Ávarp við setningu kirkjuþings 5. nóvember 2016

Ávarp við setningu kirkjuþings 5. nóvember 2016

Við erum saman á þeirri vegferð að byggja upp og viðhalda sterkri kirkju, Guði til dýrðar og náunganum til blessunar. Það gerum við með faglegum vinnubrögðum, aukinni fræðslu, fjölbreyttu helgihaldi, þjónustu í nærsamfélaginu, sérþjónustu og samtali. Með því að hafa skýrt skipulag og boðvald, virða mörk og ákveða og setja víglínur.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
05. nóvember 2016

Forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskup, tónlistarfólk, góðir gestir.

Þegar saga kristinnar kirkju er skoðuð sést að staða hennar hefur verið með ýmsu móti hér í heimi. Nokkrir atburðir og mannanna verk hafa mótað hana, sveigt hana af leið, siðbætt hana og breytt stöðu hennar. Ber þar hæst sá atburður er við minnumst á næsta ári þegar munkurinn Marteinn Lúter mótmælti aflátssölu kirkju sinnar sem leiddi til þess að kirkjudeild sú er við tilheyrum er við hann kennd. Það var árið 1517 og hófst 500 ára minning siðbótarinnar með sameiginlegri bænastund kaþólskra og lúterskra í dómkirkjunni í Lundi á mánudaginn var, 31. október, siðbótardaginn. Í Lundi var lúterska heimssambandið stofnað árið 1947 og er íslenska þjóðkirkjan ein af stofnendum sambandsins sem telur núna 145 kirkjur í 98 löndum.

Á vegferð lútersku kirkjunnar hafa ýmsar ákvarðanir verið teknar sem leitt hafa hana áfram á veginum. Hér á landi hafði kirkjuskipan Kristján III. Danakonungs sem lögtekin var árið 1541 mikil áhrif. Þá hófst þátttaka veraldlega valdsins á stjórn kirkjunnar, en það fyrirkomulag var við lýði í mismunandi myndum þó, til ársins 1997 er þjóðkirkjan tók við stjórn innri mála sinna.

Þjóðkirkjuhugtakið er fyrst nefnt í stjórnarskránni sem staðfest var hér á landi árið 1874. Ákvæði hennar um þjóðkirkjuna hafði mikil áhrif vegna ákvæða hennar um vernd og stuðning ríkisvaldsins við kirkjuna. Það ákvæði er enn í gildi eins og kunnugt er og samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vill meiri hluti þjóðarinnar að svo verði áfram. Hlýtur það að benda til þess að þjóðin vilji enn um sinn láta kristin gildi og lífsskoðun ráða för í mótun samfélagsins. Á meðan núverandi stjórnarskrá gildir hlýtur sá skilningur að ríkja, að það sé viljayfirlýsing ríkisins að það vilji standa á kristnum grunni, viðurkenni að þjóðmenningin byggir á kristnum verðmætum og vilji styðja kirkjuna til áhrifa á fólkið í landinu hvað varðar hugsunarhátt og framkomu.

En hvað merkir það að hin lúterska kirkja okkar sé þjóðkirkja? Það merkir ekki eitthvað eitt. Það getur merkt það að meirihluti þjóðarinnar tilheyri henni. Sá skilningur hefur verið útbreiddur og finnst sumum þeim er ekki vilja tilheyra henni að það geti ekki gengið lengur að ríkisvaldið styðji og verndi kirkju sem fækkar í ár frá ári. Þjóðkirkja getur líka þýtt það að þjóðin og kirkjan séu nátengd, eigi samfylgd á stórum stundum í lífi fólks. Sú skoðun sem þó mest er haldið á lofti nú er að Þjóðkirkjan sé þjóðkirkja vegna þess að hún vill þjóna öllum þeim er hér búa. Spyr ekki um skilríki þegar þjónustunnar er óskað. Þjóðkirkjan er kirkja sem hefur þéttriðið net um land allt og þjónar fólki í nærsamfélaginu. Boðar ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Það er kirkja sem er samhljóma þó raddirnar séu margar. Þá skilgreiningu vil ég nota um þá kirkju sem ég leiði sem biskup.

Eins og kunnugt er setti Lúter fram kenningar sem hafa haft mótandi áhrif á kirkjuna sem við hann er kennd. Hann setti fram kenninguna um hinn almenna prestsdóm sem er ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin. Kenningin gengur út á það að enginn munur sé á mönnum, allir séu jafnir. Skírnin sem sé hin eina vígsla. „Sá sem stígur upp úr skírnarvatninu, getur hrósað sér af því að vera nú þegar prestur, biskup og páfi“ sagði Lúter. Allir skírðir eiga að virða meginþætti almenns prestsdóms, sem eru boðun, fyrirgefning og fyrirbæn. „Hinn almenni prestsdómur er ótvíræður vegna skírnarinnar og krefst þess að almennir safnaðarmeðlimir séu virkir í helgihaldi og stjórnun kirkjunnar.“ „Kirkjan er fyrst og fremst kirkja orðsins og náðarmeðalanna og hins almenna prestsdóms. Hún er sýnileg hér í heimi vegna þess að orðið er boðað og náðarmeðul veitt. Til þess að svo megi verða þarf hún skipulegt helgihald, hún þarf á embættismönnum að halda og stofnun sem tryggir starfsskilyrðin. Hin ósýnilega kirkja er aftur á móti samsett úr þeim sem meðtaka orð og náðarmeðul í trú sér til hjálpræðis.“ (Sigurjón Árni Eyjólfsson: Ríki og kirkja, bls. 81).

Kirkuþing hefur það hlutverk að tryggja starfsskilyrðin. Það er gert með því að huga að ytra skipulagi, tryggja löggjöf um kirkjuna og leggja til atriði sem bæta innra starf hennar. Á þessu kirkjuþingi eru mál sem taka til alls þessa. Það er alveg ljóst að séu verkaskipti ekki skýr, boðvald ekki skýrt, víglínur ekki ljósar eða virtar, getur fólki í kirkjunni ekki liðið vel og gengur ekki í takt. Þá verður kirkjan ómstríð og rödd hennar veik, því í okkar lútersku kirkju er ekki einn talsmaður, eins og t.d. í rómversk kaþólsku kirkjunni, þar sem páfinn talar og kirkjan hlýðir. En þó kirkjan sé margróma þýðir það ekki það að allir hafi umboð til að gera hvað sem er, segja hvað sem er, hvar sem er. Fólkið í kirkjunni verður að vita hvað til síns friðar heyrir og virða þau mörk sem sett eru með reglum og siðum. Lúter var það ljóst að kirkja Krists þyrfti á stjórnun og skipulagi að halda. Hann setti þó ekki fram skipurit fyrir kirkjuna heldur greindi hann eðli hennar og forsendur.

Fyrir kirkjuþingi liggur frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga. Það er engin nýlunda, svo hefur verið á kirkjuþingum undanfarinna ára. Í mínum huga er ljóst að vinna við slíkt frumvarp verður að byggja á grunnvinnu sem felst í því að gæta hins lúterska trúararfs, efna til samtals meðal þjóðkirkjufólks um kirkjuna og koma sér saman um framtíðarsýn. Slík vinna getur tekið mörg ár eins og nú þegar hefur sýnt sig, en minna má á að þau 5 leiðarstef sem Frans páfi og Munib Younan undirrituðu fyrir hönd rómversku kaþólsku kirkjunnar og lúterska heimssambandsins síðast liðinn mánudag í dómkirkjunni í Lundi voru afrakstur 50 ára samtals milli þessara tveggja kirkjudeilda. Meginstefið er að kirkjudeildirnar eiga alltaf að hafa einingu að leiðarljósi en ekki einblína á það sem skilur að. Textinn er ekki langur, aðeins 5 setningar.

Lúter lagði m.a. áherslu á almenna þekkingu á boðskap Biblíunnar og það verður að segjast að okkar lúterska kirkja, þjóðkirkjan hefur ekki lagt nóga áherslu á þennan þátt. Áður en skólar tóku að nokkru leyti yfir fræðsluna hvað þetta varðar sáu kirkjunnar þjónar um uppfræðsluna og eldri kynslóð fræddi hina yngri. Eftir að skólaskylda komst á sofnaði kirkjan á verðinum og gerði ráð fyrir að skólinn sæi um uppfræðsluna. Nú hefur sú þróun orðið að lítil áhersla er lögð á kristinfræðikennslu í grunnskólum og kirkjan verður að sinna fræðsluhlutverki sínu sem skyldi. Það er ekki ásættanlegt að sjá lægri félagatölur kirkjunnar, ár frá ári og líta ekki í eigin barn hvað það varðar. Við verðum að uppfræða fólkið í landinu með öllum þeim tækjum sem í boði eru annars er hætta á því að færri og færri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita menningararfinn hvað kristin áhrif áhrærir. Það hefur færst í vöxt að börn eru ekki skírð. Þar með fer barnið á mis við fræðslu um kristna trú og kristin lífsgildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir.

Þórir Kr. Þórðarson, sá góði kennari og fræðimaður sem hafði mjög svo mótandi áhrif á kynslóðir presta um árabil sagði í grein um lífsgildin og börnin: „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu. Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.“ Ég vil ekki að andvaraleysi kirkjunnar varðandi fræðslu og tilboð um hana verði til þess að trú, von og kærleikur gleymist, en á þessi atriði kristinnar trúar lagði Lúter áherslu.

Það er tiltölulega auðvelt að setja fram fræðsluefni nú á dögum til þess eru margar leiðir. En það er ekki nóg. Það þarf að fylgja því eftir að fræðsla komist til skila. Prófastsdæmin hafa m.a. það hlutverk að standa fyrir fræðslu. Hvert prófastsdæmi getur tekið að sér málaflokk hvað fræðsluna varðar. Kirkjuráð verður að gera ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlun sinni. Fræðslumiðstöðvar um landið geta komið efninu á framfæri, en hlutverk þeirra er að standa að fræðslu fyrir fullorðna. Samvinna kirkjunnar og fræðslumiðstövanna er ekki nýlunda en aðalatriðið er að vinna stíft að því að koma efninu á framfæri og vinna að því að vekja áhuga fólks á efninu. Það er ekki nóg að útbúa efni og auglýsa námskeið. Aðal vinnan felst í því að vekja áhuga fólks. Til þess þarf mannafla, til þess þarf fjármagn.

Fyrir tveimur vikum fór fram landsmót æskulýðsfélaganna, en það hefur verið haldið í októbermánuði um áraraðir. Mótið fór fram á Akureyri að þessu sinni og sóttu það um 500 ungmenni víðs vegar að af landinu. Undanfarin ár hefur æskulýðssamband þjóðkirkjunnar verið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar í tengslum við landsmótin. Unglingarnir eru með þeim hætti minnt á að vera „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess“ eins og Jakob postuli orðar í riti sínu. Þátttakendur fá fræðslu og láta gott af sér leiða. Þau hafa frelsað þrælabörn úr skuldaánauð og safnað fyrir fátæk ungmenni á Íslandi svo dæmi sé tekið. Í ár var þemað í takt við verkefni okkar tíma, „Flóttamenn og fjölmenning.“ Ungmennin söfnuðu fötum áður en þau fóru að heiman fyrir flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi, í Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon en í síðasttöldu löndunum vinnur lúterska heimssambandið með flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleirum að hjálparstarfi. Undirbúningur og allt utanumhald þessara landsmóta er til fyrirmyndar í alla staði. Mikil þekking og reynsla hefur orðið til og ég fullyrði að þarna er kirkjan í farabroddi faglegheita og skipulags.

Fyrir nokkrum árum samþykkti kirkjuþing að setja á oddinn vinnu við forvarnir gegn kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi. Sú vinna hefur verið í gangi síðan og er nú farin að taka á sig mynd í formi námskeiða, fræðslumyndbands, gæðavottunar og fleira. Um er að ræða samstarfsverkefni fræðslusviðs og fagráðsins sem ber yfirskriftina Verklag í viðkvæmum aðstæðum. Þetta er sístætt verkefni sem stöðugt þarf að halda á lofti og tryggja að lifi til framtíðar. Unnið er að því að allt starfsfólk kirkna landsins fái tiltekna fræðslu og undirriti vilja sinn til þess að vinna samkvæmt þessu verklagi.

Með þessu móti mun kirkjan vera í fararbroddi hér á landi hvað varðar forvarnir gegn kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi þar sem byggt er á alþjóðlegum stöðlum og samþykktum. Vinna þessi tengist því óneitanlega gæðastjórnun innan kirkjunnar og vinnustaðamenningu. Stefnt er að því að ýta verkefninu úr vör á haustmánuðum 2017. Þar sem um svo mikilvægt og viðkvæmt verkefni er að ræða er brýnt að tryggja því brautargengi með öllum tiltækum ráðum þannig að það myndist sterk samstaða milli alls starfsfólks, allra sókna og prófastsdæma um þessi vinnubrögð.

Fullyrt er að ef lífsstíll allra jarðarbúa væri eins og Íslendinga þyrftum við um 20 jarðir. Þjóðkirkjan vill vera í fararbroddi og til fyrirmyndar í umhverfismálum. Eftir málþing sem haldið var um efnið í Skálholti fyrir ári var menntamálaráðherra hvattur til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar. Á Skálholtshátíð í sumar var hafist handa við endurheimt votlendis á Skálholtsjörðinni. Markmið með endurheimt votlendis er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samningur um aðgerðir í loftslagsmálum sem samþykktur var í París í fyrra hefur tekið gildi á Íslandi en í honum er kveðið á um aðgerðir allra ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kirkjan vill taka þátt í því að varðveita jörðina okkar og lífið á henni. Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem fylgja þarf eftir innan kirkjunnar. Ég mun beita mér fyrir því að svo megi verða.

Minna má á að kirkjuþing samþykkti umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar árið 2009. Ástæða er til þess að hvetja til þeirra framkvæmda sem þar er getið, eins og t.d. að vinna gegn sóun og ofneyslu. Pappírsleysi á kirkjuþingi er liður í því.

Kirkjuþing kom fyrst saman árið 1958. Það hefur því starfað í hartnær 60 ár. Hlutverk þess hefur breyst eftir lagabreytinguna árið 1997. Hlutverk þess er ærið. Í nýju frumvarpi, sem hér er lagt fram er verkefnum þess fjölgað og hlutverk þess eflt. Það er liður í þeirri lýðræðisvæðingu sem á sér stað um allan hinn vestræna heim. Ég vara við því að ætla þinginu svo ærin verkefni að hinn almenni kirkjumaður eigi þess ekki kost að taka þátt í þingstörfunum. Það er ekki hægt að ætla vinnandi fólki að koma saman í höfuðborginni og afgreiða enn fleiri verkefni en nú þegar liggja fyrir þinginu ár hvert, án þess að gera ráð fyrir annars konar vinnubrögðum. Þau þurfa að vera markvissari, tæknilegri og studd meira utanumhaldi. Það er ekki hægt að ætla fólki að vinna flókna og faglega vinnu í margra manna hópi sem býr víðs vegar á landinu. Málefni kirkjunnar snúast um verkefni sem vinna þarf í skýru umboði en ekki um vald. Við erum saman á þeirri vegferð að byggja upp og viðhalda sterkri kirkju, Guði til dýrðar og náunganum til blessunar. Það gerum við með faglegum vinnubrögðum, aukinni fræðslu, fjölbreyttu helgihaldi, þjónustu í nærsamfélaginu, sérþjónustu og samtali. Með því að hafa skýrt skipulag og boðvald, virða mörk og ákveða og setja víglínur.

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim er undirbúið hafa kirkjuþingið, starfsfólki Biskupsstofu og kirkjuráðs, forsætisnefnd og þingfulltrúum. Einnig tónlistarfólki og heimafólki hér í Grensáskirkju fyrir afnot af kirkju og safnaðarheimili.