Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Heilagur sannleikur

Jólin eru forn hátíð. Margir finna sig knúna að minna á það um þessar mundir. Það er þó kunnara en frá þurfi að segja. Forfeður okkar heiðnir héldu jól, hátíð til árs og friðar. Það var svall, blót til að tryggja hringrás náttúrunnar. Kristnin tengdi þá hátíð fæðingu frelsarans og kristnaði hin heiðnu jól. Ekki lítið afrek það. Hliðstæðar hátíðir jólum er víða að finna í heimi trúarbragða og menningaheima. En engin er þó eins og jólin hvað varðar áhersluna á góðvild, gjafmildi, og náungakærleik. Hin kristna aðventa og jól eru tími þar sem allt leggst á eitt um að góðvildin komist að, og gleðin sem fæst með því að gleðja. Hér hjá okkur setja jólin mark sitt á þjóðlífið allt, með altækari hætti en nokkuð annað. Það er vegna þess að um aldir hefur hin kristna frásögn, viðmið og gildismat verið ofið inn í líf okkar og heim. Hin kristna frásögn, jólaguðspjallið, er sagan af Jesú, barninu sem fæddist í Betlehem. Vegna þess að hann óx upp og markaði dýpri gæfuspor á jörð en nokkur annar fyrr og síðar.

Hin kristna frásögn hefur mótað heiminn okkar, og það sem við köllum siðmenningu, gildismat, guðsmynd, mannskilning, meir en nokkuð annað. Við ættum að gefa því gaum. Það skiptir máli að hin kristna frásögn drukkni ekki í auglýsingaflóði, ærustu, stressi, og jólasveina vaðli. Hátíðir eins og jólin, og athafnirnar, táknin og sögurnar sem marka lífsveg einstaklinga og þjóðar, gæða líf og vegferð trúarlegri merkingu. Þar eru hin æðri markmið sett fram, gildin tjáð um skyldur manns og ábyrgð á sjálfum sér og eigin velferð og annarra. Þess vegna er mikilvægt að heimili og skólar, fjölmiðlar og aðrir mótendur samfélagsins sjái til þess að þau tákn og sögur séu rifjuð upp og ræktuð.

• • •

Grýlur og jólasveinar er í besta falli leikur, skemmtun. Allir hafa gott af því að bregða á leik. Ég hef oft leikið jólasvein. En ég trúi ekki á jólasveininn, fremur en nokkur heilvita, fullorðin manneskja. Það er munur á leik og alvöru. Börnin skynja það. Börn læra að greina milli sannleika og blekkinga. Þau þekkja leikinn og ævintýrið. En þau vita líka hvað er satt og heilt. Það er mikil synd þegar hinir fullorðnu gera þar ekki greinarmun á, og rugla börn beinlínis í ríminu. Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur.

• • •

Oft er haft á orði að meira fari fyrir umbúðum en innihaldi jólanna. Við lifum í umbúðaþjóðfélagi. Umbúðir um allt sem hugsast getur. Umbúðirnar virðast skipta meginmáli, umbúðir, ímyndin, „lookið.“ Sagt er að unglingarnir viti hvernig þeir eiga að líta út, ekki vanti þá sem segja þeim til um það, en þeir viti síður hvernig þeir eiga að lifa. Ekki vantar áreitin og leiðbeiningarnar um útlit og umbúðir, en minna fer fyrir og síður er hlustað á það sem sagt getur manni „hverju ég á að trúa, hvernig ég á að breyta og hvers ég má vona,“ sem heimspekingurinn Kant sagði forðum að væru einu spurningarnar sem máli skiptu.

Vissulega skipta umbúðir máli, hið ytra skiptir máli. Það veit hver sá sem býður öðrum til veislu, og vill gera vel. Og kristin trú sem er boðskapurinn um Guð sem varð maður, orðið sem varð hold, manneskja, á okkar jörð, í okkar heimi, sú trú tekur hið ytra alvarlega. Líkamann, jörðina, fæði og klæði. Útlit, umgjörð og form skipta máli. Því að líkaminn er bústaður fyrir andann, andinn hefur líkama. Og andinn þarfnast þess sem augað sér og eyrað heyrir og hendurnar geta þreifað á, og ilmanin fundið, til að ljúka upp hinni innri sýn til þess sem sálina grunar og andinn einn sér. Þess vegna eru hátíðir mikilvægar, dagamunur, sem þar sem okkur skapast rými fyrir það sem heilagt er. Og það er líka samfélagslegt. Okkar kristna trú er samfélagslegur veruleiki, ekki eintal sálarinnar, einveruhamingja hugans, heldur samfélag, tengsl, við Guð og menn. Og slíkur tími er aðventa og jól, umfram aðra tíma og tíðir.

• • •

Jólagjafir skipta máli. Í jólaminningum mínum skipa gjafirnar stóran sess, eftirvæntingin, tilhlökkunin eftir gjöfum. Mamma faldi gjafirnar vandlega. En auðvitað fann maður þær, eða vissi hvar þessi felustaður var. Stundum reyndi maður að þukla pakka og geta sér til um innihaldið. Einu sinni man ég að ég kíkti undir pappírinn. Og uppgötvaði þá að í raun og veru hafði mig hreint ekkert langað til að vita fyrir fram, að ég hafði eiginlega skemmt fyrir mér eftirvæntinguna og þrána sem fylgdi því að bíða eftir að stundin rynni upp. Vegna þess að það var ekki bara gjöfin sem maður vildi og þráði, það var þetta ævintýri jólanna, ævintýri eftirvæntingar, tilhlökkunar, löngunar og biðar, sem aðventunni fylgdi. Það er partur af þessu öllu. Vegna þess að viska aldanna og kynslóðanna veit að það að bíða, þreyja, það er uppspretta gleði og fullnægju, listar og ljóðs. Það að fá allt strax og fyrirfram kæfir hins vegar ímyndunaraflið, sköpunargáfuna og gleðina. Trúin er sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Og hún er fullvissa um að leyndardómarnir munu ljúkast upp, svörin fást um síðir. Þegar ríki Guðs kemur og vilji hans verður.

Gjafaflóð okkar daga er komið út yfir öll eðlileg mörk. Fólk geri sífellt meiri kröfur til að njóta réttu jólastemningarinnar, jólagleðinnar, hátíðleika og hvað eina sem hin fullkomnu jól eiga að færa manni. En samtímis því sem væntingarnar vaxa, reka fleiri sig á að þeim verður seint fullnægt í hinu ytra. Mikið af þessum kröfum og leit að hinum fullkomnu jólum er sjálfsdekur og daður. Og það kann ekki góðri lukku að stýra. Væntingarnar um að þetta eina kvöld, að þessa fáu jóladaga gangi allt upp, allir verði glaðir og góðir, bresta æði oft. Og þeim sem eru einmana, eða í sorg eru jólin einatt allra erfiðasti tími ársins. Gjafirnar skipta máli, sem tjáning væntumþykju og kærleika. Þær eru í eðli sínu vitnisburður um þá dýrmætustu gjöf sem nokkurn tíma hefur verið gefin. Þeim er ætlað að bergmála gleði og þökk yfir þeirri gjöf. Það er frelsarinn, Kristur.

Gjafmildi, góðvild og gleði eru meginstef jólanna. Það er órofa tengt jólaboðskapnum sjálfum, og innsta grunni hinnar kristnu trúar, hinum heilaga sannleika um lífið. „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf!“ Látum þann heilaga sannleika ná valdi á okkur og lýsa okkur. GLEÐILEG JÓL.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Heilagur sannleikur”

 1. Guðmundur Guðmundsson skrifar:

  Nú er vitað og viðurkennt að flest, ef ekki allt í jólaguðspjallinu er skáldskapur. Þar nægir að benda á ætlaðan fæðingardag frelsarans, sem bar örugglega ekki upp á jólin - annað er líku marki brennt. Mér kemur því á óvart að sjá þessi orð í pistli biskups: “Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur.” Hvernig er heilagur sannleikur frábrugðin öðrum sannleik?

  Gleðileg jól.

  Guðmundur Guðmundsson

 2. Gunnar skrifar:

  Ég verð að segja að ég er ekki sammála þér, hvaða meiri sannanir höfum við fyrir tilvist guðs en jólasveinanna? Frá því þú settist í biskupsstól hefur þú verið á móti lukkudýri Hvalfjarðarganga og frekar viljað englaskara en lukkutröll til verndar þessa mannvirkis og núna er það orðin synd að segja jólasveininn raunverulegan. Ég lít svo á að guð starfi í gegnum okkur mennina og lifi gegnum okkur, ef það er röng túkun þá mátt þú leiðrétta mig en þannig finn ég mig í guði. Einnig tel ég jólasveinanna hvort sem um er að ræða 1, 9, 13 eða julenissen að danskri vísu vinna gegnum okkur mennina, eru þessi tákngerfingar ekki byggðir á Heilögum Nikulási er hann ekki bara að starfa í gegnum okkur? Í stöðunni er aðeins tvennt hjá mér, vera sammála þér og afneita þar með guði mínum eða finna söfnuð sem er ósammála þér og leyfir mér að trúa hvort tveggja á minn guð og jólasveinanna og góðverk þeirra þó ég geti ekki sannað tilveru hvorugs nema gegnum mín verk og annara.

  Í guðs friði en ekki þínum,
  Gunnar

 3. Arnþrúður Heimisd. skrifar:

  Þakka þér kærlega : ) : D

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6672.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar