Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jóhannes Ingibjartsson

Hin eilífa nettenging

14. nóvember 2010

„Verið hjartanlega velkomin til þessarar guðsþjónustu“ sagði presturinn, þegar hún ávarpaði okkur frá altarinu áðan. Guðsþjónusta. Hvaða merkingu leggjum við í það orð? Erum við komin hingað til þjónustu við Guð eða til þess að Guð geti þjónað okkur? Eða e.t.v. hvoru tveggja?
Guðspjalls þessa helgidags, sem kirkjan hefur tileinkað kristniboði, og við heyrðum lesið frá altarinu, tekur til beggja þessara þátta. Jesús er að setja lærisveina sína til verka, senda þá af stað með það verkefni að flytja gleði-boðskapinn til allra þjóða, en um leið segir hann þeim: Þetta verkefni er ykkur ómögulegt nema undir handleiðslu minni og í þeim krafti, sem ég einn get gefið ykkur. Á tölvumáli, mundum við segja, að í orðum hans liggi að sítenging verði að vera á milli hans og þeirra, til þess að verkefnið heppnist.

Það er æ algengara að greinar dagblaða séu byggðar á einhverju sem er til umræðu á Facebook eða endi með tilvísun í, að frekari upplýsinga sé að leita þar. Það kæmi mér ekki á óvart að stór hluti ykkar, sem sitjið hér í kirkjunni í dag, væruð skráð þar og tækjuð þátt í því vinasamfélagi, ef ég má kalla það svo, sem þar er ein meginundirstaða skráningar og samskipta.
Hvernig er Facebook uppbyggð? Þú óskar eftir að komast á samskiptavefinn, færð aðgangsorð, og byrjar síðan að tengjast vinum og þeir þér. Og svo lengi sem þú brýtur ekki meginreglur samskiptanna átt þú ekki að eiga á hættu á þig sé lokað. Þannig mótast samskipti og samfélag manna á meðal í hinum veraldlega heimi en oft gleymist okkur í ákafa daglegs lífs, að tilveran er ekki bara veraldleg. Hún á sér líka andlega hlið, sem mikilvægt er að gefa gaum og rækja. Við erum líkami, sál og andi.
Því nefndi ég Facebook áðan, að það er svo margt líkt með nettengingunni og samskiptum okkar þar á hinu veraldlega sviði, og því sem Guð þráir að sé í samskipum hans og okkar á hinu andlega sviði.

Flest , ef ekki öll, höfum við sem börn verið lögð í hendur Guðs í heilagri skírn. Á þeirri stundu komst á sú eilífa nettenging milli andans í brjósti okkar og anda Guðs, sem hann þráir að aldrei truflist eða rofni. Heilagur andi hans tók sér bústað í brjósti okkar, þegar við vorum vatni ausin og meðtókum tákn hans á bjóst okkar og enni. Þú fékkst þitt aðgangsorð, nafnið þitt, ekki skráð á Facebook, heldur í „The Book of Life“, þ.e. í lífsins bók. Mér finnst stórkostlegt að mega vita að sá Guð, sem er skapari þessa heims, sá Guð sem bar slíkan kærleika til mín að hann hefur gefið mér Jesú Krist að frelsara, sá Guð sem í guðspjalli dagsins minnir okkur á mátt sitt og vald, skuli þrá að vera sítengdur anda mínum og þínum gegnum verk Heilags anda.
Hvað er aðdráttaraflið, þetta mikilvæga við fésbókina, sem heldur mörgum einstaklingnum í stöðugu sambandi við vefinn dag eftir dag, mánuð eftir mánuð? Þú eignast skráða vini sem þú hefur samskipti við, þú tjáir skoðanir þínar, tilfinningar og það annað sem þér liggur á hjarta. Þú reynir stanslaust að fá fleiri vini inn á vefinn. En ef þú ferð yfir strikið getur þú átt á hættu að vefstjórinn loki á mig.
Er samskiptavefur Guðs eitthvað líkur þessu? Að vissu marki. Í samfélagi við Jesú erum við tengd þeim vini sem aldrei bregst, þeim vini sem best er að tjá allar tilfinningar sínar, gleði og vonbrigði. Hann hefur aldrei frumkvæði að því að loka fyrir tengslin. Þótt mikið gangi á í lífi okkar, getum við treyst því að samskipalína okkar til Guðs er ekki rofin, ekki heldur vegna álags á línunni. Hlutverk hvers og eins okkar er líka harla líkt, það að leiða alla aðra til vinasamfélags við lifandi Guð. Þar er alltaf rými fyrir viðbótarvin, og ekki hætta á höfnun. Því „Drottinn er fullríkur fyrir alla, sem ákalla hann.“
Veittuð þið því athygli: hann er fullríkur fyrir alla þá „sem ákalla hann.“ Það er að segja öll þau sem ekki hafa rofið tengsl sín við hann. Þar liggur ábyrgð hvers og eins okkar gagnvart honum. Að ákalla hann er í raun, að eiga við hann tjáskipti. Heyra hvað hann vill við mig tala og segja honum hug sinn. Hafa sítengingu eins og við mundum segja á tölvumáli.
Rifjum aðeins upp guðspjall þessa dags, sem sérstaklega er helgaður kristniboði. Þar stóð :

„Og Jesús kom til þeirra (þ.e. lærisveinanna) talaði við þá og sagði „ Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hefi boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Hvar komum við inn í þessa sögu? Við erum svo heppin að við erum meðal þjóðar, þar sem orð Guðs hefur verið boðað um aldir. Við höfum verið skírð, a.m.k. flestöll, í nafni föðurins, sonarins og heilags anda. Við eigum því í sálu okkar þessa lífstengingu við Guð, Við erum því í stöðu lærisveinsins, sem hann ávarpar og segir.“ Fáið allar þjóðir, þá sem eru nærri og þá sem eru langt í burtu, til samfélags við mig“. Hvers vegna í veröldinni? Er ekki hver maður sæll í sinni trú. Nei, það er samkvæmt orði Guðs ein af blekkingum þessa heims . Jesús felur lærisveinum sínum, þar á meðal okkur, ekki þetta verkefni af þeirri ástæðu að okkur skorti eitthvað að gera og þetta sé svo göfugt. Hann felur okkur það vegna þess að það skipti öllu, að hver einasta manneskja, hvar í heimi sem hún er, fái að heyra og taka við fagnaðarboðskapnum. „ Það er vilji Guðs að allir komist til þekkingar á sannleikanum.“
Mikilvægi þess að allir fái að heyra á rætur í kærleika Guðs, sem þráir að hver einasti maður eigi nafn sitt skráð í lífsins bók. Að hver einasti maður fái að heyra boðskapinn um Jesú, sem hefur opnað okkur leið til samfélags við Guð. Því maðurinn er skapaður til samfélags við Guð og það er í þessu samfélagi, og aðeins í þessu samfélagi, sem hann fær eignast þann lífstilgang sem hvert og eitt okkar þráir.

Þegar við heyrum nefnt orðið kristniboð, verður okkur oft eins og ósjálfrátt hugsað út í heim, til svörtustu Afríku. Vissulega eigum við, hin íslenska kirkja, sendiboða þar, bæði í Eþíópíu og Keníu en einnig í öðrum heimshluta, þ.e. í Japan. Þarna eru fjölskyldur á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga sem við berum ábyrgð á að styðja, bæði í bænum okkar og fjárhagslega. En kristniboðs er líka þörf í okkar landi. Hver kynslóð þarf að fá að heyra fagnaðarboðskapinn um Jesú sem frelsara og veita honum viðtöku í hjarta sitt.
Vinur segir vini frá – það er facebook - reglan. Það er líka lykilregla Guðs. Þú hefur þetta hlutverk, sem kirkjan vill minna þig á í dag. Hlutverkið felst í því að meðtaka og miðla út frá þér þeim kærleika, sem Guð hefur gefið þér og auðsýnt í Jesú Kristi. Taka þátt í því að segja öðrum frá þeim sannleika að hann er frelsari, sem þráir að eiga rými í hjarta hvers einasta manns og samfélag við hann.
Jesús gaf lærisveinum sínum ekki mörg fyrirmæli. Þau felast eiginlega öll í þessu guðspjalli sem við lásum í dag. Hann orðaði það líka á annan veg: „Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náungann þinn eins og sjálfan þig.“

Í upphafi þessarar viku gengu væntanleg fermingarbörn um bæinn og söfnuðu fé til styrktar vatnsverkefni sem unnið er að í Afríku á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Í tengslum við það komu hingað piltur og stúlka frá Úganda sem notið höfðu góðs af hjálparstarfinu. Í einu dagblaðanna sá ég viðtal við stúlkuna, þar sem hún sagði frá því að þegar hún var 13 ára var hún munaðarlaus, átti engin föt, fékk ekki mat svo dögum skipti en þurfti samt að sjá um yngri systkini sín. Þá mættust vegir hennar og vegir Guðs fyrir tilstilli hjálparstarfsins. Líf hennar tók algjörum breytingum. Á næsta ári lýkur hún háskólanámi. Vitnisburður hennar er. Ég er kristin – Guð hefur umbreytt lífi mínu.
Hvernig? Hún mætti kærleika Krists fyrir tilstuðlan íslenskrar kirkju. Kristniboð er nefnilega ekki bara það að segja hver Jesús er í orðum heldur líka í verki. Jesús sagði eitt sinn : „Á því munu allir þekkja að þið eruð mínir lærisveinar, ef þið berið elsku hver til annars“
Það er ekkert sjálfsagt að elska, það er ekkert sjálfsagt að vera kristinn, vera vottur Krists til annarra manna, en það eru forréttindi. Verkefni sem Guð hefur falið okkur, að koma boðskapnum sem við höfum fengið að meðtaka, boðskapnum um hinn krossfesta og upprisna frelsara til allra manna
Ég var svo heppinn sl sumar að fá tækifæri til þess að hlusta á norska konu, Kari Bö Ólafsson, gifta íslenskum skurðlækni, sem nú kominn á eftirlaun, en fer reglulega til starfa á starfssvæði íslenskra kristniboða í Eþíópíu. Hún er menntaður kennari í heimilisfræðum og velti þvi fyrir sér, hvað í veröldinni hún gæti haft fyrir stafni þarna úti á meðan hann sinnti læknisstörfum.
Það liðu ekki nema fáir dagar, þar til innfædd stúlka birtist við dyr hennar og falaðist eftir vinnu, Hún svaraði henni að hún hefði ekki þörf fyrir slíkt, hún kæmist sjálf vel yfir að sinna nauðsynlegum heimilisstörfum og nú þegar hefði hún húshjálp einnar konu. Samtalið þróaðist eitthvað á þessa leið :
Unga konan spurði: Hvað á ég að gera?
Það er á þína ábyrgð, þú getur.t.d. búið til eitthvað og selt
Enginn vill kaupa.
Ertu búin að prófa
Ég kann ekki að búa til neitt
Ég skal kenna þér að búa eitthvað til
Það er ekki nauðsynlegt, því enginn vill kaupa það sem ég bý til. Ég vil vinna í eldhúsinu.
Sú leið er lokuð. Farðu út á verönd og ég skal sýna þér svolítið áður en þú ferð heim.
Þar úti á veröndinni kenndi Kari henni fyrstu handtökin í því að hekla, og sendi hana síðan heim með uppfitjaðar lykkjur og svolítið af garni, sem hún sagði henni að klára og koma síðan aftur. Þegar hún kom aftur nokkrum dögum seinna með langan heklaðan bút bjuggu þær til úr honum peningaveski . Nú hófst nýtt samtal sem lýsir vel aðstæðum.
Sjáðu hvað þú ert búin að gera. Þú ert búin að búa til peningaveski.
Ég á ekkert til að setja í það
Þú getur notað það undir eitthvað, sem þú ert hrædd um að týna.
Ég á ekkert
Þú skalt geyma það þar til þú eignast eitthvað. Nú vil ég panta hjá þér stóra tösku. ( Kari sótti garn, sló upp 50 lykkjum, sýndi henni hve mikið hún ætti að hekla og sendi hana heim til sín).
Tveimur dögum seinna kom faðir stúlkunnar í heimsókn og sagði að dóttir sín ætti engin föt til að fara í.
Hún getur sjálf búið til föt á sig, svaraði Kari
Hún kann það ekki
Þá getur hún komið í skólann á veröndinni og ég skal kenna henni.
Stúlkan kom og á eftir henni kom önnur og önnur og önnur
Til þess að gera langa sögu stutta spratt upp úr þessu sjálfhjálparverkefni sem nú er á 5 stöðum í landinu. Ungar konur framleiða og selja fjölda muna, afla sér peninga sem nægja ekki aðeins til þess að sjá þeim farborða, heldur hafa þær einnig stofnað fyrirtæki um þetta verkefnið og jafnvel reist sér hús, þar sem starfsemin er til húsa, Þar koma þær saman, vinna, syngja saman og gleðjast yfir Guði og tilverunni.
Þetta er kristniboð. Leið Guðs, þegar hann sendir einstaklinga út með fagnaðarerindið og gefur þeim kraft og hugmyndaflug til þess að finna því farveg, bæði í orði og verki.
——-
Þessa mánuðina situr íslensk nokkurra barna móðir í Suður-Eþíópíu, þar sem hitinn er 40 – 50° á daginn og aðstæður þannig að drykkjarvatnið hefur sama lit og mórauðust jökulárnar okkar. Hún vinnur að því, með hjálp tveggja innfæddra manna, að semja fyrstu kennslubók í lestri, sem samin hefur verið á máli þjóðflokksins sem þar býr, á meðan maður hennar sinnir hjálparstörfum og boðun fagnaðarerindisins. Að þessu verkefni hefur hún unnið undanfarin ár og nú sér fyrir endann á því. Áætlað er að hefja lestrarkennsluna á nokkrum stöðum nú í haust. Hún segir sjálf svo frá: „ Það er stórkostlegt að fá að vera þátttakandi í svona grundvallaratriði, sem lestrarkennslan er. Við leggjum grunn að varðveislu menningar Dasinetsmanna og byggjum upp menntun þeirra. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að við, kirkjan í heild, þú og ég, stuðlum að því að lítill þjóðflokur lærir að lesa og skrifa sitt eigið tungumál.
Tókstu eftir því að hún sagði við, kirkjan í heild, ég og þú erum að stuðla að því að lítill þjóðflokkur í S-Eþíópíu læri að lesa og skrifa sitt eigið tungumál, um leið og við göngum þess erindis sem Kristur hefur falið okkur. Við erum þátt-takendur. Kirkjan okkar vill minna okkur á það í dag um leið og hún minnir okkur á að við getum og eigum að styðja starfið með bæn og fjárframlögum.
Þegar við heyrum slíkar frásagnir hugsum við oft, „já þessir einstaklingar eru svo trúaðir, þeir eru öðruvísi en ég, þeir hafa hæfileika sem ég hef ekki.“ En ég get af hreinskilni sagt þér að þannig hugsar Guð ekki. Á hverjum degi þráir hann að nálgast hjarta okkar og spyrja: Vilt þú vera verkamaður minn og vinna aðra menn?
Þegar ég var unglingur sungum við oft söng sem varð mér kær, Mér fannst hann lýsa svo vel samfélagi mínu við þann vin sem ég átti í Jesú Kristi. Þar stóð þessi lína: Hann kallar mig vin sinn, þótt viti hann glöggt, að vinátta mín nær svo skammt.“ Þessi stutta línuhending minnir mig á þann sannleika að þrátt fyrir kæruleysi og breyskleika okkar mannanna, bregst kærleikur Guðs ekki. Það er þessi vinur sem mætir okkur í guðspjalli dagsins og segir : Þú, hver sem þú ert, ungur sem eldri. Þú ert frábær endiboði fyrir mig. Í þér búa hæfileikar til þess að útbreiða ríki mitt, segja öðrum frá hver ég er. Hæfileikar sem ég, Guð þinn, get notað til þess að leiða aðra til þekkingar á mér og til samfélags við mig
Við vitum að í samtíð okkar er margt sagt niðrandi um kristna trú. Ekkert af því er satt. Hins vegar geta menn fundið margt niðrandi að segja um ýmsa þá, sem komið hafa fram í nafni trúarinnar. Látum það ekki draga úr okkur kjarkinn, þegar Jesús kallar okkur á kristniboðsdegi til þátttöku.

Innan nokkurra vikna munum við heyra hinn gamalkunna fagnaðarboðskap jólanna. ¨“Sjá ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs“ – Þetta er sá sami boðskapur sem guðspjallið segir lærisveinunum að fara með, þegar hann segir: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum“
Stórkostlegt fagnaðarerindi. Stórkostlegur vinur og frelsari. Guð gefi okkur náð til þess að fylgja orðum hans.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1778.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar