Jesús er sannleikurinn og ég veit að þið hafið heyrt um hann og verið frædd um hann: Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina?
Segðu það ef þú veist það og skilur.
Leita vil ég þín, Drottinn, með því að ákalla þig, og ákalla þig vil ég í trú á þig. því að þú ert oss kunngjörður orðinn. þig ákallar, Drottinn, trúa mín, sem þú hefur gefið mér, sem þú hefur blásið mér í brjóst, sakir manndómstekju sonar þíns, sakir þjónustu boðanda þíns.
Þitt lífsins ljósið bjarta,
æ, lát þú, Drottinn minn,
í mínum hug og hjarta
æ hafa bústað sinn,
á friðar leið það lýsi
um lífsins sporin myrk
og réttan veg mér vísi
með von um trúarstyrk.
(Þorsteinn Þorkelsson)
„Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.“ (2Kor 5.17)
Í almanakinu er ein síða fyrir hvern dag ársins. Hér finnur þú lestra dagsins, sálmvers og bænir auk fróðleiks. Þú getur skráð þig á póstlista til að fá texta dagsins senda á hverjum morgni. Staðfesting um skráningu er send í tölvupósti.