Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristján Valur Ingólfsson

Marteinn bróðir minn

Í dag er siðbótardagurinn. Það er minningardagur þess er Marteinn Lúther opinberaði athugasemdir sínar um það sem hann taldi villustigu hinnar heilögu kirkju.

Ég hef stundum sagt að af Marteini Luther sé það helst að frétta að hann sé dauður. Slíkt gáleysishjal byggir á því að mér þykir oft vísað til hins meinta stofnanda evangelisk-lutherskrar kirkju af sama gáleysi. Að ég ekki segi vanþekkingu.

Marteinn Lúther kom fram á tímum mikilla erfiðleika í kristinni kirkju þar sem kirkjuleg yfirvöld höfðu í kappi um auknar tekjur til stórverka, og möguleika einstaklinga til að kaupa sér embætti og hafa af þeim tekjur, misst í því sjónar á kjarna kristindómsins.

Hlutverk hans var að vera lóðs til hafnar í vondu veðri. Hann var góður og samviskusamur munkur í kaþólskri kirkju. Sú sama kaþólska kirkja gerði í kjölfar gagnrýni hans margar og heilsusamlegar leiðréttingar á stefnu sinni til hafnar, en það dugði ekki til að halda áhöfn þessa eina skips saman. Þær komu of seint.

Meðal fyrstu athugasemda Lúthers um kirkjuna voru spurningar um heill hinnar orthodoxu kirkju sem frá 1054 laut ekki páfanum í Róm gagnvart kenningunni um að utan kirkjunnar, það er að segja hinnar kaþólsku, væri ekki að vænta hjálpræðis.
Hann fékk ekki svar. Kirkjan var þá þegar klofin í tvennt.

Marteinn Lúther spurði margra krefjandi spurninga um kirkjuna. Það var vegna þess að fagnaðarendi Jesú Krists var honum í senn helgidómur og krafa um eftirfylgd. Prestar og kirkjustjórn voru ekki í hlutverki hirðis og leiðsagnar safnaðarins, heldur aðskilin frá honum. Upphafnir klerkar og niðurlægt fólk.

Fyrir Lúther var kraftur Krists mitt á meðal allra þeirra sem játuðu nafn hans og höfðu verið helguð honum í heilagri skírn. Þar var og er hinn raunverulega prestdóm að finna. Prestdóm allra skírðra, allra trúaðra. Klerkar eru þjónar þess prestdóms. Hirðar og þjónar.
Smalinn er fyrirmynd prestsins. Ekki kóngurinn eða keisarinn.

Mér þykir vænt um þennan bróður minn.

Mér þykir stundum skorta á að sami eldur brenni á þeim sem ætla að boða orðið undir merkjum fagnaðarerindisins og þar með hans merkjum. Mér þykir of oft að sjálfan bresti mig kjark til að taka upp merki hans. Og vera evangeliskur.

Þegar söfnuðurinn kemur saman til heilagrar messu, heyrir Orð Guðs útlagt og brýtur brauðið við borð hans þykir mér gott að dvelja við túlkun Lúthers á þeim atburði hjálpræðissögunnar. Þar er að mínum skilningi að finna kjarna þess sem er sameiginlegur skilningur allra kristinna kirkna. Frá upphafi hefur það verið ein megináhersla evangelisk-lutherskrar kirkju að leita hins sameiginlega meðal kristninnar. Mér, sem tilheyri þessari kirkjudeild af sannfæringu og í mikilli gleði, þykir stundum of áberandi í starfi hennar að þessu atriði sé gleymt. Að mínum skilningi er ekki hægt að vera lútherskur nema vera ökumeniskur. Lúthersk kirkja er samkirkjuleg kirkja. Hún er að stofninum til þolinmóð, umburðarlynd og trúföst.

Ég neita því ekki að mér þykir líka vænt um að vera ekki einn á báti, heldur einn af 540 milljónum einstaklinga um víða veröld, af ólíkum húðlit og mismunandi menningarsögu, sem byggja á skrifum og kenningum bróður Martins.

Þjóðkirkjan á Íslandi er Evangelisk – Lúthersk kirkja. Það er grundvallað í stjórnarskránni. Á afmælisdegi þeirrar kirkju óska ég mér þess að hún leggi sig eftir því að vita hvað það þýðir.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3741.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar