Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóna Lovísa Jónsdóttir

Vonin

Vonin styrkir veikan þrótt,
vonin kvíða hrindir,
vonin hverja vökunótt
Vonarljósin kyndir. Páll Ólafsson

Það snjóar. Reyndar hefur snjóað heilmikið síðustu daga og á meðan við á Akureyri höfum notið veðurblíðu hefur stormur geisað annars staðar á landinu og ofankoman valdið snjóflóðahættu víða. Náttúruöflin eru sterk og stundum óviðráðanleg. Hitinn, kuldinn, vindurinn, regnið, snjórinn. Öll þessi öfl geta valdið eyðileggingu, slysum og dauða. Samt geta þessi öfl líka veitt okkur vellíðan. Sólskinið vermir, kuldinn hressir, þíður vindurinn á vangann er notalegur, snjórinn er fallegur og gaman að leika sér í honum. Jafnvel rigningin getur verið góð og vakið hjá manni gleðitilfinningu. Hver árstíð hefur sinn sjarma. Veturinn getur vissulega verið erfiður og tilhlökkun eftir vorinu og sumrinu er alþekkt.

Lífið sigrar

Vorið er í uppáhaldi hjá mér. Þá kviknar líf allt í kringum mann. Grasið grænkar, lauf trjánna blómgast, nágrannarnir fara á stjá og börnin kætast og leika sér úti. Vorið minnir mig á vonina en það er einmitt svo mikilvægt að bera vonina í brjósti sér þegar lífið er stormasamt, tómlegt og kuldalegt. Er það ekki í raun kraftaverki líkast að trén sem virðast dauð og líflaus á veturna geti orðið hin fegursta prýði á sumrin, skrýdd grænum laufum og góðri angan? Og á köldum vetri höfum við von um betri tíð og meira en það; við vitum að á eftir vetri kemur vor!

Trúin gefur mér einmitt þessa von og þá vissu að erfiðir tímar séu ekki eilífðarástand, heldur ástand sem tekur enda. Ég trúi því að í kjölfar erfiðleika komi betri tíð og að úr dýpstu örvæntingu geti sprottið gleði og viska sem iljar öðrum og vekur vonir.

“ Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf” (Jóh 3:16)

Af hverju gefur trúin von?

Ég gæti svarað þessu með einni setningu: Vegna upprisu Jesú Krists. En ég er ekki viss um að allir myndu sætta sig við það svar og þess vegna ætla ég að útskýra aðeins betur hvað ég á við þegar ég segi að upprisa Jesú Krists gefi mér von.

Hið jarðneska líf Jesú Krists á sér marga samnefnara í lífi hverrar manneskju. Jesú Kristur fæddist inn í þennan heim á sama hátt og ég og þú, hann átti sína barnæsku, var stundum hlýðinn og stundum óhlýðinn. Hann óx úr grasi og varð að fullorðnum einstaklingi. Hann hló og hann grét, átti sínar góðu stundir en líka stundir kvíða, sorgar og jafnvel örvæntingar. Hann var elskaður og hataður. Fólk laðaðist að honum, vildi hlusta á orð hans og læra af honum, en öðrum stóð ógn af honum og ofsóttu hann. Hann vissi að hann var sérstakur, að hann væri sonur Guðs og að fyrir honum ætti að liggja að deyja fyrir mannkynið. En hann vissi líka að dauða sínum myndi fylgja upprisa, ekki bara hans heldur alls mannkyns. Dauðinn skyldi sigraður, þetta afl sem er andstæða lífsins. Leið Jesú Krists að upprisunni var þyrnum stráð enda lá sú leið í gegnum krossinn. Þess vegna get ég trúað því að Guð gangi mér við hlið í öllu því sem ég kann að mæta á lífsleiðinni og að upprisan sé alltaf möguleg.

Vonin er dýrmæt og trúin á upprisuna glæðir vonina. Gleymum því aldrei að nóttinni fylgir dagur og að við krossinn býður upprisan.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Vonin”

  1. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

    Takk Lúlla fyrir góð orð! Okkur veitir ekki af von þessa dagana!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4229.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar