Friður í hjartastað

Friður í hjartastað

Náð og friður margfaldist með yður, segir Pétur postuli Jesú Krists í inngangsorðum að fyrra bréfi sínu en það var ritað fyrir nærri tvöþúsund árum. Náð og friður.

Náð og friður margfaldist með yður, segir Pétur postuli Jesú Krists í inngangsorðum að fyrra bréfi sínu en það var ritað fyrir nærri tvöþúsund árum. Náð og friður. Þau orð eru endurómun af orðum sem töluð voru löngu fyrr, á eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins, og náðu hjartastað Móse og kannski Mirjam líka og þaðan til bróður þeirra, prestsins Arons. Með orðunum sem þau þáðu til að miðla áfram skyldi leggja nafn Drottins, nærveru hans, veruleika Guðs, mátt hans og ástúð, yfir fólkið.

Við köllum þessi árþúsundagömlu orð ,,hina drottinlegu blessun” eða einfaldlega ,,blessunarorðin” og þau er að finna í lok sjötta kafla fjórðu Mósebókar. Í hvert sinn sem við ,,meðtökum blessun Drottins” eins og prestar orða það stundum erum við þar með hluti af langri keðju fólks sem í aldanna rás hefur þegið varðveislu, náð, frið og nærveru Guðs inn í líf sitt.

Guð er nálægur, líka í viðsjálverðum heimi

Náð og friður. Nærvera Guðs. Í fermingarstörfunum er gott að leggja áherslu á að miðla til unglinganna þeim veruleika trúarinnar að Guð er nálægur. Að vera snortin af þeirri nærveru er mikilvægasta gjöf sem þau geta þegið. Það á líka við um okkur, ekki síst einmitt núna þegar við fullorðna fólkið - og kannski börn og ungmenni líka - skynjum dýpra en áður að heimurinn sem við búum í er viðsjálverður staður. Franz páfi talar um að þriðja heimsstyrjöldin birtist í raun í þeim styrjöldum sem geysa hér og þar í heiminum og nefnir sérstaklega Úkraínu, Írak og Sýrland, Gasa og hluta Afríku í því sambandi. Við erum líka þessa dagana rækilega minnt á þá vá sem sköpunarverkið stendur frammi fyrir, bæði af mannavöldum en líka náttúrunnar í formi eldgossins sem spýr eitri út í andrúmsloftið.

Þegar ég var að alast upp var óttinn við kjarnorkustríð stórveldanna stærsta ógnin. Á öðrum tímum hafa aðrar ógnir mótað tilveru fólks en þó kannski ekki svo ólíkar því sem við horfumst í augu við núna. Stríð og náttúruhamfarir hafa sjálfsagt alltaf skapað ótta í hjörtum fólks, mismikið eftir tímabilum mannkynssögunnar. Og svo eru það ,,litlu hlutirnir” sem eru sannarlega ekki lítilsigldir; okkar hversdagslegu kvíðaefni sem varða afkomu og tengsl, líðan og heilsu.

Svarið við tilvistarangistinni Hvar er þá Guð gagnvart öllu þessu? Hvar erum við stödd sem kristið fólk? Fyrsta skrefið er sem fyrr að fela sig nærveru Guðs, hvíla í trúartraustinu. Lestrar fimmtánda sunnudags eftir þrenningarhátíð boða okkur Guð sem hefur ,,rist þig í lófa” sér (Jes 49.16a), Guð sem fullkomnar þig, styrkir og gerir þig öfluga/n (1Pét 5.10). Vissulega bera fréttirnar af ofsóknum kristins fólks í Írak og Sýrlandi og víðar í heiminum því vitni að óvinur okkar, ,,djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt” (1Pét 5.8) en einnig frammi fyrir slíkum þjáningum sem bræður okkar og systur verða fyrir getum við verið hughraust, því Guðs er mátturinn (1Pét 5.11). Við biðjum fyrir þeim og með þeim og vinnum með Guði gegn illskunni á hvern hátt sem okkur er fær.

Svarið við tilvistarangistinni er þetta gamla, góða, sem Móse og Mirjam og Aron og Pétur fundu löngu á undan okkur og birtist í Jesú Kristi: Að dvelja í nærveru Guðs, leita ríkis hans og réttlætis, fela líf okkar honum sem mun vel fyrir sjá (Sálm 37.5) eins og barnið sem hvílir öruggt í faðmi foreldra sinna, bara vera, eins og fuglar himinsins og liljur vallarins (Matt. 6.24-34). Leyfum Guði að endurreisa í okkur það grundvallartraust sem hverri manneskju er nauðsyn til heilla og lífshamingju, finnum hvernig blessun hans flæðir inn í líf okkar, hvernig við erum varðveitt í sterkri hendi Guðs, einn dag í einu.

Horfum eins og barnið á andlitið sem fylgir hinum traustu örmum, finnum hvernig það lýsir yfir okkur og fyllir okkur hlýju og öryggiskennd, færir okkur náð og frið. Látum sannfærast um að Guð er með okkur, hvernig sem allt veltist, allt mun fara vel þegar Guð er vernd okkar, hjálp og styrkur. Þaðan, frá þeirri uppsprettu öryggisins, getum við síðan gengið út í lífið sem er oft svo erfitt og ranglátt, út í hversdaginn sem bíður okkar með ótal flóknum áskorunum, út til þeirra verkefna sem eru á okkar valdi að leysa, af bestu getu, með Guðs hjálp. Með frið Guðs í hjartastað breytist allt.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.