Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Randver Sigurvinsson

Hvaða reglur gilda um skráningu trúfélaga?

Á Íslandi eru starfandi 27 trúfélög sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur viðurkennt til skráningar og þannig myndað formleg tengsl við ríkisvaldið með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Í raun eru þó mun fleiri trúarhreyfingar starfandi á landinu enda ekki sjálfgefið að þær sjái allar ástæðu til að sækjast eftir skráningu, ýmist vegna þess að það er andstætt trú þeirra, þær starfa innan annarra stærri trúfélaga, þær eru nýstofnaðar, þær þekkja ekki til þeirra laga sem gilda um skráningu eða þær hreinlega hafna því að hægt sé að flokka þær sem trúarlegar. Þess eru jafnvel dæmi að umsóknum um skráningu hafi verið hafnað þar sem viðkomandi félög hafa ekki verið talin uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir henni í lögum. Sé hins vegar gengið út frá því að allar þær hreyfingar geti talist trúarlegar sem segi til um tilvist handaveruleika, yfirnáttúrulegra afla eða guða, má hæglega finna um 200 trúarhreyfingar sem hafa verið starfandi hér á landi á síðari árum.

Í lögum nr. 108 um skráð trúfélög frá 28. desember 1999 segir að rétt eigi menn á „að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins“ svo framarlega sem ekkert sé framið sem sé „gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu.“ Jafnframt er sagt að menn eigi „rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi“. Ekki er nauðsynlegt að tilkynna stjórnvöldum um stofnun eða starfsemi þessara félaga, hvorki trúfélaga né annarra félaga um lífsskoðanir. Það skilyrði er fyrir skráningu trúfélags „að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur“. Jafnframt þarf félagið að hafa „náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld“.

Í athugasemdum með frumvarpinu er áréttað að aðeins sé tekið mið af þeirri skilgreiningu hugtaksins „trúfélag“ sem stjórnarskráin og gildandi lög eru byggð á og feli það því ekki í sér fræðilega skilgreiningu sem trúarbragðafræðingar gætu sammælst um. Þess vegna nái skráning trúfélaga ekki til félaga „sem boða trúleysi“, jafnvel þótt trúarbragðafræðingar myndu flokka þau sem trúarleg. Áður en ráðuneytið veitir leyfi til skráningar ber því þó að leita álits nefndar sem skipuð er fulltrúum tilnefndum af Lagadeild, Félagsvísindadeild og Guðfræðideild HÍ en hún er háð þeim takmörkum sem lögin segja til um.

Umsókn um skráningu trúfélags ber að senda til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með upplýsingum um (1) nafn þess og heimilisfang, (2) félagatal, (3) trúarkenningar, (4) lög þess og reglur, (5) nöfn stjórnarmanna og forstöðumanns og (6) starfemi. Ekki eru sett skilyrði um tiltekinn lágmarksfjölda í trúfélagi og ekki er heldur gerð krafa um að forstöðumaður sé íslenskur ríkisborgari en hann þarf þó að hafa náð 25 ára aldri og eiga til sóknar að gjalda hér á landi.

Börn eru sjálfkrafa skráð í sama trúfélag og móðir þeirra og tekur forsjáraðili ákvörðun um inngöngu þeirra eða úrsögn úr skráðu trúfélagi sem eru yngri en 16 ára. Enginn má tilheyri fleiri en einu skráðu trúfélagi samtímis en hægt er að skrá sig utan trúfélaga.

Greinin birtist fyrst í blaði Alþjóðahússins, Eins og fólk er flest, í nóvember 2005, bls. 30.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4787.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar