Hjálpfúsar hendur

Hjálpfúsar hendur

Hér á Grund eru margar hjálpfúsar hendur. Við orðum það stundum svo að Guð hafi engar hendur hér í heimi til að vinna sín verk nema okkar hendur. Það er því hægt að líta svo á að öll hjálp, allur stuðningur sem við njótum sé frá Guði kominn.

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“

Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“

Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.

Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh 4.46-53

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Til hamingju með 90 ára afmæli Grundar, þessarar merku stofnunar. Það verður að segja að Grundin ber aldurinn vel og stefnir ótrauð inn í framtíðina. Ég kom fyrst á Grund fyrir um 35 árum þegar ég var guðfræðinemi og prédikaði hér við guðsþjónustu og pabbi minn sr. Sigurður Kristjánsson, sem lengst af var prestur á Ísafirði þjónaði þá fyrir altari. Svo prédikaði ég hér við guðsþjónustu þegar ég var æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar og síðast kom ég hingað og messaði fyrir nokkrum árum þegar föðursystir mín dvaldi hér. Í hvert skipti sem ég kem hingað sé ég að alltaf er verið að bæta aðstöðu og gera líf heimilis- og starfsfólks auðveldara og gleðiríkara. Hér er greinilega hugsað um að bæta lífi við árin en ekki bara árum við lífið eins og einhver góður maður orðaði.

Í dag höfum við fengið að heyra orð úr Biblíunni eins og í öllum guðsþjónustum. Það var lesið úr spádómsbók Jesaja, úr bréfi Páls postula til Efesusmanna og úr Jóhannesarguðspjalli. Textarnir fjalla um trú, traust til Guðs. Í guðspjallinu er sagt frá konungsmanni er átti veikan son. Og það vitum við sem eigum börn að ef börnunum okkar líður illa þá líður okkur foreldrunum líka illa. Þegar við stöndum frammi fyrir vandamáli er að minnsta kosti tvennt í stöðunni. Að gera eitthvað eða gera ekkert. Konungsmaðurinn, faðir hins veika barns stóð ekki aðgerðar og ráðalaus. Hann nýtti sér tækifærið þegar Jesús birtist og bað hann lækna son sinn.

Stundum er það svo í lífi okkar að við erum hjálpar þurfi en vitum ekki hvar hjálpina er að fá. Þá er gott að bregðast við eins og konungsmaðurinn í sögunni og grípa tækifærið þegar það gefst. Vera vakandi fyrir því hvar hjálpina er að fá.

Hér á Grund eru margar hjálpfúsar hendur. Við orðum það stundum svo að Guð hafi engar hendur hér í heimi til að vinna sín verk nema okkar hendur. Það er því hægt að líta svo á að öll hjálp, allur stuðningur sem við njótum sé frá Guði kominn. Það er ekki góð líðan að finnast maður vera hjálpar þurfi. En enn verri líðan er að vilja ekki viðurkenna það. Öll erum við hjálpar þurfi einhvern tímann á lífsleiðinni. Þegar við fæðumst erum við svo sannarlega hjálparþurfi. Ef engar væru hendurnar sem önnuðust okkur gætum við ekki lifað. Allt frá fyrstu stundu þurfum við á öðrum að halda til að geta þroskast og dafnað andlega sem líkamlega. Og hví ættum við að gera ráð fyrir því að við þurfum ekki á öðrum að halda þó við séum orðin fullorðin?

Jesús læknaði son konungsmannsins í guðspjalli dagsins. Hann gaf honum þá bestu gjöf sem hægt er að gefa og eignast, lífið sjálft og heilbrigði. Og hvernig brást konungsmaðurinn við þessari miklu gjöf? Jú, hann tók trú og allt hans fólk.

Trúin á almáttugan Guð hefur fylgt mannkyninu alla tíð. Trúin gaf forfeðrum okkar og mæðrum kjarkinn til að halda áfram og enn í dag er hún aflið sem ber okkur uppi þegar í móti blæs og kraftinn vantar.

Í gær var ég í jarðaför föðurbróður míns sem varð 89 ára gamall. Í kistulagningarathöfninni sem fram fór á undan útförinni veitti ég því athygli að barnsrödd skar sig úr þegar við báðum bæn Drottins, Faðir vorið. Lítil langafastelpa kunni faðir vorið utanað. Það gladdi mig að heyra hana biðja því það sýndi mér að enn í dag finnst foreldrum það skipta máli í uppeldi barna sinna að kenna þeim bænir. Þegar móðir mín fór að heiman 14 ára gömul var heimanmundurinn ekki mikill í veraldlegum gæðum. En út í lífið fór hún með bænir foreldra sinna um að henni vegnaði vel og ætti farsæla ævi.

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð orti sr. Hallgrímur. Sálma hans og bænir hafa kynslóðirnar lært utanbókar en það er umhugsunarefni í nútímanum að börnin læra ekki eins mikið utanbókar og áður.

Allt er breytingum háð og viðhorfin einnig. Það hefur margt breyst á þeim 90 árum sem liðin eru frá því elliheimili var stofnað á Grund. Áður voru fleiri vistmenn en í dag í minna húsnæði. Nú er rýmra um hvern og einn eins og nútíminn býður. Kristin trú hefur alla tíð verið í hávegum höfð hér og engin feimni verið gagnvart trúnni og boðun hennar. Það er gott að eiga þess kost að hlýða á Guðs orð og biðja í Jesú nafni með öðrum. Það veitir styrk og hugarró.

Heima á ég Prédikanasafn Jóns Bjarnasonar sem gefið var út árið 1900. Bókin er orðin slitin af notkun. Þessa bók átti föðurafi minn en hann las úr henni hvern helgan dag fyrir fjölskylduna en amma mín leiddi sönginn sem fylgdi. Hér áður fyrr þótti sjálfsagt að hafa helgistundir heima því ekki var alltaf fært til kirkju og kannski ekki messað á hverjum sunnudegi.

Í þessari bók er prédikun þessa sunnudags 21. sunnudags eftir þrenningarhátíð og fróðlegt að lesa hana sem og aðrar prédikanir sem þar eru. Ég efast um að nútímafólk myndi sætta sig við lengd þeirra, en þær eru allar miklu lengri en nú á tímum þar sem hraðinn setur svip sinn á allt og alla. Yfirskrift þessa dags prédikunarinnar er vetrarkoman og vetrarblessanin.

Víst er að vetur konungur hefur boðað komu sína, því í gær var fyrsti vetrardagur. Árstíðirnar fara misjafnlega í okkur og kannski finnst einhverjum að engin blessun geti fylgt vetrinum. En sálmaskáld eitt norrænt hugsar um veturinn í hvíta búningnum sínum og segir:

Til himna er gott að hefja sýn, Þá hvít er snævguð grund sem lín Og blómin bíða dauða Og eyðilegt er út að sjá, Sem allt sé snortið dauðans ljá, En inni nægtir nauða.

Hver bjargar þá? Ei breytist sá, Er blessan jafnan öll kom frá Öll huggun hjálp og friður. Hann heyrir smáfugls kvein og klið, Hann kannast og það barnið við; Hann bregst ei þeim, sem biður.

Drottin bregst ekki þeim sem biður eins og skáldið segir. Það reyndi konungsmaðurinn í guðspjalli dagsins og það hafa margir reynt í lífi sínu. Hann tók trú og allt hans fólk. Það er umhugsunarvert að þegar húsbóndinn mótar sér lífsafstöðu þá fylgir allt hans fólk með. Lífsafstaða þeirra sem stjórnað hafa þessu heimili hér á Grund hefur alla tíð verið í anda kristinnar trúar og hér hafa lengst af þjónað heimilisprestar. Það hefur verið talið að líf heimilismanna snúist ekki aðeins um daglegt brauð heldur lífið allt, líf í fullri gnægð og er þar trúarlífið ekki undanskilið. Sr. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason var vígður sem heimilisprestur hér á Grund 66 ára gamall og gengdi þeirri þjónustu í áratugi enda náði hann háum aldri. Hann mun vera næst elsti maður sem vígst hefur til prests hérlendis.

Ekki missa kjarkinn, ekki missa trúnna, leitaðu hjálpar. Þetta eru grunnstef Biblíutextanna sem lesnir voru hér í dag. Það þarf ekki alltaf mikið til að við missum kjarkinn. Þegar kraftar þverra og við eigum ekki eins auðvelt með að bjarga okkur og áður getur kjarkleysið hellst yfir og hindrað okkur í að njóta lífsins. Þá er gott að eiga þess kost að hlusta á orð Guðs eða lesa það og eiga hljóða stund með Guði og öðrum þeim er koma saman í Jesú nafni. Það getur líka verið erfitt að sætta sig við að þurfa hjálp frá öðrum jafnvel með hluti sem áður voru auðveldir. En þá skulum við muna að Guð sendir okkur hjálpara í öðru fólki, hjálpfúsar hendur sem bjarga og færa blessun Guðs.

Guð blessi ykkur sem hér búið. Ykkur sem hér starfið. Ykkur sem stjórnið og stýrið. Guð blessi allt starfið sem hér er unnið. Megi það blómstra hér eftir sem hingað til, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. Prédikun flutt á 90 ára afmæli Grundar, 28. okt. 2012. Jes. 51:11-16; Ef. 6:10-17; Jóh. 4:46-53.