Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Gorgeuos Grandma Day

Sérstakur ömmudagur er haldinn hátíðlegur víða í Bretlandi í dag, 23. júlí eins og ár hvert. Svipað er uppi á teningnum þann 14. október er sérstakur ömmudagur haldinn hátíðlegur í Bæjarahéraði í Þýskalandi og í nóvember afa og ömmudagur. Við hliðina á degi aldraðra sem þjóðkirkjan stendur svo sómasamlega fyrir, væri flott að kirkjan hefði framgöngu um ömmu og afadaga á Íslandi.

Nýverið voru ömmur mér ofarlega í huga og þá varð eftirfarandi pistill til sem birtist í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Hefur þú faðmað ofurhetju?“

Sjaldan heyrum við fólk greina frá því opinberlega að ofurhetjur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ofurhetjur séu ósýnilegar. Til eru þeir sem segja að ofurhetjur séu aðeins til í þjóðsögum og ævintýrum. Ofurhetjur verða til í menningu hvers tíma en búa yfir skilningi sem virðist yfir öll landamæri hafinn. Á Íslandi eru þessar verur gæddar hæfileikum sem annars þekkjast bara í álfa- og hulduheimum. Þegar þessar ofurhetjur láta til skarar skríða virðast jötnar, tröll og helstu skrímsli skreppa saman og máttur þeirra dvína. Þekktustu verkfæri umræddra ofurhetja eru seigla og þrái. Seiglan smyr innviði þeirra og gerir þeim kleift að beita þráanum í þágu þeirra sem þær elska. Kærleikurinn sem þær bera í móðurbrjósti sér er óendanlegur. Til er sú kenning að þegar þeim fæðist barnabörn margfaldist kærleiksgen ofurhetjanna. Ég kalla þessar ofurhetjur ömmur. Lýsingin hér að ofan getur í mesta lagi talist inngangur að lýsingum á eiginleikum þeirra.

Ég var heppinn. Ég átti tvær ömmur. Báðar voru þær kjarnakonur og ofurhetjur í mínum augum. Langt er síðan þær héldu til nýrra heimkynna yfir móðuna miklu. En minningin lifir og hefur þann eiginleika að draga fram myndir litaðar af draumnum um mig barnið og ömmuna mína. Ég er heppinn. Jákvæð hugrenningatengsl við ömmurnar í lífi mínu skapa í huga mér einstakar sögur um mikilvægi þessara kvenna í lífi mínu og minna nánustu. Amman verður táknmynd fyrir von, trú og kærleik, já, hún verður allt að því guðdómleg. Ömmurnar verða ofurhetjur númer eitt í lífi mínu og bera titilinn: Verndarar bernskuminninganna.

Allt of sjaldan heyri ég fólk greina frá því opinberlega að ömmur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ömmur séu ósýnilegar þar til þær birtast í minningargreinum. Til eru þeir sem segja að alvöruömmur séu bara til í ákveðnum fjölskyldum. Það er sannfæring mín að ömmur verði til í fjölskyldusamhengi hvers tíma og að hver og einn eigi sína ömmu. Ef vel er að gáð eru þær úti um allt. Hlutverk okkar sem erum ekki ömmur er að segja þessum frábæru einstaklingum frá mikilvægi þeirra í lífi okkar allra.

Ömmur eru litlar og stórar, feitar og mjóar, fiskverkakonur og forsetar, þögular og símalandi, búa í sama húsi og barnabörnin eða jafnvel í öðru landi. Það er ekki hægt að skilgreina hvað amma er. Hver amma hefur fullt frelsi til að ákveða hvernig amma hún er. En það breytir því ekki að allar ömmur eru ofurhetjur, hver á sinn hátt.

Og nú spyr ég: Hefur þú faðmað ofurhetju í dag?

Pétur Björgvin Þorsteinsson · 23. júlí 2018

Unglingamenning

Ritstjóri Austurlands bað mig að skrifa pistil um unglingadrykkju og útihátíðir. Mér var þá hugsað til þess, þegar ég var unglingur, þá voru frægar útihátíðir haldnar víða um land um verslunarmannhelgi m.a. í Húsafelli, Atlavík og Vestmannaeyjum, mikið drukkið og sagðar skrautlegar „hetjusögur“ af því. Einhvern veginn var þetta álitið hluti af því að þroskast frá unglingi í að vera fullorðinn. Enn eimir af þessu viðhorfi í tíðarandanum, en margt hefur breyst.

Kannanir sýna að nú er að eflast unglingamenning sem hafnar áfengisneyslu og ræktar lífstíl af sannkölluðu æskufjöri með heilbrigðum lífsháttum. Þetta birtist svo víða hjá unga fólkinu okkar sem lætur til sín taka á mörgum sviðum og hreinlega brillerar t.d. í íþróttum, í fjölbreyttri nýsköpun, á lista-og menningarsviðum og nýta tæknibyltingar til framfara og langt umfram þá sem eldri eru. Í þessu umhverfi er ekkert pláss fyrir áfengi eða aðra örvandi vímugjafa.

Á sama tíma flæðir dópið yfir neyslu og skemmtanalíf þjóðarinnar og fullyrt að auðveldara sé að nálgast það en áfengið. Það er hrein ógn við forvitna unglinga sem langar að reyna eitthvað nýtt. Svo koma fréttirnar af unglingunum sem þjást af andlegri og félagslegri vanlíðan og sækja í neyslu lyfja og örvandi efna til að sefa kvíðann og festast í neti fíkninnar,- og lagt bókstaflega í gröfina fjölda ungmenna. Líklega er þetta alvarlegasta unglingavandamál sem þjóðin hefur átt við að etja eftir að hún varð bjargálna.

Ungur fíkill, sem hefur verið edrú í rúmt ár, skrifaði: „Við erum kvíðin kynslóð, kvíðalyfin höfða til okkar og á sama tíma erum við ekki meðvituð um það hversu ávanabindandi þau eru. Það þarf að fræða fólk um það. Það eru svo margir að prófa þau og augljóslega verða þá fleiri háðir þeim. Foreldrar vita ekkert um þetta. Eldri kynslóðir koma af fjöllum. Það er svo nýtilkomið að neysla á þessum lyfjum sé orðin útbreidd og hreint út sagt í tísku“.

Umræðan hefur fyrst og fremst fjallað um hvað er til bjargar eftir að neyslan er hafin og hvernig heilbrigðiskerfið gæti brugðist við í meðferðarúrræðum. Þar verður að stórefla alla þjónustu með markvissum viðbrögðum. En þessi fjandi er erfiður viðureignar. Hér þarf að koma til öflugt fræðslu-og forvarnarnarstarf og menning sem safnar þreki til að segja hreinlega Nei. Ekki dóp fyrir mig. Um þessa menningu þurfa allir að sameinast og þar gegna fjölmiðlar og skólarnir stóru hlutverki,- en ekki síst í ranni unglinganna sjálfra sem rækta tískuna og gildismatið fyrir lífið sitt.
Svo er það umhugsunarefni hvað veldur vanlíðan og kvíða hjá unga fólkinu í veröld alsnægta þar sem tækifærin til að njóta lífsins virðast blasa við og aldrei verið fleiri. Þá beinast augu að netheimum sem margt ungt fólk virðist gagntekið af. Gæti svo verið að tómhyggjan sem afneitar Guði skipti hér máli?

Við heimtum að búa í sársaukalausu samfélagi þar sem allt á að vera þægilegt og auðfengið. Ef einhver finnur til, þá er krafan að fixa það strax. Allt á að vera slétt og fínt á yfirborðinu,- og helst fullkomið. Þetta er krefjandi umhverfi af því að lífið er ekki svona í laginu. Það skiptast á skin og skúrir í lífi hvers einasta einstaklings. Sársauki er óhjákvæmilegur í mannlegri líðan og getur oft tekið tíma að vinna bug á honum í ljósi aðstæðna.

Þá er lítið pláss fyrir þolgæði og æðruleysi í síngjörnum og hörðum heimi. Sársauki veldur ekki aðeins einstaklingnum vanda, heldur truflar líka friðinn með samferðafólki. Krafist er af kerfinu að deyfa sársauka strax og þá verða pillurnar gjarnan nærtækar, líka til að hjálpa einstaklingi að vera hreinlega til friðs og falla að gildandi normum. Það tekur á að vera öðruvísi. Þetta finna unglingarnir og freistast til að leita í vímu til að flýja vanlíðan og kvíða.

Útihátíðir á sumrin geta því verið unglingum eins og frelsandi skjól af því að þar gæti gilt „allt leyfilegt“. Þá reynir á foreldra, þeirra leiðsögn og jarðveginn þar sem unglingarnir eiga rætur sínar. Er þá innistæða fyrir foreldri til að segja nei við barnið sitt, „þú ferð ekki á útihátíðina“, en gerum skemmtilegt saman um helgina?

Þessi pistill birtist fyrst í Austurlandi.

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum

Gunnlaugur Stefánsson · 29. júní 2018

Fyrirmyndir sjálfstæðrar þjóðar

„Það er kveikt á sjónvarpinu. Má ekki bjóða þér upp að horfa?“ spurði biskupsfrúin í Visby á Gotlandi kvöld eitt í júní fyrir tveimur árum. Ég var stödd þar á norrænum biskupafundi og leikur Íslands og Englands stóð yfir og var sýndur í sænska sjónvarpinu. Ég afþakkaði hið góða boð því ég hafði ekki ró í mér til að fylgjast með leiknum. Svo unnu Íslendingar leikinn eins og kunnugt er og allir biskupar norðurlandanna klöppuðu og hrópuðu húið sem þeir voru búnir að læra. Nú erum við allir Íslendingar sögðu þeir. Ég horfði svo á leikinn þegar ég kom heim og dáðist af þessum snillingum og hugsaði til foreldra þeirra og fjölskyldu sem höfðu stutt þá frá því þeir voru litlir drengir. Hjálpað þeim að safna dósum og selja harðfisk og lakkrís, lagt snemma af stað yfir heiðar, keyrt firði út og inn, skutlað á flugvöllinn, sofið á hörðum gólfum skóla og félagsheimila, allt til að hjálpa þeim að gera það sem þeim fannst skemmtilegast, að spila fótbolta og efla þá félagslega til að vera færari um að takast á við áskoranir lífsins og eignast vini fyrir lífstíð.

Og nú eru þeir aftur á faraldsfæti strákarnir okkar og er förinni heitið alla leið til Rússlands. Þjóðin fylgist stolt með og samhugurinn sem í liði þeirra býr yfirfærist á þjóðina alla og gleðin brýst út þegar vel gengur. Þjóðin hefur margsinnis sýnt að hún kann að standa saman á stundum gleði og sorgar. Þá erum við sem einn maður og finnum til samlíðunar með samferðafólki okkar.

Ég var á þjóðhátíðarsamkomu í Mountain í norður-Dakóta fylki fyrir nokkrum árum. Þar var samankomið fólk af íslenskum ættum og að vanda var þjóðsöngurinn sunginn, Ó, Guð vors lands, ó lands vors Guð. Mér varð starsýnt á gamla konu á tíræðisaldri sem var með íslenskt blóð í æðum þó aldrei hafi hún búið á Íslandi. Hún söng með skæru sópranröddinni sinni þjóðsönginn af mikilli innlifun og hafði lagt hönd sína á brjóstið. Úr andliti hennar skein hlýja og gleði, stolt og virðing. Önnur kona sagði mér að hún væri hundrað prósent Íslendingur þó hún væri fædd og uppalin þar vestur frá.

Við eigum fallegt og gjöfult land og það sem mikils er vert, við erum sjálfstæð þjóð í friðsömu landi. Þó við séum fámenn á mælikvarða heimsins erum við nógu öflug til að eiga eitt besta fótboltalið í heimi. Þó við séum fámenn þjóð eigum við nóg til að gefa. Við getum verið þakklát fyrir að fá að búa hér og stolt af því að vera Íslendingur. Þau sem fyrri voru uppi lögðu hart að sér þegar þau unnu að því að á Íslandi væri fullvalda ríki og síðar lýðveldi.

“Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur” segir Páll postuli í fyrra bréfi sínu til Korintumanna.”

Ég óska strákunum okkar góðs gengis í Rússlandi og landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegrar hátíðar 17. júní.

Greinin birtist upprunalega í Morgunblaðinu þann 16. júní 2018.

Agnes Sigurðardóttir · 19. júní 2018

Ef Guð er til

„Ef Guð er til þá ætti hann að hjálpa manni, nú þarf maður á því að halda,“ var haft eftir sjómanninum Guðlaugi Friðþórssyni í Morgunblaðinu í mars 1984. Hann hafði á ótrúlegan hátt komist lífs af þegar Hellisey VE fórst undan Heimaey, synt í land eftir sex tíma volk í köldum sjónum og gengið berfættur til byggða yfir hraun og mela. Í Morgunblaðsviðtalinu sagðist Guðlaugur áður oft hafa efast um tilvist Guðs, og því hafi það verið undarlegt að biðja um hans hjálp og fara með Faðir vorið með skipsfélögum sínum á kili báts sem maraði í kafi og síðar í tvígang á sundinu áleiðis í land.

Þótt björgunarafrek Guðlaugs sé einstætt er hann langt í frá eini sjómaðurinn sem hefur sótt styrk í æðri mátt á ögurstundu. Sjómennska og trú hafa fléttast saman frá örófi alda, fjölskyldur sjófarenda hafa beðið fyrir þeim og sjómenn stundum lagt örlög sín í hendur almættisins. Bænir á raunastundu hafa auðveldað fólki að takast á við hættulegar aðstæður og ástvinum að takast á við missi.

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur allra sjómanna. Árið 1938 var sjómannadagurinn hafldinn hátíðlegur í fyrsta sinn á tveimur stöðum á landinu, á Ísafirði og í Reykjavík. Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Tilgangurinn var einnig að sameina sjómenn, heiðra minningu þeirra sem Ægir hafði hrifsað til sín og vekja athygli á erfiðum starfsskilyrðum á sjó. Barátta sjómanna fyrir auknu öryggi á sjó hefur skilað gríðarlegum árangri og viðhorf til öryggismála hafa gjörbreyst. Enginn sættir sig lengur við mannskaða á sjó, sem áður þótti óumflýjanlegur hluti lífsbaráttunnar.
Sjómannadagurinn er einn stærsti dagur ársins í mörgum byggðarlögum. Nálægðin við sjóinn hefur mótað mannlífið kynslóð eftir kynslóð. Vitundin um hafið sem gjöfulan vin og ægilegan ógnvald í senn leiðir af sér áræði samfara lotningu.

Í gömlu ljóði eftir stýrimanninn Jónas Guðmundsson (1930-1985) segir að Guð hafi haft mikið að gera á skútuöldinni, þegar margir fiskimenn áttu ekki afturkvæmt úr róðri. Síðar hafi Guð að mestu hætt til sjós og byrjað að vinna í landi. En Guðs er enn þörf á sjó og í hjörtum ástvina sem bíða heima eftir að sjómaður komi í land, því þrátt fyrir miklar framfarir býr hafið enn yfir hundrað hættum. Í bænum sjómanna og aðstandenda þeirra koma saman trú, von og kærleikur - þrjár megindygðir kristninnar - sem alltaf eiga erindi og munu óma í sjómannamessum í upphafi hátíðarhalda víða um land.

Ég óska íslenskum sjómönnum, ástvinum þeirra og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 2. júní 2018

Agnes Sigurðardóttir · 2. júní 2018

Skilnaður við ríkið

Með lögunum um Þjóðkirkjuna, sem Alþingi samþykkti árið 1997, var skilnaður kirkjunnar við ríkið formlega staðfestur. Öll tvímæli eru tekin af um það í fyrstu grein laganna sem lýsir yfir að kirkjan er sjálfstætt trúfélag. Í næstu greinum laganna er sjálfstæðið ítrekað og undirstrikað. Það gildir hvort tveggja um yfirstjórn kirkjunnar og sóknarnefndir safnaðanna. Í sömu lögum er staðfestur sáttmáli, ígildi viðskiptasamnings, um eignirnar og afgjaldið fyrir þær sem leggur grunn að fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar. Þessi löggjöf fól í sér byltingu á sambandi ríkis og kirkju með aðskilnaði. Það verður öllum ljóst sem lesa lögin.

Þá gilda lög um sóknargjöld allra trúfélaga, og Þjóðkirkjan fellur undir, þar sem ríkið sér um innheimtu þeirra og skilar til viðkomandi trúfélags. Nú innheimtir ríkið margvísleg gjöld og skilar á rétta staði. Það er þó einsdæmi, að ríkið skili ekki öllu innheimtu fé til eigandans eins og gildir um sóknargjaldið, en heldur eftir stórum hluta fyrir sig til eigin neyslu. Þetta er sambærilegt við, að ríkið neiti að skila öllu innheimtu útsvari til sveitarfélaganna.

Það tók margt kirkjufólk mörg ár að átta sig á gjörbreyttri stöðu kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og enn virðast sumir ekki hafa áttað sig á nýju starfsumhverfi. Tímamótin fóru m.a. framhjá höfundum að stóru og nákvæmu kirkjusöguriti sem út kom í tilefni af 1000 ára kristnti á Íslandi um aldamótin. Þá vitna um gamla skipan margvíslegar beiðnir til ráðherra um afskipti hans af kirkjunnar málefnum, en var öllum að sjálfsögðu vísað frá vegna þess að ríkið fór ekki lengur með boðvald yfir kirkjunni, rekstri hennar og stjórnsýslu, eignum og umsýslu þeirra.

Þetta þekkjum við vel sem höfum setið í kirkjuráði. Ég hef líka setið í sveitarstjórn. Þar er sambandið á milli ríkis og sveitarfélags flóknara og umtalsvert nánara en á milli ríkis og kirkju. Hefur nokkur stjórnmálaflokkur krafist aðskilnaðar ríkis og sveitarfélaga eða er spurt um það í skoðanakönnunum?

Nú hefur það verið helsta verkefni kirkjuþings að laga starfshætti kirkjunnar að breyttum aðstæðum með því að setja starfsreglur í samræmi við sjálfstæði kirkjunnar. Þeirri aðlögun er í raun ekki enn lokið, enda sístætt verkefni í ljósi þróunar og breytilegra aðstæðna.

Í þessu ljósi er ákallið um aðskilnað ríkis og kirkju hrein og bein tímaskekkja. En hentar vel í áróðri gegn kirkjunni með því að ala á þeirri blekkingu, að kirkjan sé njörvuð og föst í skjóli ríkisvaldsins og njóti yfirburða fyrir það. Öll vandamál hennar megi leysa með aðskilnaði. Fjölmiðlar, stjórmálaflokkar og ímyndarfyrirtæki taka svo upp sleggjudóminn um aðskilnað ríkis og kirkju upp, álykta, hrópa og kalla,- en án þess að kynna sér hvað að baki liggur og hvernig sambandi ríkis og kirkju sé í raun háttað.
Þegar nær er skoðað, þá nýtur kirkjan meira sjálfstæðis en t.d. almenn hlutafélög, fjármálafyrirtæki, verkalýðsfélög, sveitarfélög svo dæmi séu tekin. Mjög nákvæm og ströng löggjöf gildir um rekstur fjármálafyrirtækja og hlutafélaga, en engum dettur í hug að þau séu ríkisvædd fyrir það. Sömuleiðis eru mörg frjáls félög með samninga um þjónustu fyrir ríkið án þess að teljast ríkisstofnanir. Hvernig myndi hljóma spurningin: Viltu aðskilnað ríkis og verkalýðsfélaga? Það myndi ýmsum bregða í brún við það sem er sambærileg spurningunni um aðskilnað ríkis og kirkju.

En kirkjan er í sambandi við ríkið eins og gildir um alla starfsemi sem lýtur að lögum. Nú er kveðið á um það í stjórnarskrá, að „hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkið að því leyti styðja hana og vernda“. Hér er stuðngurinn skilyrtur „að því leyti“ að kirkjan sé evangelisk og lútersk, enda í samræmi við aðra yfirlýsingu sem gefin var út á Alþingi árið 1000, þegar krstni var lögtekin á Íslandi. Með stjórnarskrárákvæðinu um kirkjuna felst að á Íslandi ríki kristinn siður og kirkjunni falið að varðveta hann. Þá er athyglisvert að í ákvæðinu felst aðskilnaður ríkis og kirkju. Það dylst engum.

Ákallið um aðskilnað ríkis og kirkju hefur lengi hindrað uppbyggilega umræðu um stöðu kirkjunnar. Þar ber kirkjan sjálf mikla ábyrgð, m.a. með því að sitja undir blekkingunni án þess að koma staðreyndum rækilega á framfæri. Þar situr umræðan föst. Er leikurinn til þess gerður að gefa röng skilboð sem kæfir samtal um raunverulega stöðu kirkjunnar og allt hið góða starf sem hún stendur fyrir? Þessu þarf að breyta og hafa í fyrirrúmi samband kristni og þjóðar og hvernig Þjóðkirkjan er best í stakk búinn til að varðveita og rækta kristinn sið í landinu eins og stjórnarskráin felur henni að gera og þjóðin samþykkti með afgerandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Gunnlaugur Stefánsson · 23. maí 2018

Hvítasunnan og nýr skilningur

Sem ég sat í morgun í guðsþjónustu og á tónleikum Kammerkórs Digraneskirkju sem voru frábærir, laukst upp fyrir mér ný vídd á hvítasunnutextum kirkjunnar. Þar minnumst við stofndags kristinnar kirkju þegar lærisveinarnir höfðu djörfung á ný eftir aftöku Jesú og upprisu hans. Tryggustu lærisveinarnir, gera má ráð fyrir að þeir hafi verið af báðum kynjum því margar konur fylgdu Jesú, voru á bæn í Jerúsalem. Þá var eins og húsið fylltist af orku óveðurs og þau sem viðstödd voru fóru að tala nýjum tungum. Þetta var heilagur andi sem snerti á þennan nýstárlega hátt við þeim. Þau sögðu frá undrum Guðs á mismunandi tungumálum því í borginni var fólk allavegana frá 13 þjóðlöndum og öll skildu þau boðskapinn þegar talað var til þeirra á þeirra eigin tungumáli. Fólk vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið en þarna var andinn góði kominn til að hjálpa sínu fólki að segja frá elsku Guðs. Með heilögum anda hvarf óttinn frá þeim þrátt fyrir andstreymi.

Þessi frásaga hefur oft verið notuð til að benda á að Guðs andi skapar skilning á milli þjóða, einstaklinga og hópa. Hann brýtur niður fordóma og veggi. Önnur áhersla sem bent hefur verið á, sérstaklega af hvítasunnumönnum eru áhrif andans á einstaklinginn og halda þeir á lofti tungutalinu, tungumáli englanna sem andinn skenkir sumum og veitir þeim blessun.
Þriðja víddin varð mér svo tær í morgun út frá orðum Jesú:

„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt.“ (Jóh. 14. 26a).

Það er skilningurinn inn á við. Þegar við erum opin og eftirvæntingarfull að þiggja af hinu heilaga þá opnar andinn okkur nýjan skilning á aðstæðum í okkar lífi, náungans eða þjóðarinnar. Það er skilningur sem eykur samræmi í lífið og heildarhugsun, visku og það sem mikilvægast er, skapar sýn á hvernig við eigum að bregðast við til góðs. Og ekki er það síðra að heilagur andi gefur okkur kraft og kærleika til að framkvæma það sem er sjálfum okkur og þjóðinni til heilla.

Gleðilegan hvítasunnudag!

Bára Friðriksdóttir · 20. maí 2018

Tilviljun eða heilög köllun

Það var margt og sérstakt sem átti sér stað og hafði áhrif á, að sr. Einar Sigurðsson varð prestur í Heydölum og líktist fremur ævintýri en áætlun.
Sr. Einar bjó með fjölskyldu sinni í prestsembætti við mjög þröngan kost í Nesi í Aðaladal í Mývatnssveit. Til eru bréf frá sr. Guðbrandi, biskupi á Hólum, til nágranna sr. Einars, þar sem biskup biður um að horft sé til með sr. Einari og fjölskyldu og hjálpað með helstu nauðsynjar svo þau kæmust af.

Oddur, sonur sr. Einars og Margrétar Helgadóttur, var kjörinn biskup í Skálholti árið 1588. Margrét, móðir hans, lést 44 ára að aldri, en þá var sr. Einar þrítugur. Þau höfðu eignast 8 börn og lifðu aðeins þrjú og þar á meðal Oddur. Síðar kvæntist sr. Einar Ólöfu þórarinsdóttur og eignuðust þau mörg börn og komust flest á fullorðinsár.

Sr. Oddur kom heim úr vígsluför sinni frá Kaupmannahöfn vorið 1589 og fór þá um sumarið norður í Hóla til að hitta sr. Guðbrand, biskup. Frá Hólum skreppur hann síðan í Nes í Mývatnssveit til að vitja fósturmóður sinnar og systkina, en sr. Einar kom til móts við son sinn á Hólum og reið svo með honum í Nes. Eftir viðdvöl í Nesi, fer ungi biskupinn austur hingað á firðina í vísitasíuheimsókn og þaðan heim í Skálholt um haustið.
Stöldrum hér við. Oddur siglir frá Kaupmannahöfn um vorið, kom í Skálholt og fór síðan hringinn í kringum landið á sama sumrinu árið 1589, ekki akandi á bifreið, heldur ríðandi, engar brýr brúaðar og margir farartálmar á leiðinni og útivistarbúnaður og matföng af öðrum toga en við þekkjum í dag.
Á þessari ferð hefur biskupinn komið í Heydali og kynnst hér aðstæðum. Líklega hefur þessi för biskupsins ráðið miklu um það að sr. Einar varð hér prestur ári síðar.
Í heimsókn sr. Odds í Nesi varð að ráði, að faðir hans og fjölskylda færi suður í Skálholt þá um haustið og dveldi þar um veturinn. Syninum hefur líklega ekkert litist á aðstæður í Nesi, fátækt og umkomuleysi föður síns.

Fjölskyldan taldi 11 börnin þeirra á ýmsum aldri og tvö barnabörn í þeirri för suður yfir heiðar í Skálholt, var mikil hrakför og lá við að fólkið yrði úti á leiðinni og taldi sr. Einar handleiðslu Guðs að þakka að fólkið komst heilt í áfangastað í Skálholti og orti af því tilefni:
„Yngri börnin, öll þá sýkjast og móðirin veik, þá mæddist líka, en óveður á þau dundu, seint á haustíma í háska staddir. – Á miðjum öræfum, en þá reyndu dásemd eina drottins ljósa. Þar sem að allir villtir voru, engill drottins, þá á veg leiddi. Komst svo síðan heim með heiðri í Skálholti“.

Vorið 1590 var afráðið að sr. Einar yrði prestur í Hvammi í Norðurárdal og yfirprófastur í Vestfirðingafjórðungi. Það þótti mikið vildarbrauð og talsverð metorð fólgin í prófaststöðunni. Prestaskiptin í Hvammi virðast ekki hafa verið einföld, jafnvel sár. Þar hafði þjónað lengi sr. Salamón Guðmundsson, aldraður maður. Hann var látinn víkja fyrir sr. Einari. Sagt er að sr. Salamón færi frá Hvammi nauðugur og jafnvel grátandi.
En fljótt skipast veður í lofti. Fjölskyldan staldraði stutt við í Hvammi, aðeins sumarlangt, tóku sig upp um haustið og fóru saman langa leið úr Hvammi austur í Heydali, þangað sem sr. Oddur hafði nú skipað föður sinn prest. Í Heydölum bjó sr. Einar svo fram á sinn hinsta dag árið 1626 eða í 36 ár og orti flesta af sínum sálmum og ljóðum.
Af þessari frásögn má glöggt ráða, að koma sr. Einars í Heydali var ekki samkvæmt fyrirfram gerðri langtímaáætlun, heldur hafi aðstæður og jafnvel tilviljanir ráðið þar miklu umvafið í heilga köllun.
Svo vekur athygli í þessari atburðarás, að Austfirðir virðast ekki álitnir afskekktir né einangraðir í þjóðlífinu og ekki hindrað sr. Einar t.d. í að koma kveðskap sínum á framfæri.

Fólkið á þessum tíma var duglegt að ferðastt um landið. Sr. Einar skrapp t.d. með sonum sínum suður í Skálholt sumarið eftir að hann kom hingað fyrst og svo þaðan með Oddi, biskupi syni sínum, norður í Hóla þar sem Oddur kvæntist Helgu Jónsdóttur og eftir það fór „Einar, faðir hans, í Austfjörður að Eydölum heim í hvíldar sæti“, eins og skáldið sjálft komst að orði. Svo yrkir skáldið: „Enn var siðvenja Einars sona árlega, að ríða í Austfjörður til sumarvistar hjá sínum foreldrum, á haustin þá aftur heim til skóla.“

Gunnlaugur Stefánsson · 7. maí 2018

Þau eru mörg sporin

Á öllum tímum hefur ljósi trúar verið varpað á brennandi málefni líðandi stundar. Trúin lifir og hrærist í straumkasti tímans en er ekki lokuð af og á eintali við sjálfa sig. Hún er á vissan hátt samtal; í samtali mannsins við Guð liggja rætur að samtalinu við samfélagið og aðrar manneskjur. Þar skýst fyrst upp á yfirborðið náungakærleikurinn sem svar við hinn frægu spurningu: „Á ég að gæta bróður míns og systur minnar?“ En hann beinist ekki aðeins að manneskjum heldur og nánasta umhverfi. Sjálfri náttúrunni.

Sjálfbærni er leiðarljós

Kirkjuþing 2018 samþykkti þingsályktun um umhverfismál og þar segir meðal annars: „Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafin. Hún ber jafnframt sérstaka ábyrgð vegna stöðu sinnar í sköpunarverki Guðs samkvæmt gyðing-kristinni hefð. Þeirri ábyrgð fylgir sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi. Hlutverk mannkyns er að yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.“
Ábyrgð manna er mikil og þeir geta ekki valsað um veröldina eins og himnakóngsins lausamenn. Þvert á móti verða þeir að ganga um náttúruna sem væri hún hvort tveggja í senn stofa Guðs og prýði, eldhús og forðabúr. Aldingarður og uppspretta allra lífsins gæða.
Í ljósi þessa var því vel til fundið að verja miklum hluta nýliðinnar prestastefnu í umræður um umhverfismál. Ekki svo að skilja að kirkjan hafi þagað um þau mál. Alls ekki. Mjög víða hafa kröftugar umræður verið um þessi mál úti í söfnuðum og víðar á kirkjulegum vettvangi.
Vonandi hefur prestastefnan blásið afli og eldi, anda og ákafa, í brjóst þeirra er hana sóttu og þá sérstaklega hvað umhverfismálin snertir. Gaman var í það minnsta að sjá og heyra að áhugi var mikill á málinu og umræðan frjó og ekki síst í matar- og kaffihléum. Erindin voru líka mjög svo áhugavekjandi og gafst ekki kostur á að sækja þau öll, fólk varð að velja á milli. Vil þó nefna að fyrirlestur dr. Halldórs Björnssonar um loftslagsbreytingar var einstaklega góður og uppfræðandi, frábær inngangsfræði í þeim efnum fyrir þau og þar á meðal undirritaðan sem eru byrjendur í faginu – ef svo má segja.

Sporin okkar

Það hefur aldrei þótt gott að arka inn og spora út um öll gólf. Menn hafa fengið orð í eyra fyrir slíkt athæfi og ekki nema von. Skipað að þrífa upp eftir sig. En það hefur hins vegar þótt eftirbreytnivert að skilja eftir sig spor og þá í jákvæðri merkingu – eitthvað sem er þess vert að huga að og velta fyrir sér. Draga jafnvel lærdóm af. Svo er ekki heldur gott til afspurnar að skilja ekki eftir sig nein spor eða standa ætíð í sömu sporum. Annað hvort ber það vott um dauðyflishátt eða leynipukur. Ekki má svo gleyma hinu mörgu víxlsporum sem ekki eru eftirsóknarverð en við stígum engu að síður alltof oft – svo ekki sé nú minnst á ógæfusporin. Stígum frekar gæfuspor.
Þau eru semsé mörg sporin sem við skiljum eftir hér og þar. Umhverfið geymir þau – allar tegundir sporanna. Manneskjan getur greinilega ekki gengið hér leyndardómsfull um garða í trausti þess að enginn sjái til hennar, góðra verka sem og slæmra, eins og skötuhjúin forðum daga í umhverfisparadísinni Eden sem varð í skyndilegri nekt sinni litið á skjá himinsins þar sem reyndar stóð ekki „Error“ heldur annað því skylt: „Hvar ertu?“.
Allt er skráð þá vel er að gáð, sporin djúp og grunn, smá og stór. Hvílíkur er sá hinn harði diskur!
En við erum hvött til „að spora ekki náttúruna út.“

Vistspor

Í umhverfisfræðinni er talað um vistspor. Æskilegast er að það sé sem nettast sem svífandi fis ballettfótarins – helst ekki neitt en það er nú sennilega ógerlegt. Þetta spor er merki sem við skiljum eftir okkur í umhverfinu án þess að gefa mikinn gaum að því – þetta eru verksummerki okkar í hversdeginum hvort heldur akstur með aðra hönd á stýri eins og mjólkurbílstjórinn forðum daga eða kvöldverður þar sem rauðblæðandi nautasteik hvílir á skreyttum diskinum. Vistsporið mælir magn náttúrulegra gæða jarðarinnar sem mannkynið notar í neyslu sína. Gæði jarðar eru með öðrum orðum auðlind sem sótt er í til að fóðra neyslu okkar. Og allar lindir geta gengið til þurrðar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um tröllslegan neysluham nútímans.
Vistspor þjóðanna eru misstór eins og gefur að skilja. Víða er fullyrt að vistspor okkar Íslendinga sé býsna stórt miðað við fólksfjölda – það kemur kannski ekki á óvart – eða hvað? „Stórasta“ þjóð í heimi?
Fólk er semsé hvatt til að skilja eftir sig sem grynnsta og umfangsminnsta vistsporið. Nú þurfum við Íslendingar að taka á okkar stóra í þessum efnum. Þar hefur kirkjan líka hlutverk. Ekki bara út frá guðfræðilegum sjónarmiðum sem kristallast í náungakærleika heldur og ábyrgri siðferðislegri afstöðu gagnvart gjöfum skaparans.

Græna kirkjan

Ánægjulegt er að margir söfnuðir hafa stigið græn skref og velta fyrir sér hvernig hægt er að stíga enn fleiri. Minnka vistsporið. Þetta er vinna sem krefst samtals sem á rætur eins og fyrr sagði í kærleika til jarðarinnar, náungakærleika. Jörðin, Guðs góða sköpun er náungi okkar. Hér er í raun hvert safnaðarbarn kallað á sínum heimavettvangi til að huga að til dæmis rekstri kirkjunnar hvað snertir öll innkaup og orkunotkun, flokkun sorps og pappírsnotkun, sama á við um safnaðarheimilin og yfir höfuð allt safnaðarstarf.
Efna mætti til dæmis til „plokkguðsþjónustu“ í sókninni þar sem söfnuðurinn færi út á vettvang til að tína rusl og að því verki loknu myndi fólkið setjast niður á góðum stað og þar yrði guðsþjónusta eða helgistund höfð um hönd. Sjálfbærni er leiðarljósið – að kirkjan verði lífræn kirkja í margvíslegum skilningi!
Á prestastefnunni flutti danskur prestur, sr. Martin Ishöj, dr. theol., ljómandi gott erindi um grænu kirkjuna í Danmörku. Hann koma víða við og það var athyglisvert að hlýða á hann. Nánar má lesa um grænu kirkjuna hér: gronkirke.dk.

Kirkjuspor

Svona í lokin má skjóta því að hvort tilefni væri að koma ýta úr vör verkefni sem kalla mætti kirkjuspor. Verkefnið fælist í mjög svo umhverfismiðuðu starfi í viðkomandi kirkju – eða sókn – rekstri og öllu sem að henni lýtur. Þetta mætti auðvitað útfæra með ýmsum hætti. Hafa fleiri útiguðsþjónustur þegar veður leyfir, svo dæmi sé nefnt. Hver kirkja gæti komið sér upp útialtari í garði kirkjunnar – á sama hátt og útikennslustofur hafa rutt sér til rúms í skólunum. Sem fyrr er hægt að virkja börn og unglinga – líka foreldra. Nú reynir bara á hugkvæmni hvers og eins!
Þó verða menn að gæta þess líka að ganga ekki í „umhverfisklaustur“ – ef svo má segja – hætta nánast að draga andann og njóta lífsins af ótta við að þramma ógætilega um Guðs grænu náttúruna – þora ekki að tylla fæti sínum niður á jörð Guðs því vistsporið ógurlega traðki þá niður með húð og hári eins og spor tröllsins sem býr í fjallinu. En náttúran er vettvangur manneskjunnar og hún verður að finna sinn óttalausa meðalveg. Kirkjusporið væri kannski æfing í því?

Hreinn S. Hákonarson · 30. apríl 2018

Setningarræða á prestastefnu 24. apríl 2018

Setningarræða á prestastefnu 24. apríl 2018

Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen, vígslubiskupar, prestar, djáknar, gestir.
Sognepræst Martin Ishøj. Jeg byder dig velkommen til Island og også til vores præstekonference. Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til setningar prestastefnunnar hér í Neskirkju á því herrans ári 2018. Árinu sem við fögnum aldarafmæli fullveldisins og aldarafmæli prestafélagsins. Ég þakka fólkinu hér í Neskirkju fyrir fundaraðstöðuna og allan undirbúninginn. Einnig þakka ég synodusnefndinni samstarfið, en í henni eru auk starfsfólks á Biskupsstofu, fulltrúar úr stjórn Prestafélagsins. Ég þakka doktor Arnfríði Guðmundsdóttur fyrir prédikunina við guðsþjónustuna og þeim er þjónuðu með einum eða öðrum hætti við hana. Organistanum og kórnum hér í kirkjunni þakka ég fyrir að vera með okkur hér í dag og flytja okkur fallega tónlist. Einnig vil ég þakka starfsfólki Biskupsstofu fyrir þeirra framlag við undirbúninginn sem og þeim er hafa lagt hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

Umhverfismál
Á þessari prestastefnu verður fjallað um umhverfismálin og er yfirskriftin tekin úr 1. kafla 1. Mósebókar „Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ Umhverfismálin hafa verið á dagskrá hjá þjóðkirkjunni eins og öðrum systurkirkjum okkar undanfarin ár og því eðlilegt að þau séu til umræðu einnig á prestastefnunni nú. Biblíulestrar, fyrirlestrar og málstofur taka eðlilega mið af því.

Á kirkjuþinginu í október sagði ég m.a. í setningarræðu minni:
„Auk minningar siðbótarinnar stendur upp úr öllu því mikla og góða starfi þjóðkirkjunnar og þjónustu hennar um landið allt, ráðstefna Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina sem fram fór í samvinnu við þjóðkirkjuna, í síðasta mánuði. Þetta var í fyrsta skipti sem slík umhverfisráðstefna er haldin hér á landi. Fulltrúar þeirrar ráðstefnu tóku einnig þátt í ráðstefnu hringborðs norðurslóða, Artic Circle þar sem aðalræðumaðurinn var hans heilagleiki Bartholomew fyrsti, leiðtogi grísk orþódoxu kirkjunnar, annarrar stærstu kirkjudeildar heims á eftir rómversk kaþólsku kirkjunni.“
Það er gleðilegt að aftur hefur verið óskað eftir þátttöku kirkjunnar á næstu norðurslóðaráðstefnu í október í haust og er stefnt að því að daginn fyrir ráðstefnuna komi biskupar af norðurslóðum saman og ráði ráðum sínum varðandi umhverfismálin. Þeir munu síðan taka þátt í norðurslóðaráðstefnunni og prédika í kirkjum á suðvesturhorninu á sunnudeginum, áður en haldið er heim.
Umhverfismálin hafa verið á dagskrá þjóðkirkjunnar. Söfnuðir hafa verið hvattir til þátttöku í tímabili sköpunarverksins sem stendur yfir frá 1. september til 4. október í ár eins og síðast liðið ár. Markmiðið er að umhverfisstarfið tvinnist inn í daglega starfsemi safnaðanna og kirkjunnar allrar. Ég hef hvatt til athafna í hverjum söfnuði og tel æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á starfsemi sinni. Á morgun mun fulltrúi Umhverfisstofu fræða okkur nánar um það ferli. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C. Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum.
Á ráðstefnunni um réttlátan frið við jörðina var samþykkt ályktun sem allir viðstaddir þátttakendur skrifuðu undir í Þingvallakirkju. Þar segir m.a.: „Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi.
Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra lífshættti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði. Og við fögnum því að kirkjur og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði. Sé horft til þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.“
Lokaorð yfirlýsingarinnar, hljóða þannig. „Í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.“

Hið íslenska biblíufélag
Biskup Íslands er forseti hins íslenska Biblíufélags og hefur verið það allt frá stofnun félagsins þann 10. júlí árið 1815. Geir Vídalín var þá biskup Íslands og þar með fyrsti forseti félagsins. Telst mér til að ég sé 14. forseti félagsins. Í stjórn þessa elsta starfandi félags landsins eru auk biskups Íslands 4 guðfræðingar og 4 leikmenn. Nýr verkefnisstjóri tók til starfa í byrjun árs og er það Guðmundur Brynjólfsson djákni. Skrifstofan flutti frá Biskupsstofu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar í lok febrúar. Ný heimasíða félagsins var einnig opnuð á árinu og Biblían á íslensku er nú komin á app. Tilkoma snjalltækja felur í sér mikla samfélagsbreytingu og er stór hluti Íslendinga með snjalltæki á sér flestar stundir. Þegar Biblían er aðgengileg á slíku appi þá þýðir það að meirihluti Íslendinga verður með rafrænan aðgang að Biblíunni í vasanum, allar stundir! Er það von stjórnarinnar að þessar breytingar allar verði til blessunar fyrir kirkju og almenning.

Áskorun afhent
Þann 15. janúar 2018 afhentu formaður félags prestsvígðra kvenna og varaformaður Prestafélagsins áskorun til yfirstjórnar kirkjunnar. Undir hana skrifa 65 prestsvígðar konur. Í áskoruninni segir:
„Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.
Allar konur eiga rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum. Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýna svart á hvítu að breytinga er þörf.

Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.
Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Undir þessa yfirlýsingu skrifa konur í prestastétt. Ekki er víst að náðst hafi í allar prestvígðar konur við gerð þessarar áskorunar.“
Áður höfðu karlkyns prestar og djáknar sent frá sér yfirlýsingu á facebook. Þann 24. nóvember var þessi yfirlýsing birt:
„Við, karlprestar og karldjáknar í þjóðkirkjunni, heitum því að gera allt sem við getum til að tryggja konum öryggi innan þjóðkirkjunnar og þar sem við höfum völd og áhrif.
Þöggun um kynferðislega áreitni og valdbeitingu verður ekki liðin af okkar hálfu.
Við munum tilkynna áreitni sem við verðum vitni að.“ Undir þessa yfirlýsingu skrifa 73 karlar.
Það ljóst að alheimsbyltingin metoo hefur náð inn í kirkjuna okkar og um það eru flestir sammála að taka hana alvarlega og vinna að siðbót innan hennar til að tryggja öruggar aðstæður fyrir þau öll er henni þjóna og hana sækja.

Árið 2012 skilaði svonefnd úrbótanefnd tillögum sínum um úrbætur til að takast á við mál af þessum toga. Það hefur verið erfið fæðing að koma þeim tillögum í framkvæmd en ein þeirra verklag í viðkvæmum aðstæðum verður kynnt hér á prestastefnunni. Hugmyndin er að þau öll sem þjóna innan kirkjunnar með einum eða öðrum hætti fari í gegnum netnámskeið um verklag í viðkvæmum aðstæðum og er það einn þátturinn í að gera kirkju okkar betri og öruggari fyrir alla. Einnig vil ég minna á að árið 2003 gaf kirkjan út efni, „Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ og er það gott innlegg í umræðu dagsins um úrbætur í kirkjunni.

Fræðslustarf
Eins og kunnugt er þurfti að setja ýmis mál í biðstöðu vegna fjárskorts þegar kirkjunni var gert að skera niður fjárhagslega vegna hrunsins. Sem betur fer hefur staðan batnað og nú er verið að vinna að því að auka fræðslustarf kirkjunnar til muna. Það er alveg ljóst að kirkjan verður sjálf að axla ábyrgð varðandi kristindómsfræðslu ef komandi kynslóðir eiga að kunna á henni einhver skil. Öll fræðsla kirkjunnar er skírnarfræðsla, enda er það að boði frelsarans sjálfs sem við erum send út með það erindi að skíra og kenna. Skírnum hefur fækkað hér á landi eins og í nágrannalöndum okkar og er það ávísun á minnkandi þekkingu á kristinni trú og þeim gildum sem felast í henni. Það er alvarlegt mál fyrir kirkjuna ef hún stendur sig ekki í skírnarfræðslunni og þegar nýr verkefnisstjóri var ráðinn á fræðslusviðið síðast liðið haust setti ég fræðslu um skírnina sem forgangsmál.

Viðbótarskyldur – breyting á launakerfi
Nokkrir prestar í fámennum prestaköllum hafa fengið viðbótarskyldur við þjóðkirkjuna, m.a. í fræðslumálum. Varðandi þessar viðbótarskyldur þá vil ég taka fram að sé sóknarprestsstaða auglýst með viðbótarskyldum við þjóðkirkjuna þá gengur sóknarprestsstarfið alltaf fyrir. Viðkomandi prestur er fyrst og fremst sóknarprestur og þjónn sóknarbarna sinna. Þannig hefur verið hægt að auglýsa fámenn prestaköll en ekki leggja þau niður eða sameina þau öðrum.

Mínar hugmyndir um framtíðarskipan prestakalla eru þær að prestaköll verði í framtíðinni stór með mörgum prestum. Svo dæmi sé tekið, þar sem ég þekki best til, þá sé ég fyrir mér að öll Ísafjarðarsýsla verði eitt prestakall þar sem prestarnir vinni saman, skipuleggi saman og skipti með sér verkum þó þeir búi á mismunandi stöðum í prestakallinu. Þetta tel ég vera ákall nútímans og framtíðarinnar. Ég hef tekið eftir því að unga fólkinu hugnast ekki að vera einyrkjar. Þannig tel ég líka að bæta megi þjónustu við sóknarbörnin og jafna álag presta í starfi. Þetta sé ég fyrir mér um allt land, í dreifbýli, sem og í þéttbýli.
Eins og kunnugt er var gerð breyting á launakerfi presta í lok síðasta árs. Horfið var frá jafnlaunastefnunni sem ríkt hefur í prestastéttinni um árabil. Prestar eru nú í ólíkum launaflokkum. Þegar til framtíðar er litið þá getur þessi stefna t.d. haft þau áhrif að sum prestaköll verða rýr á meðan önnur gefa meira. Ef prestaskortur verður eins og hefur gerst í kirkjusögunni þá getur verið erfitt að manna rýrt prestakall sem e.t.v. vill er með mörgum litlum sóknum, fámenni í dreifðum byggðum. Stækkun prestakallanna ætti því að vera jákvæð þegar horft er til þessarar breytingar á launastefnunni.
Það eru fleiri vígðir þjónar í kirkju okkar en prestar í sóknum landsins. Nokkrir djáknar starfa í sóknum og hjá stofnunum með prestum eða sem einyrkjar. Prestar eru líka í þjónustunni sem sinna fólki í sérstökum aðstæðum. Sjúkrahúsprestar, fangaprestur, prestur heyrnarlausra, prestur fatlaðra, prestur Kvennakirkjunnar og prestur innflytjenda. Mikið hefur mætt á þeim síðastnefnda, Toshiki Toma undanfarin ár og hefur hann þjónað þeim sem hingað leita erlendis frá, m.a. hælisleitendum sem margir hverjir hafa flúið ömurlegar aðstæður sínar og sumir vegna trúar sinnar. Ég þakka honum og ykkur öllum sem hafið tekið þátt í starfinu með honum.

Unga fólkið
Unga fólkið er framtíðin er oft sagt með réttu. Á síðasta kirkjuþingi var samþykkt ályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi og stjórn. Þessi ályktun fylgir eftir ályktun tólfta þings Lúterska heimssambandsins frá síðasta ári um þátttöku ungs fólks í stjórn aðildarkirkna sambandsins. Miðað er við að ungt fólk á aldrinum 16 – 30 ára verði að jafnaði minnst tuttugu prósent innan hverrar skipulagsheildar í kirkjunni. Þetta á m.a. við varðandi kirkjuþingið sem kjósa á til í næsta mánuði. Við erum ekki að standa okkur vel í þessum efnum og verður fróðlegt að sjá hvort breyting verður á. Ungt fólk í prestsþjónustu, þ.e. innan við þrítugt nær ekki einu sinni 5% eins og er.
Kirkjuþing unga fólksins er haldið ár hvert og ljóst er af þeim málum sem þar eru á dagskrá að ungt fólk er lengra komið í hugsun en eldra fólk, t.d. hvað umhverfismál varðar. Víða er æskulýðsstarf í blóma en ljóst er að við verðum að leggja enn meiri áherslu á það í náinni framtíð.
Farskóli leiðtogaefna útskrifar nema árlega, nú síðast þann 11. apríl. Ungmenni í farskólanum stunda tveggja ára leiðtoganám. Markmið skólans er að vera stuðningur við söfnuði í þjálfun hæfra og góðra leiðtoga og þannig undirbyggja faglegt barna- og unglingastarf innan kirkjunnar. Í farskólanum er fræðsla um kristna trú, kirkjuna og starf hennar. Nemendur eru þjálfaðir í félagsstörfum um leið og áhersla er lögð á að sinna uppbyggingu hvers þátttakanda. Einnig er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag. Farskólinn hefur starfað um árabil og margir nemendurnir tekið þar sín fyrstu skref sem leiðtogar innan kirkjunnar.

Leitandi.is
Eins og flestir vita hefur verið settur í loftið nýr vefur á vegum kirkjunnar sem kynna á það góða starf sem fram fer í kirkjum og sóknum landsins. Þar er fjallað um gildi góðs lífs og haldið á lofti því sem fólkið í kirkjunni hefur fram að færa. Myndver hefur verið sett upp hér á neðri hæðinni í Neskirkju en hluti af efninu á vefnum birtist í myndbandsformi. Tilvist þessa nýja vefs hefur ekki farið hátt enda er hann enn í þróun en engu að síður er alveg óhætt er að halda honum á lofti og benda á hann. Prestum landsins hafa nýverið verið sendar upplýsingar frá vefstjóranum og hvet ég ykkur til að kynna ykkur vefinn og nýta ykkur hann.
Kirkjan hefur fleira en prédikunarstólinn til að koma boðun sinni, fræðslu og kynningu á framfæri. Með nýjum aðferðum og nýrri tækni myndast tækifæri til að koma boðskapnum til skila með þeim miðlum sem eru fyrir hendi á hverri tíð. Tæknin kemur þó ekki í stað mannlegra samskipta og því mun áfram verða net kirkjunnar þjóna um land allt þó betri samgöngur og breyting á íbúaþróun hafi þar eitthvað að segja.

Samstarf og GTD
Um árabil hefur samstarf verið á milli þjóðkirkjunnar og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands um menntun presta. Sérstakur samningur hefur verið endurnýjaður og bættur, nú síðast árið 2017. Er hann gerður til að styrkja tengslin milli þessara aðila með það að markmiði að efla starfsmenntun og starfsþjálfun verðandi þjóna kirkjunnar. Til að hljóta embættisgengi þurfa nemendur að klára mag.theol. próf frá H.Í. og starfsþjálfun frá þjóðkirkjunni. Þetta samstarf hefur verið gefandi og árangursríkt og geta má þess að á ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina voru guðfræðinemar sjálfboðaliðar og lögðu ráðstefnugestum lið og sáu um ýmis hagnýt mál fyrir ráðstefnuna og á henni. Er þeim þakkað ánægjulegt samstarf.

Umsagnir og viðtöl
Undanfarna mánuði hafa mörg frumvörp verið borin upp á Alþingi er snerta trú og lífsskoðun. Má þar nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, tillögu til þingályktunar um dánaraðstoð og frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum er varða umskurð drengja. Biskup hefur sent umsagnir um þessi mál og fleiri en mesta athygli hefur vakið málið varðandi umskurð drengja. Innlendir og erlendir fjölmiðlar hafa óskað eftir viðbrögðum biskups og það ásamt fleiru leiddi til þess að ráðstefna var haldin í síðustu viku í Norræna húsinu á vegum samráðsvettvangs trúarbragðanna um málið. Fyrirlesarar voru flestir erlendir, gyðingar, múslimar, kristnir, stjórnmálamenn og fólk sem vinnur á vegum kirknasamtaka. Þarna var virðing fyrir mismunandi skoðunum í hávegum höfð og augljóst að málið á sér margar hliðar sem verður að taka tillit til við afgreiðslu þess á Alþingi. Ráðstefnunni var streymt beint út og á að vera hægt að sjá hana á veraldarvefnum. Skipuleggjendum ráðstefnunnar, fulltrúum trúarbragðanna í samráðsvettvangnum, er þakkað þeirra góða starf, en fyrir því fer Jakob Rolland prestur kaþólskra nú um stundir.

Þess skal og getið að verið er að vinna að uppsetningu nýrra vefja í stað kirkjan.is og tru.is. Efni prestastefnunnar og önnur gögn hennar hafa verið sett inn á nýjan þjónustuvef, innri vef kirkjunnar. Þessi vinna hefur tekið allt of langan tíma og hefur það valdið ýmsum vandræðum s.s. við skýrsluskil. Er beðist velvirðingar á því.

Mannauðsmál
Stjórnsýsla kirkjunnar tekur mið að regluverki og stjórnsýslu ríkisins. Um árabil hefur það tíðkast að prestar sem hafa látið af störfum hafa getað sinnt afleysingaþjónustu og er þeim öllum sem brugðist hafa vel við slíkri beiðni þakkað fyrir. Nú hefur það hins vegar komið í ljós að biskup getur ekki sett presta sem orðnir eru 70 ára til afleysinga eins og verið hefur. Þetta kann að hafa það í för með sér að vígja þurfi presta til afleysingaþjónustu. Það hefur ekki verið gert í fjölda ára. Nokkrir prestar hafa óskað eftir því að minnka þjónustu sína í 50% starf og hefur verið reynt að bregðast við því eins og flestu því er lýtur að mannauðsmálum í kirkjunni.

Kynning á niðurstöðu starfsánægjukönnunar sem gerð var á síðasta ári hefur farið fram í öllum prófastsdæmum. Undirbúningur stendur yfir að því að gera áætlun um hvernig unnið verði úr niðurstöðum könnunarinnar. Verður það gert í samstarfi við prestastéttina. Niðurstöður könnunarinnar voru í flestu jákvæðar, að mínu mati, og verður reynt að bæta úr þeim atriðum sem fram kom að laga þurfi. Ég þakka ykkur fyrir að taka þátt og gera okkur þannig kleift að bæta kirkjuna og gera hana að betri og öruggari vinnustað.

Persónuvernd
Ný reglugerð um persónuvernd tekur gildi á Evrópska efnahagssvæðinu þann 25. maí nk. Í reglugerðinni felst aukin vernd neytenda gegn misnotkun persónuupplýsinga og að draga úr söfnun upplýsinga og miðlun. Margvísleg fleiri nýmæli er þar að finna. Þjóðkirkjan þarf að undirbúa gildistöku reglnanna eins og aðrir. Söfnuðir og aðrar skipulagsheildir kirkjunnar, vígðir þjónar og aðrir starfsmenn þurfa að huga að þessum málum. Biskupsstofa hefur hafið undirbúning að þessu verkefni og fengið sérfræðinga til ráðgjafar. Vígðir þjónar gegna mikilvægu hlutverki við innleiðingu reglugerðarinnar hvað varðar skráningu og meðferð persónuupplýsinga í sóknum og í tengslum við prestsþjónustu við einstaklinga. Biskupsstofa mun senda öllum vígðum þjónum í þjónustu þjóðkirkjunnar nánari upplýsingar um þetta mál mjög fljótlega. Ég treysti því að vígðir þjónar muni bregðast vel við og taka þátt í þessu þýðingarmikla verkefni, sem snýst ekki hvað síst um að virða mannhelgi allra.

Nývígðir prestar og djákni
Á synodusárinu voru 5 prestar vígðir og einn djákni.
Mag. theol. Stefanía G. Steinsdóttir, var vígð 13. ágúst 2017, skipaður prestur í Glerárprestakalli, Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 15. ágúst 2017.
Cand. theol. Sylvía Magnúsdóttir, var vígð 24. september 2017, til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Mag.theol. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, var vígð 12. nóvember 2017, skipaður sóknarprestur í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 15. nóvember 2017.
Mag.theol. Dís Gylfadóttir, var vígð 12. nóvember 2017, sem prestur í Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. nóvember 2017.
Mag.theol. Díana Ósk Óskarsdóttir, var vígð 25. mars 2018 til þjónustu sem prestur á Landspítala.
Nývígður djákni
Elísabet Gísladóttir, var vígð 24. september 2017, sem djákni á Sóltúni í Reykjavík.

Skipanir í embætti og lausn frá embætti
Séra Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur í Hofsprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní 2017.
Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur heyrnarlausra, skipaður prestur í Njarðvíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. júní 2017.
Séra Sveinn Valgeirsson, prestur í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipaður sóknarprestur í sama prestakalli frá 1. júlí 2017.
Séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Noregi, skipaður prestur í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. október 2017.
Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi var skipaður héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. nóvember 2017.
Séra Sunna Dóra Möller, prestur í Akureyrarprestakalli, skipaður sóknarprestur í Hjallaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 16. janúar 2018.
Einnig tók séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir við embætti prests í Kvennakirkjunni auk þess að sinna verkefnum er lúta að áskorun prestsvígðra kvenna um siðbót innan kirkjunnar hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.

Andlát
Prestar
Séra Gísli Halldórsson Kolbeins, fyrrv. sóknarprestur í Stykkishólmsprestakalli Vesturlandsprófastsdæmi, lést 10. júní 2017. Hann var fæddur 30. maí 1926.
Eftirlifandi eiginkona séra Gísla er Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir.
Séra Björn Helgi Jónsson, fyrrum sóknarprestur í Húsavíkurprestakalli, Þingeyjarprófastsdæmi, lést 1. apríl 2018. Hann var fæddur 31. október 1921.
Prestsmakar
Frú Unnur Guðjónsdóttir, ekkja séra Péturs T. Oddssonar. fyrrv. sóknarprests í Hvammsprestakalli og prófasts í Dalaprestakalli, lést 1. september 2017. Séra Pétur lést 1956.
Frú Jakobína Finnbogadóttir, ekkja séra Þóris Kr. Þórðarsonar, prófessors við guðfræðideild Háskóla Íslands, lést 18. desember 2017. Þórir Kristinn lést 26. febrúar 1995.
Frú Auður Guðjónsdóttir, ekkja séra Kristjáns Róbertssonar, fyrrv. sóknarprests í Seyðisfjarðarprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi, lést 1. mars 2018. Séra Kristján lést 2008.
Frú Beta Einarsdóttir, eiginkona séra Fjalars Sigurjónssonar, fyrrv. sóknarprests í Kálfafellsstaðarprestakalli og prófasts í Skaftafellsprófastsdæmi lést 2. mars 2018.
Frú Sigurveig Georgsdóttir, eiginkona séra Lárusar Guðmundssonar, fyrrv. sendiráðsprests í Kaupmannahöfn, lést 4. mars 2018.
Við þökkum Guði fyrir trúa þjónustu þeirra í kirkjunni og biðjum Guð að helga minningu þeirra og blessa ástvini þeirra. Rísum úr sætum og lútum höfði í hljóðri bæn.

Jafnræði Umhyggja Samstaða
Í biskupstíð minni hef ég leitast við að fara ekki í manngreinarálit þegar mál koma upp. Ég hef ávallt haft að leiðarljósi að allir séu jafnir, hafi jafnan rétt og fái réttláta málsmeðferð. Starfsmannamál eru erfiðust allra mála og aldrei má gleyma því að bak við hvert slíkt mál er manneskja sem á sér fjölskyldu og vini sem líka þjást þegar erfiðleikar steðja að. Biskupsembættið verður að lúta lögum og reglum og lögfræðingar eru best til þess fallnir að lesa úr þeim og veita lögfræðilegar leiðbeiningar og ráð. Í hverju máli ráðfæri ég mig við fleiri en einn lögfræðing áður en ákvörðun er tekin og bið einnig Guð um leiðbeiningu og hjálp. Það kemur fyrir að menn eru ekki sáttir við niðurstöðu mína og þá er hægt að skjóta málum til annarra aðila innan kirkju sem utan. Það er réttur hvers manns.
Umhyggja er góður eiginleiki stjórnenda og á það líka við í kirkjunni.

Samstaða er nauðsynleg í kirkjunni. Án hennar mun okkur ekki takast að gera kirkjuna betri. Við höfum öll það hlutverk að koma fagnaðarerindinu til skila og ljóst er að orð baráttumannsins „sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér“ eiga við kirkjuna, þegar sótt er að henni úr öllum áttum.

Kirkjan er samfélag, þar sem umhyggja og kærleikur eiga að ríka. Hún flytur það besta erindi sem mannkyni hefur borist um fullkomna elsku Guðs til manna. Framkoma okkar gagnvart hvert öðru á að endurspegla þá elsku. Jesús sagði og segir enn: “Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“
Ég þakka ykkur trúa þjónustu í kirkju Krists og bið hann að gefa ykkur kraft og djörfung til góðra verka.

Göngum með gleði til starfa á þessari prestastefnu. Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists. Bræður og systur. Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast. Prestastefna Íslands árið 2018 er sett.

Agnes Sigurðardóttir · 30. apríl 2018

Tómhyggja og dómhyggja

„Taugavísindi sýna að við erum ekki með sál.“ Svona kemst merkur taugalíffræðingur að orði. Hann ritaði metsölubók og fékk miklu fleiri gesti á fyrirlestur sinn en biskup við páskamessu sína. Um þetta ritar Sif Sigmarsdóttir í pistli sínum [Dómkirkja – tómkirkja] í Fréttablaði laugardagsins. Hún segir okkur svo frá því að raunvísindin hafi nú tekið til við að svara þeim spurningum sem trúin sat áður ein að.

Við lestur greinarinnar varð mér hugsað til þekktra rökræðna í breska ríkisútvarpinu frá því um miðja síðustu öld. Heimspekingarnir Bertrand Russell og Fred­erick Copleston ræddu þar um trúmál. Russell var á móti guðstrú en Copleston kom henni til varnar. Að lokinni þessari rimmu spurðu pistlahöfundar þess tíma sig að því, hvor þeirra hefði haft betur. Niðurstaðan var áhugaverð. Copleston var talinn hafa haft yfirhöndina þegar kom að siðferði og mannlegri breytni. „Ef Guð er dauður er allt leyfilegt,“ sagði Dostojevskí. Hann reyndist þar sannspár um heljarstefnur 20. aldarinnar þar sem valdhafar lutu hvorki valdi að neðan né ofan. Á hinn bóginn átti verjandi guðstrúar engin svör við þeirri rökréttu ályktun hins guðlausa sem var einhvern veginn á þessa leið: Hvernig getur heimur, sem á sér ekkert upphaf, átt einhvern skapara? Taramm.

Guðfræðingurinn Georges Le­maître hafði reyndar áður sett fram kenninguna um Miklahvell (sem sumir virðast nú halda fram að sé ósamrýmanleg guðstrú í hvaða formi sem er) en sú kenning hafði þá ekki hlotið almenna viðurkenningu. Russell taldi eins og flestir aðrir á þeim tíma að heimurinn ætti sér ekkert upphaf.

Og nú deilir Sif með okkur ýmsum tilvistarlegum yfirlýsingum vísindamanna úr röðum guðleysingja sem ganga út á það að dauðinn sé endalok alls og að sálin sé ekki til. Hver veit nema að um síðir muni sitthvað koma í ljós sem rýrir þá ályktun þeirra? Það er þó ekki víst. Af hverju? Jú, vegna þess að þegar þeir setja þessar vangaveltur fram í nafni raunvísinda fara þeir út fyrir verksvið sitt. Immanuel Kant kallaði það tálsýnir skynseminnar að ætla sér að skilja Guð, eilífðina og sálina. Lífið á sér fleiri víddir en þær sem vegnar verða og mældar.

Ársæll Arnarson, prófessor í sálfræði við HÍ, ræðir þessi mál í lok bókar sinnar, Síðustu dagar sálarinnar. Honum er það hugleikið hvernig fólk virðist leggja hreinan átrúnað á vísindalegar kenningar, þótt þær séu eðli málsins samkvæmt settar fram í krafti þess að um síðir kunni þær að verða afsannaðar. Ársæll segir: „Þannig virðist fólk jafnvel ímynda sér að taugavísindin hafi fundið heilasvæði sem fyrrum var talið að innihéldi sálina og að komið hafi í ljós að þar var bara efni en engin merki um andleg fyrirbæri. Slíkur átrúnaður er bæði rangur og getur hreinlega haft í för með sér óþarfa þröngsýni og tilfinningalega vanlíðan“

Við sem erum hluti af þjóðkirkjunni höfum ekki áhuga á því að fella stóra dóma. Þjóðkirkjan er ekki dómstóll, hún er líkari torgi þar sem fólk er velkomið með sjónarmið sín og spurningar. Trúin er blessunarlega nógu djúp og breið til að skapa svigrúm fyrir samtal fólks sem lætur sig varða lífið og tilveruna. Trú og vísindi eru engar andstæður, en vísindatrú kann að vera í andstöðu við hvort tveggja, vísindi og trú.

[Birtist í Fréttablaðinu 19. apríl 2018]

Skúli Sigurður Ólafsson · 19. apríl 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar