Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Boðunardagur Maríu

9. mars 2008

En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“

En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“

Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.
Lúk 1.26-38

Ég þakka elskulegar móttökur hér í, Hallgrímskirkju. Hér finnst okkur hjónum við vera heima og fjölskyldu og vinum að mæta, sem við hjónin erum óumræðilega þakklát fyrir. Ég þakka prestum, sóknarnefnd, starfsliði og söfnuði Hallgrímskirkju til hamingju með þróttmikið og öflugt kirkjustarf. Þar er svo ótal margt að gleðjast yfir. Hallgrímskirkja gnæfir nú yfir í menningarlífinu og staða hennar í málefnum kirkjulistar almennt og tónlistarinnar sérstaklega er einstæð. Það er þakkarefni. Hallgrímskirkja er þjóðarhelgidómur í minningu Passíusálmaskáldsins, þakkargjöf alþjóðar, og ber því að lyfta fram og halda á lofti hverju því sem minnir á hann í menningu og trú. En Hallgrímskirkja er umfram allt helgidómur Jesú Krists og þess safnaðar sem hann mælir sér móts við. Uppbygging þess samfélags, iðkun og atferli allt er sístætt verkefni, til að efla fólk til þátttöku í starfi kirkjunnar og til kristins vitnisburðar með lífi og breytni á vettvangi dagsins. Það gerist yfirleitt utan við sjónsvið fjölmiðla, og nýtur sjaldan hylli skoðanamótenda eða velvildar þeirra sem ráða fyrir fjármunum. En er sannarlega hægt að gleðjast yfir svo mörgu sem ber því vitni hér í Hallgrímskirkju. Ég vil nota þetta tækifæri að þakka það. Ég nefni sérstaklega að þessu sinni þau sem gefa kost á sér til að taka þátt í messuhópunum sem auðga samfélag okkar og tilbeiðslu. Og nærvera drengjakórsins hér í dag minnir á þann mikilvæga uppeldisþátt sem kórastarf meðal hinna ungu er. Í kristnum sið gegna börnin sérstöku hlutverki verðum alltaf að taka tillit til þess í forgangsröðun, starfsemi og þjónustu allri.
Guð blessi þau mörgu sem hér leggja hlýjan og hollan huga og sál að starfi kirkju og safnaðar, og sérhvern þann sem hingað kemur og héðan fer. Guð blessi það allt.

Í dag er Boðunardagur Maríu. Hin látlausa frásögn guðspjallsins er þrungin merkingu. Við erum leidd inn í hversdagsheim Maríu í Nasaret. Það þarf áreiðanlega ekki mikið ímyndunarafl til að setja sig inn í aðstæður hennar. Skynja óttann og eftirvæntinguna, gleðina og sársaukann, kvíða vegna aðstæðna allra og þessa óskiljanlegra hlutverks sem henni er falið. Ástand Maríu hefur áreiðanlega verið vinsælt umræðuefni við brunninn í Nasaret, tvíræðar athugasemdir, hálfkæringur og kerskni hefur mætt henni.

Svona vitjar Guð mannanna. Einmitt af því að hann vill vera Guð með oss – Immanúel. Reynsla Maríu, og reynsla allra kvenna, já og karla, sem kenna sársauka, þjáningu, blygðun, kvíða vegna hins ókomna, og óvissu og angistar vegna trúarinnar, allt þetta er kvika mannlegrar reynslu og tilveru. Inn í þessa kviku gengur Guð. Um skeið var himinn hans móðurlíf ungrar konu í Nasaret, almættið sjálft varð hold af hennar holdi. Síðar lagði Maríusonur leið sína um götur og þorp Galíleu og Júdeu, og upp til Jerúsalem og tók á sig sársauka okkar og mein, synd og sorg, já og dauða. Í öllum orðum hans og verkum, lífi og dauða sjáum við og skynjum svar Guðs sem segir:„Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn….“ Engar þær aðstæður fyrirfinnast í mannheimi sem hann þekkir ekki, þar sem hann er ekki í nánd með orð náðar sinnar og líknar, sem hann getur ekki umbreytt til dýrðar sinnar. Og trúin, sem hann boðar og gefur, og er siguraflið sem sigrar allt, er ekki hugmyndafræði um hulda dóma handanheima, heldur samfylgd, nærvera, von og kærleikur hér og nú í okkar heimi, á okkar jörð.

Mér þykir vænt um að mynd Guðsmóður skuli vera hér í Hallgrímskirkju. Hún heldur á barninu í faðmi sér og eins og réttir það fram, barnið sem lyftir höndum í blessun. Það er hlutverk Maríu, að bera hann fram, soninn, sem er frelsari heimsins, sem læknar og blessar líf og heim. Mikilvægi Maríu í trúarlífinu er að hún er móðir Jesú, móðir Guðs á jörð. Hún ber hann í heim og bendir á hann.

„María, Drottins móðir kær, merkir Guðs kristni sanna…“ segir Hallgrímur um Guðs móður. Í táknheimi kristninnar er kirkjan María, sem ber Guðs son í heim, í skauti hennar verður orðið hold.
Og María er fyrirmynd þeirra sem trúa. Hún þekkir vanda trúarinnar í hörðum heimi. María játaðist Guði og játaðist lífinu. Þó að það kostaði andstreymi, fórnir, vonbrigði og þjáningar. Við erum kölluð til hins sama: Að játast lífinu.

Á okkar dögum er kirkju og kristindómi gjarna legið á hálsi fyrir að vera lífsfjandsamleg afstaða. Ég held því hiklaust fram að hin kristna guðstrú sé uppspretta góðs siðferðis og góðs samfélags, vegna þeirrar guðsmyndar og raunsæa mannskilnings og samfélagssýnar sem kristnin stendur fyrir. Velferðarsamfélagið og krafa þess um samhjálp, miskunnsemi og mannúð, er í grunninn kristið fyrirbæri. Oft er reynt að telja manni trú um að þetta sé bara eðlilegt og sjálfsagt. Nei, það er reyndar ekki margt sem er „sjálfsagt“ - þegar við tökum þannig til orða þá er það eingöngu vegna þess að við höfum gleymt hvaðan það kemur.

María hið kvenlega í trúarlífi og tilbeiðslu. Og hún minnir á stöðu og hlut kvenna í okkar heimi. Samtíminn horfir upp á skefjalaust ofbeldi gegn konum og börnum, heimilisofbeldi, mansal, kynlífsþrælkun, kvenfyrirlitning. Það stendur stríð um konuna og hlutverk hennar í þágu lífsins! Við verðum að vera meðvituð um þetta og um það að þetta er ekki aðeins vandamál í fjarlægum löndum og álfum, heldur teygir krumlur sínar hingað til okkar. Ofbeldi gegn konum telst eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál samtímans, eins og minnt var á á dögunum í tilefni fiðrildagöngu kvennanna niður Laugaveginn nú á miðvikudagskvöldið. Hún var þörf áminning um þessi mál, sem og um möguleika okkar allra til að bregðast við, láta í ljósi skömm og vanþóknun á þessu böli og leggja okkar að mörkum til hjálpar.

Kirkja og kristni fær oft orð í eyra fyrir þátt sinn í að kúga fólk og ekki síst konur. Það eru því miður ótal dæmi um slíkt í sögu og samtíð. Kirkjan er ekki hafin yfir gagnrýni. Kristnin leggur áherslu á að allt mannlegt líf, samfélag, skipulag er laskað og ófullkomið og undir sömu sök selt: syndar, sektar og dauða. Líka kirkjan.

Þeir sem tala máli andtrúarviðhorfa eru gjarnir á að draga fram hvaðeina það sem saga kirkjunnar geymir illt og ljótt. Það þarf enga sérstaka skarpskyggni til að finna dæmi um slíkt. Það hrópar upp í himininn og stendur undir dómi Guðs. Krossinn á Golgata sýnir okkur það svo berlega. Í ljósi þess er kristin trú sér meðvituð um að ekkert mannlegt er óskeikult. Allir hafa syndgað. Það merkir að við erum ábyrg gerða okkar og líka aðgerðarleysis. Öll verk okkar eru því undir dómi. Enginn er þar undanskilinn, hvorki guðleysinginn né dýrlingurinn. Þegar allt kemur til alls getum við ekki vísað frá okkur ábyrgð. Og öllum stendur fyrirgefning Guðs til boða, friðþæging fyrir krossdauða hans og kraftur upprisu hans.

María er fyrirmynd trúarinnar og hún er táknmynd kirkjunnar. Hún veit hvað það er að eiga reynslu, vissu og tilfinningar sem valda gjarna misskilningi og háði. Hún er ekki aðeins Guðs móðir, heldur móðir allra kvenna og karla sem finna til hér á jörð. Hún er móðir vor allra og hún bendir á son sinn, frelsarann. Hún fékk að reyna vonbrigði og sorgir, hún þekkir kvíða og áhyggju um framtíðina, hún þekkti vanmátt og varnaleysi móðurástar sem horfir hjálparvana á barn sitt feta leið sem hún gat ekki skilið, já, en hún var líka tilbúin að segja honum til, áminna hann eins og góðar mæður gera. En tryggð hennar og trúfesti brást ekki.

Látum Maríu kenna okkur hvað það er að trúa, vona og elska. Lærum af Guðs móður að íhuga orð Guðs, og iðka það í auðmýkt og hlýðni. Lærum af Maríu að vera fús að deila gleði sinni með öðrum, eins og þegar hún hraðaði sér til Elísabetar í gleði sinni. Lærum af henni að vera mæður og feður, sem leiða börn sín í helgidóminn og leggjum þeim bænarorð á varir og trúna á hjarta. Leitumst við að vera glöggskyggn eins og hún María var á áhyggju meðbræðra sinna í Kana, og benda eins og hún með rósemi og trausti á Krist, sem hjálpar, mettar og svalar. Lærum af Maríu að standa við krossinn og æðrast ekki þótt sorgin nísti, sólin missi birtu sinnar og björgin bifist.

Enn og aftur kemur orðið til okkar, orð Guðs berst að eyrum, snertir hjartað, orðið frá Guði með köllun, hlutverk að bera Guð í heim, eins og María, halda Jesú í örmum og við hjartastað, varðveita trúna og hlú að trúnni, voninni og kærleikanum í hörðum heimi og köldum. Hvað skiljum við af því? Fátt, áreiðanlega fátt.

En við getum öll gert eins og María: Hlustað, hugleitt og hlýtt og svarað: „Verði mér eftir orðum þínum.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2676.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar