Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Þórey Guðmundsdóttir

Þorum að axla ábyrgð sem uppalendur

Er það ekki undarlegt, að mikilvægasta verkefnið í mannslífinu skuli falið okkur án tillits til hæfni eða kunnáttu?„Maður verður bara óléttur og svo verður maður að bjarga sér” sagði stúlkan. Þannig er það. Hvað skyldi það svo vera að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna. Hluti af ábyrgðinni er eins og allir vita að þrífa börnin og gefa þeim að borða. Og hvað svo umfram það?

Hlustaðu

Barnið þitt þarf á því að halda að þú hlustir á það. Hlustir á það alveg frá því það byrjar að hjala, leggir verulega eyrun við og hlustir virkri hlustun, sýnir því athygli á meðan það tjáir sig, leyfir barninu að finna að það, sem barnið tjáir, skiptir verulegu máli. Segðu barninu aldrei að þegja, biddu það frekar að geyma tjáningu sína til betri tíma ef það er með yfirgang. Þekkt er norska sagan um mæðginin í strætó þar sem litli drengurinn hafði þann sið að benda á fólk og segja sína skoðun, eins og svo sem„Setta el ljótul kall”. Mamman samdi við hann um að hann hætti þessu og nefndi við hana að hann þyrfti að tala um eitthvað, þegar þau kæmu heim. Næsta morgun sagði strákur stundarhátt við mömmu sína og benti:„Mamma sennan kall skulum vi tala um segal vi komum heim”.

Svaraðu

Svaraðu barninu þínu þegar það vill ná sambandi við þig. Það kemur í veg fyrir að barnið sýni óþolinmæði og frekju við að reyna að ná sambandi við þig, sért þú annað að gera. Þarna geturðu líka beðið barnið að bíða. Það er alveg ótrúlegt hvað börn geta verið þolinmóð að bíða ef þau vita að röðin kemur að þeim. Þannig skaparðu traust milli þín og barnsins þíns. Komum í veg fyrir atvik eins og það, þegar tveir 4 og 5 ára strákar norður í landi voru að reyna að ná sambandi við jarðýtustjóra með mikilvægar spurningar sínar og hann virti börnin ekki viðlits.„Hann er asni þessi ýtukall, hann talar ekki við okkur” sögðu þeir við fóstru sína og frænku. Síðan átti þessi maður ekki viðreisnar von í hugum þeirra, fékk aldrei uppreisn æru.

Innrættu

Það er ekki ljótt eða rangt að innræta börnum. Þú þarft bara að fullvissa þig um að innræta barninu þínu það sem er barnshuganum hollt. Hvað má og hvað má ekki. Hvað er óhollt og hvað ekki, hvað er hættulegt og hvað ekki og fylgdu því eftir. Ekki segja eitt í dag og annað á morgun. Láttu ekki óþroskaðan barnshugann taka ákvarðanir, sem eru einungis á fullorðinna færi. Þú átt að bera ábyrgð á tilfinningalífi þínu og barnsins, ekki barnið þitt á þínu. Segðu eða lofaðu ekki meiru en þú getur staðið við og stattu við það sem þú segir. Það er að að axla ábyrgð sem uppalandi.

Að lokum

Ég hitti unga foreldra í heita pottinum og uppeldismál bárust í tal. Það undraði mig, að faðirinn segir nánast upp úr þurru:„Þetta er sjúkt, ef börn eru almennileg þarf að gefa þeim verðlaun og ef þau eru óþæg fá þau ritalín”.

Er þetta þín reynsla?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3931.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar