Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 3. grein

Í þessari grein sem er framhald af fyrri greinum undir sama hatti er er sjónum beint að skipulagi þjóðkirkjunnar á Íslandi og settar fram hugrenningar um nauðsynlegar breytingar.

Hvers konar skipulag?

Ef það liggur ljóst fyrir hvert við eigum að stefna og hvað að gera þá vaknar næst spurningin; hvers konar skipulag? Ef kristnin er fyrst og fremst þjónusta við náungann í trú og verki hvaða fyrirkomulag þeirrar þjónustu skilar mestum árangri?

Sr. Þorvaldur Karl Helgason f.v. biskupsritari hefur oft orðað verkefnið á þessa leið; ef við værum að byrja frá grunni með kirkjustarf hvernig mundum við þá skipuleggja starfið?
Skoðum aðeins módel af Þjóðkirkjunni en það er byggt á hugmynd um stöðu Ensku biskupakirkjunnar „Church of England (C.E.) sem er á margan hátt í svipaðri stöðu og okkar kirkja. Í góðri greiningu á þeirri rótgrónu stofnun sem birtist í Guardian fyrir nokkrum misserum var því haldið fram að það væru þrír pólar eða brennipunktar í starfi hennar:

Í fyrsta lagi væri hún stofnun hefðanna og siðarins og hefðarkirkjan væri mjög áberandi á landsbyggðinni í Englandi og nyti þar enn sterkar stöðu meðan í borgum væri hún veik.

Í annan stað væri að finna í C.E. kirkju hinnar félagslegu ábyrgðar og róttæku samfélagssýnar. Þessa kirkju væri að finna í stærri borgum frekar en í sveitum, hún hefði félagsleg réttlætismál á stefnuskrá sinni, að vinna með og fyrir þau sem órétti væru beitt, þau sem væru á jaðrinum, okkar minnstu bræður og systur.

Þriðji póllinn innan C.E. væri svo kirkjan sem legði upp úr trúar- og andlegu lífi, jafnvel mystík og kyrrðarstarfi. Þegar hún hneigðist að því að boða persónulega trú (evangelical) væri hún oft íhaldssöm þjóðfélagslega enda oft sprottin upp úr heittrúarhreyfingum sem hafa tilhneigingu til að vera pólitískt íhaldssamar. Á hinn bóginn væri líka til ákveðin þjóðfélagsleg róttækni í þessum armi kannski ekki síst þegar menn hneigðust til hinnar mystísku hefðar.

Ef hinn venjulegi athafnaprestur er tákngervingur hefðarkirkjunnar, þá er spámaðurinn eða hinn róttæki samfélagsrýnir tákngervingur hinnar félagslegu kirkju (t.d. Martin Luther King) en dulhyggjumaðurinn tákn fyrir hina „andlegu“ kirkju (heilagur Frans frá Assisi yfir í Billy Graham).
Það má setja þetta upp á mynd sbr. hér að neðan:

Þjóðkirkjan hefur að mínu mati verið mjög nærri efsta pólnum sem við kennum við siði og hefðir. Sú kirkja er mjög áberandi í kirkjulífi hinna dreifðu byggða á Íslandi og er upptekin við að verja siðinn fyrir breytingum. Þetta er „embættismannakirkjan“ þar sem presturinn situr jafnvel og bíður eftir að fólk leiti til hans til að fá þjónustu sem tengist þá helst ævihátíðum (rites of passage). Þetta er líka kirkjan sem vill vera í einni sæng með ríkjandi öflum – ríki og kirkja. Þetta er líka kirkjan sem yngra fólk í borgarsamfélögum er í nöp við og finnst oft afturhaldssöm.

Hin róttæka kirkja hinnar samfélagslegu ábyrgðar hefur ekki verið áberandi á Íslandi. Það er helst að við sjáum henni bregða fyrir í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar s.s. í mjög góðu starfi með fátækum. Þá vakti það athygli þegar flóttamönnum voru veitt kirkjugrið í Laugarneskirkju (sem fór mjög í taugarnar á sumum í „hefðakirkjunni“) og einstaka prestar eru stundum róttækir í málflutningi sínum, einkum um mál þeirra sem verst standa.

Hin „andlega“ kirkja, sú sem leggur upp úr persónulegri trú, eða íhugun og kyrrð á sér nokkra málsvara á Íslandi. Þar má nefna að margir prestar og starfsmenn kirkjunnar koma úr heittrúarsamhengi, t.d. KFUM á Íslandi. Það hefur oft þau áhrif að lögð er áhersla á trú og trúarupplifun. Þessi hreyfing hefur oft þótt nokkuð íhaldssöm en það tengist þó meira áhrifum frá fríkirkjum þar sem lagt er upp úr bókstafstrú (ekki síst ef tengsl hafa verið við amerískan íhaldssaman kristindóm eins og Franklin Graham er tákngervingur fyrir).

Hin andlega kirkja á sér þó allt annað birtingaform sem kemur fram í kyrrðarstarfi, pílagrímagöngum og í kyrrðarbæninni (Centering Prayer). Þar er áherslan á íhugun, hugleiðslu og bæn (via contemplativa). Þó svo að þessi hreyfing horfi inn á við þá eru í henni fræ samfélagslegrar vikni (via activa) t.d. að vinna í þágu fátækra og kúgaðra samferðamanna á veginum. Kannski tengist þessi áhersla einkum kyrrðarstarfi og pílagrímagöngum sem tengdar hafa verið við Skálholt hér á landi.
Og hvað svo?

Og hvað svo með þessa greiningu? Eins og ég nefndi hér að framan hefur þjóðkirkjan verið of föst í hefðagírnum að mínu mati. Að verja siðinn hefur þótt mikilvægara en að iðka trúna eða hina samfélagslegu ábyrgð. Kirkjan hefur brugðist við eftir á og tekið undir samfélagsleg málefni, stundum tilneydd, stundum þegar aðrir voru búnir að ryðja veginn.

Yngri kynslóðir eru ekki mjög uppteknar af hefðum. Með samfélagsmiðlum er orðin til ný menning sem fæst lítið við hefðir. Fólk almennt, sérstaklega það yngra hefur lítinn áhuga á „embættismannakirkju“ sem kostuð er af ríkinu og lítið virðist fara fyrir hinum róttæku grunngildi kristninnar í svona fyrirkomulagi. Hin kristna lífsskoðun á erfitt uppdráttar þar sem flest snýst um vald og peninga. Hlutverk hins kristna samfélags sem við köllum kirkju stendur e.t.v.nær hinni „róttæku“ kirkju (n.b. ekki í pólitískum skilningi heldur í lífskoðun) sem er aðgerðarsinnuð (via activa) og hinni „andlegu“ kirkju (via contemplativa) enda virðast þær standa nær hinum kristnu grunngildum sem reifuð voru hér að ofan. Þungamiðja starfs og skipulags þarf því að mínu viti að færast frá hefðakirkjunni og til hinnar andlega sinnuðu aðgerðarkirkju.

Því er mjög brýnt að byrja að ræða um skipulag þjóðkirkju sem er á hraðri leið að hætta að vera þjóð-kirkja. Grundvallaratriði er að taka frumkvæði að umræðum við ríkið um endanlegan aðskilnað ríks og kirkju. Víst er það ekki auðvelt mál að fram fari endanlegt uppgjör eigna en engu að síður bráð nauðsynlegt. Kristni er róttækt afl sem getur ekki verið drepið í dróma fjárhagslegra hagsmuna ríkisvalds, eins og kúguð eiginkona sem fær skammtað fé til framfæris af eiginmanni sínum. Um leið auðveldar aðskilnaður lausn á erfiðum starfsmannamálum og getur greitt leiðina að einfaldari stjórnun og starfsháttum sem eru orðnir svo flóknir að kerfið virkar sem skyldi. En umfram annað auðveldar það okkur sem kirkju að vera kirkja.

Það samfélag um kristnina sem ég sé fyrir mér tekur Jesú á orðinu í sælu- og kærleiksboðinu. Það er samfélag sem gengur inn á við í trú og andlegri rækt og síðan út að við í virkri þjónustu við náungann. Og kannski er betra að nota orðið trúarsamfélag (faith community) heldur en kirkja vegna þess óbragðs sem sumt fólk er búið að fá af því orði.

Sennilega fækkar enn í kirkjunni með slíkar áherslur, hún verður fátækari og á erfiðara að halda úti ýmsu sem hún hefur gert (t.a.m. yfir 200 kirkjubyggingum sem eru á minjaskrá, tónlistar- og menningararfi) – en hún verður samfélag sem leitast við að vera trúverðugt í eftirfylgd við meistarann. Til langs tíma held ég að það styrki starfsemina að vera trú sínum grunni og geri hana trúverðuga gagnvart því fólki sem trú og andlegt líf höfðar til.

Í Bandaríkjunum hefur orðið til róttæk hreyfing (sem er líka trúarlega þenkjandi) sem heitir „Reclaiming Jesus“ – að „endurheimta Jesú“. Hún kemur fram sem andsvar gegn íhaldssömum kirkjum sem eru orðnar þernur hins rangláta Trump. Í stefnu þessara samtaka segir m.a.:

Við trúum því að sérhver manneskja sé sköpuð í ímynd Guðs. Þess vegna höfnum við hvítri þjóðernishyggju og rasisma…
Við trúum því að við séum séum einn líkami. Þess vegna höfnum við kvenhatri og ofbeldi gegn konum…
Við trúum því að það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra séum við að gera Kristi. Þess vegna höfnum við málflutningi sem yfirgefur þau veiku og ræðst gegn innflytjendum og flóttamönnum…
Við trúum því að vegur Krists sé þjónandi forysta – ekki valdabrölt sem bitnar á lýðræði og réttarríkinu…
Hvernig sem við förum að þá er tvennt ljóst; við þurfum að horfast í augu við veruleikann – og gera eitthvað í málinu. Og það fyrsta sem við þurfum að gera er að tala saman á hreinskilin og einlægan hátt um það hvernig við getum lagað starf okkar þannig að það þjóni fólki með fagnaðarerindi Jesú Krists.

Að vera trúr sjálfum sér

Fyrir hartnær 20 árum kom hingað til lands lúterskur prestur frá Bandaríkjunum Mary Fortune að nafni. Það var í kjölfarið á málum er tengdust Ólafi Skúlasyni biskupi. Hún hafði sérhæft sig í að hjálpa kirkjum og trúarsamfélögum þar sem upp höfðu komið mál um kynferðislegt ofbeldi. Þegar hún var spurð hvernig kirkjum/trúarsamfélögum, kristnum sem ekki kristnum hefði reitt af eftir að upp komu mál sem skóku trúverðugleika þeirra svaraði hún:
Þeim kirkjum/trúarsamfélögum reiddi illa af sem leituðust við að slá skjaldborg um gerandann og hagsmuni stofnunarinnar um leið og þær afneituðu gagnrýni. En þeim kirkjum/trúarsamfélögum sem gengjust við yfirsjónum og rangindum og leituðust svo við að bæta úr – trúar sínum grunngildum, - þeim farnaðist yfirleitt vel og næðu að vaxa á ný.

Hvorum megin ætlum við að vera?

Halldór Reynisson · 5. desember 2018

Ávarp í Fella- og Hólakirkju á aðventu: Hver vorum við þá og hver erum við nú?

Við minnumst þess að eitt hundrað ár eru liðin frá því Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt eða öllu heldur Danir viðurkenndu fullveldi Íslands.

Þess vegna höldum við hátíð, og er það vel, og einnig hitt að láta afmælishátíðina verða tilefni til íhugunar, horfa inná við og spyrja út í okkur sjálf.

Hver erum við?

Hver erum við árið 2018?

Og þá hver vorum við árið 1918, fyrir eitt hundrað árum?

Kannski er ekki hægt að ætlast til svars því spurt er um alhæfingar. Og við alhæfingum ber alltaf að gjalda varhug. Við erum mörg og ólík og eins og við oft erum minnt á, þá hrærast innra með sérhverju okkar ýmsir þankar, góðir og slæmir, sumir til eftirbreytni aðrir síður, sumir aðdáunarverðir, aðrir alls ekki. Og þótt varla höfum við öll innra með okkur allt það litróf sem er að finna í mannlegri hugsun og hegðan þá er þarna engu að síður strengur, hinn sammannlegi strengur sem gerir það að verkum að hægt er að tala til okkar allra í húsi sem þessu og hræra strengi mennskunnar til góðs. Þetta hafa siðfræðingar, heimspekingar og listamenn einnig gert í tímans rás til að hreyfa við okkur og þoka okkur áleiðis til þroska og samkenndar. Vegna hins sammannlega þráðar fundum við öll til með Sölku Völku og það mikið ættum við að hafa lært að galdrabrennur heyri til liðinni tíð.

En þetta er varnagli og fyrirvari áður en ég sný mér að alhæfingunum. Og fyrirvararnir eru fleiri.

Ég hef stundum áður vitnað í samtal við unga frænku konu minnar sem við hittum vestur í Bandaríkjunum í aðdraganda bankahrunsins. Ég spurði hana hvað hana langaði til að taka sér fyrir hendur í lífinu. Hún hugsaði sig um og sagði svo á þessa leið: Ég hef fylgst með unglingum sem eru að fóta sig í lífinu. Þeir þurfa að kunna að lesa og skynja og skilja stærðir og samhengi stærðanna, að tvisvar sinnum tveir eru fjórir. Ef þeir öðlast ekki þessa kunnáttu koma þeir til með að standa höllum fæti í lífsbaráttunni. Mér lætur vel að kenna og þá sérstaklega reikning. Þarna held ég að ég kæmi að góðu gagni og þess vegna er svar mitt að ég vilji gerast barna- og unglingakennari í stærðfræði.

Ég hlustaði hugfanginn en varð jafnframt orðlaus. Ég varð orðvana vegna þess að lengi hafði ég ekki heyrt unga manneskju tala á þennan veg, hvar hún gæti komið að gagni fyrir samfélag sitt!

Í mörg ár hafði ungt fólk spurt, þegar framtíðaratvinnan var annars vegar, hvaða nám veitti aðgang að þeirri atvinnugrein sem gæfi best af sér, með öðrum orðum, “hvar verður MÉR best borgið, á hvaða hillu í lífinu er mest að hafa?”

Þetta er það sem kalla má tíðaranda og þarna hafði ég hitt unga stúlku sem hafði gert mér tíðarandann sýnilegan með því að ganga gegn honum. Hún var undantekningin sem sannaði regluna.

Jóhannes úr Kötlum var skáld hins unga Íslands. Fullur eldmóðs og drauma kallaði hann landa sína til verka, skáldin til að blása fólki kapp í kinn og alþýðu Íslands að taka til hendinni í uppbyggingu réttláts þjóðfélags:

Hvort sem ég æskuóð
yrki af sannri hvöt,
eða ég yrki vel
ógróinn moldarflöt,
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Það er umhugsunarvert hve ríkan þátt skáld 19. aldarinnar og á öndverðri öldinni sem leið, tengdu saman í eitt baráttu fyrir frjálsri fullvalda þjóð annars vegar og félagslegu réttlæti hins vegar:
Hvað er frelsi þitt byggð?
spyr Jónas Hallgrímsson og svarar sjálfum sér að bragði,
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og þannig hafði það verið. Skáldin og baráttufólkið hafði kappkostað að efla samkennd með þjóðinni og í kjölfarið samvinnu, þar sem menn efldu hver með öðrum kjark og bjarsýni. Á endanum varð það og þannig að hið ógerlega varð gerlegt og hið óyfirstíganlega varð yfirstigið.

Allt þetta er að sjálfsögðu sígilt og á við enn þann dag í dag. Með sameiginlegu átaki má koma bátnum úr vör og skútunni á skrið. En forsendan er að sjálfsögðu sú að þjóðin sé á sama báti, tilheyri sama samfélagi, búi við svipuð kjör; að skiptin séu réttlát.

Að mínum dómi er það til marks um siðferði þjóðanna hvernig tekjuskiptingu er háttáð, hvernig þær skipta með sér sameiginlegum verðmætum. Sú þjóð sem ekki býr við jöfnuð byggir ekki á traustum siðferðilegum grunni.
Ekki nóg með það, ranglátt þjóðfélag er veikt þjóðfélag, þjóðfélag sem engin afrek vinnur. Og veitum því athygli hvernig baráttufólk fyrri tíðar - þær kynslóðir sem lyftu þjóðinni úr sárri örbirgð og gerðu okkur að sjálfstæðri þjóð - verður tíðrætt um mikilvægi þess að leggja rækt við landið og okkur sem manneskjur. Hlustum enn:

Hvað er fresli þitt byggð?
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og…
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Hér eru gerendur á ferð sem hamra á því aftur og ítrekað að þeir hafi skyldur við sjálfa sig og þann skilning á sögulegri framvindu að ekkert gerist af sjálfu sér.

Þessi hugsun má aldrei glatast. Hinar værukæru kynslóðir sem á eftir komu ornuðu sér við orðtæki sem fyrir einhvern misskilning hafa ratað inn í spakmælasafn þjóðarinnar – og sennilega margra þjóða: “Maður kemur í manns stað”og síðan brandarinn mikli um að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki. Að þessu hlæja margir og láta þá fylgja að slíkt sé náttúrlega firra enda komi maður í manns stað eins og allir viti.

Í mínum huga, og um þetta hef ég stundum áður fjallað, þá er þessu ekki þannig farið. Kirkjugarðarnir eru nefnilega fullir af ómissandi fólki. Það skiljum við þegar við minnumst hins besta frá liðnum tíma.

Í mínum huga leikur enginn vafi á að gæðastuðull kynslóðanna er mismunandi og að hann taki breytingum frá einum tíma til annars. Einu sinni komu nær allir heimspekingar, sem eitthvað kvað að á Vesturlöndum, frá Grikklandi. Löngum voru Akurnesingar betri í knattspyrnu en aðrir landsmenn. Skáklistin hefur risið og hnigið í bylgum á Íslandi. Bókmenntirnar líka. Og menningin? Ég er ekki í vafa um að tíðarandinn hefur verið mis-rismikill og þar með menningin einnig.

Hvað veldur? Hvers vegna sköruðu Grikkir fram úr í heimspeki frá sjöttu öld fyrir Krist og þar til Rómverjar tóku að undiroka þjóðina fjórum öldum síðar? Frelsið eða frelsisvitundin?

Ég held það hafi verið jarðvegurinn. Þetta var nefnilega rétt hjá þeim Jóhannesi úr Kötlum og Jónasi Hallgrímssyni að menning er ræktunarstarf. Það sem við leggjum rækt við ber ávöxt. Til góðs og einnig til ills. Það er hægt að leggja rækt við lágkúru ekkert síður en við það sem vandað er og gott. „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“, segir í guðspjalli.

Dæmi um öfluga menningarvitund var Snæfjallaströndin á öndverðri öldinni sem leið. Þá var þar læknir, með búsetu í Ármúla, Sigvaldi Kaldalóns. Það er til marks um menningarbrag og stórhug sveitunga hans þegar þeir gáfu honum flygil til að geta iðkað list sína. Efnin voru lítil en andinn reis hátt. Í sveitinni bjó einnig Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, Halla á Laugabóli. Hún orti mörg ljóð sem Sigvaldi gerði sönglög við, Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur eru dæmi þar um, sem seint munu gleymast. Og Ave María, Sigvalda gefur Ave Maríum fremstu tónskálda Evrópu ekkert eftir, ef hún þá ekki er best!
Með öðrum orðum, Snæfjallaströndin var menningarsetur í fremstu röð á heimsvísu; hafði á að skipa framúrskarandi hæfileikafólki og jafnframt - og það er lykilatriði - samfélagi sem hafði skilninginn og veitti stuðninginn. Á Snæfjallaströnd kunnu menn að rækta garðinn sinn!

Og nú fer ég að nálgast hin eiginlegu skilaboð sem mig langar til að koma á framfæri hér í kvöld og þau snúa að okkur sjálfum, okkar ábyrgð. Okkar ræktunarstarfi.

Mín kynslóð hefur að sumu leyti verið værukær kynslóð. Hún trúði því að allt stefndi til betri vegar, þrátt fyrir áföll, stríð og hungur þá trúðum við á framfarir; að framfaramælistika mannskynnsögunnar vísaði alltaf fram á við.

Þar til nú að fram á sjónarsviðið koma nýjar kynslóðir sem búa ekki yfir þessari vissu. Mín kynslóð óttaðist kjarnorkusprengjuna en nú er okkur sagt að allar götur frá iðnbyltingunni fyrir rúmum tvö hundruð árum hafi í reynd verið tifandi slík sprengja mitt á meðal okkar, koltvísýringssprengjan.

Bandaríski umhverfissinninn og guðfræðingurinn, Jim Antal, segir í bók sinni Climate Church, Climate world, að í tíu þúsund ár hafi maðurinn notað jörðina sem ruslahaug. Það hafi gengið áfallalaust fyrstu níu þúsund og átta hundruð árin en síðan hafi farið á verri veg svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Fyrir nýjar kynslóðir er framtíðin nú orðin ótrygg, mengun, stríð, hungur, fólk rekið á flótta frá heimahögum milljónum saman og víðast hvar illa tekið.

Framtíðin ber ekki lengur í skauti sér skilyrðislausar framfarir. Af framtíðinni stafar nú meira að segja ógn. Þess vegna eiga nú fylgi að fagna stjórnmálaöfl sem lofa því að afnema og útrýma þessari ógn og þar með öllu sem ógnar. Trump lofaði Bandaríkjamönnum í síðustu viku góðu veðri til framtíðar og öruggum skógum. Skógareldar muni heyra liðinni tíð. Og nú er honum spáð endurvali.

En hver er þá okkar skylda, hvar er okkar garður, hvar er hinn ógróni moldarflötur? Stundum höfum við komið auga á hann, tekið til hendinni og skilað uppskeru.

Ég ætla að taka dæmi. Undir síðustu aldamót varð það gegnumgangandi á meðal ungmenna á höfðuborgarvæðinu, allt frá barnungum krökkum og fram undir tvítugt, að safnast saman um kvöld og nætur á helgum í miðborg Reykjaíkur og fylgdi þessu mikill drykkjuskapur enda kom á daginn samkvæmt mælingum að hvers kyns óregla færðist í vöxt hjá ungu fólki. Þó var ástandið ekki verra hér en gerðist í samanburðarlöndum okkar. En slæmt var það.

Þetta þótti foreldrum mörgum miður en réðu ekki við neitt lengi vel eða þart til framtakssamt fólk tók frumkvæði og blés til gagnsóknar undir hvatningunni, Tölum saman. Og einmitt það var gert. Efnt var til vitundarvakningar og með þrautseigju tókst að kalla að borði foreldrasamtök, æskulýðssamtök, bæjarfélög, kirkjuna, skólana, lögregluna og fleiri og fleiri og fleiri. Á meðal þess sem hvatt var að foreldrar kappkostuðu að gera var einfaldlega að vera samvistum við börn sín um helgar. Og viti menn. Þetta tókst! Samkvæmt mælingum sem þykja áreiðanlegar fjölgaði þeim sem voru samvistum við 16 ára börn sín um helgar úr 36 af hundraði í 63% á þeim tíma sem átakið stóð yfir.

Og kemur þá rúsínan í pylsuendanum. Í nákvæmlega sama hlutfalli við rísandi samveruás kynslóðanna dró úr drykkju og reykingum í markhópunum, aldursflokknum fram undir tvítugt, drykkjan fór úr 36 prósent í 6 og reykimgar úr 32 í 8%. Einnig kannabisneyslan gekk lítillega niður, í öllum tilvikum var árangurinn hér á landi langt umfram það sem gerðist alls staðar í samanburðarríkjum okkar. Að sönnu kemur í ljós núna að minnihlutahópur er illa haldinn af óreglu og jafnvel ver staddur en fyrir fáeinum árum. Á því þarf að sjálfsögðu að taka. En þrátt fyrir það má hitt ekki gleymast að með fyrirbyggjandi starfi tókst að bjarga miklum meirihluta unglinga og barna, altént fresta vanda þeirra ef ekki forða þeim frá honum.

Mér var nýlega boðið á fund erlendis þar sem ég var með framlag sem laut að þessu átaki. Á þessari ráðstefnu var greint frá því sem var á döfinni í áfengis- og vímuefnaálum vítt og breitt um lönd. Á daginn kom að víða var verið að rýmka löggjöf út frá meintum þörfum minnihlutahópa og vel að merkja vegna þrýstings frá vímefna-marksöflunum. Í þeim ríkjum Bandaríkjanna og Kanada þar sem kannabisefni hafa nú verið gefin frjáls berast fréttir af kannabis-súkkulaði í búðarhillum. Nema hvað? Við hverju býst fólk?

Þetta eru skilaboð mín, að draga lærdóma af starfi foreldranna í Tölum saman hópnum. Þeim tókst ætlunarverk sitt, að rækta sinn ógróna moldarflöt. Þeir eru margir slíkir fletirnir sem horfa þarf til. Og á fullveldisári er vert að leiða hugann að því að fullveldi og sjálfstæði þjóðar er ógnað með ýmsum hætti.

En Sigríðarnar frá Brattholti eru einnig ennþá til sem betur fer. Suður í Hafnarfirði býr kona að nafni Jóna Imsland. Hún hefur sett fram undirskriftalista undir heitinu, Seljum ekki Ísland! Á meðan auðkýfingar kaupa upp landið okkar og færa eignarhaldið á því út fyrir landsteinana rís upp og reynist stærri en ríkisstjónin öll samanlögð, kona sem hvetur til samstöðu um þjóðarhag. Á meðan sefur Alþingi.

Ég ætla að kjósa Jónu Imsland sem mann ársins um áramótin og er ég sannfærður um að hennar verður minnst á afmælishátíðum fullvalda Íslands í framtíðinni. Látum það verða svo! Hún safnar nú liði. Verðum við ákalli hennar, Seljum ekki Ísland!

Og enn um ógnirnar. Okkur er sagt að nú sé um að gera að tengjast evrópskum orkumarkaði og komast þannig í kompaní við þau sem líta á orku sem hverja aðra vöru sem selja megi dýrt eða ódýrt aftir atvikum og aðstæðum. Í Evrópu er prísinn á þessari vöru dýrari en hér gerist. Það þýðir að íslenskur kaupandi yrði að greiða meira á sameiginlegu markaðstorgi raforkunnar en seljandinn gæti hins vegar fengið meira fyrir sinn snúð. Þar með yrði kominn enn einn hvatinn inn í orkuframleiðslukerfið, því meira sem virkjað er þeim mun betra. Svo er að heyra að Landsvirkjun og Landsnet telji þennan kost álitlegan. Gullfossi og Dynjanda mun hins vegar lítið um hann gefið.

Á þetta tal heima í kirkju í upphafi aðventunnar? Að sjálfsögðu, á sama hátt og höfuðbiskupar Norðurlandanna stigu á stokk á Arctic circle ráðstefnunni á dögunum að ræða meðal annars mengun og mannrréttindi.

Staðreyndin er sú að við þurfum að vakna af doðanum engu síður en þörf var á fyrir rúmri öld. Hefðbundin stjórnmál eru komin í hrikalegar ógöngur. Auðvald ógnar lýðræðinu. Um það má hafa langt mál og þarf að hafa langt mál. Það þarf að gera utan þings og innan þings en þar eru stjórnmálin því miður á undanhaldi. Það telst nánast til tíðinda þegar yfirleitt er rætt þar um stjórnmál!

Fyrir fáeinum dögum var sýnd fréttamynd í sjónvarpi um hvernig virðulegir bankar - að því er við héldum - hafa stolið með samanteknum ráðum hundruðum milljarða úr ríkissjóðum og hér á landi höfum við fylgst með óprúttnum hagsmunaaðilum leggja til atlögu gegn samfélaginu.

Ef við viljum ekki missa trú á framtíðina - og það megum við ekki gera - þá þurfum við á margan hátt að byrja upp á nýtt.

Ekkert síður en fyrir einni öld er mikið verk að vinna. Ef eitthvað er þá er meiri arfi að reita en áður var og síðan þarf að taka til við að plægja og yrkja jörðina á nýjan leik. Ávöxturinn af þeirri jarðræktarvinnu verður ekki á borðum þessi jól. En að því mun koma.

Nú kveikjum við á kertum og fögnum aðventunni. Kórarnir syngja okkur senn inn í jólin, það er yndislegt. Þökk sé hljómlistarfólkinu í kvöld. Hjá mér byrja jólin iðulega í þessari kirkju, Hóla- og Fellakirkju þegar Breiðfirðingakórinn hefur upp raust sína á aðventu og syngur okkur inn í hátíðarnar.

Þegar allt kemur til alls er svo margt gott í tilverunni. Jólin eru tilefni til að hjálpast að við að koma auga á það.

Gleðileg jól.

Ávarpið fyrst birt hér.

Ögmundur Jónasson · 2. desember 2018

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 2. grein

Í þessari grein sem er framhald af greiningu á stöðu kristin-dómsins í hinum vestræna heimi er sjónum beint að stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi.
Segja má að sama þróun sjáist hér á landi og í Evrópu en þó má halda því fram að hraðar hafi fjarað undan þjóðkirkjunni hér af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi má nefna ýmis hneykslismál er snúa að vígðum þjónum kirkjunnar. Hæst ber þar vitaskuld mál Ólafs Skúlasonar. Í annan stað má vera að viðbrögð kirkjunnar við kröfunni um jafna stöðu samkynhneigðs fólks hafi grafið undan trausti á henni.

Hverjar sem skýringarnar eru á erfiðari stöðu þjóðkirkjunnar þá tala tölurnar sínu máli. Á vef Hagstofunnar er að finna þróun meðlima í þjóðkirkjunni meira ein 20 ár aftur í tímann. Þar kemur fram að 1998 tilheyra 89,91 prósent Þjóðkirkjunni eða 244.893 einstaklingar. Árið 2018 er hlutfallið komið niður í 67,22 prósent eða 234.215 einstaklingar. Þá kom fram í nýlegum þjóðarpúlsi Gallup að traust á Þjóðkirkjunni stendur nú í 33 prósentum en var 61 prósent árið 1999. Ef heldur fram sem horfir styttist í að helmingur þjóðarinnar tilheyri kirkjunni og þá vakna efasemdir með sjálft nafnið „þjóðkirkja“.

Íslenska vandamálið - peningar

Peningar skipta hér einnig máli en þeir virðast vera meira vandamál kirkjunnar en víða annars staðar – ekki vegna þess að of lítið hafi verið af þeim – heldur kannski of mikið!
Dagana sem nýliðið Kirkjuþing stóð var því t.a.m. slegið upp hversu marga milljarða þjóðkirkjan er búin að fá út úr kirkjujarðasamkomulaginu í kjölfarið á fyrirspurn frá þingmanni Pírata. Þjóðkirkjan hefur haldið því fram frá því eftir hrun að hún hafi ekki fengið það sem henni bar eftir þessu samkomulagi – með réttu eða röngu. Hver sem rök málsins eru þá eru upphæðirnar í peningum venjulega blásnar upp til skaða fyrir orðstír kirkjunnar.
Þá var til þess tekið að prestar og biskupar Þjóðkirkjunnar fengu síðustu hækkun Kjararáðs sem ýfði upp óánægju verkalýðsfélaga. Auk heldur sem hlunnindi presta á sumum kirkjujörðum (laxveiðitekjur sérstaklega) hafa þótt undarleg. Sem betur fer sér fyrir endann á þeim forréttindum sem engin eðlileg rök lágu fyrir.

Til skamms tíma hefur æðsta samkunda þjóðkirkjunnar Kirkjuþing verið undirlagt af umfjöllun um fjárhagslega hagsmuni meðan mál sem lúta að starfsemi og stöðu kirkjunnar hafa þar oft mætt afgangi. Fyrrverandi kirkjuþingsmaður úr röðum leikmanna orðaði þetta svo: „Á Kirkjuþingi eru prestar að tala um peninga“ (þó vekur nýkosið kirkjuþing þar sem ungt fólk og konur eru áberandi von um breytta tíma).
Fleira mætti tína til þegar versnandi staða Þjóðkirkjunnar síðustu 20 ár er skoðuð.

Frá fjölmiðlum hafa blásið neikvæðir vindar. Sem gamall blaðamaður hef ég stundum skynjað neikvæðan „kúltúr“ meðal fjölmiðlamanna gagnvart kirkjunni miðað við t.d. fyrir 20 árum. Ég minnist þess þegar mál Guðrúnar Ebbu kom upp og málinu var haldið gangandi vikum saman m.a. af RÚV með svo miklum látum að tveimur kunningjum mínum þar innanhús blöskraði og höfðu orð á því við mig.

Þá hefur starfsmannavandi Þjóðkirkjunnar oft ratað í fjölmiðla en kannski ekki síst vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að leysa þau mál innan stofnunarinnar. Stundum er það vegna þunglamalegs skipulags, stundum vegna lögverndunar starfsfólks, sérílagi presta. Fyrir vikið hafa þessi mál orðið sjálfsagður fjölmiðlamatur sem hægt hefur verið að smjatta á í langan tíma.

Talandi um skipulag; þrátt fyrir aukna yfirbyggingu í kirkjustjórninni hefur vandræðagangurinn farið þar vaxandi. Gott dæmi eru vígslubiskupskosningarnar í Skálholti á s.l. ári. Það virðist vera flóknara að velja vígslubiskup heldur en þjóðhöfðingja svo að dæmi sé tekið. Hér hefur reglugerðarvæðingin farið úr hömlu þannig að kirkjuleg stjórnsýsla hefur orðið að athlægi.
Oft heyrast þær raddir innan kirkjunnar að ráða þurfi fjölmiðlafulltrúa og fræðinga til að bæta úr lélegri ímynd þjóðkirkjunnar. En sem gamall blaðamaður og fjölmiðlafræðingur veit ég það að „fegrunaraðgerð“ skilar litlu ef það er ekki heilbrigð húð undir. Það eina sem lagar ímyndina eru gæði – góð þjónusta í hvívetna.

Því miður verður ekki horft fram hjá að stundum er starfsfólk þjóðkirkjunnar að veita ófullnægjandi þjónustu á tímum þegar góð þjónusta er eina ráðið til að endurvekja glatað traust. Þá á ég sérstaklega við þær lífskreppur, t.d. erfið dauðsföll þegar fólk þarf virkilega á stuðning prests að halda. Oft er sú þjónusta sem veitt er mjög góð – en stundum gerist það, því miður að hún er slæm. Hún þarft alltaf að vera góð! Í vinnu minni með syrgjendum síðustu áratugi hef ég heyrt of margar sögur af vondri þjónustu.
Hér má svo bæta við að þjóðkirkjunni hefur mætt virk andstaða úr ýmsum áttum en kannski er það ekki síst vegna þess að hún hefur ekki tekið til í eigin ranni. Þótt víða sé vel unnið þá er of mikið að. Eða eigum við ekki að byrja á bjálkanum í eigin auga?

Hvert viljum við stefna?

Af hverju erum við að þessu? Af hverju starfrækjum við kirkjustarf? Til hvers kirkja?

Í mínum huga snýst kirkjustarf um að þjóna fólki með fagnaðarerindi kristinnar trúar. Flóknara er það ekki. Ég heyrði eitt sinn haft eftir Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi að trúin þyrfti að vera liðsmaður í baráttunni við raunveruleikann. Það er kannski svona trú fyrst og fremst sem við þurfum að vera að rækta með okkur sjálfum og öðrum.

Og þó þurfum við ekki að vera að finna upp fín orð til að útlista tilgang starfs okkar. Er þetta ekki allt að finna í orðum Jesú sjálfs?

Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki. Mt.5.3-10

Mér hefur löngum fundist sem stefnu Jesú væri að finna í sæluboðunum. Þau segja okkur að hverju við þurfum að stefna. Það er nokkuð merkilegt að hreyfing vestur í Bandaríkjunum sem kallast „Reclaiming Jesus“ er þarna býsna nærri þegar hún vill, berjast gegn því að trúin sé notuð (af íhaldssömum kristnum mönnum) til að réttlæta kynþáttafordóma, kvenhatur, andúð á flóttafólki og misskiptingu auðs. Þessi hreyfing vill hverfa til þeirrar róttæku kirkjusýnar sem fólst í baráttu manna eins og Martin Luther King fyrir mannréttindum og að styðja þau sem standa verst.

En við erum að tala um stefnu og framtíðarsýn. Þegar stefnumótun fyrir þjóðkirkjuna 2004-2010 var unnin á sínum tíma var sett fram þessi framtíðarsýn:
• Þjóðkirkjan er lifandi og kröftug hreyfing fólks sem á samleið í trúnni á Guð sem Jesús Kristur birtir og boðar.
• Þjóðkirkjan er sýnilegt, litríkt og vaxandi samfélag sem vekur og nærir kristna trúariðkun og andlegt líf.
• Þjóðkirkjan mætir sérhverri manneskju þar sem hún er stödd á lífsleiðinni, veitir liðsinni og skjól.
• Þjóðkirkjan er vettvangur samtals í þjóðfélaginu um þýðingarmikil málefni í ljósi kristinnar trúar og siðferðis.
• Þjóðkirkjan virkjar fólk í starfi sínu og eflir það til þjónustu við Guð og náungann.

Sannarlega falleg sýn og hægt að taka undir hana í hvívetna en þó kannski frekar óljós og almenn. Sjálfsagðir hlutir. Kannski þurfum við að taka Jesú Krist á orðinu í sæluboðunum og stefna að slíkum heimi.

Og hvað eigum við að gera?

Hver er svo aðgerðaráætlunin? Hvernig ætlum við að raungera sýn Jesú frá Nasaret í sæluboðunum? Hvað sagði hann sjálfur að þetta allt snérist um?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Mt. 7.12

Orðað aðeins öðru vísi:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
Annað er þessu líkt: ‘Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir. (Mt 22.37-40)
Kristnin er ekki flókin trú eða lífssýn þótt hún kunni að reynast erfið í framkvæmd. Við vitum oftast hvað við eigum að gera – þótt við gerum að ekki alltaf. Kannski þurfum við fyrst og fremst í sýn okkar á framtíðina og hvernig við hrindum henni í framkvæmd að rifja upp okkar eigin grunngildi og halda okkur við grunnþætti í boðskap Jesú Krists. Það hefur þó gjarnan reynst erfitt eins og saga kirkjunnar greinir frá. Þar hefur svo oft farið meira fyrir sérhagsmunum og spillingu, - oft hinna vígðu þjóna. Vegna þess að síngirnin virðist liggja nærri mannlegri náttúru varð snemma til þetta latneska ráð: Ekklesia semper reformanda – kirkjan þarf alltaf að vera að siðbæta sjálfa sig!

(framhald í grein 3. Framtíðarsýn óskast – skipulag þjónustunnar)

Halldór Reynisson · 27. nóvember 2018

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 1. grein

Halldór Reynisson:

Það dylst víst fáum að Þjóðkirkjan er í kreppu og hefur tapað miklu af fyrri stöðu meðal landsmanna. Á sama tíma hefur lítið farið fyrir umræðu um stöðuna né stefnu og framtíðarsýn innan vébanda kirkjunnar. Í þessari grein og tveimur öðrum sem byggja á innleggi á málfundi í Háteigskirkju um málið 1. nóvember s.l. eru settar fram hugleiðingar um stöðu kirkjunnar, ástæður hennar en einnig hugmyndir að framtíðarsýn og verkefnum í anda þeirrar sýnar.

Grundvallarspurningar

Eitt sinn lenti ég í þeirri lífsreynslu að vera í gönguhópi sem villtist uppi á hálendi Íslands um miðja nótt. Við þurftum að átta okkur á tvennu: Hvar vorum við stödd? Hvar var áfangastaðurinn? Þetta eru líka grundvallarspurningar í allri stefnumótun og eru yfirleitt lagðar til grundvallar þegar fyrirtæki, hreyfingar eða stofnanir reyna að átta sig á stöðu sinni. Hvar erum við stödd – hvert eigum við að stefna? Um leið er kúrsinn tekinn með s.k. SVÓT-greiningu; hverjir eru styrkleikar og veikleikar starfseminnar; og hvaða tækifæri – eða ógnanir felast í ytra umhverfi starfsins.

Ytra umhverfi

Skoðum fyrst ytra umhverfi kirkjunnar, þ.e.a.s. samfélagsaðstæður á Íslandi og á Vesturlöndum og það sögulega samhengi sem kirkjan hefur starfað í.
Það má velta því fyrir sér hvort sögulegur tími kristin-dóms (þ.e. þessum sérstaka samruna ríkis og kristni sem rekja má allt aftur til Konstantínusar mikla Rómarkeisara á 4. öld) sé ekki liðinn undir lok. Þegar Konstantínus háði úrslita orrustu sína við andstæðing sinn við Milviusarbrúna í Róm segir sagan að hann hafi séð kross á himni og þessi orð: „undir þessu merki skalt þú sigra“. Þar með hófst sú saga að krossinn sem hafði verið tákn um dauða og niðurlægingu varð að valdatákni í gunnfánum margra Evrópulanda, m.a. í þjóðfána Íslands. Táknfræði krossins hafði sumpart verið snúið á haus.

Frá og með upplýsingunni hófu menn að vinda ofan af þessu nána valdasambandi ríkisvalds og kristin-dóms þar sem valdið réð oftast ferðinni á kostnað hinna kristnu gilda. Eftir stendur þó mikil menning, siðir og venjur sem litað hafa allt líf vestrænna manna allt til okkar daga. Þó svo að grunngildi kristninnar (hér notað um hina kristnu frásögn og þau gildi sem af henni eru dregin) hafi oftast verið mönnum kunn hafa þau oft hafa þó ekki verið mjög áberandi í lífi kristin-dómsins eða hins kristna siðar (religio). Siðbót Lúthers var í öndverðu að snúa aftur að hinum klassísku gildum kristninnar hvað sem síðar varð þegar nýtt valdakerfi varð til undir yfirskini mótmælendatrúarinnar.

En nú er öldin önnur. Svo virðist sem undanfarnar kynslóðir, og þá ekki síst ungt fólk dagsins í dag kjósi í auknum mæli að standa utan þessarar hefðar og siðar sem við nefnum kristnin-dóm. Um leið ríkir víða lítið traust á kirkjunni sem og öðrum rótgrónum stofnunum og þær oft sakaðar um að hafa misbeitt valdi sínu og brugðist þeim sem þær áttu að þjóna. Nýjum hreyfingum, s.s. anarkisma og allrahanda aktívisma hefur vaxið fiskur um hrygg; slíkar hreyfingar ungs fólks hafa það oft að markmiði að vinna gegn mismunum, spillingu, ofbeldi og umhverfisvanda þar sem stofnanir samfélagsins, þ.á.m. kirkjan hafa brugðist að þeirra mati. Um leið hefur lífsskoðunum vaxið ásmegin sem stundum hafa orðið til sem andóf gegnum kristin-dómnum.
„Imagine“ - lag John Lennon er kannski tákn um þessa umpólun (á enskum er oft talað um „paradigm shift“) þar sem hann reynir að ímynda sér heiminn án trúarbragða sem að hans mati drepur fólk í dróma. Ungdómsmenningin (youth culture) hafði fram að þeim tíma verið frekar vinsamleg í garð Jesú frá Nasaret en verður svo stöðugt andsnúnari trúarbrögðum og kirkju í Evrópu, jafnvel Ameríku. Nú tala menn jafnvel um óþol gagnvart kristin-dómnum.
Þá skipa trúarbrögð ekki lengur sama sess í lífi fólks og á fyrri öldum vegna þess sem kallað hefur verið afhelgun (secularization) síðustu tvö – þrjú hundruð árin. Þá virðist menning hinna ungu nánast alls staðar í heiminum vera ótengdari hefðum og siðum fyrri kynslóða. Samfélagsmiðlar hafa líklega mjög ýtt undir þessa þróun að ungt fólk miðar lífsstíl sinn við ungt fólk annars staðar en ekki hefðir og siði feðra og mæðra. Ég minnist þess þegar ég var á Indlandi fyrir um 10 árum og Indverji einn kvartaði yfir þessari tilhneigingu unga fólksins þar.

Þá gætir nú um stundir lítils traust á helstu stofnunum samfélagsins og virðist það útbreytt í hinum vestræna heimi. Víða hafa komið upp spillingarmál og valdníðsla innan þessara stofnana, ekki síst kynferðislegs eðlis. Kirkjurnar eru þarna ekki undanþegnar. Viðbrögðin hafa víða verið að fólk hefur sagt sig frá þeim stofnunum sem það gat, t.d. gömlum stjórnmálaflokkum eða kirkjum. Sjálf samfélagsskipan Vesturlanda sem varð til eftir Seinni heimstyrjöld á undir högg að sækja.
Þá sjáum við með auknum innflytjendastraum vaxandi fjölhyggju þar sem fæstir tilheyra ríkjandi trúar brögðum hins nýja heimalands.
Loks má nefna þá skoðun meðal ungs fólks að börnin þeirra eigi sjálf að ákveða sína lífsskoðun en ekki foreldrarnir.

Þróun búsetu hefur ýtt undir þróunina. Sífellt fleiri kjósa að búa í borgum en að sama skapi fækkar í dreifbýli. Unga fólkið hefur flykkst til borganna síðustu áratugi í leit að tækifærum en eftir situr gamla fólkið með sínar hefðir.
Lýðfræðilega virðast þetta vera einkenni þeirra sem tilheyra kirkjunum; það fólk er eldra, býr frekar úti á landi, fleiri konur, eru minna menntuð með lægri tekjur og íhaldssamari í lífsstíl og stjórnmálaskoðunum.
Þau sem lýðfræðilega tilheyra ekki kirkjum og trúfélögum virðast vera; yngri, búa frekar í borgum, eru betur menntuð og með hærri tekjur, eru oft frjálslyndari, jafnvel róttækari en hinn hópurinn.

Allt annað er uppi á teningnum í öðrum heimsálfum; kristnin hefur sótt í sig veðrið í Afríku, jafnvel sum staðar í Asíu og íhaldssamur kristindómur mótmælenda hefur vaxið hratt í S-Ameríku. Á sama tíma hafa hægri öfgaöfl nuddað sér utan í kristindóminn í Evrópu undir því formerki að verja þurfi hina kristnu Evrópu fyrir Islam og innflytjendum. Þá virðist oftast átt við þennan valdabræðing kirkju og ríkis sem ég nefni hér kristin-dóm – enn eitt dæmið þar sem menn nota kristnina í hugmyndafræðilegum tilgangi sem oft er öndverður við grunngildi kristninnar.

Kynlíf og öfgatrú

Ýmislegt hefur óneitanlega flýtt fyrir afhelgun Vesturlanda. Þarf ekki annað en fylgjast með fréttum og oftar en ekki eru það sömu hlutirnir sem koma á daginn.
Fyrir nokkrum misserum las ég ágæta yfirlitsgrein í Guardian um stöðu kirkju og kristni á Vesturlöndum. Höfundur greinarinnar kaus að fella flest vandamál kirknanna undir einn hatt: Kynlíf! Hélt hann því fram að kirkjurnar settu sig gjarnan upp á móti því almenna siðferði sem var að þróast á Vesturöndum í kjölfar kynlífsbyltingarinnar. Nefndi hann kynlíf utan hjónabands, fóstureyðingar og samkynhneigð og taldi svo dæmi um oft vandræðalega afstöðu kirknanna í þessum málum. Þær vildu jafnvel enn teygja sig inn í svefnherbergi fólks sem og plagsiður var hjá valdhöfum fyrri alda.

Ofan í kaupið eru svo hin fjölmörgu dæmi sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis um kynferðislega áreitni kirkjulegra þjóna, jafnvel hreint kynferðisofbeldi. Nú um stundir er hart sótt að rómversk-kaþólsku kirkjunni víða um heim vegna þeirra fjölmörgu mála er snerta barnaníð kaþólskra presta.

Þá hefur bókstafstrú vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi víða um heim og í flestum trúarbrögðum. Ef islamisti drepur fjölda fólks í Afganistan hrópandi „Allah akbar“ þá bitnar það á trúuðu fólki uppi á Íslandi. Í bókinni „The Golden Compass“ eftir Philip Pullman er „Kirkjan“ með stóru kái illvirkinn og Guð heldur veiklulegur karakter með uppdráttarsýki. Þegar bókstafstrúarfólk, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar telur sig þekkja vilja Guðs og beitir þeim „vilja“ á andstæðinga sína þá grefur það undan trúnni á Guð. Þegar bókstafstrúaðir hvítir Ameríkanar segja að Trump sé Guðs útvaldi kemur það óorði á alla trú enda maðurinn nokkurn veginn eins fjarri kristnu siðferði og hugsast getur.

Kannski getum við sagt að bókstafshyggjan hafi mjög ýtt undir það óþol sem nútímafólk margt hvert hefur á orðtáknunum guð, kirkja og trú.

(Framhald í grein 2. Framtíðarsýn óskast – staðan á Íslandi)

Halldór Reynisson · 20. nóvember 2018

Bjóðum börnin velkomin

Sjálfsákvörðunarréttur er léttvægur, ef einstaklingur neyðist til að taka afdrifaríka ákvörðun gegn vilja sínum vegna aðstæðna á annarra valdi. Nú hefur verið upplýst, að megin rökin fyrir því að lengja frest til að framkvæma fóstureyðingu séu að gefa verðandi foreldrum meira svigrúm til að komast hjá að eignast fatlað barn. Fyrir liggur að fjölda fóstra hefur verið eytt vegna líkinda á fötlun. Það hefur sparað ríkissjóði mikla fjármuni af því að það kostar umtalsvert fyrir opinbera þjónustu að taka þátt í uppeldi fatlaðs barns. Gæti verið að fóstureyðingar hafi reynst afkastamesta sparnaðar-og hagræðingaraðgerð sem beitt hefur verið í heilbrigðis-og velferðarkerfinu?

Því verður samt ekki trúað, að fyrirætlan stjórnvalda að lengja frestinn, og þar með að fækka fæðingum fatlaðra barna, sé m.a. framborin í hagræðingarskyni fyrir ríkissjóð. Hitt liggur fyrir, þegar fóstureyðingar voru lögleiddar fyrir 43 árum, þá var marg lýst yfir, að fóstureyðing væri neyðarúrræði. Stjórnmálamenn hétu að leggja sig fram um að bæta félagslegar aðstæður fólks, búa betur að fötluðum og útrýma fátækt,- m.a. til að draga úr félagslegum þrýstingi á sjálfsákvörðunarrétt verðandi foreldra til að eyða fóstri. Erum við enn í sömu sporum? Við höfum notið tækniframfara og þægindabyltinga á flestum sviðum. Dugar það til taka sjálfsákvörðunarréttinn út úr öllu samhengi aðstæðna svo gildi í einhverju tómarúmi?

Samt eru það enn félagslegar aðstæður sem ráða mestu í ákvörðun um fóstureyðingu. Þá svífur yfir umræðunni þessi kvíði og ótti við að eignast fatlað barn og ala upp? Gildir enn, að það sé svo erfitt, dýrt og bindandi að ala upp fatlað barn, að ekki sé á nokkurn mann leggjandi? Víst eru í húfi víðkvæmar aðstæður sem verður að sýna nærgætni og virða við ákvörðun um fóstureyðingu. Við dæmum heldur ekki fólkið sem gengur í gegnum erfiða reynslu fóstureyðingar og á að njóta stuðnings og umhyggju. En við verðum líka að beina sjónum að félagslegum aðstæðum, ekki síst fatlaðra og þörfinni á að gera betur í að hlúa að þeim eins og frekast má. Þar gegna stjórnvöld stóru hlutverki og bera mikla ábyrgð,- og ættu að hafa talsvert fjárhagslegt svigrúm til þess í ljósi sparnaðarins með fóstureyðingum í 43 ár.

Ég þekki, að það fylgir álag á foreldra og fjölskyldu að ala upp fatlað barn, en er líka samofið í hamingju og lífsgleði,- nema helst í samskiptum við velferðakerfið. Þar geta múrar og veggir verið háir og illkleifir. Það liggur stundum við, að sú hugsun hvarli að mér, að hin opinberu skilaboð séu: „Barnið er á þína ábyrgð samkvæmt sjálfsákvörðunarrétti þínum og kemur okkur ekki við“.

Bjóðum börnin velkomin í heiminn og leggjum allt að mörkum í okkar valdi svo það megi verða. Það er kjarni málsins og þá fyrst er sjálfsákvörðunarréttur verðandi foreldra í gildi.

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum

Gunnlaugur Stefánsson · 12. nóvember 2018

Við skuldum börnunum okkar aðgerðir

Með vilja, trú og von í verki er hægt að búa börnunum okkar sem nú vaxa upp lífvænlegt umhverfi og hamla gegn loftslagsbreytingum sem ógna vistkerfum jarðarinnar. Sem bæði móðir og amma hefur þessi ábyrgð okkar sem eldri erum legið mér þungt á hjarta. Til þess að hamla gegn þessum breytingum þurfum við að standa með lífinu í öllum myndum þess. Göngum með gleði til þeirra breytinga á lífs- og framleiðsluháttum sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja frið og sátt við móður jörð! Látum Gullnu regluna, grundvöll kristinnar siðfræði, einnig ná til jarðarinnar og komandi kynslóða, sem eiga kröfu á að við hlúum að lífinu!

Framangreint er kjarni þess sem fram kom á norrænum fundi lúterskra höfuðbiskupa sem haldinn var í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar laugardaginn 20. október sl. Ég boðaði til fundarins í því skyni að ræða viðbrögð og viðnám gegn yfirvofandi loftslagsvá á heimsvísu og á Norðurslóðum sérstaklega. Auk mín sátu fundinn Antje Jackelén, erkibiskup í Uppsölum og í Svíþjóð, Helga Haugland Byfuglien, biskup presis, höfuðbiskup í Noregi, Tapio Luoma, erkibiskup í Turku og Finnlandi og Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup. Vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti, Solveig Lára Guðmundsdóttir og Kristján Björnsson, voru einnig þátttakendur á fundinum.

Umhverfismál snúast líka um siðferði

Biskuparnir ræddu þá staðreynd, sem ekki verður umflúin, að hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar af hennar völdum setja vistkerfi jarðar úr skorðum. Þar með er þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst í framkvæmd Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna stefnt í voða. Framundan er afturför leggi mannkynið ekki á sig taumhald og snúi frá ósjálfbærri orkunýtingu og neysluháttum. Fram kom á fundinum að niðurstaða t.d. sænsku kirkjunnar væri sú að „grænir“ framleiðslu- og lífshættir þyrftu ekki að bitna á hagsæld og gætu þar á ofan bætt lífsgæði og vellíðan.

Biskuparnir voru sammála um að lúterskar kirkjur á Norðurlöndum skyldu gera varðstöðu um lífið á jörðinni í öllum sínum myndum að verkefni sínu á næstu árum. Það er af þeirri ástæðu að hlýnun umfram 1.5 – 2 gráður mun hafa skaðleg áhrif á lífsskilyrði manna, gróðurs og dýra þannig að öll önnur málefni bera óbætanlegan skaða af. Rísa þarf upp gegn lögmáli ósjálfbærrar samfélagsþróunar með nýju fagnaðarerindi þar sem lífið er sett í öndvegi og kostnaðurinn við spillingu lífríkisins er ódulinn.

Rétt er að minna hér sérstaklega á ákall frá þingi umhverfisnets evrópskra kirkna, ECEN sem haldið var í Katowice í Póllandi í byrjun þessa mánaðar: „Vísindin segja okkur hvað er að gerast; trúin segir okkur af hverju við eigum að bregðast við. Við verðum að grípa til aðgerða núna ef við viljum að lífið á jörðinni eigi sér vonarríka framtíð.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Í nýrri vísindaskýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna er fullyrt að ráðrúm til þeirrar umbreytingar sem Parísarsáttmálinn frá 2015 kallaði á sé aðeins rúmur áratugur. Hvert og eitt okkar getur tekið smáu og táknrænu skrefin, kolefnisjafnað ferðalög sín, minnkað sóun, flokkað úrgang og dregið úr notkun umbúða og plasts. Smáu skrefin eru mikilvæg því þau gefa vísbendingu um að við séum að vakna til alvörunnar og til stuðnings við umbreytinguna. Það eru hinsvegar stjórnvöld, alþjóðasamtök, hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem verða að taka stóru skrefin og setja markmið og mörk sem duga.

Kirkjuþing hefur samþykkt umhverfisstefnu og aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Þar er m.a. ákveðið að frumkvæði æskulýðshreyfingar þjóðkirkjunnar að hætta allri notkun einnota umbúða í söfnuðum fyrir lok yfirstandandi árs. Endurheimt votlendis í Skálholti verður fylgt eftir með sambærilegum aðgerðum, ásamt skógrækt og landgræðslu, á prestsetursjörðum. Gefin hefur verið út handbók um umhverfisstarf í söfnuðum og undirbúinn farvegur fyrir umhverfisvottun á starfi stærri safnaða. Þau skref sem tekin hafa verið undir merkjum „Grænnar kirkju“ eru lítil og munu ekki skipta sköpum í hinu stærra samhengi. En þau sýna að þjóðkirkjan lætur sig náttúruvernd varða og leitast við að sýna í orði og verki að hún tekur loftlagsmálin alvarlega.

Einkennisorð þjóðkirkjunnar eru: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Við biðjum fyrir því að allir sem á Íslandi búa vakni til vitundar um nauðsyn þess að umbreyta lífsháttum þannig að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd náist. Við boðum lífsmáta sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar og notkun skaðlegra umbúða. Við þjónum náttúrunni, meðal annars með endurheimt votlendis, skógrækt, landgræðslu og vistvænni starfsemi í söfnuðum kirkjunnar um land allt. Við skuldum börnunum okkar lífvænlega framtíð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. október 2018

Agnes Sigurðardóttir · 1. nóvember 2018

Erum við samskotafælin eða glaðir gjafarar?

Spurningin um samskot í kirkjum landsins við guðsþjónustur, eins og tíðkast víða um heim, hefur lengi verið ákveðið feimnismál hér á landi. Margt kemur eflaust til. Ekki er hefð fyrir því og svo er borið við að ekki eigi að tala um peninga í kirkju, alla vega ekki biðja um þá, fólk greiði jú sóknargjöld og fleira er tínt til í afsökunartón. Ábendingar talsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins, auk tilhlaupa Kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar kirkjunnar sýna að á brattann er að sækja. Að baki virðist liggja ótti, að ekki megi rugga bátnum, er að þessu máli kemur og trúlega eitthvað fleira.

Gjafmild þjóð

Íslendingar eru gjafmild þjóð enda nýtur hún velsældar þó svo víða sé pottur brotinn og ekki sé búið að útrýma fátækt og eymd. En gjafmildin birtist ekki einungis í stórsöfnunum með aðstoð fjölmiðla heldur gefa tugir þúsunda Íslendinga reglulega, flestir mánaðarlega, til góðgerðasamtaka sem starfa ýmist hérlendis eða erlendis og sum gera hvort tveggja. Meðal samtaka er njóta þess eru Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar. Ekki síst í ljósi þessarar gjafmildi vaknar spurningin: Hvað eru menn hræddir við? Fer orðspor kirkjunnar á hliðina við samskot? Er það ekki frekar trúverðugt að hún og þá söfnuðurinn sjálfur lætur sig aðra varða með þessum hætti?

Í nokkrum kirkjum höfuðborgarinnar, t.d. Hallgrímskirkju og Grensáskirkju, hafa verið tekin samskot allan ársins hring, í hverri einustu guðsþjónustu í langan tíma. Samskot hafa verið tekin í Tómasarmessum í Breiðholtskirkju í tvo áratugi. Einhverjir tilburðir til lengri og styttri tíma hafa verið gerðir annars staðar. En það er engin ástæða til að láta þar við sitja, enda reynslan úr fyrrnefndum kirkjum mjög góð. Margir þakka fyrir þetta tækifæri. Bæði Kristniboðssambandið og Hjálparstarfið njóta þessa ríkulega. En hvernig er unnt að gera þetta svo vel fari?

Lagt á djúpið

Fyrsta skrefið er að kynna hugmyndina. Það má gera í tveim eða þrem guðsþjónustum. Auðvelt er að byrja á að safna fyrir ákveðnu verkefni, s.s. að styrkja kirkjubyggingu í Eþíópíu eða Keníu, nám guðfræðinema, rekstur biblíu- eða guðfræðiskóla, verkefni sem tengist beinu boðunar- og safnaðarstarfi eða þróunarsamvinnuverkefni. Þetta þarf þó ekki en getur auðveldað það að fara af stað. Því næst er að byrja og kynna samskotin þannig að þetta sé tækifæri, engin skylda og sjálfsagt að láta söfnunarkörfuna ganga framhjá. Þeir sem eru ekki með peninga, en vilja styrkja málefnið, gætu fengið upplýsingar um bankareikning viðkomandi. Eðlilegast er að taka samskotin í guðsþjónustunni sjálfri, frekar en þegar gengið er út.

Ráðsmenn góðra gjafa

Samskot eru jafnframt tilefni til að minna á, að okkur er trúað fyrir gjöfum lífsins, ekki einungis okkar vegna, heldur líka svo við getum blessað aðra. Sá sem gefur minnir sig jafnframt á að peningar eiga ekki að stjórna okkur. Það er ekki okkar eiginlegi fjársjóður. Með gjöfum okkar játum við trú okkar á að Guð er sá sem sér fyrir okkur enda hefur hann skapað okkur og gefið getu og hæfileika til að starfa. Þannig eru gjafir okkar til starfsins í Guðs ríki einnig þakkargjörð til Guðs.

Hér hefur verið minnst á Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar, tvenn samtök sem eru nátengd kirkjunni. Þá má bæta við Hinu íslenska biblíufélagi og Gídeonfélaginu. Sums staðar er hvatt til samskota til annarra sérstakra verkefna eða samtaka eða í líknarsjóð safnaðarins. Gott er að vera með reglu og viðmið til hvers er safnað á hverjum tíma. Ef ekkert er skipulagt gerist heldur ekkert. Jafnvel á sérstökum fráteknum dögum, eins og biblíudeginum og kristniboðsdeginum er ótrúleg tregða til að standa að samskotum svo vel fari. Þessu má breyta. Það er engin skömm að taka samskot. Ef Drottinn hefur blessað mig, hví skyldi ég þá ekki blessa aðra?

Í nágrannalöndunum er þó nokkur hluti af tekjum kristniboðssamtaka kominn frá söfnuðum landsins. Söfnuðir á Íslandi þurfa að vakna og láta sig varða að fagnaðarerindið berist út um heim og að neyð náungans, heima og heiman, sé mætt með kærleika og virðingu í þakklæti til Guðs og gleði yfir að fá að gefa.

Er ekki kominn tími til að taka samskot?

Ragnar Gunnarsson · 18. október 2018

Lystigarðar þjóðar

Kirkjugarðar þjóðarinnar eru merkar stofnanir.  Staðir vítt um land, í þéttbýli, í strjálum byggðum.   Grafreitir hafa fylgt okkur alla tíð.  Staðir sem geyma ríka sögu.

Við kveðjum, syrgjum. Stöndum yfir moldum, merkt óvissu dauðans,  í ugg og ótta, líka í von og þökk.  Leggjum okkar nánustu til hinstu hvílu  í helga jörð.  Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða.

„Nú ertu leidd mín ljúfa, lystigarð Drottins í…“ yrkir Hallgrímur Pétursson, bæði í harmi og von um unga dóttur sem hann missti.

Það er góð regla að umgangast hina dauðu af sömu virðingu og þá sem lifandi eru.  Þess vegna eru strangar reglur, skrifaðar, bundnar í lög og líka óskrifaðar um það er varðar kirkjugarða, umgengni og hirðu.

Sóknarnefndir eru að jafnaði kirkjugarðsstjórnir, utan höfuðborgarsvæðisins.  Sóknir hafa sjálfstæðan tekjustofn, sóknargjöld, sem eiga að standa undir rekstri sókna og viðhaldi helgidóma.  Kirkjugarðarnir hafa sinn tekjustofn, kirkjugarðsgjöld og þau greiða allir, óháð trúfélagsaðild.

Ekki aðeins hafa sóknargjöld verið skert síðustu árin, heldur einnig kirkjugarðsgjöld, þannig að framlög til kirkjugarða á landsvísu hafa verið skorin niður um 3,4 milljarða frá árinu 2005, þegar samið var við ríkisvaldið um rekstur þeirra.   Þrátt fyrir linnulausa áminningu hafa stjórnvöld daufheyrst við því að gera þarna bót á.

Það er ekki undur að víða kreppir skóinn í rekstri kirkjugarða.  Í Vesturlandsprófastsdæmi eru 44 kirkjugarðar, auk nokkurra aflagðra og svo heimagrafreita.  Þessir garðar bera flestir mikla sögu, vitna um líf og örlög þjóðar í meir en þúsund ár.

Í nýlegri vísitasíu um prófastsdæmið skoðaði ég ásamt fyrrum vígslubiskupi Skálholtsumdæmis alla þessa grafreiti.  Almennt má segja, að vel er um þessa garða hirt, þrátt fyrir fjárskort.  Sóknarnefndarfólkið leggur mikið á sig í sjálfboðinni vinnu til að grafreitirnir séu til sóma. Það er þakkarefni.  En víða er endurbóta þörf.  Lagfæra þarf girðingar og hleðslur, fjarlægja ónýta steinkassa um grafir sem eru til óprýði; lagfæra merk minningarmörk sem eru farin að láta á sjá.  Grafartaka og sláttur og sumarhirða kosta sitt. Sumt af þessu er gert í sjálfboðavinnu eða fyrir málamyndaþóknun.

Kirkjugarðar eru helgir reitir í margvíslegum skilningi.  Þar hvíla kynslóðirnar sem byggðu Ísland. Þar er partur af sögu okkar.  Garðarnir eru þannig menningarverðmæti og ættu að bera sómavitund okkar fagurt vitni.  Í kirkjugarðana leitar fólk til að minnast sinna nánustu, helga minningar sínar, segja bænir sínar, hugleiða og horfast í augu við sjálft sig.

Kirkjugarður á að vera fagur griðastaður, ekki aðeins hvíla hinna látnu, heldur einnig skjól hinum lifandi í hrakviðrum heimsins.  Þar á að vera gott að koma og vera. Þaðan á ávallt að vera unnt að ganga með birtu í sinni.

Hugarfarsbreytingar er þörf. Það er skylda stjórnvalda að leggja af tómlætið sem einkennt hefur framkomu þeirra gagnvart kirkjugörðunum um árabil, auglýsa manndóm í verki; ganga að því verki að skapa viðunandi rekstrargrunn og birta þannig menningarsýn sem er okkur öllum til sóma.  Kirkjugarðar eiga að vera lystigarðar þjóðar.

Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi.

Þorbjörn Hlynur Árnason · 15. október 2018

Hýsum hælislausa

Predikun. Mark. 8.1-9

Í guðspjalli dagsins fer Markús með okkur inn í kunnuglega sögu.  Mettun þúsundanna.

Þetta er svipuð saga og við sjáum í öðrum guðspjöllum.  Svangt og umkomulaust fólk verður satt.  Hér af brauði einu, annars staðar bætist fiskur við.

Þeir fóru af stað með honum, þeir sem hann vitjaði við vatnið.  Fiskimennirnir sem hann sagði að leggja frá sér netin og halda út í óvissuna. Lærisveinar, síðar nefndir postular.

Nú eiga þeir menn  veiða menn.  Það er ærið verk.  Að ná tangarhaldi á fólki.

Til þess þarf sannfæringarkraft.  Persónutöfra.  Að laða að sér fólk er ekki öllum gefið.  En meðölin eru ýmisleg.

Mörg eru hin grimmu og guðlausu hjörtu sem skeyta engu um umhverfi sitt eða annað fólk.

Valdsmenn af mörgum toga,  hafa skreytt sig með falsfjöðrum, slegið blindu í augu fólks, teymt lýðinn auðsveipa yfir í heljarlönd

- gefið út ávísanir gylltar og logandi af fögrum fyrirheitum, innistæðulausa tékka sem falla  -  eftir standa fórnarlömbin  í eymd og umkomuleysi.

Jesús er ekki úlfurinn i sauðargæru, sá er afvega leiðir lýðinn líkt og valdsmenn gyðinganna héldu fram, þótt sjálfsagt hafi þeir vitað hið sanna innst inni.

Ég kenni í brjósti um mannfjöldann -  segir Jesús við lærisveinana.

Ekkert til matar, langt að sækja skjól og næringu.  Þau munu örmagnast.

Hvað er til ráða, spyr hann menn sína.  Góð ráð dýr.

Brauðin sjö eru dregin fram og í höndum Jesú, fyrir þakkargjörð hans og blessun verða þau nóg.

Og gott betur.  Hann lætur menn sína taka saman leifarnar, svo að ekkert spillist.

Þar býr hentug áminning til okkar sem allt eigum og höfum.

Við erum meistarar í að fleygja og sóa.  Matarsóun er ótrúlegt hneyksli. Til skammar fyrir ríka heiminn og háðung okkur Íslendingum.

Hugsunarlaust förgum við  verðmætum sem hafa kostað orku, tíma og jarðargæði.

Við fleygjum líka plasti, dósum, hverju sem er, erum dæmalausir umhverfissóðar; látum oft eins og þessi jörð og afurðir hennar séu einnota, og það komi engum við hvernig við látum

Hann læknar sundurkramin hjörtu segir í Davíðssálminum sem er lexía dagsins.  Til þess er hann kominn.

Jesús hneykslar sitt heimafólk í Nasaret er hann les úr ritningunni -  hann gunngjörir náðarár drottins, gefur bandingjum lausn.

Það er aldeilis að hann gerir sig breiðan.   Og hann er hrakinn með grjótkasti úr heimabyggð sinni.  Engin er spámaður í sínu föðurlandi.

En hann er kominn til að gera bandingja frjálsa.

Hann talar um hina minnstu bræður.  Við okkur segir hann:  Allt gott sem þið gerið  þeim, það gerið þið mér.

Fjallræðan í Mattheusarguðspjalli geymir mikla opinberun.  Hún svarar því, í það minnsta að hluta: Hver er Jesús.  Hvað þurfa þeir að vera sem eru hans.  Og hvert er hlutskipti þeirra.

Sælir eru fátækir… Sælir eru hógværir.

Þetta er vissulega texti sem hefur verið notaður til að segja að himnasælan, eða sælustraffið, eins og Þórbergur orðaði það,  muni gera meira en að bæta þjáningu í táradalnum, og að ekki skuli gera miklar kröfur um réttlæti eða mannsæmandi laun.

Þannig má snúa öllu má  á hvolf. Kirkja og valdhafar hafa iðulega verið í innilegu og vanheilögu sambandi um óréttvísi.

Kirkjan þá brúkuð eins og  tæki til að gangsetja og viðhalda heljartaki valdhafa á fátæku fólki sem á sér enga málsvara.

En kirkjan hefur líka borið gæfu til þess að eiga innan sinna raða spámenn og siðbótarfólk sem hefur lesið ritninguna óbrjáluðum augum

– og víða höfum við sterk og áhrifarík dæmi um jákvæð áhrif kirkju og kristindóms á samfélagsmál.

Í Gamla testamentinu eru dómsspámennirnir fyrirferðamiklir.

Þeir eru ósparir á stóru orðin er þeir hvetja þjóð sína til að iðka réttlæti -  sýna mannúð og umhyggju þeim sem ekkert eiga - hýsa bágstadda og hælislausa.

Og Jesús fer víða og talar margt um hinn minnsta bróður.

Þekkt er dæmisagan af miskunnsama Samverjanum, sennilega fáar örsögur sem hafa haft jafn rík áhrif.

Hver er lærdómurinn af henni?   Við erum kölluð til að hjálpa fólki í nauðum.  Það er okkar skylda, ekki fengur eða afrek, heldur það að vera drottins.

Við vitum ekki hver verður á vegi okkar  - og við veljum okkur ekki náungann.

Ítrekað sjáum við það í orðum og gjörðum Jesú frá Nazaret.

Lærdómurinn er sá, að  þjóðerni, kynþáttur, trú eða lífsskoðun.  Allt er það  léttvægt  er við komum að fólki í nauðum.

Hælisleitendur, flóttafólk,  fólk á flóttamannsveginum.  Þar fer náungi okkar.

Nú eru uppi áður óþekktar aðstæður í Evrópu.

Vesturlönd  stenda frammi fyrir mikilli áskorun.   Harmlegu hlutskipti flóttamanna sem knýja á dyr okkar.  Hvað viljum við vera í þessum veltingi öllum ?

Síðari hluta síðustu aldar nutu Íslendingar velvilja og stuðnings annarra þjóða og urðu ríkir og velmegandi.

Tími er kominn  til að við  látum af þeim ósið og leggjum frá okkur þá ómenningu sem plagað hefur samfélag okkar allt of lengi -  að líta á útlönd og útlendinga, einvörðungu sem eitthvað sem hægt er að græða á.

Þannig getum við verið  upprétt í samfélagi þjóða

Íslenskt fólk flúði vísan dauða á nítjándu öld og fékk land  og skjól í Norður Ameríku.  Það er þakkarefni.

Lítum í auðmýkt, í á kjör og hlutskipti bræðra og systra.  Þau eru okkar, þau er þjást, heimilislaus, á flótta – auðútsett fórnarlömb glæpa og mannvonsku.

Þau eru við.  Burtséð frá þjóðerni, trú eða sannfæringu.  Öll erum við sköpuð í Guðs mynd.

Þau biðja um skjól og daglegt brauð.

Það er ekki einfalt;  það mun kosta að taka á móti flóttafólki og það mun taka á.

En það er líka spennandi viðfangsefni og víst er að þeir sem hingað koma úr framandi menningarheimum  auðga samfélag okkar.

Við erum rík þjóð Íslendingar; efni okkar eru mikil

Það er fulljóst að búr okkar  eru stór og rík af mat og gæðum.  Kornhlöður okkar eru fullar.

Í Fjallræðunni er  áminning um að hamingjan felst ekki í því einu að safna korni í hlöður.  Hamingjan býr líka í mátulegu tómlæti um efnisleg gæði.

Við erum minnt á liljur vallarins og fugla himins.  Hamingjumaður getur líka sá verið sem lítur yfir farinn veg og þakkar að hann skaðaði engan, rak engan um dimman dal, heldur gerði öðrum gott.

Við veljum okkur ekki þjóðerni, hörundslit, kynhneigð.  Við um sumt veljum okkur ekki trú eða menningu.

Við erum fædd  inní menningar- og félagsheim sem er mótaður af kristinni trú. – hvað svo sem menn segja og lepja upp hver eftir öðrum um skaðsemi af kirkju og kristni, og þykjast meiri eftir.

Í  Davíðssálmi segir:  Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.  Og hvað merkir nú þetta. Vit, hvers konar vit.

Er það vitið sem nútíminn hampar svo mjög. Vit til að komast áfram í lífinu,  græða, jafnvel níðast á öðrum til að tryggja eigin hag.

Er það vitið sem smíðar vígtólin, hernaðarvit ?

Er það vitið sem hefur hrundið af stað bylgju flóttamanna frá Afríku og Mið-Austurlöndum ?

Er það vitið sem viðheldur ójöfnuði – ótrúlegu ríkidæmi forréttindafólks og örbyrgð hinna snauðu.

Viturt hjarta Davíðssálmsins er kannski heimskulegt og vitlaust að dómi heimsvitsins.

Davíðssálmurinn talar um viturt hjarta, sem veit og skilur að við eigum ákveðinn tíma á jörðu -  daga ár og ævi sem kemur og fer.

Þetta þurfum við að vita og læra svo að hjarta okkar verði viturt og ríkt;  hjarta sem gefur, líknar, hjálpar.  Umfram allt, þakklátt hjarta.

Marteinn Lúter segir í einu rita sinna, að náð Guðs, fyrir trú á Jesú Krist, geri manninn glaðan, djarfan og fagnandi fyrir Guði, mönnum  og hverri skepnu.  Það er góð áminning á hverjum degi sem Guð gefur.

Þúsundir verða saddir, fá sitt daglega brauð. Og hvað segir okkur þessi saga um mettun þúsundanna ?   Hvað er hún.

Fyrst og fremst er hún vitnisburður þeirra sem með Jesú voru.  Þeir trúðu; þannig er mettunarsagan sönn.

Þannig verður hún sönn í okkur, fyrir trú.  Þannig fær hún að bera ávöxt í hjörtum okkar, fyllir okkur lotningu og auðmýkt, líkt og með þeim er hann sáu og reyndu.

Fjögur þúsund þakklát hjörtu sungu lausnara sínum lof.  Lífgjöf þáðu þeir.

Mannanna börn hungrar eftir daglegu brauði sínu,  eftir réttlæti.

Jesús er réttlætisins sól.

Það er próf, það reynir á að vera Drottins, vinna ljóssins verk meðan dagur okkar varir.  Gera sem við getum að laga heimsins mein.

Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir og breiði birtu yfir lif annarra. Göngum saman djörf og sterk.

Jesús er sá er birtir Guð á jörðu.   Hann sem var orðið í upphafi; var til alla vegu frá grundvöllun heimsins – hann sem er frá eilífð til eilífðar.

Hann leysir ok bandingjanna. Hann er lognið sem svæfir storminn. Ljós í myrkrum. Líkn allra lýða.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

Þorbjörn Hlynur Árnason · 15. október 2018

Virðing lífs og verndun - Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum

Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum - pallborðsumræður þeirra á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, 2018, í Hörpu -Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins hér á landi, 2017, um réttlátan frið við jörðu

Vér treystum því, sem hönd Guðs hefur skráð:
Í hverju fræi, er var í kærleik sáð,
býr fyrirheit um himnaríki á jörðu.
Hver heilög bæn á vísa Drottins náð.
Og hví skal þá ei ógn og hatri hafna,
ef hjálp og miskunn blasir öllum við
í trú, sem ein má þúsund þjóðum safna
til þjónustu við sannleik, ást og frið?
Tómas Guðmundsson

Þetta fagra sálmvers góðskáldsins Tómasar Guðmundssonar, gefur vel til kynna hve miklu varði að greina í trú veruleika Guðs í sköpunarverki hans og skynja samhengi jarðarlífs og komanda Guðs ríkis, hafna illsku, ógn og hatri og safna þjóðum heims í þjónustu við sannleika hans, ást og frið. Tíðindi af ógnvænlegum breytingum á loftslagi og veðrakerfum jarðar, sem ekki verður lengur mótmælt að stafi af hömlulausri brennslu og notkun jarðefnaeldsneytis, ættu að hvetja til samstöðu manna og þjóða um nauðsynleg viðbrögð. Þar hefur kristin kirkja miklu köllunarhlutverki að gegna og þá auðvitað líka íslenska Þjóðkirkjan. Hún sinnir því með því að vinna að framgangi kristinna gilda og viðmiða bæði innanlands en jafnframt líka í víðara samhengi, og einkum í gefandi samstarfi við kirkjur á norðurslóðum og Alkirkjuráðið.

Á síðastliðnu ári efndi þjóðkirkja Íslands í fyrsta sinni til svonefnds„Tímabils sköpunarverksins‘‘, Season of Creation, í kirkjunni að fyrirmynd kristinna kirkna og kirkjudeilda víða um heim. Þetta tímabil, sem hluti kirkjuársins, á uppruna sinn að rekja til rétttrúnaðarkirkjunnar og nær frá byrjun septembermánaðar fram til fyrstu daga októbermánaðar. Þá er, í boðskap kirknanna, Guði sérstaklega þakkað fyrir gjafir jarðar og uppskeru og gætt að hag og framgangi lífs og lífríkis.

Þjóðkirkjan hefur nú efnt í annað sinni til slíks tímabils sköpunarverksins og horfir til þess að gera það að föstum lið í boðun sinni og starfi. Sem táknmynd þess tók Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, upp haustuppskeru í grenndargörðunum Seljagarðs í Seljahverfi við fjölskyldustund þann 6. september sl. og undirritaði síðan áskorun um bann við notkun svartolíu í Norðurhöfum. Biskup hefur hvatt presta og söfnuði til að halda uppskerumessur og gefa góðan gaum að umhverfismálum, standa að viðburðum og verkum til umhverfisverndar, huga m.a. að endurheimt votlendis og skógrækt á kirkjujörðum. Kirkju- og safnaðarstarf um land allt hefur enda borið margvísleg merki„tímabilsins‘‘ og falið í sér gagnrýna ígrundun um umhverfismálin brýnu og hvatningu til siðbættra lífshátta. Umhverfisnefnd Þjóðkirkjunnar kynnti í byrjun„tímabilsins‘‘ vefinn; Græna kirkjan, og einnig bækling, sem hún gefur út undir heitinu„Græni söfnuðurinn okkar‘‘ og jafnframt sérstaka„Handbók um umhverfismál‘‘. Þar fá söfnuðir landsins verkfæri og bent er á leiðir til að vinna að umhverfisvernd í samræmi við nýja og framsækna umhverfisstefnu kirkjunnar sem samþykkt var á kirkjuþingi 2017.

Tímabil sköpunarverksins verður nú lengt líkt og í fyrra langt fram í októbermánuð. Því mun ljúka með því, að höfuðbiskupar evangelísku lútersku kirkna Norðurlanda koma saman í boði Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Ísland, til biskupafundar í húsakynnum Dómkirkjunnar í Reykjavík laugardagsmorguninn 20. okt. nk. − Antje Jackelén, erkibiskup Svíþjóðar, Tapio Luoma, erkibiskup Finna, Helga Haugland Byfuglien, höfuðbiskup Noregs og Jógvan Fríðriksson, Færeyjabiskup. – Peter Skov Jakobsen, höfuðbiskup dönsku Þjóðkirkjunnar á því miður ekki heimangengt. – Biskuparnir munu ráða ráðum sínum um viðbrögð við umhverfisháskanum og hvernig kristnar kirkjur og trúarsamfélög geti haft vekjandi áhrif til umhverfisverndar og hvatt til breytinga á framleiðslu- og lífsháttum til lífsbjargar.
Biskuparnir munu jafnframt sitja í pallborði á 6. Hringborði Norðurlóða, Arctic Circle Assembly, í ráðstefnu- og tónlistarmiðstöðinni, Hörpu, sunnudaginn 21. okt. nk. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og innanríkisráðherra mun stýra pallborðsumræðunum. Guðfræðistofnun, Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands og Stofnun Sigurbjörns Einarssonar efna einnig til málstofu á Hringborðinu, síðdegis laugardaginn 20. okt. Þar verður fjallað um vonina á tímum afgerandi loftslagsbreytinga á Norðurslóðum.

Auk þess sem biskuparnir munu, sunnudaginn 21. okt., sitja í pallborði við Hringborð Norðurslóða, sækja þeir opinn fyrirlestur dr. Andrésar Arnalds í Hallgrímskirkju sem hefst kl. 09:30. Þeir munu síðan prédika í guðsþjónustum, sem hefjast kl. 11, í fjórum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju, Vídalínskirkju í Garðabæ og Hafnarfjarðarkirkju. Guðsþjónustan í Hallgrímskirkju verður samkirkjuleg og mun biskup Íslands taka þátt í henni.

Dagskrá„tímabils sköpunarverksins‘‘ felur með þessum atriðum í sér rökrétt framhald á þeim merku umhverfisverndarviðburðum sem Þjóðkirkjan beitti sér fyrir á sama tíma árs í fyrra. Þá stóð hún ásamt Alkirkjuráðinu, World Council of Churches, að ráðstefnu um um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ sem haldin var í Digraneskirkju og á Þingvöllum. Ráðstefna Alkirkjuráðsins tengdist sem aðfararatburður Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly ´17, sem haldið var í Hörpu og einnig víðar. Ráðstefnan var merkis kirkjusögulegur viðburður hér á landi. Af þessu tilefni kom höfuðsmaður rétttrúnaðarkirkjunnar, Bartólómeos I. patríarki og erkibiskup í Konstantínópel, Græni patríarkinn svonefndi, vegna eindreginnar afstöðu sinnar til umhverfisverndar, í opinbera heimsókn til landsins í boði Þjóðkirkjunnar, ríkisstjórnar og Hringborðsins ásamt fimm öðrum háttsettum forystumönnum kirkju sinnar. Patríarkinn flutti innihaldsríka lykilræðu, á Hringborðinu í þéttsetnu Silfurbergi Hörpu. Alkirkjuráðið stóð að tveimur málstofum á Hringborðinu, sem fóru fram í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Fyrri málstofan fjallaði um trúarviðhorf frumbyggja sem gjöf til að umbreyta heimi. Síðara málþingið hafði að yfirskrift sinni:„Loftslagsréttlæti og þá siðferðilegu nauðsyn að bregðast við vandanum. Trúarleiðtogar í samræðu við vísinda- og ráðamenn.‘‘

Ráðstefna Alkirkjuráðsins hér á landi í fyrra um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ náði glæstu hámarki sínu á Þingvöllum. Í helgistund á Lögbergi var ályktun ráðstefnunnar samþykkt eftir að ráðstefnufulltrúar höfðu skipst á að lesa upp kafla hennar. Frá Lögbergi var haldið í Þingvallakirkju til að undirrita ályktunina, Agnes, biskup, og Anders Wejryd, Evrópuforseti Alkirkjuráðsins og fyrrverandi erkibiskup Svía, fyrst og síðar aðrir þátttakendur. Ályktunin er innihaldsrík og gefur vel til kynna þau stefnumið sem mörkuð voru og horft var til á ráðstefnu Alkirkjuráðsins. Dagskráratriði og viðburðir – sem Þjóðkirkjan vinnur að og skipuleggur á„tímabili sköpunarverksins‘‘ á þessu minningarári um fullveldi íslenskrar þjóðar, 2018 – taka mið af ályktuninni. Farsæld þjóða og heims felst enda í því að huga og vinna að réttlæti og friði manna á meðal og við lífssköpun alla. Köllun kristinnar kirkju er sú að gera það í kjarki og kærleika skapandi og endurleysandi trúar í Frelsarans nafni.

Stefnt að réttlátum friði við jörðu: Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins um Frið við jörðu − haldin í Digraneskirkju Kópavogi og á Þingvöllum 11. – 13. október 2017

Jörðin og allt sem á henni er tilheyrir Guði (Slm 24.1). Þessi játning auðkennir abrahamísku trúarbrögðin sem og menningarhefðir frumbyggja víða um heim. Heilagur Frans frá Assisí tjáir þetta í lofgjörð sinni til Guðs með þakkarorðum sem hann beinir til „systur okkar, móður jarðar“; en nú „stynur hún“ (Róm 8.22) undan ofbeldinu sem hún er beitt, eins og við erum minnt á í umburðarbréfi Frans páfa, Laudato Si. Engu að síður, líkt og vísað er til í yfirlýsingu Alkirkjuráðsins um vegferð til réttláts friðar (Statement on the Way of Just Peace), væntum við kristnir menn, samkvæmt fyrirheiti Guðs, nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr (2Pét 3.13), fullvissir þess að hinn þríeini Guð fullkomni og uppfylli gervalla sköpunina við lok tímanna og líti á réttlæti og frið sem bæði von fyrir framtíðina og gjöf á líðandi stundu.

Eins og hans heilagleiki, samkirkjulegi patríarkinn Bartólómeus I. hefur ritað, á vistvandinn sér andlegar rætur. Arðrán og eyðilegging sköpunarinnar eru afmyndun og brenglun á eigindum kristninnar og engan veginn óhjákvæmileg afleiðing hinnar biblíulegu skipunar um að „fjölga og fylla“ (1Mós 1.22). Með því að saurga og eyðileggja umhverfið sem hverri kynslóð er treyst fyrir sem helgum arfi, er syndgað gegn Guði og náttúrunni. Sjálfbær þróun fær ekki þrifist án andlegra verðmæta og lífvænlegs umhverfis.

Þessi ráðstefna – sem Alkirkjuráðið stendur að, í boði íslensku Þjóðkirkjunnar, og haldin er í aðdraganda og tengslum við Hringborð Norðurslóða 2017 – hefur kannað viðbragðsáætlanir trúarsamfélaga til þess að vekja vitund um og stuðla að sjálfbærri framtíð. Líkt og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup íslensku Þjóðkirkjunnar, hvatti til í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni, var „róttækt endurmat á gildi og kröfum kristinnar ráðsmennsku“ leiðarstefið í umræðum sem þar fóru fram.

Sem trúarleiðtogar og trúað fólk deilum við áhyggjum og sjónarmiðum með þeim stefnumótendum og hagsmunaaðilum sem koma saman til Hringborðs Norðurslóða (13.-15. október) og áformaðrar Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 23) í Bonn í Þýskalandi (6.-17. nóvember), sem og með samfélagi kirkna um heim allan, þar sem kallað er í Krists nafni eftir nauðsynlegri stefnumörkun, aðgerðum og viðhorfsbreytingum til að vernda og varðveita umhverfi jarðarinnar, dýrmæta og lifandi sköpun Guðs, viðkvæm og fögur heimkynni mannkyns og alls lífs á jörðu
Framlag trúarsamfélaga: Umskipti til sjálfbærrar framtíðar.
Kirkjur og trúarsamfélög hafa engu síður en aðrir samfélagshópar valdið tjóni á lífríkinu. En mannkynssagan sýnir einnig hversu öflug trúarbrögð geta reynst við að glæða lífsviðhorf sem leiða til gjörtækra breytinga á samfélögum, stjórnmálum og menningu. Trúfélög geta verið máttugir aflvakar farsælla breytinga. Samkirkjuhreyfingin og trúarleiðtogar hafa gegnt lykilhlutverki við að halda fram kröfum um sjálfbæra þróun og „loftslagsréttlæti“ bæði á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum. Horft er nú til þess að hagnýta umbreytandi kraft trúarinnar til þess að stuðla að þeim félagslegu, efnahagslegu, menningarlegu og atferlisbundnu umskiptum sem sem þörf er á til að bregðast við ógnum loftslagsbreytinga og gera sjálfbærni að raunsönnum veruleika.
Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi. Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra lífshætti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði. Og við fögnum því að kirkjur og og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði.

Sé horft til þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.
Við þurfum einnig að hagnýta og fylgja þeim farvegum og skuldbindingum sem samið hefur verið um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og glæða vilja stjórnmálamanna til að virða og standa við þær skuldbindingar er gerðar hafa verið. Þar má nefna, Aðgerðaáætlunina 2030 (Agenda 2030), og Markmið um sjálfbæra þróun, og einnig Parísarsáttmálann um loftslagsbreytingar. Með því móti fá rödd og sjónarmið trúar og siðferðis haft sín áhrif á framþróunina. Enn meiru varðar að trúin sýni sig í því að andmæla rótgrónu siðleysi þeirra lífshátta og hagkerfa sem byggjast á yfirtöku og eigingjarnri misþyrmingu á náttúru og fólki, og skeytingarleysi gagnvart því ranglæti sem af hlýst og umhverfisspjöllum.

Við minnum jafnframt á þau órjúfanlegu tengsl sem liggja milli friðar við jörðu og friðar á jörðu og höfnum brjálæði síaukinnar eyðslu til hergagnaframleiðslu og viðvarandi tiltrú á kjarnavopnum. Við fögnum sáttmálanum um bann við kjarnavopnum og teljum hann vera mikilvægt framlag til að vernda umhverfi, mannlegt líf og samfélög.
Lærdómsrík lífsviðhorf frumbyggja Frumbyggjar þurfa að taki þátt í öllu samráðsferlinu vegna loftslagsbreytinganna. Frumbyggjar valda ekki vandanum en kunna fremur ráð við honum, sem framverðir móður jarðar og gervallrar sköpunar í allra þágu. Frumbyggjar búa að reynslu, visku og frásögnum sem geta gagnast vel til viðbragða við loftslagsbreytingum. Við höfnum þöglu samþykki við því að líf sumra manna tapist, heimili, lönd og lífshættir og þ.a.l. glatist veruhættir og sjálfsmyndir jafnframt því sem einhverjir aðrir hagnist á loftslagsbreytingunum. Ekki er hægt að fallast á að fólk flytjist nauðugt frá (norður)pólsvæðum og eyjaheimkynnum og týni sjálfsmynd sinni.

Loftslagsbreytingar valda tjóni og eyðileggingu sem ekki verða reiknuð í hagtölum (Non-economic loss and damage, NELD) en hafa mikil áhrif á líf frumbyggja og valda þeim áhyggjum. Í allri umræðu um ákvarðanir í loftslagsmálum ber að taka tillit til slíkra áhrifa á líf frumbyggja.

Við hvetjum til þess að viska frumbyggja sé virt enda búi þeir að fornri og djúpstæðri þekkingargeymd á umhverfi sínu sem er heimkynni forfeðra þeirra. Slík lífsviðhorf og viska miða að þeirri farsæld allrar lífssköpunar, sem bæði jörð og alheimur hafa ætlað komandi kynslóðum.

Við viljum ásamt öðrum hagsmunaaðilum útbreiða samþykki og virðingu fyrir og innleiðingu sáttmála og samkomulags og annarra uppbyggilegra þátta sem eindregið stuðli að því, að konur, ungmenni, frumbyggjar og allir þjóðflokkar geti átt sér framtíð. Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja (UN Declaration on the Rights of Indigenous Persons) og Ályktun Heimsþings um málefni frumbyggja frá árinu 2015 (2015 World Conference on Indigenous Peoples Outcome Document) eru mikilvæg umgjörð og leiðarvísir til aðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hagsmuna frumbyggja.
Þörf er á haldbærum áætlunum um samstarfsaðgerðir. Við viljum leggja til auðlindir okkar, þar með talið hugsjónir og drauma, vonir, kærleika, trú og frásagnir, sem hafa gildi fyrir málstaðinn. Hryggðin sem grípur okkur [vegna ástandsins] er líka auðlind, en þó ekki það eina sem við getum látið í té á þessari háskatíð.
Viðbrögð við ógn hnattrænnar hlýnunar sem steðjar að íbúum eyja á Kyrrahafi og Atlantshafi.

Eyjasamfélög – hvort sem eru á heimskautasvæðum, í Kyrrahafi eða eins og fram hefur komið nýverið og hryggilega í Karíbahafinu – líða hvað mest fyrir áhrif þegar framkominna loftslagsbreytinga og eru hvað viðkvæmust fyrir auknum breytingum. Áætluð hækkun á hitastigi á heimskautasvæðum er tvöfalt hærri en hnattrænt meðaltal. Og ísinn sem bráðnar á Norðurheimskautinu hefur beinar afleiðingar fyrir smá og láglend eyríki eins og Kíríbatí í Kyrrahafi, en hækkandi sjávarborð vegur þegar að framtíð og tilvist þess. Uppflosnun fólks og hverfandi strandlengjur, landrýrnun og fækkun vatnsbóla eru þar þegar veruleg og vaxandi ógn.

Við köllum eftir brýnum hnattrænum viðbrögðum við þeim háska sem steðjar að smáum eyríkjum á þessum svæðum af hækkandi sjávarborði. Við hvetjum eyþjóðir í hættu til að taka saman höndum og styðja hver aðra, siðferðilega, menningarlega, fjárhagslega og með því að miðla hver annarri reynslu sinni [og þekkingu] til að bregðast við háska framtíðar.
Við förum fram á að alþjóðastofnanir og ríkisstjórnir miðli eyríkjum í háska öllum tiltækum upplýsingum og tækniþekkingu til að liðsinna íbúum þeirra við að bregðast við loftslagsbreytingunum, draga úr núverandi áhættu og aðlagast þeim válegu aðstæðum sem orðnar eru – þ.á.m. með opinberum fræðslu- og færnisaukandi verkefnum.
Jafnframt hvetjum við kirkjusamfélög til að beita sínu eigin málfari og helgisiðum til að blessa vötnin – ár, stöðuvötn og höf – sem andlegt tákn um hve áríðandi sé að vernda hið náttúrulega umhverfi og lífið allt sem því er háð.

Ákall
Í samantekt að loknum umræðum okkar og umfjöllun, umþenkingum og bænastundum, er við horfum til væntanlegra funda ráðamanna og hagsmunaaðila á Hringborði Norðurslóða, 2017, og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Cop 23) sem og annars staðar, köllum við eftir:
• Áríðandi, samstilltum og skjótum aðgerðum ríkisstjórna, einkafyrirtækja, samfélaga og einstaklinga til að draga úr loftslagsbreytingum, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Og viðurkenna með því hve svigrúmið er takmarkað og minnkandi til að geta náð því að hitastig jarðar hækki ekki umfram 2°.
• Vitundarvakningu einstaklinga og samfélaga um ábyrgð sína og hlutdeild – þ.m. töldum Sameinuðu þjóðunum og ríkisstjórnum – í því að bregðast við þeim áskorunum sem felast í loftslagsbreytingunum.
• Virkri þátttöku trúfélaga og trúarleiðtoga í þessu verkefni, á alþjóðavettvangi, innanlands og á hverjum stað, sem lykil áhrifavalda og uppsprettulindir félagslegs auðs og máttar til að valda umskiptum frá ósjálfbærum viðhorfum og hátterni til heildrænnar sýnar er horfi til sjálfbærrar framtíðar.
• Að frumbyggjar taki þátt í öllu samráðsferlinu um loftslagsbreytingar í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja og Ályktun Heimsþings um frumbyggjasamfélög frá árin 2015.

Í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.
Samþykkt á Lögbergi, Þingvöllum 13. október 2017

Þýð. Haraldur Hreinsson og Gunnþór Þ. Ingason

Grein sem mun birtast örlítið breytt í tímaritinu Bjarma, 2. tbl. 2018

Gunnþór Þ. Ingason · 15. október 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar