju sem okkur finnst heimska trúar sinnar vegna. Ekki er langt síðan ég sá orðið „trúfífl” í fyrsta skipti á prenti. Mig minnir að þá hafi ágætur vitsmunamaður sæmt forseta Bandaríkjanna þeim titli.

Hvað sem segja má um þann leiðtoga ættum við að fara varlega í að nefna fólk trúfífl, líka þótt færa megi rök fyrir því að þeir sem nafnbótina hljóta aðhyllist fáránlegar og jafnvel hættulegar trúarskoðanir. Hin heilaga fíflska er stórmerkilegt fyrirbæri og á sér birtingarmyndir í flestum trúarbrögðum, m. a. í taóisma, zen-búddisma og indverskum átrúnaði.

Í arfi kristninnar finnast mörg dæmi um heilaga fíflsku. Davíð dansaði ber fyrir framan sáttmálsörkina í Jerúsalem (2. Samúelsbók 6), Jesaja spámaður sprangaði um á Adamsklæðum í þrjú ár (Jesaja 20) og kollegi hans, Esekíel, fékk þau fyrirmæli að baka brauð sitt við mannaþrekk. Meira að segja hjá frelsaranum sjálfum örlar á þessari hefð. Hann kom ríðandi á asna inn í Jerúsalem og bar þyrnikórónu, sem sett hafði verið á hann í háðungarskyni. „Vér erum heimskir sökum Krists,” segir Páll postuli í Fyrra Korintubréfi (4, 10).

Þessi kristna fíflshefð hefur því miður ekki verið mjög áberandi meðal rómversk-kaþólskra, svo ekki sé minnst á okkur botnfrosna lútherana, en í Austurkirkjunni lifir hún góðu lífi, sérstaklega þó í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Sú kirkjudeild hefur komið sér upp fjölskrúðugu safni heilagra fífla.

Ein fyrstu dæmi kirkjusögunnar um heilög fífl eru frá 6. öld. Þau Teofílus og María frá Antíokkíu sögðu skilið við lífshætti fyrirfólks til þess að verða fífl „sökum Krists”, gengu um stræti heimaborgar sinnar, hann í skrípabúningi, hún klædd eins og vændiskona. Skötuhjú þessi hneyksluðu borgarana með allskonar asnaskap, en smám saman varð fólki ljóst að með hegðun sinni voru þau að vitna um trú sína með óvenjulegum hætti.

Heilagur Sýmeon frá Emesa er annað dæmi um heilagt fífl. Hann var einsetumaður sem bjó austan árinnar Jórdan. Ákvað hann að við svo búið mætti ekki una, gekk á milli þorpa og borga í nágrenninu, kastaði valhnetum í kirkjugesti sem áttu sér einskis ills von, velti borðum götusala, dansaði við vændiskonur á strætum úti, ruddist inn í baðhús kvenna og kjamsaði opinberlega á kjöti þótt háfasta væri. Fyrst reiddust menn þessum uppátækjum Sýmeons, en komust svo að því að hann væri sennilega að tjá leyndardómsfull trúartákn með framferði sínu. Varð Sýmeon heilagur maður. Hann var á hinn bóginn lítt áfjáður í slíka nafngift.

Reyndi hann að hreinsa af sér heilagleikann með því að gefa í skyn að hann hefði í hyggju að fleka eiginkonu kaupmanns, sem hann vann fyrir.

Kaupmaðurinn brást ókvæða við og stóð fyrir því að Sýmeon var rekinn úr bænum. Þegar fram liðu stundir varð sá brottrekstur auðvitað til þess að auka enn á heilagleika Sýmeons.

Eitt frægasta dæmið um heilagt fífl í bókmenntum er riddarinn góði, Don Kíkóti. Bók Dostojevskís, Fávitinn, er talin skrifuð í anda hinnar rússnesku trúfíflahefðar.

Í nútímanum hefur verið reynt að endurvekja hefð hinnar heilögu fíflsku, þótt ekki fari mikið fyrir þeirri viðleitni. Þannig hef ég heyrt um trúðaskóla innan ensku biskupakirkjunnar þar sem fólk er þjálfað í því að vera fífl Krists (Fool of Christ), meðal annars með því að kenna hvernig eigi að pirra fólk í messum.

Hafa mætti mörg orð um merkingu hinnar trúarlegu fíflsku, en í kristnum sið tengist hún svokölluðu kenosis, sjálfsauðmýkingu Guðs: Hinn almáttugi Guð stígur niður af hásæti sínu og lætur ekki nægja að gerast maður, heldur tekur hann á sig mynd spottaðs, fyrirlitins og að lokum dauðadæmds manns. Hann er jafnframt sá sami og sigraði dauðann, Christus Victor páskadagsins. Fífl Krists á hlutdeild í þessu kenosis Guðs, sem leiðir til hjálpræðisins.

Í ljósi ofanskráðs verður að teljast vafasamt að skipa t. d. forseta Bandaríkjanna á bekk með trúarfíflum. Mjög er umdeilanlegt hvort meint fíflska hans getur talist kenótísk.

Vilji menn hafa orð yfir þá sem vinna illvirki í góðri trú eða undir yfirskini hennar væri ef til vill nær að tala um trúardólga (sbr. hið stórsniðuga nýyrði „flugdólgur”).

Lesendum sem vilja fræðast nánar um hina heilögu fíflsku bendi ég á bók bandaríska félagsfræðingsins Peter L. Berger „Redeeming Laughter”, en þaðan hef ég mest af minni speki um þetta merkilega fyrirbæri.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Til varnar fíflunum”

  1. Guðmundur Guðmundsson skrifar:

    Þar sem er svo margt sniðugt á Íslandi þyrftum við endilega að innleiða þennan fíflaskap ef það er rétta orðið. Það mætti til dæmis vera með asnastrik fyrir messu við kirkjudyr, sem mér hefur skilist að hafi tíðkast í eina tíð. Og minni ég á að fyrir kirkjudyrum Hallgrímskirkju í Reykjavík og Akureyrarkirkju er frábær vettvangur, leiksvið af bestu gerð. Ég þori ekki að nefna Dómkirkjuna. Hér með er auglýst eftir spaugstofu kirkjunnar.

  2. Adda Steina skrifar:

    Takk fyrir skemmtilega grein og nýyrðið trúardólgur sem er bráðskemmtilegt.

  3. Árni Svanur skrifar:

    Ég tek undir þetta, skemmtilegur pistill og nýyrðasmíði til fyrirmyndar!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4400.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar