Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Helgi Þórarinsson

Safnaðarsöngur við útfarir

Fyrir nokkru var ég við útför þar sem dreift var sálmaskrá, líkt og jafnan er gert. Þar gat að líta nokkra sálma, en einnig hafði einsöngvari verið kallaður til. Hópur vaskra karla steig á stokk og hefðu þeir vandalítið geta leitt almennan safnarsöng. En því miður var ekki gefinn kostur á slíku þar sem sálmarnir voru hafðir í tóntegund fyrir fjórradda karlakór, svo hátt uppi að algjörlega var útilokað fyrir söfnuðinn að taka undir. Þarna var þó saman kominn hópur fólks sem vildi gjarnan fá að syngja sálmana og gerði til þess einhverja tilraun. Úr því varð þó lítið annað en hjáróma hvísl hátt uppi, eða lágvært uml á neðri skala tónsviðsins.

Þessi lýsing gæti því miður átt við mjög margar útfarir á Íslandi þar sem söfnuðinum er gert næstum ómögulegt að taka undir sönginn.

Hver ber ábyrgð á þessu? Hver er stefnan?

Samkvæmt starfsreglum um organista nr. 823/1999 er fyrsta hlutverk þeirra við helgihald kirkjunnar að vera forsöngvarar safnaðarins. Önnur hlutverk, s.s. að stýra kór, leika undir einsöng eða kórsöng og leika sérstaka tónlist koma þar á eftir. Ég tel að flestir organistar á Íslandi viti þetta en fríi sig ábyrgð að taka á þessu um margt erfiða máli.

Og kannski er þeim vorkunn. E.t.v. þykir þeim sem að hvorki prestar né biskupar hafi áhuga á því hvernig þessum málum er hagað, því spyrja má hvenær klerkar setjist niður með organistum og ræði þessi mál.

Og hvar er að finna stefnu kirkjunnar um almennan safnaðarsöng við útfarir? Hana má m.a. finna í útgáfum sálmabókarinnar frá og með 1997, Til aðgæslu við messugjörð, Útför bls. 32. Þar segir m.a. að æskilegt sé að sálmar “séu valdir með það í huga að viðstaddir geti tekið þátt í söngnum”.
Leiðbeiningar

Æskilegt væri að stefna kirkjunnar í þessum efnum yrði gerð skýrari með einhverju móti þar sem t.d. væri mælst yrði til þess að a.m.k. tveir sálmar við hverja útför væru sérstaklega ætlaðir fyrir almennan safnaðarsöng og tónhæð og útsetning við það miðuð. Ennfremur væri þar skýrt tekið fram hvert er megin hlutverk organista við helgihald kirkjunnar.

Ábyrgð presta og organista

Prestur ber ábyrgð á vali sálma og er eðlilegt að hann hafi um það gott samráð við organistann/forsöngvarann. Ef aðstandendur koma með tillögur um söng sem ekki mætir stefnu kirkjunnar þá þurfa prestar einfaldlega að taka á því. Því er mikilvægt að fyrir liggi skýrar leiðbeiningar um almennan safnaðarsöng við útfarir sem hægt er að styðjast við.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3466.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar