Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir

Í fyllingu tímans

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli.“ Gal 4.4

Í jólaguðspjallinu í 2. kafla Lúkasarguðspjalls greinir guðspjallamaðurinn frá því hvenær Jesús fæddist. Það var þegar Ágústus var keisari í Róm og Kyrenius landstjóri á Sýrlandi. Þessar upplýsingar eru nægar til þess að þau sem lesa um fæðingu Jesú fá fullvissu um að hann er í heiminn kominn á ákveðnum tímapunkti í veraldarsögunni og það er hægt að segja nokkuð nákvæmlega til um hvenær.

Það er einnig hægt að greina frá fæðingu Jesú á annan hátt. Það gerir

Páll postuli í ofangreindu versi í Galatabréfinu. Hver yrðing þess er svo innihaldsrík að um hana mætti langt mál rita. Fagnaðarerindið felst í þessari einu málsgrein sem er yfirskrift vikunnar eftir boðunardag Maríu og þessi orð fela í sér fyrirheit. Páll dregur saman í henni það sem gerðist hin fyrstu jól.

Þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn. Undirbúningnum var lokið. Hann hafði tekið langan tíma. Þetta var atburður sem varð hvorki óvænt eða af tilviljun. Allt var fyrirfram skipulagt og ákveðið. Spámenn höfðu talað og Guð hafði reynt að búa Ísraelsþjóðina undir komu frelsara síns. Nú varð að lokum það sem Guð hafði haft í huga. Sá tími var kominn erhann hafði fyrirhugað að senda son sinn í heiminn.„Tíminn er fullnaður,“ sagði Jesús þegar hann hóf starf sitt við að boða fagnaðarerindið. Fagnaðarerindið sem Páll sagði að væri kraftur Guðs til frelsunar.

Guð sendi son sinn fæddan af konu. Fyrir Guði er ekkert ómögulegt, sagði engillinn við Maríu. Það sem nú var í vændum var eitthvað sem aldrei hafði áður hent og mundi aldrei aftur gerast. Í fyllingu tímans greip Guð inn í gang heimsins, gerði það á algjörlega einstæðan hátt. Þess vegna urðu hér atburðir sem ekki verða öðru sinni. Því er ekki hægt að færa rök gegn frásögninni um fæðingu Jesú með því að segja:„Þvílíkt gerist ekki. Við höfum aldrei getað sannreynt neitt þessu líkt.“ Það er einmitt það sem Páll segir. Slíkt gerist ekki í annan tíma. Þetta hefur aðeins orðið einu sinni. Þegar Guð sendi son sinn og lét hann fæðast af konu.

Að sonur Guðs væri fæddur af konu var augljóst dæmi um mennsku hans. Páll er uppteknari af því en meyfæðingunni. Sonur Guðs gerist maður sem hann var ekki áður. Sama orðið er notað hjá Jóhannesi þegar hann segir„orðið varð hold.“ Þarna er aftur talað um sama hlutinn á tvennan hátt. Konan María var kölluð til að fæða í heiminn það barn sem gefið var mannkyni öllu. Hún var kölluð til að fæða heiminum það barn sem Guð gaf mönnunum sem svar við bænum þeirra um lausn, frið og líkn. Íhlutun Guðs hér í heimi sem hefur í för með sér nokkuð sem við öll þörfnumst, réttlætingu frá Guði.

Hann var fæddur undir lögmáli. Páll segir að þegar Galatamenn, sem hann þarna talar til, og vissulega allir menn, voru börn voru þeir undir oki lögmálsins og síðan í fyllingu tímans kom Kristur í heiminn og létti af okinu. Þannig að nú eru mennirnir ekki lengur þrælar lögmálsins heldur Guðs börn og hafa tekið við arfahlut hans. Bernskan sem tilheyrði lögmálinu er að baki og frelsi fullorðinsáranna er komið. Afstaðan til Guðs getur verið á tvo vegu. annað hvort ertu undir lögmálinu eða þú hefur barnarétt hjá Guði.

Páll sem var Gyðingur þekkti af eigin raun hvernig það var að vera þræll lögmáls og hann hafði einnig kynnst vegi náðarinnar í kristinni trú.

Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Við færum ekki reikning vegna barna okkar. Þau fá allt ókeypis. Þau njóta fyrirgefningar. Kærleikur Guðs er án skilyrða. Hann elskar okkur þrátt fyrir allar okkar kenjar og alla okkar bresti, eins og við erum. Hann er ávallt tilbúinn að taka við okkur þegar við leitum til hans.

Stundum virðist helst sem það séu misvitrir menn sem vilja valtra yfir allt og alla og stjórna gangi heimsmálanna að sínum vilja, að eiginhagsmunir og óréttlæti ráði gangi mála. Þá er gott til þess að vita að Guð vakir yfir okkur hvað sem yfir dynur og geta treyst því að ekkert fær skilið okkur frá kærleika hans.

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli.“Gal 4.4

Páll postuli segir margt í þessum fáu orðum Hann er á vissan hátt að endurtaka það sem og hann segir í heilsaninni í upphafsorðum Galatabréfsins:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2478.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar