Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Hjónabandið

Um fátt ef þá nokkuð hefur verið meira rætt og skrifað að undanförnu en nýársræðu biskups Íslands, og viðtal í kjölfarið. Í báðum tilvikum var hjónabandið í brennidepli, pælingin um, hvort samkynhneigðir ættu að fá að vígjast undir þeim formerkjum eða ekki. Síðan þá hefur allt logað í illdeilum og Karl Sigurbjörnsson verið borinn þungum sökum.

Þetta er sennilega erfiðasta viðfangsefni sem íslenska kirkjan hefur staðið andspænis frá kristnitökunni, og óneitanlega koma orð Þorgeirs Ljósvetningagoða upp í hugann, um lögin og friðinn og nauðsyn þess að slíta ekki.

Réttindabarátta samkynhneigðra komst fyrst á verulegan skrið á 8. áratug 20. aldar, í kjölfar Stonewall-uppreisnarinnar í New York 27. júní 1969, þegar hommar og lesbíur veittu í fyrsta skipti mótspyrnu, í kjölfar þess að átti að handataka þau fyrir að vera til. En hún er nú í fullum gangi, mislangt þó á veg komin. Að mati ýmissa fræðimanna eru 2-5% manna samkynhneigð; á Íslandi hafa kannanir sýnt, að um 2% kvenna eru lesbíur og 3,6% karla hommar. Og einna best er ástandið hér á landi, hvað mannréttindi snertir, því almenningsálitið er í auknum mæli tekið að leggjast á sveif með þessum hópi, og jafnvel sjálfur löggjafinn, en mörg röddin úr kirkjunni hrópar enn í gegn þeim, berandi fyrir sig orð heilagrar ritningar. Og víst má sitthvað finna í Biblíunni um þetta, ekki er því að neita, og sumt æði hart. Í 3. Mósebók 18:22 segir t.d. og haft eftir Drottni: „Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.“ Og í Fyrra Korintubréfi, 6:9 telur Páll frá Tarsus upp kynvillinga og ýmsa aðra, sem ekki munu Guðsríkið erfa, að hann fullyrðir.

Í þessu liggur vandinn.

En maðurinn, sem hróp og köll voru gerð að í byrjun hins nýja árs, sagði þetta um áðurnefnda ritningarstaði og aðra áþekka, í hirðisbréfi sínu til íslensku kirkjunnar, sem út kom 2001, og nefndist Í birtu náðarinnar:

„Eru þau fyrirmæli ótvíræð og sígild? Hvað með hliðstæð boð sem varða stöðu kvenna og kynlíf í lögmáli Móse og hjá Páli? Hver er staða þeirra boða? Er samkynhneigð meiri synd en ýmislegt annað sem fordæmt er í lögmálinu og bréfum postulanna, en sem flestir eru nú sammála um að eru forboð bundin samtímamenningu þeirra?“

Og hann bætir við:

„Kristin kirkja verður að horfast í augu við þann sársauka og neyð sem sá ótti og fordómar valda þeim sem eru samkynhneigðir. Vinnum gegn því og öllum tilhneigingum okkar að forðast að sjá annað fólk sem systkin, bræður okkar og systur. Samkynhneigð manneskja er Guðs barn, skapað af Guði, endurleyst fyrir Jesú náð, eins og sérhvert mannsbarn á jörðu.“

Þessi afstaða hans er nákvæmlega eins í dag, fimm árum síðar.

Þegar kemur að spurningunni um hjónabandið og kröfu lesbía og homma að verða skilgreind þar undir er bara allt annað upp á teningnum. Eða eins og biskup sagði 1. janúar 2006:

„Til þessa hefur hjónaband talist vera sáttmáli eins karls og einnar konu. Er það í samhljóm við grundvallarforsendu sem kristin trú og siður hefur byggt á frá öndverðu, og er sameiginleg öllum helstu trúarbrögðum heims. Enda í samhljómi við lífsins lög. Þessari forsendu getur íslenska ríkið breytt og komið til móts við margvíslegar þarfir, hvatir og hneigðir, og afnumið alla meinbugi. Ef það er framtíðin, já, ef það er framtíðin, þá er eitthvað nýtt orðið til, ný viðmið siðarins, án hliðstæðu í siðmenningunni. Hin aldagamla stofnun sem hjónabandið er er þá afnumin. Þjóðkirkjuprestar og forstöðumenn annarra trúfélaga hafa komið að hjónavígslum vegna þess að hér hefur ríkt samhljómur laga, trúar og siðar í þessum efnum. Ég treysti Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að fara hér með gát, og leyfa hjónabandinu að njóta vafans.“

Ég hef alltaf álitið mig vera frjálslyndan guðfræðing og iðulega talað máli samkynhneigðra, og á persónulega vini í þeirra röðum. En í þessu efni er ég hikandi, og meira en það, enda finnst mér þetta ósanngjörn krafa af þeirra hálfu.

Það er alkunna, að Jesús Kristur breytti ýmsu af því sem í Gamla testamentinu eða öðrum bókum gyðingdóms hafði verið skrifað, bjó til nýjar áherslur. Og þegar ritningargreinar stangast á eru orð hans ávallt látin ráða á kostnað hinna. Um það er ekki deilt.

Einhverra hluta vegna mælti hann samt þetta fram athugasemdalaust, sem greint er frá í Matteusarguðspjalli 19:5-6:

„Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: „Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.“ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“

Samsvarandi texta er að finna í 10. kafla Markúsarguðspjalls. Hvergi er þarna minnst á tvo einstaklinga af sama kyni. Þetta finnst mér einhver sterkustu rökin fyrir því, að aðra leið beri að fara. Að gera það ekki myndi skapa fleiri vandamál en það leysti, auk þess að vera menningarsögulegt hneyksli. Við skulum ekki gleyma, að hjónabandið er skipan jafn gömul mannkyninu.
Stórar ákvarðanir á ekki að taka í skyndingu. Biskup er að reyna að leiða íslensku kirkjuna um þráðbratt einstigi, í von um að ná að bjarga henni frá lemstri og voða. Ég veit engan betur til þess fallinn og skynsamari. Gefum honum olnbogarými.
Forsætisráðherra, sem einnig er lykilmaður í þessari glímu, er núna í sporum hins norðlenska, mjög svo vitra goða. Megi framsýni hans vera söm. Það er svo mikið í húfi.

Um höfundinn6 viðbrögð við “Hjónabandið”

 1. Jón Ómar skrifar:

  Takk fyrir góðan og yfirvegaðan pistil!

 2. Carlos Ferrer skrifar:

  Ágætispistill, kæri kollega. Ég er þó ekki á því að það sé rétt að hjónaband samkynhneigðra ógildi hjónaband gagnkynhneigðra. Ef það er eitthvað sem rýrir hjónabandið þá er það að búa í óvígðri sambúð langtímum saman eða almennt lauslæti. Ég fæ ekki séð að ósk manna og kvenna að búa í tryggu sambandi við maka sinn, í trú og kærleika, taki neitt af hjónabandinu.

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Nú er ýmislegt haft eftir Jesús í Biblíunni. T.d. “Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.” og á öðrum stað “…við annan sagði hann: ,,Fylg þú mér!“ Sá mælti: ,,Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: ,,Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: ,,Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: ,,Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.” og svo sagði hann víst meira að segja “Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.”

  Nú spyr ég, ætlar Þjóðkirkjan að skilgreina hjónabandið út frá einni tilvitnun í Jesús? Bera þessir orð sem ég vísa í vitni um að þessi persóna hafi borið mikla virðingu fyrir þeim fjölskyldugildum sem Þjóðkirkjan segist oft vera að vernda. Ef svo, hvað þá með hinar tilvitnanirnar? Má eiga von á því að Þjóðkirkjan hvetji karlmenn til að yfirgefa fjölskynda og boða kristni í staðin?

  Er ykkur stætt á að velja eina tilvitnun í Jesús, til að réttlæta mismunun Þjóðkirkjunnar gagnvart samkynhneigðum, en hunsa aðrar þar sem afar lítil virðing er borin fyrir kjarnafjölskyldunni?

 4. Magnús Erlingsson skrifar:

  Sem guðfræðingur geri ég athugasemdir við notkun þína, sr. Sigurður, á ritningartextum. Textinn í Mt 19.1-12 og hliðstæður texti í Mk 10.1-12 fjalla báðir um spurninguna hvort karlar megi skilja við konur sínar ef konan finnur ekki náð í augum þeirra, sbr. 5M 24.1-4. Með því að hafna því að karlar gætu losað sig við konurnar á þennan hátt var Jesús að breyta skilningi síns tíma á hjónabandinu (reyndar var einn rabbínskur skóli sömu skoðunar og Jesús). Er það ekki einmitt það sem verið er að ræða um þessar mundir á Fróni; að breyta forsendum og skilningi manna á eðli hjónabandsins? Mt 19.1-12 fjallar ekki um samkynhneigð enda var spurning faríseanna þessi: “Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?”

 5. Guðbjartur Nilsson skrifar:

  Þakka þér Sigurður fyrir þennan pistil. Þetta er kærkomin víðsýni í máli sem allt of oft kallar á einstrengisleg viðbrögð.

  Ég verð að vera sammála þér í því að það að ætla í einni svipan að kollvarpa þeim skilningi sem hefur staðið óhaggaður í þúsundir ára á gildi hjónabandsins sé glapræði.

  Varðandi tilvitnanir Mattíasar er það eitt að segja að hann telur sig ekki geta fylgt afdráttarlausu kalli Jesú um að fylgja sér og lýta ekki um öxl. Það er svo sem þekkt fyrirbrigði hér á vesturlöndum, Jesú má svo sem vera með okkur á
  Jólum og jarðarförum en við viljum ekkert að hann sé að vasast í okkar lífum með boðskap sínum eða þeim hluta hans sem samrýmist ekki okkar eigin skoðunum.

  Það að yfirgefa föður og móður og systkyni er reyndar ákvörðun sem fullveðja einstklingur tekur og er þar með hlutverki kjarnafjölskyldunar að mestu lokið. Jesú nefnir hvergi þarna að menn skuli yfirgefa konu sína og má þá ætla að þau börn sem hann tali um séu uppkomin börn enda væri ellegar líklegast talað um konu í sömu andrá.

  Inntak þessa er að sá sem metur Krist ekki meir en nokkuð annað í lífi sínu sé hans ekki verður. Þ.e. ekki verður þess að kalla sig kristinn. Þetta er hart að heyra fyrir marga en það er líka margt sem frelsarinn sagði.

  Varðandi hugmynd Magnúsar þá er sú breyting sem við erum að ræða hér á fróni í andstæða átt við þessa breytingu (eða lagfæringu til fyrri vegar öllu heldur) sem Jesú boðaði, þ.e. við viljum taka það hjónaband sem hann boðar með mjög skýrum hætti og breyta því þannig að maður bindst ekki sérstaklega konu sinni, né heldur verði þau eitt hold (kona og maður geta orðið eitt hold skv. erfðafræðilegum skilningi án íhlutunar vísindanna).

  Ég skil ekki þá blindu sem menn virðast slegnir í þessu máli. Ásettningurinn er góður þ.e. að viðurkenna tilfinningar samkynhneigðra hvers til annars. En það má gera á annan máta sem ekki ómerkir fyrstu stofnun samfélagsins.

 6. Snorri skrifar:

  Sigurður og allir hinir.
  Jesús segir að ef nokkur lítur konu með girndarhug þá hefur hann þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu- og er þá jafnframt sekur við Guð og lög hans. Fyrst Jesús er svona ákveðinn varðandi samskipti kynjanna hvernig getið þið fengið það út að kynvilla sé þá samþykkt hjá almættinu? Lögmál náðarinnar setur manninum líka skorður og stefnu sem heiðarlegir kennimenn boða af því þeir leyfa sér ekki að breyta Biblíunni né grundvelli Kristinnar trúar.
  Hvaðan hefur þú þessa tölu að hömmar eru 2 - 5% manna samkynhneigð. Jóna Ingibjörg geindi frá því 1993 að 0,7% karla væru samkynhneigðir. Samkvæmt þessu talnabili þá er lífsmátinn smitandi.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7899.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar