Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Til íbúa Seljahlíðar og annarra sóknarbarna þjóðkirkjunnar

Í þeim þrengingum sem þjóðarheimilið gengur gegnum um þessar mundir hafa flestar ef ekki allar stofnanir þjóðfélagsins orðið að taka á sig talsverðar skerðingar. Þjóðkirkjan er þar ekki undan skilin, öðru nær. Opinber framlög til þjóðkirkjunnar, sem og sóknargjöldin, sem standa undir þjónustu þjóðkirkjusafnaða, hafa verið skert umtalsvert síðast liðin þrjú ár. Þjóðkirkjan hefur tekist á við þessar aðstæður af ábyrgð og einurð með hagræðingu í rekstri stofnanna sinna og með öllum tiltækum ráðum. Þetta hafa líka heimilin í landinu gert af þolgæði og æðruleysi.

Nú finnum við sárt til þess að samdrátturinn er farinn að bitna alvarlega á þjónustunni við fólkið í söfnuðunum um land allt. Söfnuðirnir sem og þjóðkirkjan hafa þurft að draga umtalsvert saman í mannahaldi og starfsemi. Stöðugildum Biskupsstofu hefur fækkað um fimm. Á næsta vori mun prestsembættum í landinu hafa fækkað um átta. Þrjú embætti presta erlendis lögðust af í kjölfar hrunsins, tvö embætti sóknarpresta leggjast af, prófastsembætti eru lögð niður og prófastsdæmum fækkað um fimm. Embætti vímuvarnaprests verður lagt niður og eins embætti héraðsprests í Reykjavík, sem sérstaklega hefur sinnt starfi aldraðra. Þetta eru neyðaraðgerðir sem við erum þvinguð til að grípa til vegna verulegs niðurskurðar og þær bitna á þjónustu sem ótal margir hafa notið góðs og blessunar af, að ekki sé nú talað um það góða, menntaða og hæfileikaríka fólk sem horfir fram á atvinnumissi. 

Þjóðkirkjan er skuldbundin þjónustu Guðs orðs. Fækkun þjóna og starfsmanna kirkjunnar leggur auknar byrðar á þau sem eftir standa því þjónustuþörfin minnkar síst á tímum áfalla og erfiðleika. En það er líka ljóst að margar góðar hendur og hlý hjörtu koma til liðs til að boðskapurinn góði berist áfram og bænin í Jesú nafni þagni ekki í helgidómum og hjörtum landsmanna.

Ég þakka allan góðan hug og kærleika til kirkjunnar og þjóna hennar sem viðbrögð sóknarbarna og þiggjenda þjónustunnar sýna. Ég bið þess að þjóð og kirkja komist heilu höldnu út úr þrengingum sínum, með birtu trúar, vonar og kærleika í hjarta.


Guð gefi okkur öllum blessaða og vonaríka aðventu.


Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1965.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar