Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Að rækta friðinn hið innra

óðir áheyrendur, kæru friðarsinnar.

Víða um heim kemur fólk saman í dag og á morgun til þess að mótmæla hernaðarstefnu Bandaríkjastjórnar og hvatvísi hennar gegn þjóðinni í Írak. Um leið er rík ástæða til að andmæla stefnu sömu stjórna í málefnum Palestínu og reyndar að setja spurningarmerki við utanríkisstefnu hins volduga ríkis í vestri í heild sinni sem vill fara síni fram án samráðs við ríki Sameinuðu þjóðanna.

Á fréttamyndum utan úr heimi hefur fólk sést mótmæla undir slagorðinu: „Ekki í okkar nafni!“ Við sem hér viljum halda á lofti kyndli friðar erum með þátttöku okkar hér, að taka undir með þeim og segja að hernaðarbröltið sé ekki í okkar nafni. Við viljum ekki að þjóðin okkar taki beinan þátt í hernaði eða styðji við hernaðinn með nokkru móti. Er eitthvert vit í því að verja hundruðum milljónum króna til að liðka fyrir hergangaflutningum haukanna í vestri svo að þeir geti barið á ímynduðum samnefnara sjálfrar illskunnar í heiminum og hvetja síðan á sama tíma Hjálparstarf kirkjunnar, Rauða krossinn og aðrar hjálparstofnanir til að búa sig undir að hjálpa stríðshrjáðum? Það er undarleg lífsafstaða að vilja berja menn með annarri hendinni og strjúka þeim síðan og plástra með hinni. Í Biblíunni er talað um að vinstri höndin eigi ekki að vita hvað sú hægri gjörir (Mt 6.3) - en þar er nú reyndar átt við gjafmildi en ekki gráa leiki.

Kirkjuleiðtogar í nágrannalöndum okkar fordæma fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar. Verðandi erkibiskup af Kantaraborg, Dr. Rowan Williams, fór gagnrýnum orðum í fyrstu jólaræðu sinni eftir að hann var valinn til embættis, um hernaðarhyggjuna og sagði að þrátt fyrir framfarir á mörgum sviður sé „enn verið að murka lífið úr sakleysingjum.“
Evangelíska kirkjan í Þýskalandi, sem er fjölmenn hreyfing, tekur afgerandi afstöðu gegn árásum á Írak „sem hafa það að markmiði að steypa Saddan Hussein af stóli með hervaldi“. Forseti sambandslýðveldisins, Johannes Rau, virkur leikmaður í þýsku kirkjunni, hefur tjáð sig skýrt um málið og tekið í sama streng.

Kristniráð Noregs leggst gegn „öllum áætlunum um stríð í Írak.“

Erkibiskupinn í Svíþjóð, KG Hammar, hefur ritað Göran Person, forsætisráðherra, bréf um að sænsku stjórninni beri að finna diplómatískar leiðir til að finna friðsamlega lausn á deilunni um Írak. Þar segir m.a.: „Írakska þjóðin hefur orðið fyrir tvöfaldri þjáningu bæði af hálfu harðstjórnar Saddam Husseins og tólf ára viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna, sem hefur styrkt hann í sessi og líklega kostað 600.000 börn lífið.“

Alkirkjuráðið hefur barist fyrir því árum saman að viðskiptabanninu verði aflétt.

Biskup Íslands hefur hvatt íslenska þjóð og kirkju til að athuga sinn gang vel í þessu máli.

Íslenska þjóðin hefur aldrei haldið úti her í landinu, aldrei farið með hernaði gegn annarri þjóð í meira en þúsund ára sögu þjóðarinnar. Hins vegar höfum við mörg áhyggjur af nýrri stefnu stjórnvalda sem sýnir að þau vilja ganga lengra en áður í samskiptum sínum við NATO.

Og þjóðin þegir nánast þunnu hljóði yfir því að örfáir einstaklingar, hafa breytt þessari þúsaldargömlu hefð með einni samþykkt í kompaníi við „haukana“ í Vestri. Var kannski ekki annars að vænta af íslenskum „fálkum“ á haukaþingi sem virðast ekki lengur vilja vera „langt frá heimsins vígaslóð“? Hefur þessi kynslóð ráðamanna tekið sér það bessaleyfi að gera orð skáldkonunnar Huldu að engu sem orti sitt snjalla þjóðhátíðarljóð 1944?

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð,
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?

Þessi bjarta og fagra sýn skáldkonunnar á þjóð sína virðist því miður horfin. Vorum við spurð áður en ákvörðun var tekin? Var kosið um það hvort við vildum afleggja þessa þúsaldargömlu hefð? NEI!

Bandarísk kona, sem bjó hér á landi í áratugi og átti á margan hátt erfiða æfi, svaraði því aðspurð hvað hún mæti mest við það að búa hér: Á Íslandi þarf ég ekki að óttast að synir mínir verði sendir í stríð og að ég fái þá lemstraða heim á líkama og sál eða sem liðin lík.

Bandarískar fjölskyldur búa margar við nagandi ótta um þessar mundir vegna þess að sonum þeirra og dætrum er att út í stríð sem embættismenn ákveða í stássstofum Hvíta hússins undir forsæti manns sem frá upphafi embættisferils síns hefur hreytt ónotum í fólk víða um lönd. Og hann uppsker eins og hann sáir til. Honum væri hollt að læra orð Benjamíns Franklíns sem kallaður hefur verið „fyrsti síviliseraði Bandaríkjamaðurinn“ sem sagði: „Það hefur aldrei verið neitt gott stríð né vondur friður.“

Bandaríska þjóðin er merk þjóð og þar er margt góðra manna, karla og kvenna, en ýmislegt í hugmyndafræði ráðamanna þar í landi er beinlínis hættulegt heimsfriði og birtist m.a. í þeirri barnalegu trú að hægt sé að uppræta illskuna í heiminum með því að fjarlægja einstaklinga sem eru skilgreindir illir. Illskan hverfur ekki með slíkum ráðum, hvorki með dauðarefsingum sakamanna heima fyrir, né aftökum á harðstjórum, vegna þess að illskan býr í okkur sjálfum. Stríð byrjar í hjarta mannsins, í hjarta mínu og þínu - en vonin segir að þar hefjist friðurinn líka. Viljum við vera á bandi fjandskapar eða friðar? Gömlu lausnirnar eru úreltar. Ef útrýma á illskunni með því að fjarlægja þá sem eru illir verður að fjarlægja okkur öll. Friðurinn byrjar í hjartanu. Og friður er ekki kyrrstætt hugtak a.m.k. ekki í munni Krists sem sagði í Fjallræðunni: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Mt 5.9) Meðal friðflytjenda er fólk af öllum þjóðum og tungum, trúarbrögðum og menningu. Hér eru búddistar, múslimar, kristnir og fólk með aðrar lífsskoðanir - Guðs börn. Sama blóð rennur í æðum okkar allra og hjörtun eru sömu gerðar. Við erum bræður og systur og systkin þeirra sem þjást í Írak og hvar sem er í heiminum en um leið erum við systkin þeirra sem valda þjáningu annarra. Það er hin skelfilega staðreynd og um leið hrollvekjandi sannleikur sem staðfestir að hvort tveggja, stríð og friður, á sér uppsprettu í samskonar hjörtum og okkar. Þess vegna er svo brýnt að við ræktum með okkur friðarviljann og gefumst ekki upp í baráttunni fyrir betri heimi.

Stöndum saman með Íröksku þjóðinni og biðjum þess að þau sem ráða yfir herjum og vopnum - og ekki síst þau sem ráða yfir gjöreyðingarvopnum - snúi frá villu síns vegar. Sama gildir um ráðamenn íslensku þjóðarinnar hvað varðar afstöðuna til hernaðar. Guð blessi íslenska þjóð og þau sem hér og um veröld víða sýna samstöðu með sannleika, réttlæti og friði.

Hernaðarhyggjan og sá djöfulskapur sem henni fylgir er ekki í okkar nafni - EKKI Í OKKAR NAFNI!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4036.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar