Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Hvað eru jólin?

Jólin eru að koma! Hrópaði stóra systir uppfull af jólaspenningi.

Litli bróðir sem var rétt rúmlega tveggja ára rauk spenntur að eldhúsglugganum í borðkróknum. Hann ætlaði sko ekki að missa af komu jólanna. Hann klifraði upp á stól og opnaði gluggann og kíkti út á götu. Hann sá bíla keyra hjá og fólk á gangi en hvar voru jólin?

-Ég sé ekki jólin! sagði hann í barnslegri einfeldni.

Stóra systir ranghvolfdi augunum og brosti út í annað yfir barnaskap litla bróður.

-Nei, jólin koma ekki þannig, sagði hún og reyndi að útskýra fyrir litla bróður hvernig jólin kæmu. Litli bróðir horfði stórum, skilningsvana augum á stóru systur sína.

-Sko! Sagði stóra systir og reyndi af öllum mætti að útskýra komu jólanna fyrir litlu barni sem hélt að jólin væru einhvers konar persóna.

-Jólin koma ekki gangandi. Jólin eru ekki eins og gestir sem koma í heimsókn.

Litli bróðir starði opinmynntur á systur sína svo snuddan lafði út um vinstra munnvikið.

-Jólin bara…koma! sagði systirin í uppgjöf og baðaði út höndunum í hálfgerðri uppgjöf.

-Ég er hræddur við jólin, sagði litli bróðir á smábarnamáli og setti á sig stóra skeifu.

-Nei, nei, jólin eru góð, sagði systirin sem áttaði sig á því að hún varð að gera aðra tilraun til að útskýra jólin.

Allt í einu fékk hún hugmynd. Hún dró litla bróður sem botnaði hvorki upp né niður í neinu, inn í herbergið sitt. Tók vasaljós úr hillunni og sængina af rúminu. Svo breiddi hún sænginga yfir litla bróður og sjálfa sig. Dimm og hlý sængin lagðist yfir þau eins og lítið hús. Svo kveikti hún á vasaljósinu. Litla ljósið lýsti upp myrkrið undir sænginni og þau horfðu á ljósið.

-Saman! Sagði stóra systir. Þannig eru jólin.

Enn botnaði litli bróðir ekkert í þessu. Hann skreið undan sænginni og stóra systir á eftir, með vasaljósið.
Nú hugkvæmdist henni að fara með litla bróður út í garð. Hún fékk leyfi hjá mömmu og klæddi litla bróður í snjógalla, kuldaskó, húfu og vetlinga. Þau gengu út í garð. Það var búið að setja lítil rauð jólaljós á stóra grenitréð í garðinum. Hún benti litla bróður á ljósin og sagði: -Ljós! Þannig eru jólin.

Litli bróðir brosti bakvið snudduna en stóra systir vissi að hún þyrfti að gera betur.

Hún náði í lítinn súkkulaðimola í vasanum sínum og gaf litla bróður og sagði:

-Nammi! Þannig eru jólin.

Litli bróðir sleit snudduna út úr munninnum og gæddi sér á súkkulaðimolanum.

Stóra systir fór að búa til snjóbolta. Svo rúllaði hún snjóboltanum eftir jörðinni svo hann stækkaði og stækkaði. Litli bróðir horfði undrandi á. Þegar snjóboltinn var orðinn nógu stór bjó hún til annan snjóbolta og setti hann ofan á hinn. Brátt hafði hún gert lítinn snjókarl.

-Þú mátt eiga snjókarlinn! Sagði hún við litla bróður að verkinu loknu. Gjöf! Þannig eru jólin.

Litli bróðir var glaður. Hann tók út úr sér snudduna og kyssti stóru systur sína blautum súkkulaðikossi með rjóðar, kaldar kinnar og tók utan um hálsinn á henni með stuttum, dúðuðum handleggum. –Knús! sagði hann með litlu barnaröddinni sinni. –Þannig eru jólin.

Jólin eru ekki bara hátíð ljóss og friðar. Þau eru heldur ekki bara ytri umbúðir veraldlegra hluta og ekki eru þau matur. Jólin eru samansafn atburða sem samtvinnast tilfinningum. Tilfinningarnar eru bundnar venjum og væntingum okkar til jólanna. Börnin skynja þetta öðrum fremur. Gefum börnunum eins mikið öryggi, ljós og frið eins og okkur er unnt í jólagjöf.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3947.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar