Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Þau eru mörg sporin

Á öllum tímum hefur ljósi trúar verið varpað á brennandi málefni líðandi stundar. Trúin lifir og hrærist í straumkasti tímans en er ekki lokuð af og á eintali við sjálfa sig. Hún er á vissan hátt samtal; í samtali mannsins við Guð liggja rætur að samtalinu við samfélagið og aðrar manneskjur. Þar skýst fyrst upp á yfirborðið náungakærleikurinn sem svar við hinn frægu spurningu: „Á ég að gæta bróður míns og systur minnar?“ En hann beinist ekki aðeins að manneskjum heldur og nánasta umhverfi. Sjálfri náttúrunni.

Sjálfbærni er leiðarljós

Kirkjuþing 2018 samþykkti þingsályktun um umhverfismál og þar segir meðal annars: „Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafin. Hún ber jafnframt sérstaka ábyrgð vegna stöðu sinnar í sköpunarverki Guðs samkvæmt gyðing-kristinni hefð. Þeirri ábyrgð fylgir sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi. Hlutverk mannkyns er að yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.“
Ábyrgð manna er mikil og þeir geta ekki valsað um veröldina eins og himnakóngsins lausamenn. Þvert á móti verða þeir að ganga um náttúruna sem væri hún hvort tveggja í senn stofa Guðs og prýði, eldhús og forðabúr. Aldingarður og uppspretta allra lífsins gæða.
Í ljósi þessa var því vel til fundið að verja miklum hluta nýliðinnar prestastefnu í umræður um umhverfismál. Ekki svo að skilja að kirkjan hafi þagað um þau mál. Alls ekki. Mjög víða hafa kröftugar umræður verið um þessi mál úti í söfnuðum og víðar á kirkjulegum vettvangi.
Vonandi hefur prestastefnan blásið afli og eldi, anda og ákafa, í brjóst þeirra er hana sóttu og þá sérstaklega hvað umhverfismálin snertir. Gaman var í það minnsta að sjá og heyra að áhugi var mikill á málinu og umræðan frjó og ekki síst í matar- og kaffihléum. Erindin voru líka mjög svo áhugavekjandi og gafst ekki kostur á að sækja þau öll, fólk varð að velja á milli. Vil þó nefna að fyrirlestur dr. Halldórs Björnssonar um loftslagsbreytingar var einstaklega góður og uppfræðandi, frábær inngangsfræði í þeim efnum fyrir þau og þar á meðal undirritaðan sem eru byrjendur í faginu – ef svo má segja.

Sporin okkar

Það hefur aldrei þótt gott að arka inn og spora út um öll gólf. Menn hafa fengið orð í eyra fyrir slíkt athæfi og ekki nema von. Skipað að þrífa upp eftir sig. En það hefur hins vegar þótt eftirbreytnivert að skilja eftir sig spor og þá í jákvæðri merkingu – eitthvað sem er þess vert að huga að og velta fyrir sér. Draga jafnvel lærdóm af. Svo er ekki heldur gott til afspurnar að skilja ekki eftir sig nein spor eða standa ætíð í sömu sporum. Annað hvort ber það vott um dauðyflishátt eða leynipukur. Ekki má svo gleyma hinu mörgu víxlsporum sem ekki eru eftirsóknarverð en við stígum engu að síður alltof oft – svo ekki sé nú minnst á ógæfusporin. Stígum frekar gæfuspor.
Þau eru semsé mörg sporin sem við skiljum eftir hér og þar. Umhverfið geymir þau – allar tegundir sporanna. Manneskjan getur greinilega ekki gengið hér leyndardómsfull um garða í trausti þess að enginn sjái til hennar, góðra verka sem og slæmra, eins og skötuhjúin forðum daga í umhverfisparadísinni Eden sem varð í skyndilegri nekt sinni litið á skjá himinsins þar sem reyndar stóð ekki „Error“ heldur annað því skylt: „Hvar ertu?“.
Allt er skráð þá vel er að gáð, sporin djúp og grunn, smá og stór. Hvílíkur er sá hinn harði diskur!
En við erum hvött til „að spora ekki náttúruna út.“

Vistspor

Í umhverfisfræðinni er talað um vistspor. Æskilegast er að það sé sem nettast sem svífandi fis ballettfótarins – helst ekki neitt en það er nú sennilega ógerlegt. Þetta spor er merki sem við skiljum eftir okkur í umhverfinu án þess að gefa mikinn gaum að því – þetta eru verksummerki okkar í hversdeginum hvort heldur akstur með aðra hönd á stýri eins og mjólkurbílstjórinn forðum daga eða kvöldverður þar sem rauðblæðandi nautasteik hvílir á skreyttum diskinum. Vistsporið mælir magn náttúrulegra gæða jarðarinnar sem mannkynið notar í neyslu sína. Gæði jarðar eru með öðrum orðum auðlind sem sótt er í til að fóðra neyslu okkar. Og allar lindir geta gengið til þurrðar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um tröllslegan neysluham nútímans.
Vistspor þjóðanna eru misstór eins og gefur að skilja. Víða er fullyrt að vistspor okkar Íslendinga sé býsna stórt miðað við fólksfjölda – það kemur kannski ekki á óvart – eða hvað? „Stórasta“ þjóð í heimi?
Fólk er semsé hvatt til að skilja eftir sig sem grynnsta og umfangsminnsta vistsporið. Nú þurfum við Íslendingar að taka á okkar stóra í þessum efnum. Þar hefur kirkjan líka hlutverk. Ekki bara út frá guðfræðilegum sjónarmiðum sem kristallast í náungakærleika heldur og ábyrgri siðferðislegri afstöðu gagnvart gjöfum skaparans.

Græna kirkjan

Ánægjulegt er að margir söfnuðir hafa stigið græn skref og velta fyrir sér hvernig hægt er að stíga enn fleiri. Minnka vistsporið. Þetta er vinna sem krefst samtals sem á rætur eins og fyrr sagði í kærleika til jarðarinnar, náungakærleika. Jörðin, Guðs góða sköpun er náungi okkar. Hér er í raun hvert safnaðarbarn kallað á sínum heimavettvangi til að huga að til dæmis rekstri kirkjunnar hvað snertir öll innkaup og orkunotkun, flokkun sorps og pappírsnotkun, sama á við um safnaðarheimilin og yfir höfuð allt safnaðarstarf.
Efna mætti til dæmis til „plokkguðsþjónustu“ í sókninni þar sem söfnuðurinn færi út á vettvang til að tína rusl og að því verki loknu myndi fólkið setjast niður á góðum stað og þar yrði guðsþjónusta eða helgistund höfð um hönd. Sjálfbærni er leiðarljósið – að kirkjan verði lífræn kirkja í margvíslegum skilningi!
Á prestastefnunni flutti danskur prestur, sr. Martin Ishöj, dr. theol., ljómandi gott erindi um grænu kirkjuna í Danmörku. Hann koma víða við og það var athyglisvert að hlýða á hann. Nánar má lesa um grænu kirkjuna hér: gronkirke.dk.

Kirkjuspor

Svona í lokin má skjóta því að hvort tilefni væri að koma ýta úr vör verkefni sem kalla mætti kirkjuspor. Verkefnið fælist í mjög svo umhverfismiðuðu starfi í viðkomandi kirkju – eða sókn – rekstri og öllu sem að henni lýtur. Þetta mætti auðvitað útfæra með ýmsum hætti. Hafa fleiri útiguðsþjónustur þegar veður leyfir, svo dæmi sé nefnt. Hver kirkja gæti komið sér upp útialtari í garði kirkjunnar – á sama hátt og útikennslustofur hafa rutt sér til rúms í skólunum. Sem fyrr er hægt að virkja börn og unglinga – líka foreldra. Nú reynir bara á hugkvæmni hvers og eins!
Þó verða menn að gæta þess líka að ganga ekki í „umhverfisklaustur“ – ef svo má segja – hætta nánast að draga andann og njóta lífsins af ótta við að þramma ógætilega um Guðs grænu náttúruna – þora ekki að tylla fæti sínum niður á jörð Guðs því vistsporið ógurlega traðki þá niður með húð og hári eins og spor tröllsins sem býr í fjallinu. En náttúran er vettvangur manneskjunnar og hún verður að finna sinn óttalausa meðalveg. Kirkjusporið væri kannski æfing í því?

Hreinn S. Hákonarson · 30. apríl 2018

Setningarræða á prestastefnu 24. apríl 2018

Setningarræða á prestastefnu 24. apríl 2018

Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen, vígslubiskupar, prestar, djáknar, gestir.
Sognepræst Martin Ishøj. Jeg byder dig velkommen til Island og også til vores præstekonference. Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til setningar prestastefnunnar hér í Neskirkju á því herrans ári 2018. Árinu sem við fögnum aldarafmæli fullveldisins og aldarafmæli prestafélagsins. Ég þakka fólkinu hér í Neskirkju fyrir fundaraðstöðuna og allan undirbúninginn. Einnig þakka ég synodusnefndinni samstarfið, en í henni eru auk starfsfólks á Biskupsstofu, fulltrúar úr stjórn Prestafélagsins. Ég þakka doktor Arnfríði Guðmundsdóttur fyrir prédikunina við guðsþjónustuna og þeim er þjónuðu með einum eða öðrum hætti við hana. Organistanum og kórnum hér í kirkjunni þakka ég fyrir að vera með okkur hér í dag og flytja okkur fallega tónlist. Einnig vil ég þakka starfsfólki Biskupsstofu fyrir þeirra framlag við undirbúninginn sem og þeim er hafa lagt hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

Umhverfismál
Á þessari prestastefnu verður fjallað um umhverfismálin og er yfirskriftin tekin úr 1. kafla 1. Mósebókar „Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ Umhverfismálin hafa verið á dagskrá hjá þjóðkirkjunni eins og öðrum systurkirkjum okkar undanfarin ár og því eðlilegt að þau séu til umræðu einnig á prestastefnunni nú. Biblíulestrar, fyrirlestrar og málstofur taka eðlilega mið af því.

Á kirkjuþinginu í október sagði ég m.a. í setningarræðu minni:
„Auk minningar siðbótarinnar stendur upp úr öllu því mikla og góða starfi þjóðkirkjunnar og þjónustu hennar um landið allt, ráðstefna Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina sem fram fór í samvinnu við þjóðkirkjuna, í síðasta mánuði. Þetta var í fyrsta skipti sem slík umhverfisráðstefna er haldin hér á landi. Fulltrúar þeirrar ráðstefnu tóku einnig þátt í ráðstefnu hringborðs norðurslóða, Artic Circle þar sem aðalræðumaðurinn var hans heilagleiki Bartholomew fyrsti, leiðtogi grísk orþódoxu kirkjunnar, annarrar stærstu kirkjudeildar heims á eftir rómversk kaþólsku kirkjunni.“
Það er gleðilegt að aftur hefur verið óskað eftir þátttöku kirkjunnar á næstu norðurslóðaráðstefnu í október í haust og er stefnt að því að daginn fyrir ráðstefnuna komi biskupar af norðurslóðum saman og ráði ráðum sínum varðandi umhverfismálin. Þeir munu síðan taka þátt í norðurslóðaráðstefnunni og prédika í kirkjum á suðvesturhorninu á sunnudeginum, áður en haldið er heim.
Umhverfismálin hafa verið á dagskrá þjóðkirkjunnar. Söfnuðir hafa verið hvattir til þátttöku í tímabili sköpunarverksins sem stendur yfir frá 1. september til 4. október í ár eins og síðast liðið ár. Markmiðið er að umhverfisstarfið tvinnist inn í daglega starfsemi safnaðanna og kirkjunnar allrar. Ég hef hvatt til athafna í hverjum söfnuði og tel æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á starfsemi sinni. Á morgun mun fulltrúi Umhverfisstofu fræða okkur nánar um það ferli. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C. Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum.
Á ráðstefnunni um réttlátan frið við jörðina var samþykkt ályktun sem allir viðstaddir þátttakendur skrifuðu undir í Þingvallakirkju. Þar segir m.a.: „Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi.
Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra lífshættti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði. Og við fögnum því að kirkjur og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði. Sé horft til þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.“
Lokaorð yfirlýsingarinnar, hljóða þannig. „Í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.“

Hið íslenska biblíufélag
Biskup Íslands er forseti hins íslenska Biblíufélags og hefur verið það allt frá stofnun félagsins þann 10. júlí árið 1815. Geir Vídalín var þá biskup Íslands og þar með fyrsti forseti félagsins. Telst mér til að ég sé 14. forseti félagsins. Í stjórn þessa elsta starfandi félags landsins eru auk biskups Íslands 4 guðfræðingar og 4 leikmenn. Nýr verkefnisstjóri tók til starfa í byrjun árs og er það Guðmundur Brynjólfsson djákni. Skrifstofan flutti frá Biskupsstofu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar í lok febrúar. Ný heimasíða félagsins var einnig opnuð á árinu og Biblían á íslensku er nú komin á app. Tilkoma snjalltækja felur í sér mikla samfélagsbreytingu og er stór hluti Íslendinga með snjalltæki á sér flestar stundir. Þegar Biblían er aðgengileg á slíku appi þá þýðir það að meirihluti Íslendinga verður með rafrænan aðgang að Biblíunni í vasanum, allar stundir! Er það von stjórnarinnar að þessar breytingar allar verði til blessunar fyrir kirkju og almenning.

Áskorun afhent
Þann 15. janúar 2018 afhentu formaður félags prestsvígðra kvenna og varaformaður Prestafélagsins áskorun til yfirstjórnar kirkjunnar. Undir hana skrifa 65 prestsvígðar konur. Í áskoruninni segir:
„Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.
Allar konur eiga rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum. Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýna svart á hvítu að breytinga er þörf.

Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.
Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Undir þessa yfirlýsingu skrifa konur í prestastétt. Ekki er víst að náðst hafi í allar prestvígðar konur við gerð þessarar áskorunar.“
Áður höfðu karlkyns prestar og djáknar sent frá sér yfirlýsingu á facebook. Þann 24. nóvember var þessi yfirlýsing birt:
„Við, karlprestar og karldjáknar í þjóðkirkjunni, heitum því að gera allt sem við getum til að tryggja konum öryggi innan þjóðkirkjunnar og þar sem við höfum völd og áhrif.
Þöggun um kynferðislega áreitni og valdbeitingu verður ekki liðin af okkar hálfu.
Við munum tilkynna áreitni sem við verðum vitni að.“ Undir þessa yfirlýsingu skrifa 73 karlar.
Það ljóst að alheimsbyltingin metoo hefur náð inn í kirkjuna okkar og um það eru flestir sammála að taka hana alvarlega og vinna að siðbót innan hennar til að tryggja öruggar aðstæður fyrir þau öll er henni þjóna og hana sækja.

Árið 2012 skilaði svonefnd úrbótanefnd tillögum sínum um úrbætur til að takast á við mál af þessum toga. Það hefur verið erfið fæðing að koma þeim tillögum í framkvæmd en ein þeirra verklag í viðkvæmum aðstæðum verður kynnt hér á prestastefnunni. Hugmyndin er að þau öll sem þjóna innan kirkjunnar með einum eða öðrum hætti fari í gegnum netnámskeið um verklag í viðkvæmum aðstæðum og er það einn þátturinn í að gera kirkju okkar betri og öruggari fyrir alla. Einnig vil ég minna á að árið 2003 gaf kirkjan út efni, „Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ og er það gott innlegg í umræðu dagsins um úrbætur í kirkjunni.

Fræðslustarf
Eins og kunnugt er þurfti að setja ýmis mál í biðstöðu vegna fjárskorts þegar kirkjunni var gert að skera niður fjárhagslega vegna hrunsins. Sem betur fer hefur staðan batnað og nú er verið að vinna að því að auka fræðslustarf kirkjunnar til muna. Það er alveg ljóst að kirkjan verður sjálf að axla ábyrgð varðandi kristindómsfræðslu ef komandi kynslóðir eiga að kunna á henni einhver skil. Öll fræðsla kirkjunnar er skírnarfræðsla, enda er það að boði frelsarans sjálfs sem við erum send út með það erindi að skíra og kenna. Skírnum hefur fækkað hér á landi eins og í nágrannalöndum okkar og er það ávísun á minnkandi þekkingu á kristinni trú og þeim gildum sem felast í henni. Það er alvarlegt mál fyrir kirkjuna ef hún stendur sig ekki í skírnarfræðslunni og þegar nýr verkefnisstjóri var ráðinn á fræðslusviðið síðast liðið haust setti ég fræðslu um skírnina sem forgangsmál.

Viðbótarskyldur – breyting á launakerfi
Nokkrir prestar í fámennum prestaköllum hafa fengið viðbótarskyldur við þjóðkirkjuna, m.a. í fræðslumálum. Varðandi þessar viðbótarskyldur þá vil ég taka fram að sé sóknarprestsstaða auglýst með viðbótarskyldum við þjóðkirkjuna þá gengur sóknarprestsstarfið alltaf fyrir. Viðkomandi prestur er fyrst og fremst sóknarprestur og þjónn sóknarbarna sinna. Þannig hefur verið hægt að auglýsa fámenn prestaköll en ekki leggja þau niður eða sameina þau öðrum.

Mínar hugmyndir um framtíðarskipan prestakalla eru þær að prestaköll verði í framtíðinni stór með mörgum prestum. Svo dæmi sé tekið, þar sem ég þekki best til, þá sé ég fyrir mér að öll Ísafjarðarsýsla verði eitt prestakall þar sem prestarnir vinni saman, skipuleggi saman og skipti með sér verkum þó þeir búi á mismunandi stöðum í prestakallinu. Þetta tel ég vera ákall nútímans og framtíðarinnar. Ég hef tekið eftir því að unga fólkinu hugnast ekki að vera einyrkjar. Þannig tel ég líka að bæta megi þjónustu við sóknarbörnin og jafna álag presta í starfi. Þetta sé ég fyrir mér um allt land, í dreifbýli, sem og í þéttbýli.
Eins og kunnugt er var gerð breyting á launakerfi presta í lok síðasta árs. Horfið var frá jafnlaunastefnunni sem ríkt hefur í prestastéttinni um árabil. Prestar eru nú í ólíkum launaflokkum. Þegar til framtíðar er litið þá getur þessi stefna t.d. haft þau áhrif að sum prestaköll verða rýr á meðan önnur gefa meira. Ef prestaskortur verður eins og hefur gerst í kirkjusögunni þá getur verið erfitt að manna rýrt prestakall sem e.t.v. vill er með mörgum litlum sóknum, fámenni í dreifðum byggðum. Stækkun prestakallanna ætti því að vera jákvæð þegar horft er til þessarar breytingar á launastefnunni.
Það eru fleiri vígðir þjónar í kirkju okkar en prestar í sóknum landsins. Nokkrir djáknar starfa í sóknum og hjá stofnunum með prestum eða sem einyrkjar. Prestar eru líka í þjónustunni sem sinna fólki í sérstökum aðstæðum. Sjúkrahúsprestar, fangaprestur, prestur heyrnarlausra, prestur fatlaðra, prestur Kvennakirkjunnar og prestur innflytjenda. Mikið hefur mætt á þeim síðastnefnda, Toshiki Toma undanfarin ár og hefur hann þjónað þeim sem hingað leita erlendis frá, m.a. hælisleitendum sem margir hverjir hafa flúið ömurlegar aðstæður sínar og sumir vegna trúar sinnar. Ég þakka honum og ykkur öllum sem hafið tekið þátt í starfinu með honum.

Unga fólkið
Unga fólkið er framtíðin er oft sagt með réttu. Á síðasta kirkjuþingi var samþykkt ályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi og stjórn. Þessi ályktun fylgir eftir ályktun tólfta þings Lúterska heimssambandsins frá síðasta ári um þátttöku ungs fólks í stjórn aðildarkirkna sambandsins. Miðað er við að ungt fólk á aldrinum 16 – 30 ára verði að jafnaði minnst tuttugu prósent innan hverrar skipulagsheildar í kirkjunni. Þetta á m.a. við varðandi kirkjuþingið sem kjósa á til í næsta mánuði. Við erum ekki að standa okkur vel í þessum efnum og verður fróðlegt að sjá hvort breyting verður á. Ungt fólk í prestsþjónustu, þ.e. innan við þrítugt nær ekki einu sinni 5% eins og er.
Kirkjuþing unga fólksins er haldið ár hvert og ljóst er af þeim málum sem þar eru á dagskrá að ungt fólk er lengra komið í hugsun en eldra fólk, t.d. hvað umhverfismál varðar. Víða er æskulýðsstarf í blóma en ljóst er að við verðum að leggja enn meiri áherslu á það í náinni framtíð.
Farskóli leiðtogaefna útskrifar nema árlega, nú síðast þann 11. apríl. Ungmenni í farskólanum stunda tveggja ára leiðtoganám. Markmið skólans er að vera stuðningur við söfnuði í þjálfun hæfra og góðra leiðtoga og þannig undirbyggja faglegt barna- og unglingastarf innan kirkjunnar. Í farskólanum er fræðsla um kristna trú, kirkjuna og starf hennar. Nemendur eru þjálfaðir í félagsstörfum um leið og áhersla er lögð á að sinna uppbyggingu hvers þátttakanda. Einnig er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag. Farskólinn hefur starfað um árabil og margir nemendurnir tekið þar sín fyrstu skref sem leiðtogar innan kirkjunnar.

Leitandi.is
Eins og flestir vita hefur verið settur í loftið nýr vefur á vegum kirkjunnar sem kynna á það góða starf sem fram fer í kirkjum og sóknum landsins. Þar er fjallað um gildi góðs lífs og haldið á lofti því sem fólkið í kirkjunni hefur fram að færa. Myndver hefur verið sett upp hér á neðri hæðinni í Neskirkju en hluti af efninu á vefnum birtist í myndbandsformi. Tilvist þessa nýja vefs hefur ekki farið hátt enda er hann enn í þróun en engu að síður er alveg óhætt er að halda honum á lofti og benda á hann. Prestum landsins hafa nýverið verið sendar upplýsingar frá vefstjóranum og hvet ég ykkur til að kynna ykkur vefinn og nýta ykkur hann.
Kirkjan hefur fleira en prédikunarstólinn til að koma boðun sinni, fræðslu og kynningu á framfæri. Með nýjum aðferðum og nýrri tækni myndast tækifæri til að koma boðskapnum til skila með þeim miðlum sem eru fyrir hendi á hverri tíð. Tæknin kemur þó ekki í stað mannlegra samskipta og því mun áfram verða net kirkjunnar þjóna um land allt þó betri samgöngur og breyting á íbúaþróun hafi þar eitthvað að segja.

Samstarf og GTD
Um árabil hefur samstarf verið á milli þjóðkirkjunnar og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands um menntun presta. Sérstakur samningur hefur verið endurnýjaður og bættur, nú síðast árið 2017. Er hann gerður til að styrkja tengslin milli þessara aðila með það að markmiði að efla starfsmenntun og starfsþjálfun verðandi þjóna kirkjunnar. Til að hljóta embættisgengi þurfa nemendur að klára mag.theol. próf frá H.Í. og starfsþjálfun frá þjóðkirkjunni. Þetta samstarf hefur verið gefandi og árangursríkt og geta má þess að á ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina voru guðfræðinemar sjálfboðaliðar og lögðu ráðstefnugestum lið og sáu um ýmis hagnýt mál fyrir ráðstefnuna og á henni. Er þeim þakkað ánægjulegt samstarf.

Umsagnir og viðtöl
Undanfarna mánuði hafa mörg frumvörp verið borin upp á Alþingi er snerta trú og lífsskoðun. Má þar nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, tillögu til þingályktunar um dánaraðstoð og frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum er varða umskurð drengja. Biskup hefur sent umsagnir um þessi mál og fleiri en mesta athygli hefur vakið málið varðandi umskurð drengja. Innlendir og erlendir fjölmiðlar hafa óskað eftir viðbrögðum biskups og það ásamt fleiru leiddi til þess að ráðstefna var haldin í síðustu viku í Norræna húsinu á vegum samráðsvettvangs trúarbragðanna um málið. Fyrirlesarar voru flestir erlendir, gyðingar, múslimar, kristnir, stjórnmálamenn og fólk sem vinnur á vegum kirknasamtaka. Þarna var virðing fyrir mismunandi skoðunum í hávegum höfð og augljóst að málið á sér margar hliðar sem verður að taka tillit til við afgreiðslu þess á Alþingi. Ráðstefnunni var streymt beint út og á að vera hægt að sjá hana á veraldarvefnum. Skipuleggjendum ráðstefnunnar, fulltrúum trúarbragðanna í samráðsvettvangnum, er þakkað þeirra góða starf, en fyrir því fer Jakob Rolland prestur kaþólskra nú um stundir.

Þess skal og getið að verið er að vinna að uppsetningu nýrra vefja í stað kirkjan.is og tru.is. Efni prestastefnunnar og önnur gögn hennar hafa verið sett inn á nýjan þjónustuvef, innri vef kirkjunnar. Þessi vinna hefur tekið allt of langan tíma og hefur það valdið ýmsum vandræðum s.s. við skýrsluskil. Er beðist velvirðingar á því.

Mannauðsmál
Stjórnsýsla kirkjunnar tekur mið að regluverki og stjórnsýslu ríkisins. Um árabil hefur það tíðkast að prestar sem hafa látið af störfum hafa getað sinnt afleysingaþjónustu og er þeim öllum sem brugðist hafa vel við slíkri beiðni þakkað fyrir. Nú hefur það hins vegar komið í ljós að biskup getur ekki sett presta sem orðnir eru 70 ára til afleysinga eins og verið hefur. Þetta kann að hafa það í för með sér að vígja þurfi presta til afleysingaþjónustu. Það hefur ekki verið gert í fjölda ára. Nokkrir prestar hafa óskað eftir því að minnka þjónustu sína í 50% starf og hefur verið reynt að bregðast við því eins og flestu því er lýtur að mannauðsmálum í kirkjunni.

Kynning á niðurstöðu starfsánægjukönnunar sem gerð var á síðasta ári hefur farið fram í öllum prófastsdæmum. Undirbúningur stendur yfir að því að gera áætlun um hvernig unnið verði úr niðurstöðum könnunarinnar. Verður það gert í samstarfi við prestastéttina. Niðurstöður könnunarinnar voru í flestu jákvæðar, að mínu mati, og verður reynt að bæta úr þeim atriðum sem fram kom að laga þurfi. Ég þakka ykkur fyrir að taka þátt og gera okkur þannig kleift að bæta kirkjuna og gera hana að betri og öruggari vinnustað.

Persónuvernd
Ný reglugerð um persónuvernd tekur gildi á Evrópska efnahagssvæðinu þann 25. maí nk. Í reglugerðinni felst aukin vernd neytenda gegn misnotkun persónuupplýsinga og að draga úr söfnun upplýsinga og miðlun. Margvísleg fleiri nýmæli er þar að finna. Þjóðkirkjan þarf að undirbúa gildistöku reglnanna eins og aðrir. Söfnuðir og aðrar skipulagsheildir kirkjunnar, vígðir þjónar og aðrir starfsmenn þurfa að huga að þessum málum. Biskupsstofa hefur hafið undirbúning að þessu verkefni og fengið sérfræðinga til ráðgjafar. Vígðir þjónar gegna mikilvægu hlutverki við innleiðingu reglugerðarinnar hvað varðar skráningu og meðferð persónuupplýsinga í sóknum og í tengslum við prestsþjónustu við einstaklinga. Biskupsstofa mun senda öllum vígðum þjónum í þjónustu þjóðkirkjunnar nánari upplýsingar um þetta mál mjög fljótlega. Ég treysti því að vígðir þjónar muni bregðast vel við og taka þátt í þessu þýðingarmikla verkefni, sem snýst ekki hvað síst um að virða mannhelgi allra.

Nývígðir prestar og djákni
Á synodusárinu voru 5 prestar vígðir og einn djákni.
Mag. theol. Stefanía G. Steinsdóttir, var vígð 13. ágúst 2017, skipaður prestur í Glerárprestakalli, Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 15. ágúst 2017.
Cand. theol. Sylvía Magnúsdóttir, var vígð 24. september 2017, til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Mag.theol. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, var vígð 12. nóvember 2017, skipaður sóknarprestur í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 15. nóvember 2017.
Mag.theol. Dís Gylfadóttir, var vígð 12. nóvember 2017, sem prestur í Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. nóvember 2017.
Mag.theol. Díana Ósk Óskarsdóttir, var vígð 25. mars 2018 til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Nývígður djákni
Elísabet Gísladóttir, var vígð 24. september 2017, sem djákni á Sóltúni í Reykjavík.

Skipanir í embætti og lausn frá embætti
Séra Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní 2017.
Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur heyrnarlausra, skipaður prestur í Njarðvíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní 2017.
Séra Sveinn Valgeirsson, prestur í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipaður sóknarprestur í sama prestakalli frá 1. júlí 2017.
Séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Noregi, skipaður prestur í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. október 2017.
Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. nóvember 2017.
Séra Sunna Dóra Möller, prestur í Akureyrarprestakalli, skipaður sóknarprestur í Hjallaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 16. janúar 2018.
Einnig tók séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir við embætti prests í Kvennakirkjunni auk þess að sinna verkefnum er lúta að áskorun prestsvígðra kvenna um siðbót innan kirkjunnar hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.

Andlát
Prestar
Séra Gísli Halldórsson Kolbeins, fyrrv. sóknarprestur í Stykkishólmsprestakalli Vesturlandsprófastsdæmi, lést 10. júní 2017. Hann var fæddur 30. maí 1926.
Eftirlifandi eiginkona séra Gísla er Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir.
Séra Björn Helgi Jónsson, fyrrum sóknarprestur í Húsavíkurprestakalli, Þingeyjarprófastsdæmi, lést 1. apríl 2018. Hann var fæddur 31. október 1921.
Prestsmakar
Frú Unnur Guðjónsdóttir, ekkja séra Péturs T. Oddssonar. fyrrv. sóknarprests í Hvammsprestakalli og prófasts í Dalaprestakalli, lést 1. september 2017. Séra Pétur lést 1956.
Frú Jakobína Finnbogadóttir, ekkja séra Þóris Kr. Þórðarsonar, prófessors við guðfræðideild Háskóla Íslands, lést 18. desember 2017. Þórir Kristinn lést 26. febrúar 1995.
Frú Auður Guðjónsdóttir, ekkja séra Kristjáns Róbertssonar, fyrrv. sóknarprests í Seyðisfjarðarprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi, lést 1. mars 2018. Séra Kristján lést 2008.
Frú Beta Einarsdóttir, eiginkona séra Fjalars Sigurjónssonar, fyrrv. sóknarprests í Kálfafellsstaðarprestakalli og prófasts í Skaftafellsprófastsdæmi lést 2. mars 2018.
Frú Sigurveig Georgsdóttir, eiginkona séra Lárusar Guðmundssonar, fyrrv. sendiráðsprests í Kaupmannahöfn, lést 4. mars 2018.
Við þökkum Guði fyrir trúa þjónustu þeirra í kirkjunni og biðjum Guð að helga minningu þeirra og blessa ástvini þeirra. Rísum úr sætum og lútum höfði í hljóðri bæn.

Jafnræði Umhyggja Samstaða
Í biskupstíð minni hef ég leitast við að fara ekki í manngreinarálit þegar mál koma upp. Ég hef ávallt haft að leiðarljósi að allir séu jafnir, hafi jafnan rétt og fái réttláta málsmeðferð. Starfsmannamál eru erfiðust allra mála og aldrei má gleyma því að bak við hvert slíkt mál er manneskja sem á sér fjölskyldu og vini sem líka þjást þegar erfiðleikar steðja að. Biskupsembættið verður að lúta lögum og reglum og lögfræðingar eru best til þess fallnir að lesa úr þeim og veita lögfræðilegar leiðbeiningar og ráð. Í hverju máli ráðfæri ég mig við fleiri en einn lögfræðing áður en ákvörðun er tekin og bið einnig Guð um leiðbeiningu og hjálp. Það kemur fyrir að menn eru ekki sáttir við niðurstöðu mína og þá er hægt að skjóta málum til annarra aðila innan kirkju sem utan. Það er réttur hvers manns.
Umhyggja er góður eiginleiki stjórnenda og á það líka við í kirkjunni.

Samstaða er nauðsynleg í kirkjunni. Án hennar mun okkur ekki takast að gera kirkjuna betri. Við höfum öll það hlutverk að koma fagnaðarerindinu til skila og ljóst er að orð baráttumannsins „sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér“ eiga við kirkjuna, þegar sótt er að henni úr öllum áttum.

Kirkjan er samfélag, þar sem umhyggja og kærleikur eiga að ríka. Hún flytur það besta erindi sem mannkyni hefur borist um fullkomna elsku Guðs til manna. Framkoma okkar gagnvart hvert öðru á að endurspegla þá elsku. Jesús sagði og segir enn: “Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“
Ég þakka ykkur trúa þjónustu í kirkju Krists og bið hann að gefa ykkur kraft og djörfung til góðra verka.

Göngum með gleði til starfa á þessari prestastefnu. Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists. Bræður og systur. Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast. Prestastefna Íslands árið 2018 er sett.

Agnes Sigurðardóttir · 30. apríl 2018

Tómhyggja og dómhyggja

„Taugavísindi sýna að við erum ekki með sál.“ Svona kemst merkur taugalíffræðingur að orði. Hann ritaði metsölubók og fékk miklu fleiri gesti á fyrirlestur sinn en biskup við páskamessu sína. Um þetta ritar Sif Sigmarsdóttir í pistli sínum [Dómkirkja – tómkirkja] í Fréttablaði laugardagsins. Hún segir okkur svo frá því að raunvísindin hafi nú tekið til við að svara þeim spurningum sem trúin sat áður ein að.

Við lestur greinarinnar varð mér hugsað til þekktra rökræðna í breska ríkisútvarpinu frá því um miðja síðustu öld. Heimspekingarnir Bertrand Russell og Fred­erick Copleston ræddu þar um trúmál. Russell var á móti guðstrú en Copleston kom henni til varnar. Að lokinni þessari rimmu spurðu pistlahöfundar þess tíma sig að því, hvor þeirra hefði haft betur. Niðurstaðan var áhugaverð. Copleston var talinn hafa haft yfirhöndina þegar kom að siðferði og mannlegri breytni. „Ef Guð er dauður er allt leyfilegt,“ sagði Dostojevskí. Hann reyndist þar sannspár um heljarstefnur 20. aldarinnar þar sem valdhafar lutu hvorki valdi að neðan né ofan. Á hinn bóginn átti verjandi guðstrúar engin svör við þeirri rökréttu ályktun hins guðlausa sem var einhvern veginn á þessa leið: Hvernig getur heimur, sem á sér ekkert upphaf, átt einhvern skapara? Taramm.

Guðfræðingurinn Georges Le­maître hafði reyndar áður sett fram kenninguna um Miklahvell (sem sumir virðast nú halda fram að sé ósamrýmanleg guðstrú í hvaða formi sem er) en sú kenning hafði þá ekki hlotið almenna viðurkenningu. Russell taldi eins og flestir aðrir á þeim tíma að heimurinn ætti sér ekkert upphaf.

Og nú deilir Sif með okkur ýmsum tilvistarlegum yfirlýsingum vísindamanna úr röðum guðleysingja sem ganga út á það að dauðinn sé endalok alls og að sálin sé ekki til. Hver veit nema að um síðir muni sitthvað koma í ljós sem rýrir þá ályktun þeirra? Það er þó ekki víst. Af hverju? Jú, vegna þess að þegar þeir setja þessar vangaveltur fram í nafni raunvísinda fara þeir út fyrir verksvið sitt. Immanuel Kant kallaði það tálsýnir skynseminnar að ætla sér að skilja Guð, eilífðina og sálina. Lífið á sér fleiri víddir en þær sem vegnar verða og mældar.

Ársæll Arnarson, prófessor í sálfræði við HÍ, ræðir þessi mál í lok bókar sinnar, Síðustu dagar sálarinnar. Honum er það hugleikið hvernig fólk virðist leggja hreinan átrúnað á vísindalegar kenningar, þótt þær séu eðli málsins samkvæmt settar fram í krafti þess að um síðir kunni þær að verða afsannaðar. Ársæll segir: „Þannig virðist fólk jafnvel ímynda sér að taugavísindin hafi fundið heilasvæði sem fyrrum var talið að innihéldi sálina og að komið hafi í ljós að þar var bara efni en engin merki um andleg fyrirbæri. Slíkur átrúnaður er bæði rangur og getur hreinlega haft í för með sér óþarfa þröngsýni og tilfinningalega vanlíðan“

Við sem erum hluti af þjóðkirkjunni höfum ekki áhuga á því að fella stóra dóma. Þjóðkirkjan er ekki dómstóll, hún er líkari torgi þar sem fólk er velkomið með sjónarmið sín og spurningar. Trúin er blessunarlega nógu djúp og breið til að skapa svigrúm fyrir samtal fólks sem lætur sig varða lífið og tilveruna. Trú og vísindi eru engar andstæður, en vísindatrú kann að vera í andstöðu við hvort tveggja, vísindi og trú.

[Birtist í Fréttablaðinu 19. apríl 2018]

Skúli Sigurður Ólafsson · 19. apríl 2018

Framhjáhald

Nú er lokið 22. starfsári hjónanámskeiðanna sem hófu starfsemi sína árið 1996 í Hafnarfjarðarkirkju. Fullsetið var á öll námskeið vetrarins að venju og margt bar á góma - meðal annars framhjáhald, sem ætlunin er að ræða í þessum pistli.

Traust og trúnaður eru grundvallaratriði í hverju sambandi. Samt vitum við að bæði karlar og konur brjóta þennan trúnað. Kannanir sýna að ákveðinn hluti karla og kvenna hafa átt í ástarsamböndum samhliða sambúð eða hjónabandi. Fæstir í sambúð eru kannski hissa á þessu. Það kostar bæði vilja og staðfestu að vera trúr. Og þó að bæði vilji og staðfesta séu fyrir hendi, þá dragast bæði karlar og konur að öðrum en maka sínum, gefa öðrum auga, daðra, „svona í mesta sakleysi“. Það væri kannski allt í lagi að viðurkenna þessa staðreynd, það eitt og sér myndi fyrirbyggja framhjáhald. Því oft er það einhver óljós spenningur sem er kveikjan að framhjáhaldinu, spenningur sem aftur breytist í samviskubit og vanlíðan hjá mörgum eftir að framhjáhaldið hefur átt sér stað. Á ýmsum tímabilum lífsins þramma margir í gegnum sprengjusvæði hvað þetta varðar, meðvitað og ómeðvitað. Freistingarnar leynast víða. Og margir framkvæma þá þvert á fyrri heit. Framhjáhald er eitt það versta sem komið getur fyrir samband og leiðir margt illt af sér. Það ætti enginn að hafa framhjáhald í flimtingum. Framhjáhald hefur eyðilagt allt of mikið bæði fyrir einstaklingum og heilu fjölskyldunum til þess.

Stundum halda menn því fram að hliðarspor í hjónabandinu sé nú bara ágætt og til þess fólgið að hleypa nýjum eldi í kulnaðar glæður. Aðrir segja að það sé jafnvel hollt og til marks um sjálfstæði parsins í sambandinu og umburðarlyndi. En þau pör sem hafa upplifað framhjáhald í sínu eigin sambandi myndu ekki lýsa því svona fjálglega. Framhjáhald er rótin að gagnkvæmri vantrú, afbrýðisemi og biturleika. Þegar traustið er rofið eiga flestir erfitt með að vinna sig út úr ástandinu sem skapast. Að halda áfram í sambandinu krefst gríðarlegrar vinnu.

Öll berum við ákveðnar væntingar til hjónabands og sambúðar. Við væntum þess t.d. að í hjónabandinu okkar munum við eignast maka sem elskar okkur og sýnir okkur vináttu. Við vonumst eftir tryggð og trúnaði í sambandinu okkar og eftir fullnægjandi kynlífi. En lífið verður sjaldan eins og væntingarnar sem við gerum okkur til þess. Og iðulega er það svo að þó að við komum inn í samband með okkar drauma og vonir, þá þekkjum við ekki til væntinga og drauma maka okkar.

Ástarbriminn og spenningurinn sem við fundum fyrir í upphafi sambúðarinnar eða þegar við fyrst urðum ástfanginn minnkar með tímanum. Vaninn og grámygla hversdagsins fyllir dagana og næturnar með. Og flestir hafa í nægu að snúast. Börnin, vinnan, áhugamálin og heimilishaldið tekur allan tímann frá okkur og lítill tími er aflögu fyrir ástarsambandið. Þannig líður flestum á vissum tímabilum lífsins. En við getum vanist flestu og reynt að lifa af þessi erfiðu tímabil sem allir ganga í gegnum, meira að segja þó að það þýði að draumar okkar rætist ekki eins og við hefðum þó viljað. Þannig lifa margir lífi sínu, áfallalaust að mestu, við kaffiþamb og sjónvarpsafþreyingu. Kynlífið er slappt þegar best lætur en ekkert þess á milli. Hrynjandi hversdagsins gefur okkur öryggiskennd og tilgang með lífinu og það er okkur og börnunum okkar mikilvægt.

En eitthvað vantar…………..

Bæði konur og karlar geta meðvitað og ómeðvitað óskað sér innst inni annarrar tilveru en þeirrar sem hér var dregin upp. Hversdagslífið nægir ekki. Þau vilja lifa fjölbreyttara lífi, vilja hafa spennu og eftirvæntingu í tilverunni og spyrja sig efalasut oft yfir uppvaskinu, í röðinni í bankanum eða þegar börnin halda fyrir þeim vöku með gráti: „Var þetta allt og sumt sem lífið hafði upp á að bjóða?“

Lífsgildi mælast ekki aðeins í peningum heldur einnig í hamingju sambúðar. Hamingjuleitin er drifkraftur lífsins. Áhrif frá fjölmiðlum og auglýsingum ýta undir óánægjuna og trúnna á að til sé eilíf hamingja og eilífur ástarbrimi. Margir gefast upp á því að finna það sem þeir eru að leita að í því sambandi sem þeir eru í. Þeir upplifa þar aðeins bæði tilbreytingarleysi, einmanaleika og skort á skilningi leita því uppi annan félaga. Og þar með er framhjáhaldið staðreynd. Þráin eftir hlýju og spennu hrekur mann burt frá þeim sem ætti að vera manni næstur. Þannig hefur samfélag við vinnufélaga af gagnstæðu kyni orðið mörgum hjónaböndum ógnun, sérstaklega þar sem haldin eru makalaus vinnustaðapartý og veislur. Vinnufélaginn er alltaf hress og spennandi og gerir ekki þær kröfur sem heimilið gerir. Framhjáhald verður síðan að veruleika án þess að viðkomandi endilega hafi ætlað sér það. Eða hvað?

Það eru aftur til þeir sem í samtölum við prest segja að þeir hafi fyrst uppgötvað hvað það var sem þeir söknuðu í sambúð sinni þegar þeir héldu framhjá. Þess vegna eru þeir í raun hissa á eigin framkomu. Um leið kenna þau maka sínum um hvernig komið er , alla vega að hluta til og segja : „Ég hef ekki fengið það út úr sambandi mínu við maka minn sem ég vildi. Þess vegna tók ég þetta hliðarspor.“

Hjónaband og sambúð getur orðið svo hversdagslegt fyrirbæri að makarnir fara að líta á hvort annað eins og hluta af innréttingunni. Allir hafa þörf fyrir að vera einhvers virði, að vera einhvers metnir, að eftir þeim sé tekið. Að hitta einhvern annan en makanna sem hefur áhuga fyrir manni og hefur e.t.v. sömu áhugamál, getur verið spennandi og kitlandi. Þá getur maður líka talað um vandamálin heimafyrir án skuldbindinga, orðað það sem maður leggur ekki í að segja við maka sinn. Ef úr verður ástarsamband við þennan þriðja aðila, þá er makinn bara orðinn að enn stærra vandamáli, því þá bætist pukur og samviskubit við vandamálin sem voru fyrir í sambúðinni. Og þá er stutt í skilnaðinn og upplausn gömlu fjölskyldunnar.

Sú trú að makinn eigi að uppfylla alla drauma og vonir manns eyðileggur mörg sambönd. Margir segja aldrei frá væntingum sínum í sambúðinni en loka sig bara inni í skel þegar þessar óorðuðu væntingar uppfyllast ekki. Og þar með er parið læst í tilveru sem er ófullnægjandi fyrir báða aðila. Hvorugur þorir að orða hugsanir sínar af ótta við upplausn og deilur. Í staðinn leita menn út fyrir sambúðina í þeirri vissu að þar sé grasið grænna. Og það á við bæði í rúminu og á öðrum sviðum.

Þau eru ekki svo fá samböndin sem lenda í erfiðleikum vegna framhjáhalds þegar komið er fram á „miðjan aldur“. Þá er eins og vakni einhver þörf hjá sumum fyrir að fá staðfestingu á því að maður sé nú enn ungur og gjaldgengur. Þetta hefur verið kallað „grái fiðringurinn“ í gríni. Margir eiga erfitt með að sætta sig við að hrukkunum fjölgar, hárunum á höfðinu fækkar eða þau grána og bílhringir taka að hlaðast upp á vissum stöðum líkamans. Þetta á við um bæði konur og karla. Æskudýrkun samtímans ýtir undir þessa sjálfsmyndarkreppu hins miðaladra. Allir eiga að vera ungir, fallegir og eftirsóknarverðir. Auglýsingar skapa þá mynd af raunveruleikanum að verðleiki einstaklingsins miðist við útlit.

Ef síðan yngri karl eða kona gefur hinum miðaldra undir fótinn styrkist sá hinn sami í þeirri trú að „maður sé nú enn gjaldgengur“, einhvers virði. Það eru ófáir sem vilja sanna sjálfan sig með því að taka hliðarspor í hjónabandinu. En oftast kemur fljótlega í ljós að það er erfitt að lifa í einhverri ímynd sem ekki er maður sjálfur. Margir hafa þannig glatað blæði maka sínum og sjálfum sér þegar glansmyndin og nýjabrumið fer af sambandinu við ástkonu eða ástmann. Þá rennur upp það ljós að aldur segir ekki allt og útliðið ekki heldur og að makinn fyrrverandi var það sem í raun og veru gaf lífinu gildi. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Ýmsir upplifa hjónaband og sambúð sem bindingu er þeir telja að útiloki sig frá bjartari hliðum tilverunnar. Þessir hinir sömu óttast að verða háðir maka sínum og þar með auðsæranlegir og ósjálfstæðir. Að gefa sig þannig ástinni á vald veldur kvíða gagnvart afleiðingunum. Kannski hafa þeir áður farið illa út úr ástarsambandi. Svo eru líka þeir einstaklingar sem vilja ráða sér sjálfir í einu og öllu og hafa ekki áhuga á að gefa af sér í sambandinu. Þeir vilja aðeins njóta, fá eitthvað fyrir sinn snúð en vilja ekkert leggja að mörkum á móti. Samt hafa þeir ekki styrk til þess að taka frumkvæðið og slíta sambúðinni eða hjónabandinu. Hvað sem veldur, þá nota þeir þriðja aðila til þess að svíkja heit sín og brjótast þannig út úr sambandi sem þeir vilja ekki lengur vera þátttakendur í. Framhjáhaldið verður þá einskonar tæki, aðferð til að losa sig við maka sinn, fjölskyldu og skuldbindingar. Það versta sem þessir aðilar vita er sú staða sem kemur upp, þegar makinn þrátt fyrir allt vill „reyna áfram“.

Það er reyndar ekki hægt að vera í ástarsambandi og búa saman sem par án þess að verða háður maka sínum á einhvern hátt. Og það er reyndar alls ekki neikvætt, heldur getur það þvert á móti verið af hinu góða. Að elska er að gefa sig öðrum á vald. Þar með verður maður líka auðsæranlegur. Að elska er að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Það er ekki hægt að elska með skilyrðum.

En málin eru sjaldan eins einföld og sú mynd sem hér hefur verið dreginn upp af þeim sem ekki vill binda sig. Margir sem hafa haldið fram hjá maka sínum, bera þá reynslu með sér í gegnum tilveruna sem þunga byrði. Vonbrigðin með sjálfan sig og samviskubit gagnvart makanum verður að sári sem seint grær. Og framhjáhaldið verður sjaldan til þess að einfalda hlutina heldur þvert á móti magnar það upp þann vanda sem fyrir var. Og nú er auk þess kominn nýr aðili, jafnvel ný fjölskylda til sögunnar, þ.e. sá sem haldið var framhjá með og öll hans mál.

Trúnaður er grundvallaratriði í hverri sambúð og hverju hjónaband eins og í öðrum samskiptum í lífinu. Ef við gerum okkur grein fyrir því, þá getur það gefið okkur tækifæri til að upplifa ríkt og heitt ástarsamband með þeim sem við höfum kosið að tilheyra og lifa lífinu með. Þannig getur ástin styrkst og staðist erfiðleikana sem enginn sleppur við. Og þá getum við auðveldlega staðist allar freistingar þegar þriðji aðili kitlar hégómagirndina. Þá fáum við líka kraft til þess að láta okkar eigin ákvarðanir ráða vali okkar í lífinu, líka ef við erum að því komin að missa stjórnina. Því þá veljum við að halda fast í það sem við eigum.

Og við gerum það fyrir okkur sjálf, fyrir maka okkar og fyrir fjölskyldu okkar.

Þórhallur Heimisson · 18. apríl 2018

Fimm staðreyndir um upprisu Krists

Um þessar mundir fögnum við páskum, upprisuhátíð kirkjunnar. Upprisa Jesú er stærsti viðburðurinn sem guðspjöll Biblíunnar greina frá, og í raun má segja að án hennar sé allt hitt marklaust sem um hann þar er sagt. Það er að segja, kristin trú stendur og fellur með upprisu Jesú. Ef Jesú hefði ekki risið upp frá dauðum stæði boðskapur kristninnar á brauðfótum. En hvernig getum við vitað að frásagnir guðspjallanna af krossfestingu og upprisu Jesú séu ekki bara skáldskapur, saminn löngu eftir hans dag? Til að svara því koma hér fimm staðreyndir um upprisu Jesú frá dauðum sem vert er að íhuga um páska.

1. Staðurinn – Við vitum nákvæmlega hvar krossfesting Jesú og upprisa áttu sér stað, eða þar sem Grafarkirkjan stendur nú í Jerúsalem. Staðnum er lýst nokkuð nákvæmlega í guðspjöllunum. Golgatahæðin var gamalt aflagt steinbrot, þar sem afbrotamenn voru teknir af lífi á fyrstu öld eftir Krist. Og þar voru lika grafir hoggnar í klettinn. Á Golgataklettnum hefur verið helgistaður frá dögum lærisveinanna. Þar var reist lítil kapella á fyrstu öld, sem Konstantínus keisari byggði fyrstu Grafarkirkjuna yfir á 4. öld. Grafarkirkjan var brennd af Persum á 7. öld og múslímum á níundu öld en alltaf endurreist. Kirkjan sem nú stendur yfir Golgatahæðinni var reist á 11. öld á hinum forna grunni.

2. Heimildirnar – Elstu heimildirnar um krossfestingu og upprisu Jesú eru frá árunum kringum 50 eftir Krist, skrifaðar um 15 árum eftir upprisuna. Það er 1. Korintubréf Páls postula. Elsta guðspjallið, Markúsarguðspjall, er skrifað kringum árið 60, um 25 árum eftir upprisuna. Allar fullyrðingar um að frásagnirnar séu skrifaðar mörgum öldum eftir upprisuna eru því rangar.

3. Vitnin – Heimildirnar byggja á munnlegum vitnisburði þeirra sem fylgdu Jesú og mættu honum upprisnum.

4. María Magdalena – Fyrsta vitni upprisunnar samkvæmt guðspjöllunum var kona. Það var María Magdalena sem fyrst mætti Jesú upprisnum þremur dögum eftir krossfestingu hans. Ef einhver hefði skáldað söguna um upprisuna, hefði hann örugglega látið karl vera fyrsta vitnið. Vitni kvenna voru nefnilega ekki marktæk til forna. Eina ástæðan fyrir því að kona er þetta fyrsta vitni hlýtur því að vera að það hafi einmitt verið þannig og að allir vissu af því.

5. Uppgjöf lærisveinanna breyttist í sigurgleði - Eftir krossfestinguna voru lærisveinar Jesú bugaðir af þeim ósköpum, sem yfir þá höfðu dunið: Meistari þeirra hafði verið handtekin, píndur og kvalinn, dæmdur og líflátinn með svívirðilegum hætti. “Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael“, sögðu lærisveinarnir á leið sinni til Emmaus að kvöldi páskadags. (Lúk.24:2l) Nú var sú von að engu orðin, og ekkert blasti við förunautum Jesú annað en niðurlægjandi ósigur. Eðlilegustu viðbrögð þeirra hefðu verið á þá lund að hverfa aftur hver til síns heima og láta hina stuttu sögu predikarans frá Nasaret falla í gleymsku. En hér fór á annan veg. Innan fárra vikna tóku postularnir að boða mönnum þau tíðindi, að sögu hins fyrirlitna og krossfesta leiðtoga þeirra væri ekki lokið. Saga hans væri þvert á móti að hefjast - saga hins upprisna. Fáum árum síðar voru lærisveinarnir og skjólstæðingar þeirra lagðir af stað út um borgir Rómaveldis, þar sem þeir hvarvetna sögðu tíðindin.

Nú er ekki svo að skilja, að þeirra biði hrós og veraldleg upphefð fyrir þennan boðskap. Þvert á móti: Þeir voru sjálfir ofsóttir og líflátnir fyrir tiltæki sitt. Hefði ekki verið skynsamlegra fyrir þá að þegja og snauta heim til bús og barna? Jú eflaust. Hver fórnar lífi sinu fyrir lygasögu? Enginn. En postularnir gátu ekki þagað af því að reynsla þeirra af nærveru hins upprisna var svo sterk, að þeim héldu engin bönd.

Það að kirkja Krists skyldi yfir höfuð komast á laggirnar á fyrstu öld tímatals okkar er kraftaverk, sem ekki verður skýrt nema með vísun til annars og enn stærra kraftaverks, og það er upprisa frelsarans sjálfs. Vöxtur kirkjunnar fyrstu þrjár aldir ítrekaðra ofsókna staðfestir þetta.

Gleðilega páska

Þórhallur Heimisson · 1. apríl 2018

Hvenær eru maðurinn hann sjálfur?

Fermingardagurinn er dagur hinna mörgu og stóru heilræða. Hér áður en við gengum inn í helgidóminn fluttum við prestarnir ykkur pistilinn. Á æfingum höfum við verið óspör á ráðleggingar og holl ráð. Þið sjálf hafið valið úr löngum lista ritningarstaða, hver og einn þeirra er eins og gullkorn sem hefur staðist tímans tönn. Já, orðin ykkar eru ólík mörgum mannanna verkum sem eyðast, hrörna, missa merkingu og tilgang. Stórveldi verða til og um síðir renna þau sitt skeið. Kastalar og hervirki enda sem söfn fyrir ferðamenn. En orðin ykkar, kæru fermingarbörn eru slík heilræði að þau eru enn í fullu gildi, árþúsundum frá því þau voru upphaflega sögð eða rituð.

Og svo í dag, á fermingardeginum ykkar þegar haldin verður stórveisla ykkur til heiðurs, þá megið þið alveg búast við því að áframhald verði á heilræðagjöfinni. Það er líka gott. Í kringum ykkur er fjöldi fólks sem hefur lifað lengur en þið, lokið fleiri árum í skóla, staðið frammi fyrir stærri verkefnum, dýpri vanda, meiri sorg og flóknari viðfangsefnum sem hefur þurft að leysa. Fólk sem hefur gert mistök og áttað sig vonandi á því að mistök eru ekkert til að óttast, heldur þvert á móti. Mistök geta verið okkar bestu vinir, ef okkur tekst að læra af þeim.

Þegar þið síðan í kvöld slakið á eftir langan dag. Horfið kannske á einn þátt í sjónvarpinu eða hvílið lúin bein með ykkar náunustu mæli ég með því að þið rennið yfir það hvað þessi dagur hefur kennt ykkur.

Mögulega, já það er hreint ekki ólíklegt, eiga flest þau heilræða sem þið rifjið þá upp, eitt sameiginlegt. Við hér í kirkjunni og fólkið ykkar höfum brýnt eitt fyrir ykkur öðru fremur. Nefnilega þetta - að vera þið sjálf. Vá, þvílík speki, gæti einhver sagt. Eins og það sé einhver valkostur annar í boði. Hver getur verið einhver annar en hann eða hún er?

En það býr meiri viska að baki því góða ráði. Að vera sá eða sú sem maður sjálfur er, fjallar um það að vera við stjórnvölinn í lífi sínu. Það snýst í rauninni um það hvernig við bregðumst við því sem hendir okkur í lífinu. Hvað gerum til til dæmis ef einhver er ókurteis og leiðinlegur við okkur. Verðum við þá á því sama augnarbliki sjálf ókurteis og leiðinleg? Erum við þá ekki að apa upp hegðun einhvers annars? hvað ef einhver rekst utan í okkur, jafnvel beitir okkur ofbeldi? Svörum við þá undir eins í sömu mynt?

Eða, erum við slíkir úrvalsnemendur í skóla lífsins að við höfum tileinkað okkur þessa dýrmætu list - að vera við sjálf? Það snýst nefnilega um að bregðast við eins og okkar betri vitund segir okkur að bregðast við. Ekki að apa upp slæma hegðun heldur að halda sínu striki. Og þar liggur í rauninni allt okkar frelsi, allur sjálfstæði og já, í því felst listin að vera maður sjálfur. Að koma vel fram við fólk, líka þegar við fáum yfir okkur einhver leiðindi og eitthvað sem kynni að koma okkur úr jafnvægi.

Að ógleymdum mistökunum. Maður minn hvað þau geta verið gagnleg. Ég á litla afastelpu sem hefur undanfarnar vikur verið að læra alveg fáránlega flókna og erfiða list. Nefnilega það að ganga upprétt á tveimur fótum. Hafið þið velt því fyrir ykkur hvað það mikið vandaverk? Já, þegar maður fylgist með þessari seigu og ósérhlífnu litlu ársgömlu hnátu þá fer það ekki á milli mála að upprétt ganga er heilmikið mál.

Hún hefur líka dottið oftar en tölu verður á komið á þessum lærdómstíma. Auðvitað hefur engum dottið það í hug að segja eitthvað á þessa leið - jæja, nú er hún Lillý Björk enn búin að detta á rassinn. Þetta er greinilega ekkert fyrir hana! Nei, við vitum það að í hvert skiptið sem fæturnir bregðast henni þá hefur hún færst nær því að geta gengið óstudd og svo hlaupið og leikið sér eins og hún fer bráðum að gera. En sjálf eigum við það til að hætta um leið og eitthvað bjátar á, segjum bara að danska eða stærðfræði eða fimleikar, nú eða bara mannleg samskipti séu ekkert fyrir okkur.

Að vera maður sjálfur er líka að sýna þolgæði og vita að við viljum ekki gefast upp á því sem eflir okkur og bætir. Þetta „veit“ ársgömul dótturdóttir mín en síðar í lífinu á fólk það til að gleyma þessum sannindum.

Það er þetta sem Guð vill gera með líf okkar. Að glæða með okkur vilja til að bæta heiminn, og þar verður hver og einn að byrja á sínu nánasta samfélagi. Já, textarnir sem börnin völdu sér fjalla meira og minna um þetta. Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Allt sem við viljum að aðrir geri okkur það skulum við þeim gera, þakklæti til Guðs og sú vitund að kærleikurinn leiði okkur áfram í lífinu eins og góður hirðir.

Svona eru textarnir sem þið hafið valið ykkur kæru fermingarbörn og spurningin snýr einmitt að því að þið veljið ykkur hina góðu leið til að stýra lífi ykkar. Í því felst lífslistin sjálf sem er einmitt það að vera trúr sinni köllun, láta ekki neikvæðni og leiðindi færa okkur af veginum heldur spyrja okkur frekar að því hvernig manneskjur við sjálf erum og hvað það er sem leiðir af orðum okkar og verkum.

Það er eins og hann tali inn í okkar aðstæður. Já, þekking líður undir lok og spádómar eru misgóðar. En kærleikurinn er sígildur. Þegar Kristur var inntur eftir því sem mestu máli skipti í lífi hvers manns, á öllum þeim stundum sem líða frá því hjartað tekur að slá og þar til taktur þess deyr út - þá nefndi hann einmitt þetta - að finna til með öðrum. Elska skaltu, Guð þinn og elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Að geta elskað aðra manneskju eins og okkur sjálf er það merkilegasta sem við erum fær um að sinna. Það er í raun ekki lítið kraftaverk og samspil ótal þátta sem gera okkur kleit að finna til með öðrum.

Þegar þið veljið ykkur Jesú Krist að leiðtoga, veljið þið ykkur sjálf það hlutskipti að vera leiðtogar. Einstaklingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Um þetta allt snýst fermingin. Á þessum degi horfum við framtíðar og biðjum fyrir ykkur á ókomnum tímum og við horfum til þess sem ekki breytist hvað sem á dynur í henni veröld. Guð blessi ykkur kæru fermingarbörn.

Skúli Sigurður Ólafsson · 30. mars 2018

Grasrótarþjóðkirkja?

Það líður vart sá dagur þessi misserin að ekki berist fréttir af deilum um og í kringum Þjóðkirkjuna. Samkvæmt nýrri könnun er traust til Þjóðkirkjunnar komið niður í 30%. Og sífellt fleiri kjósa að yfirgefa Þjóðkirkjuna.

Fyrir öll þau fjölmörgu sem að safnaðarstarfi Þjóðkirkjunnar koma um allt land - hvort sem er starfsfólk, sjálfboðaliðar eða þátttakenndur í kirkjustarfinu - er þetta bæði sorglegt og lýjandi - sérstaklega vegna þess að hið blómlega safnaðarstarf endurspeglar ekki þessi neikvæðni. Í söfnuðunum upplifa menn grósku og gleði - þó auðvitað þurfi alltaf að taka á málum þar eins og annarsstaðar í mannlegu samfélagi. En gróskan og gleðin, það eru einkenni þeirrar kirkja sem kallar til sín börn og fullorðna alla daga vikunnar um allt land. Enda starið fjölbreytt og kirkjan öllum opin í gleði og í sorg.

Þjóðkirkjan í fjölmiðlunum og umræðu dagins og Þjóðkirkjan í söfnuðunum - stundum mætti halda að um tvær aðskildar kirkjustofnanir væri að ræða. Spyrja má hvort það sé ekki einmitt þar sem vandi kirkjunnar í dag á Íslandi er falinn? Fjarlægðin milli kirkjunnar í grasrótinni og kirkjunnar sem stofnunar? Sem aftur endurspeglast í áhrifaleysi grasrótarinnar innan kirkjunnar.

Fyrir nokkrum árum setti ég fram hugmynd um allt öðruvísi Þjóðkirkju en þá sem við heyrum af í fréttamiðlunum. Ef til vill er kominn tími til að rifja hana upp á ný. Ég kallaði þessa kirkjusýn „Lífræna grasrótarþjóðkirkju“. Þetta er reyndar ekki mín hugmynd heldur hugmynd sem er kominn beint frá Jesú. Því umfram allt starfaði Jesús í grasrótinni. Hann var ekki embættismaður. Hann var ekki prestur. Hann var ekki prófastur. Hann var ekki biskup. Hann var ekki kirkjuþingsmaður. Hann starfaði meðal fólksins og talaði máli fólksins. Hann taldi vellíðan fólksins meira virði en stofnunina.

Hann rak víxlarana og sölumennina úr musterinu og lýsti það bænahús.

Hugtakið kirkja þýðir samfélag, eða beint, þau sem eru kölluð saman í Jesú nafni - í raun er kirkjan því grasrótarsamfélag. Kirkja sem vill vera kirkja Jesú verður að starfa á sömu formerkjum og hann. Hún verður að vera grasrótarkirkja, starfa með grasrótinni, með fólkinu og fyrir fólkið. Þar sem allir eru kallaður og hlustað er á alla. Og allir fá að segja sitt.

Tala nú ekki um ef hún er Þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar eins og okkar kirkja vill vera. Þjóðkirkjan á því að vera grasrótarþjóðkirkja umfram allt. Því kirkjan varð til mannsins vegna, en ekki maðurinn vegna kirkjunnar. Slík grasrótarþjóðkirkja verður þá fyrst og fremst lifandi samfélag þegar andi Guðs fær að streyma í gegnum hana og lífga hana, gerir hana að lifandi heild, lifandi líkama, lifandi einingu þar sem hver og ein fruma og velferð hennar skiptir máli. Hún verður lífræn grasrótarþjóðkirkja sem hefur frelsara sinn í æðakerfinu, opnar hina andlegu sýn, leggur af úrelt titlatog og embættismannatal en hlustar beint á hvern og einn lærisvein Jesú - köllum við þetta ekki lýðræði svon dags daglega?

Hvað þýðir þetta beint? Jú. að allir meðlimir kirkjunnar þurfa að fá að koma að stjórnun hennar með beinum kosningum, til dæmis til Kirkjuþings og til biskups og vígslubiskupa. Aðeins þannig verður hún sönn grasrótarkirkja.

Og þá hverfur aðgreiningin í tvær kirkjur, safnaðarkirkjuna og stofnunarkirkjuna, sem við því miður verðum vitni að í dag.

Þórhallur Heimisson · 23. mars 2018

Vísitasía biskups

Biskup Íslands heimsækir austfirskar sóknir. Það er kærkomið og Agnes M. Sigurðardóttir er hjartanlega velkomin. Vísitasía biskups hvílir á rótgróinni, sögulegri hefð og er eitt helsta hlutverk biskups að rækta traust samband og samstarf með fólkinu, kynnast kirkjustarfinu í sóknunum, veita leiðsögn og hvetja til góðra verka.

Fyrr á öldum fólst í vísitasíunni að biskup kannaði þekkingu unga fólksins í kristnum fræðum en skilyrðið til að fermast var að vera læs og kunna helstu skil í fræðum trúarinnar. Þannig var fermingarfræðslan í raun fyrsti barnaskólinn í landinu og biskup hafði umsjón með skólastarfinu.

Margar sögur eru til af tilsjónarstarfi biskupanna. Einu sinni stóð frammi fyrir biskupi og söfnuðinum í kirkjunni drengur sem átti í basli með að læra utanbókar. Biskup bað hann um að fara með trúarjátninguna. Drengurinn svaraði stamandi orðum: „Ég trúi á Guð,“ þagnaði en sagði svo: „Ég er ekki kominn lengra.“ Biskupinn sagði þá: „Ég er heldur ekki kominn lengra.“

Kirkjan er einmitt í þessum sporum að rækta samfélag sem játar trú á Guð. Þar blómgast falleg menning sem hefur haft meiri áhrif í þjóðlífinu en flest annað í aldanna rás. Það þarf ekki annað en að horfa á dagatalið sem tekur mið af Jesú Kristi eða á þjóðfánann með sínum kristna krossi eða til þjóðsöngsins með sínu bænamáli. Íslensk saga er samofin trúnni og er enn.

Vísitasía biskups minnir okkur á þessa sögu, rætur þjóðar, menningu og gildismat. En líka á stöðu sóknanna í samfélagi nútímans. Sóknin er elst allra félaga á Íslandi og axlar mikla ábyrgð. Kirkjuhúsin, sem teljast á meðal helstu verðmæta þjóðarinnar, eru eignir sóknanna en ekki ríkisins, eins og oft er haldið fram. Sömuleiðis eru kirkjugarðarnir á forræði sóknanna. Það verður svo ljóst, þegar biskup vísiterar, hve kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu. Skoðanakannanir um aðskilnað ríkis og kirkju hljóma þá eins og forneskja eða tímaskekkja sem eiga enga stoð í nútímanum. Það finnur fólkið í sóknarnefndum sem á ekki málefni sín undir ráðherra heldur sóknarfólki, kirkjuþingi og biskupi.

Það er verkefni kirkjunnar að laga starfshætti og skipulag að þjóðlífsbreytingum þannig að hún megi rækja hlutverk sitt sem best. Enda hefur kirkjustarfið tekið miklum breytingum á síðustu áratugum, vaxið og blómgast af fjölbreytni. Kirkjan er fólkið. Það er kjarni málsins. Greiðari samgöngur á milli austfirskra byggða gefa aukin tækifæri til samstarfs á milli sókna og hvetja til frekari áskorana í kirkjustarfinu. Það hefur verið að gerast hjá okkur á Austurlandi og mun halda áfram. Þegar biskup kemur í heimsókn, þá finnum við svo innilega að við erum öll saman í einni kirkju, þjóðkirkjunni, sem á sér þá hugsjón að hlúa að lífinu með því að biðja, boða og þjóna.

Gunnlaugur Stefánsson · 20. mars 2018

Nokkrir punktar um kirkju í vanda

Nokkrir punktar um kirkju í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að kirkjan hefur verið í nokkrum vanda stödd að undanförnu. Á síðasta ári sögðu rúmlega fjögur þúsund einstaklingar sig frá kirkjunni sem er grafalvarlegt mál eitt og sér. Neikvæðar fréttir úr kirkjunnar ranni hafa verið áberandi og nú síðast kom fram að traust til hennar samkvæmt Gallup-könnun hefði fallið á einu ári niður um ein átta prósent, úr 38% niður í 30%. Ólíklegt er að einhver skyndileg þróun eða breyting í samfélaginu sé höfuðorsök þessa. Kirkjufólk verður að leita skýringa á þessu traustsfalli.

Ljóst er að bregðast þarf við með einhverjum hætti til að efla traust kirkjunnar meðal almennings. Traust er grundvallarforsenda fyrir því að starf kirkjunnar nái tilætluðum árangri sem er sá í almennum orðum að vera þjónandi og fræðandi, biðjandi og boðandi. Fjari undan trausti þá er voðinn vís. Nauðsynlegt er að ræða málið opinskátt og af raunsæi. Ná talsambandi við landann og spyrja hvað sé hægt að gera betur til að styrkja traustið.

Blómlegt kirkjustarf

Þegar litið er yfir starfsvið kirkjunnar á landsvísu - að svo miklu leyti sem það er hægt- þá kennir þar margra grasa. Mjög víða er öflugt starf, fjörlegt og oft vel sótt. Sums staðar frábærlega sótt. Alls staðar er þjónustan nokkuð jöfn og stendur öllum til boða. Þjónusta kirkjunnar er umfangsmikil og reynt að búa svo um hnúta að hún sé skjótvirk enda þótt starfssvæðin séu í sumum tilvikum víðáttumikil. Kirkjuhúsin eru í sveitum, þorpum og bæjum, prýði og tákn um trú og menningu sem allir ætla sig eiga nokkuð í og jafnvel þótt þeir telji sig ekki eiga heima í kirkjunni; efast ekki um hið menningarlega hlutverk kirkjunnar við hlið hins trúarlega. Það hefur verið kappsmál kirkjufólks að benda á þetta mikla og öfluga og sýnilega starf. Áfram þarf að halda á þeirri braut og gera enn betur í því efni. Dæmi finnast einnig um að enda þótt gott starf sé í boði þá er það ekki vel sótt – því miður.

Samtöl geta leyst vanda

Forysta kirkjunnar er sóknarnefndarfólk, prestar, biskupar og kirkjuþing. Allir þessir aðilar þurfa að starfa saman af heilindum og kærleika. Þegar deilur koma upp eins og eðlilegt er í sjálfu sér á mannlegum vettvangi þá verður fólk að taka á þeim í einlægni og af skynsemi. Tala opinskátt um þær og ekki síst séu þær af þeim toga þar sem ofbeldi kemur við sögu; þá er til fyrirmyndar að fulltrúar leikmanna, djáknar, prestar eða biskupar, stígi fram af festu og einurð, og lýsi því yfir að slíkt framferði verði ekki liðið og með því er ekki verið að fella dóm um sekt eða sakleysi.

Deilur sem komast í hnút og aðilar ná ekki að leysa í samtali með sáttfýsi að leiðarljósi fara í eðlilegan farveg innan kirkjunnar, t.d. til úrskurðarnefndar, eða í öðrum tilvikum til dómstóla. Þar er reynt að komast að hinu sanna í hverju máli og leysa mál með röklegri niðurstöðu.

Úrskurður er úrskurður, niðurstaða. Í sumum tilvikum eru báðir aðilar sáttir og í öðrum ekki. Öllum er í sjálfu sér frjálst að mótmæla dómum og úrskurðum og gera athugasemdir telji þeir þörf á. En það getur orðið að vissu leyti nokkurs konar eintal því hvorki úrskurðarnefnd né dómarar ræða niðurstöðu sína eins og málum er nú háttað. Því má auðvitað breyta og koma ákvæðum fyrir í lögum eða starfsreglum eftir atvikum sem kveða á um að úrskurðarnefnd ræði úrskurð sinn við málsaðila og aðra óski þeir eftir því. Slíkt samtal gæti hugsanlega skilað sátt og skilningi um viðkomandi úrskurði. Kannski er það bara lýðræðislegt og ný nálgun og dirfskufull því úrskurðir og dómar eru mannanna verk og fráleitt fullkomnir.

Kirkjuþing og grasrótin

Kirkjuþing er æðsta valdastofnun kirkjunnar innan lögmæltra marka og þar eru leikmenn í meirihluta. Hin síðari ár hefur kirkjuþing verið m.a. mjög svo upptekið við að koma saman frumvarpi til laga um þjóðkirkjuna. Því er ekki enn lokið. Ekki eru allir á einu máli um frumvarp þetta. Kannski hefur kirkjuþing liðinna ára gleymt sér um of við lagasmíð sem þessa svo góð sem hún annars kann að vera og sá hugur einlægur sem að baki hennar býr en látið hjá líða að huga að grasrótinni, söfnuðunum.
Hvernig getur kirkjuþing styrkt betur en nú er sjálft starf sóknanna sem eru jú grunneining kirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað? Þessari spurningu þarf kirkjuþing að svara. Vald kirkjuþings er nefnilega komið frá fólkinu úti í söfnuðunum og því má ekki gleyma. Í raun er kirkjuþing þjónn fólksins úti í söfnuðunum og ætti að vera í miklu nánara sambandi við þá en nú er um öll mál. Þetta á við um alla sem eru í forystu fyrir kirkjuna hvort heldur það heitir sóknarnefndir eða kirkjuþing, leikmenn, djáknar, prestar og biskupar. Leiðarþingin þarf og að efla. Þá þarf einnig að ræða í fullri alvöru hvort ekki eigi að hafa almennar kosningar til kirkjuþings samhliða t.d. sveitarstjórnarkosningum.

Fræðslumál þarf að stokka upp

Eitt meginhlutverk kirkjunnar er boðun og þar af leiðandi fræðsla. Víða fer fram mjög svo fjölskrúðugt fræðslustarf úti í söfnuðunum og er til fyrirmyndar. Og margir fara nýstárlegar leiðir í þeim efnum því kirkjan býr yfir ferskum mann- og félagsauði sem hefur óþrjótandi áhuga á kristinni trú. Fræðsludeild kirkjunnar þarf að stórefla sem og útgáfufélag hennar, Skálholtsútgáfuna, sem sett var á laggirnar m.a. til þess að gefa út efni handa söfnuðum landsins.
Þær raddir heyrast á meðal kirkjufólks að vankunnátta t.d. í Biblíusögum aukist ískyggilega. Í bókmenntum, myndlist og annarri menningu koma iðulega fyrir biblíuleg stef og tilvísanir sem börnum og ungmennum nútímans gengur verr en áður að átta sig á vegna þessa að biblíulegt menningarlæsi þeirra hefur dofnað. Efni sem Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar – gefur út kemur að góðum notum til að sporna við framansögðu.
Kristindómsfræðsla í skólum er víða í skötulíki - það er ekkert leyndarmál. Börnin koma til fermingarfræðslunnar misvel að sér í kristnum fræðum. Þetta er framtíðarkynslóð kirkjunnar og sé hún fákunnandi um kristna trú þá mun þráðurinn milli þjóðar og kristni trosna.

Sennilega þarf að stokka upp allt fræðslustarf kirkjunnar frá grunni og það fyrr en seinna. Kirkjuþing þarf að taka á því máli sem fyrst, allt kirkjunnar fólk sömuleiðis. Fræðslan þarf að fara í forgang.

Skýrsla um nýliðun

Árið 2015 var lögð fyrir kirkjuþing athyglisverð skýrsla: „Nýliðun innan Þjóðkirkjunnar.“ Í henni var m.a. fullyrt að trúarleg vanþekking væri farin að bitna á menningarlæsi almennings. Fækkun í þjóðkirkjunni myndi halda áfram ef ekki yrði brugðist með einhverjum hætti, færi niður í 60% eins og á hinum Norðurlöndunum. Meginmarkmið voru lögð fram og þau eru enn í fullu gildi. Ekki flókin markmið í sjálfu sér: að draga úr fækkun sóknarbarna og stuðla að nýliðun innan kirkjunnar. Kannski ættu allir söfnuðir landsins að skjóta á málþingi um skýrslu þessa?

Kjarni málsins er ekki sá að hefja einhverja allsherjarherferð í taugaæsingi vegna þess að það fjari undan kirkjunni heldur að hver maður standi sína plikt. Að kirkjan sé ekki klumsa, eins og góður maður sagði hér um árið. Hún tali, svari, þjóni og boði. Fræði. Og biðji. Forystufólk hennar: leikmenn og vígðir þjónar séu sýnileg í nútímanum, fari til fólksins, noti til dæmis alla samfélagsmiðla eins og mörg dæmi eru um.

Kirkjan er fólkið í landinu – og hún er öllum opin.

Fjölmiðlanefnd

Í lokin má láta einn sögumola fljóta með til gamans og alvöru. Kannski er þörf á því að skipa almannatengslanefnd eða fjölmiðlanefnd eins og gert var á prestastefnu í júnímánuði árið 1932 – ekkert er nefnilega nýtt undir sólinni! Þá var flutt svohljóðandi tillaga: „Prestastefnan ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að vera á varðbergi gegn því, er birtist um kristindóm og kirkju í blöðum og tímaritum hér á landi, leiðrétti mishermi og svara árásum, og ennfremur annast um að almenningur fái fræðslu á prenti um það markverðasta er gerist á starfsviði kirkjunnar og íslenskan almenning varðar. Um tilhögun þessa starfs setur nefndin sjálf reglur og skal hún jafnan vera í náinni samvinnu við biskupinn.“ (Þjóðskjalasafn Íslands (Biskupsskjalasafn), Prestastefnubók 1924-1950: Prestastefna 1932, bls. 90-91).

Tillagan samþykkt í einu hljóði og vaskir menn kjörnir í nefndina: Ásmundur Guðmundsson, dósent, Magnús Jónsson, prófessor, S.P. Sívertssen, vígslubiskup, Árni Sigurðsson, fríkirkjuprestur, Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, séra Hálfdán Helgason og Sigurbjörn Gíslason, ritstjóri.

Eflaust er hægt að manna viðlíka nefnd af fólki með víðtæka reynslu og menntun. Vígða þjóna sem og leikmenn. Kannski allt konur í þetta skipti? En umfram allt: að hefjast handa.

Hreinn S. Hákonarson · 9. mars 2018

Þjóðkirkja á þröskuldi IV

Í fyrri pistlum undir þessari fyrirsögn hefur því verið haldið fram að við næstu kynslóðaskipti eða eftir tvo til þrjá áratugi sé líklegt að tengsl þjóðkirkjunnar við þjóðina taki gagngerum breytingum sem stefnt geti núverandi þjóðkirkjuskipan í tvísýnu. Einnig hefur verið leitað sögulegra skýringa á þessari þróun og bent á hvernig hugsanlega megi andæfa henni með breytingum á skipulagi og starfsháttum þjóðkirkjunnar einkum í mesta þéttbýlinu.

Í þessum lokapistli verður staldrað við tvö atriði sem skipta miklu um samband kirkjunnar við þjóðina í nánustu framtíð: trúarathafnir á ævihátíðum og þá sjálfsmynd sem kirkjan velur sér.

„Hinn kirkjulegi siður“
Um langa hríð hefur kristnihald á Íslandi og einkennst af því að eina lítill hluti þjóðarinnar tekur reglulegan þátt í guðsþjónustuhaldi kirkjunnar. Með reglulegri þátttöku er oft átt við að einstaklingur sæki að jafnaði guðsþjónustu einu sinni í mánuði eða oftar. Í þessu skera Íslendingar sig ekki frá öðrum vestrænum þjóðum. Það sem frekar einkennir íslenskar aðstæður að hingað til hefur óvenju hátt hlutfall þjóðarinnar borið börn sín til skírnar miðað við aðrar vestrænar þjóðir. Sama máli gegnir um fermingar, hjónavígslur og greftranir. Nú eru þessar athafnir á lífsleiðinni ugglaust breiðasti snertiflötur þjóðkirkjunnar við þjóðina. Þar kemur eðli og hlutverk hennar sem þjóðkirkju einnig skýrast í ljós en eins og kunnugt er standa þessar athafnir öllum til boða án tillits til trúar eða aðildar að þjóðkirkjunni.

Víða erlendis kallast þessar athafnir og þátttaka fólks í þeim „kirkjulegur siður“. Trúarfélagsleg sérstaða Íslands felst í því að hér hefur hann haldist órofinn. Víðast erlendis hefur hann aftur á móti hrunið eða leyst upp líkt og gerst hefur með þátttöku í almennu guðsþjónustunni. Hrynji „hinn kirkjulegi siður“ hér mun þjóðkirkjan einangrast á skömmum tíma og verða minnihlutakirkja.

Er upplausn hafin hér?
Margt bendir raunar til að upplausn kirkjusiðarins sé þegar hafin. Nafngjafarathafnir án þátttöku kirkjunnar hafa í einhverjum mæli rutt sér til rúms. Hlutfall þeirra ungmenna sem velja borgaralega fermingu fer vaxandi samhliða því að þær eru í boði á fleiri stöðum á landinu en verið hefur. Hlutfall þeirra sem velja kirkjulega hjónavígslu fer tæpast hækkandi. Borgaralegar útfarir hafa einnig komið til sögunnar.

Hér hefur verið tekið loðmullulega til orða og engar tölur nefndar lýsingunni til staðfestingar. Það er enda ekki mögulegt þar sem engar upplýsingar eru fyrir hendi. Þar sem hjónavígslan leiðir til lögformlegs sambands hjónaefnanna eru þær skráðar skilmerkilega og því auðvelt að nálgast opinberar tölur um þær. Um hinar athafnirnar gildir allt öðru máli. Þjóðkirkjan er einkennilega hirðulaus um að halda tölulegum upplýsingum til haga og vinna úr þeim á kerfisbundinn hátt. Þetta leiðir til þess að enginn veit hvaða þróun er nú uppi varðandi kirkjusiðinn. Það er stóralvarlegt mál vegna þess hve mikilvægu hlutverki hann gegnir við að viðhalda stöðu þjóðkirkjunnar meðal þjóðarinnar. Það þarf að efla mjög kirkjurannsóknir til að skýra mynd okkar af kirkjusiðnum og breytingum á honum.

Hér hefur þó aðeins verið staldrað við aðra hliðina á upplausn kirkjusiðarins, þ.e. hina tölfræðilegu. Mergurinn málsins er að þessi þróun hefur aðra og áhugaverðari hlið. Stöðugt fleiri sem þó leita þjónustu kirkjunnar á merkisdögum mannsævinnar virðast eiga erfitt með að finna sig heima í athöfnunum og vilja sveigja framkvæmdina að meira eða minna leyti að eigin þörfum. Þetta er eðlilegt miðað við aðstæður í nútíma neyslusamfélagi. Þjóðkirkja virðist á hinn bóginn ekki hafa megnað að mæta þessari tilhneigingu út frá neinni markaðri heildarstefnu. Margt bendir til að hún komi fram sem notendavæn markaðskirkja við hjónavígslur. Við útfarir virðist hún á hinn bóginn spyrna við fótum líkt og að útförin sé sakramenti eða sálumessa. — Hér kunna vissulega að vera felldir sleggjudómar en sem fyrr skortir kirkjurannsóknir. Það eru ekki til nein gögn til að staðfesta eða hrekja þá stórkarlalegu mynd sem hér hefur verið skissuð.

Hér skal því staðfastlega haldið fram að þjóðkirkjan sé þegar stödd á þröskuldi þegar um „hinn kirkjulega sið“ er að ræða og að skammt kunni að vera í upplausn hans eða hrun og að það kunni að gerast mjög hratt þegar það hefst fyrir alvöru. Þá verður líka erfitt að sporna gegn þróuninni enda vantar hér öll tæki til þess. Þar er ekki síst átt við tölfræði sem sýnir hvaða breytingar eru í gangi, vitneskju um hvaða óskir þjóðin hefur til kirkju sinnar þegar um ævihátíðir er að ræða og loks stefnu um hvernig kirkjan vill og getur brugðist við þeim.

Það skeytingarleysi sem virðist uppi um þróun kirkjusiðarins og hér hefur verið rakið er þeim mun alvarlegra þegar þess er gætt að einmitt þar er að finna uppistöðuna í því samtali sem þjóðkirkjan verður að eiga við þjóðina — eigi þjóðkirkjuskipanin að haldast.

Sjálfsmyndarkreppa?
Hér og í fyrri pistlum hafa verið látnar í ljós áhyggjur yfir áframhaldandi tengslum kirkju og þjóðar. Nú skulu þær ólar ekki eltar frekar en vikið að öðru atriði sem kann að skipta miklu fyrir framtíð íslensku þjóðkirkjunnar: Kann að vera að sjálfsskilningur þjóðkirkjunnar eða sjálfsmynd sé ekki nægilega skýr? Án slíks skilnings á sjálfri sér og stöðu sinni er ólíklegt að þjóðkirkjunni takist að standa í lappirnar í þeim sviftivindum sem allt bendir til að séu framunda.

Í kirkjulegri umræðu heyrist því oft fleygt að úti í samfélaginu ríki megn þekkingarskortur um stöðu þjóðkirkjunnar og að umræða um þau mál sé því þýðingarlaus. Hér skal því haldið fram að innan þjóðkirkjunnar sjálfrar skorti tilfinnanlega skilning á núverandi stöðu hennar til að taka umræðuna um framtíðina.

Stundum heldur kirkjufólk því t.a.m. fram að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar verið gerður. Þetta er rangt. Í löndum þar sem aðskilnaður hefur átt sér stað er ekki að finna sérstök stjórnarskrárákvæði um stöðu einnar ákveðinnar kirkju sem þjóðkirkju. Þar eru heldur ekki í gildi yfirgripsmikil, veraldleg lög um stjórn og starfshætti þjóðkirkju þótt nauðsynlegt kunni að vera að hafa lög um stöðu meirihlutakirkjunnar. Þar skrifar þjóðhöfðingi ekki upp á embættisbréf biskupa og þar ákveða ekki kjararáð laun kirkjulegra starfsmanna svo nokkuð sé nefnt.

Á líkan máta er því oft haldið fram að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag. Þetta orkar a.m.k. tvímælis þótt ákvæði þessa efnis sé vissulega að finna í núgildandi þjóðkirkjulögum. Sannleikurinn er þó sá að í landinu starfa á fimmta tug skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Með einni undantekningu standa þau öll fyllilega undir því að geta talist sjálfstæð. Undantekningin er einmitt þjóðkirkjan. Hún er ekki sjálfstæð í sama mæli og hin trúfélögin. Það sýna núgildandi þjóðkirkjulög svart á hvítu að 1. mgr. 1. gr. laganna undanskilinni en hún er líka í mótsögn við þjóðkirkjulögin að öðru leyti og þjónar aðeins sem eins konar markmiðsgrein.

Raunhæfast virðist að líta svo á að við núverandi aðstæður sé íslenska þjóðkirkjan opinber stofnun vissulega af sérstöku tagi enda er hlutverk hennar og köllun frábrugðin verkefnum annarra stofnana hins opinbera.

Umræðu er þörf
Hér skal að lokum fullyrt að staða þjóðkirkjunnar í framtíðinni velti í grundvallaratriðum á því hvaða birtingarmynd þjóðkirkjan velur sér og hvernig henni tekst að útfæra hana hvað varðar löggjöf, fjárhagsleg tengsl við ríkisvaldið, skipulag og starfshætti.

Vill þjóðkirkjan freista þess með öllum ráðum að halda velli sem opinber trúarstofnun og þá hvers vegna? Vill hún í ríkari mæli hasla sér völl innan þriðja geira samfélagsins í hópi annarra frjálsra almannahreyfinga og félagasamtaka og taka þannig þátt í að auka félagsauð samfélagsins? Eða vill hún leggja rækt við hlutverk sitt og eðli sem trúfélag í hópi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga í fjölmenningarsamfélaginu? Ugglaust er um fleiri kosti að velja en hér verður látið staðar numið. — Á hvaða hest er vænlegast að veðja?

Þjóðkirkjan stendur nú frammi fyrir því ögrandi verkefni að spyrja hvernig hún þjóni köllunarhlutverki sínu best með komandi kynslóðum. Þar ríður á að hún þekki núverandi stöðu sína og þá þróun sem uppi er og getur breytt stöðunni á skömmum tíma. Það skiptir líka máli í hvaða átt hún vill þróast. Umfram allt verður hún að búast þannig í stakk að hún geti staðið sjálfstæð og axlað óskoraða ábyrgð á eigin málum í náinni framtíð. Forræði hennar er hvergi betur komið en í höndum hennar sjálfrar. — Þess þarf að gæta við endurskoðun löggjafar og starfsreglna um þjóðkirkjuna en ekki síður þegar um tekjustofna hennar og fjárhagslegt sjálfstæði er að ræða.

Hjalti Hugason · 2. mars 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar