Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Dalla Þórðardóttir

Göngum að borði Drottins

Fyrstu viku júlímánaðar sótti ég námsstefnu við Institut Oecuménique í Strassborg í Frakklandi. Námstefnur sem þessar eru haldnar árlega og var þessi hin 38. í röðinni.

Efnið var Eucharistic hospitality, gestrisni, ef svo má segja , um það hvort altarisborðið væri sameiginlegt og hvort skilningur kirkjudeilda á altarisakramentinu gerði meðlimum þeirra kleift að meðtaka sakramenti kvöldmáltíðar í kirkjum hver annarra, úr hendi presta hverrar annarrar.

Nú mætti ætla , eftir áratuga viðræður , Lima skýrsluna og fleira að málið væri einfalt og svarið við ofangreindum spurningum væri já. En því er nú ekki að heilsa. Reyndar er ekki til þess ætlast að við lúteranar á ferð um heiminn eða hér heima, göngum að altari í kaþólskri kirkju til að þiggja sakramentið. Og kaþólskir mega ekki þiggja efnin af okkur lúterskum prestum.

Afstaða okkar lúterana er að bjóða velkomin þau að borðinu, sem eru skírð og hafa helst hlotið fræðslu um gildi sakramentisins, sem þó er ekki gert að skilyrði hjá öllum prestum. Því kemur okkur það í opna skjöldu að önnur kristin kirkjudeild meini okkur aðgang. Vissulega eru dæmi um samstarf og jafnvel sameiningu við altarisborð á afmörkuðum, ákveðnum stöðum en það er ekki til samkvæmt opinberri stefnu.

Af þessu heryði ég nokkur dæmi, sem komu mér svo á óvart og vöktu mig til umhugsunar svo að mig langar að láta dæmin ganga til ykkar , sem lesið þetta. Jafnframt væri gagnlegt ef þið vilduð leyfa mér eða okkur að frétta af samskiptum kirkjudeilda hér á landi.

Þýskur maður rómversk- kaþólskur, guðfræðiprófessor á eftirlaunum, rifjaði upp að þegar hann var drengur fór hann með pabba sínum í brúðkaup vinar föðurins. Vinurinn var lúterani og brúðkaupið í kirkju hans. Drengurinn hafði aldrei fyrr komið inn í guðshús mótmælenda , enda var kaþólskum það bannað, nema við sérstakar aðstæður og alls ekki máttu þeir biðja og ekki syngja með mótmælendum. Þeir hlýddu þessu , stóðu úti við vegg og opnuðu ekki munn.

Þessu banni kaþólskra hefur nú verið aflétt, en langt er í land í gestrisni við altarið.
Strassborgar módelið

Fyrir rúmum þrjátíu var ritað opið bréf til biskupsins í Strassborg um það ok sem kaþólska kirkjan legði á hjón í blönduðum hjónaböndum, sem gætu ekki sótt messur saman og ekki gengið saman að altarinu og þegið þá dýrmætu gjöf, sem þó væri helsta huggun sálum og styrkur trúaðra.

Biskupinn hugsaði málið í þrjú ár og lagði svo fram tillögu. Hann kynnti tillögu sína fyrir franska biskupafundinum, því þótt vald biskups í biskupsdæmi sínu sé nægilegt í raun til þess að tilskipanir, sem þá er hér um getur, er það háttur rómverskra að leita umsagnar og leyfis.

Franski biskupafundurinn sýndi máli hans engan áhuga, enda „getur kaþólskur prestur (utan Elsasshéraðs, innskot D. Þ.) lifað alla ævi án þess að hitta nokkurn tíma mótmælanda. Hann hefur ekki hugmynd um hvernig það fyrirbæri lítur út og gerir sér engar áhyggur af líðan þess.“ H. L. Elschinger biskup gaf engu að síður út tilskipun sína, sem hefur aðeins gildi í Elsass. Hún heimilar makanum , sem aðhyllist sið mótmælenda að ganga til altaris í kaþólskri kirkju , en með gildum fyrirvörum:

  • makinn kemur til viðtals hjá presti þar sem gengið er úr skugga um sanna þrá hans til að þiggja sakramentið
  • makinn játar skilning kaþólsku kirkjunnar á því hvað sakramentið er og gildi þess.

Að lokinni þessari prófun hafa hjónin leyfi til þess að ganga saman að altarinu við messu í kaþólskri kirkju

Þetta var tímamóta tilskipun sem enn þykir merkileg í kirkjusögu Elsass og hefur vakið athygli. En það var ennþá merkilegra að biskupinn heimilaði hinum kaþólska maka að ganga til altaris í guðshúsum mótmælenda og þiggja efnin úr hendi reformerts eða lútersks prests. Það er merkilegt af því að samkvæmt skilningi kaþólsku kirkjunnar eru kirkjudeildir mótmælenda ekki rétt kirkja heldur kristileg samfélög og prestar þeirra ekki réttir prestar.

Á fundinum var lýst undrun og hryggð yfir því að biskupar í öðrum héruðum landsins skyldu ekki hafa innleitt tilskipunina í biskupsdæmum sínum, þar sem blönduð hjónabönd væru allstaðar raunin.

„Jú, víst er það slæmt,“ svaraði Frakki nokkur, „ tilskipunin léttir lífið þeim hjónum, sem eru trúuð og vilja sækja kirkju en hið dapurlega er að svo sárafáir, hvort það eru hjón í blönduðum hjónaböndum eða einstaklingar, láta sig það nokkru skipta hvort þau mega þiggja altarissakramentið eða ekki.“

Efni þetta var kynnt á námstefnunni um boð kirkjudeilda til annarra að altarisborðinu. Á meðal annars efnis var bréf páfa um kirkjuskilning. Kom þar margt fram, sem umhugsunarvert er fyrir okkur mótmælendur.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2868.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar