Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóna Lovísa Jónsdóttir

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi

Bænateningur

Á Akureyri er gott að búa. Bæjarstæðið er fallegt, fólkið er vinalegt og nú á erfiðum tímum hafa ýmsir hópar samfélagsins tekið sig saman og gert hvað þeir geta til þess að sá bjartsýnisfræjum í hjörtu bæjarbúa. Þannig blasir t.d. við stórt hjarta í Vaðlaheiðinni og rauða ljósið í umferðarljósunum er nú hjartalaga. Daglega eru bæjarbúar minntir á kærleikann.

Nú stendur yfir alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristinna manna. Slík vika hefur verið haldin hér á landi í rúm 40 ár og er skipulögð af Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga. Í þeirri nefnd eiga nú sæti fulltrúar Aðventkirkjunnar, Hjálpræðishersins, Hvítasunnumanna, Íslensku Kristskirkjunnar, Kaþólsku kirkjunnar, Óháða safnaðarins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Vegarins og Þjóðkirkjunnar. Hér á Akureyri starfar hópur með einstaklingum úr ólíkum kirkjudeildum og hafa þau skipulagt samkomur alla daga vikunnar.

Ég hef reynt að taka þátt í þessari bænaviku eftir fremsta megni því mér finnst það mikilvægt að kristið fólk geti átt samfélag saman, þó svo að það tilheyri ekki sama trúfélagi. Við trúum öll á sama Guð, á sama Jesú Krist og þó svo að leiðir okkar í tilbeiðslunni séu ólíkar, þá er það svo miklu meira sem sameinar okkur.

Lykilhugtak kristninnar er „kærleikurinn“ og ef hann er í fyrirrúmi á allt að vera mögulegt. Páll postuli minnir á það í fyrra bréfi sínu til Korintumanna þar sem hann segir:

„Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. (1. Kor 13.4-8)

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp í samfélagi þar sem þrjú ólík trúfélög störfuðu hlið við hlið. Í Stykkishólmi var sjúkrahúsið og leikskólinn rekinn af St. Franciskussystrum, kaþólskum nunnum sem áttu hug og hjörtu bæjarbúa. Þar starfaði líka kaþólskur prestur sem opnaði heimili sitt fyrir börnum bæjarins. Í Hólminum var líka Fíladelfía og voru sunnudagssamkomur barna vel sóttar hjá þeim. Íslenska þjóðkirkjan átti svo sinn þjón og sína kirkju í Stykkishólmi sem bauð upp á ýmiskonar safnaðarstarf.

Ég man ekki eftir því að hafa hugleitt mismuninn á þessum kirkjudeildum. Fyrir mér var þetta bara kristin kirkja og ég sá ekkert athugavert við að taka þátt í samkomum allra þessara kirkjudeilda. Þar var talað um Jesú, beðið og sungið. Alls staðar var tekið vel á móti mér og ég naut þess sem upp á var boðið.

Mannlífið er fjölbreytilegt í allri sinni mynd. Gleðjumst yfir litadýrðinni í samfélaginu og höfum kærleikann að leiðarljósi í lífi og starfi.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi”

  1. María Ágústsdóttir skrifar:

    Sæl, Jóna Lovísa.
    Mig langaði bara að þakka þér fyrir fallegan pistil og vitnisburð um reynslu þína af hinum lifaða veruleika einingarinnar í Kristi. Okkur hættir svo til að flækja málið en þegar allt kemur til alls er þetta einmitt bara kristin kirkja.
    Bestu kveðjur á bænavikuna á Akureyri!
    María Ágústsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7475.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar