Prédikun flutt á jóladag 2021 í RUV2 og Rás 1

Prédikun flutt á jóladag 2021 í RUV2 og Rás 1

Þegar ég var barn var stríð í Víetman. Yfir hádegismatnum var hlustað á fréttirnar í ríkisútvarpinu og daglega voru fluttar fréttir af stríðinu. Mér er sérstaklega minnisstætt að á jóladag var sérstaklega tekið fram að hlé hefði verið gert á stríðsátökunum. Þessi eini dagur var svo heilagur að vopnin voru lögð niður.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2021
Flokkar
Prédikun flutt á jóladag 2021 í RUV2 og Rás 1.  Jes. 62:10-12; Tít. 3:4-7; Lúk. 2:15-20.
Við skulum biðja:

Dýrð sé þér, ó, Guð, í himnanna hæð,
í heiminn að þú komst í fátækt og smæð.
Guð nú finn ég hér, frelsi, líf og von.
Fæddur er sem Maríu lítill son.  Amen.
 
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðileg jól. 

Þegar ég var barn var stríð í Víetman.  Yfir hádegismatnum var hlustað á fréttirnar í ríkisútvarpinu og daglega voru fluttar fréttir af stríðinu.  Mér er sérstaklega minnisstætt að á jóladag var sérstaklega tekið fram að hlé hefði verið gert á stríðsátökunum.  Þessi eini dagur var svo heilagur að vopnin voru lögð niður.

Heilagur.  Þegar ég var barn á Ísafirði fór ég á róluvöllinn og ef maður vildi halda rólunni þó skroppið væri frá í smástund var settur steinn í róluna og sagt að hún væri heilög.  Heilagur þýddi frátekinn þar vestur frá upp úr miðri síðustu öld.
Í dag er jóladagur, heilagur dagur, frátekinn dagur þar sem brugðið er út af vana hversdagsins.
Í gær heyrðum við mörg hver lesið úr guðspjalli Lúkasar, frásöguna af fæðingu frelsarans. Í dag er framhald þeirrar sögu lesið þar sem hirðunum er fylgt eftir til Betlehem að sjá það sem gerst hafði og Drottinn hafði sagt þeim frá.  Já, þeir voru vissir um að Drottinn hefði sent engil sinn og englakórinn allan til að flytja þeim tíðindin um fæðingu barnsins hennar Maríu. 
Þegar englakórinn hafði sungið Guði dýrð fóru hirðarnir af stað til að sjá barnið.  Engillinn hafði gefið þeim vísbendingu varðandi barnið.  “Og hafið þetta til marks:  Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.” 

Margir eru leitandi í dag eins og hirðarnir forðum.  Fólk leitar ekki endilega hins nýfædda barns heldur að lífsfyllingu og andlegum styrk.  Það eru ekki birtar margar myndir af því andlega ferðalagi sem margir fara í í nútímanum en eitt og eitt viðtal birtist í almannarýminu.  Þar eru frásagnir af pílagrímagöngum innan lands sem utan og er Jakobsvegurinn oft nefndur á nafn í því sambandi.  Margir segjast hugleiða daglega og yoga er vinsælt til líkamlegrar og andlegrar iðkunar.  Það eru færri sem eru opinskáir um kristna trúariðkun sína en fjölbreytni í þeirri iðkun hefur aukist mjög hin síðari ár, einnig í þjóðkirkjunni sem æ fleiri kjósa að yfirgefa.  Um þrír fjórðu þjóðarinnar kjósa að tilheyra kristnum trúfélögum hér á landi svo áhrif kristinnar trúar hljóta að vera mjög mikil. 
Það hryggir því mjög að heyra fréttir af því nú á aðventunni að börn hafi þurft að þola harðræði af fólki sem áleit sig kristið en það er svo sannarlega ekki í anda Jesú Krists að beita börn og fólk almennt ofbeldi af einhverju tagi.  Ég harma það að börnin á Hjalteyri og á örðum þeim stöðum sem börn áttu að vera örugg og umvafin kærleika skyldu þurfa að reyna hið gagnstæða án þess að þeim yrði komið til hjálpar.  Það er ljóst af fréttum undanfarinna daga að mál barnanna á Hjalteyri fékk ekki eðlilegan framgang og farsælla hefði verið að kirkjunnar þjónar sem að málinu komu hefðu brugðist við með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Í landi hirðanna hafði þjóðin beðið eftir þeim sem spámennirnir töluðu um.  “Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel” segir Jesaja spámaður um þann sem koma skal.  Þann sem hefur vit á að hafna hinu illa og velja hið góða.  Á öðrum stað segir Jesaja að hann skuli nefndur Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.”  Fæðing drengsins var því uppfylling vonar, ekki aðeins fyrir Ísraelsþjóðina heldur allt mannkyn.  Von um að undir honum muni þessi heimur rísa upp úr fáfræði sinni og hjátrú, guðleysi sínu og löstum og ganga til nýs lífs í kærleika til Guðs og manna. 

Verkefni mannkyns eru ærin eigi komandi kynslóðir að geta lifað farsælu lífi hér á jörð.  Í frétt sem sögð var nú á aðventunni kom fram að eitt hundrað milljón fleiri börn búi við fátækt nú en fyrir heimsfaraldurinn.  Eitt hundrað milljón fleiri, það er hrikalegt að svo sé og algjörlega óásættanlegt. 
Mannkyn allt hefur barist við heimsfaraldur nú í nærri tvö ár.  Við höfum öll verið á sama báti hvað það varðar.  Heimsfaraldurinn hefur líka leitt í ljós þann mun sem er á milli manna og þjóða í heimi hér.  Það er himinn og haf milli lífskjara fólks í ríkum og fátækum löndum og engin furða að fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sé að útrýma fátækt í heiminum, sárri fátækt eigi síðar en árið 2030. 

Í annarri frétt, nokkru eldri er sagt að eitt prósent mannkyns sé á flótta sem þýðir að um áttatíu milljónir manna eru á vergangi í heiminum.  Áttatíu milljónir það er rúmlega tvö hundruð tuttugu og tvö þúsund sinnum íbúafjöldi Íslands.  Sextánda heimsmarkmiðið er friður og réttlæti. Þar er lögð áhersla á að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum.  
Friður og réttlæti. Þetta eru kunnugleg hugtök innan kristinnar guðfræði.  Það er ekki og verður ekki friður þar sem réttlæti er ekki viðhaft.  Það verður aldrei hægt að tryggja réttlæti á meðan ófriður viðgengst í heiminum.  Friður byggist á réttlæti og réttlæti krefst friðar.  Margir textar í Biblíunni birta þá hugsun að friður og réttlæti sé hluti af því hvernig Guð mætir heiminum og starfar í honum. Að Biblíulegum skilningi er réttlæti ekki lögfræðilegt hugtak sem snýst um sök og dóm heldur ákall um að samfélagið standi vörð um manngildi allra þannig að allar manneskjur fái notið sín og eigi merkingarbært líf.  Við þýðum hebreksa orðið shalom með orðinu friður á íslensku.  Hugtakið felur í sér jafnvægi og velferð.

Ríki heimsins eru misjöfn hvað réttlæti og frelsi varðar.  Það sem þykir sjálfsagt í einu ríki þykir ekki sjálfsagt í öðru.  Það er talað um gott réttarríki þar sem tjáningarfrelsi er virt, þar sem lýðræði ríkir en ekki einræði, þar sem kosningarréttur er virtur og almenningur er nokkuð öruggur um að tekið sé á málum á réttlátan hátt.  Þetta er þó sístætt verkefni allra ríkja að tryggja mannréttindin og jafnréttið því jafnvel í okkar lýðræðissamfélagi verður vart ranglætis af ýmsu tagi. 
 
Jafnrétti.  Hér á landi erum við stolt af því að geta talið okkur til þjóða þar sem jafnrétti ríkir.  Jafn réttur manna er bundinn í lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.  Nýjustu lögin eru frá því á síðasta ári en þau fyrstu eru orðin 45 ára gömul.  Það hafa því að minnsta kosti tvær kynslóðir alist upp við virka umræðu og löggjöf um jafnrétti kynjanna.  Margar stofnanir samfélagsins hafa sína jafnréttisstefnu og það hefur þjóðkirkjan einnig haft um árabil.  Jafnréttisstefnan á að jafna stöðu og jafna rétt allra kynja og stuðla að jafnrétti eins og rétt og skylt er í samræmi við líf og boðskap Jesú Krists.  Undirstöðuatriði kristins boðskapar felur í sér jafnréttishugsjón og skírn inn í kristið samfélag gerir engan greinarmun á kyni eða stöðu einstaklinga.  Jafnréttisstefnan er því viðurkenning manngildis og jafnréttis allra einstaklinga.
 
En það er ekki nóg að hafa stefnur, það verður að vinna í anda þeirra og vinna að því að þær nái markmiði sínu.  Boðskapurinn sem hirðarnir á Betlehemsvöllum fengu að heyra “Yður er í dag frelsari fæddur” á erindi til allra manna og vegferð Jesú Krists eins og henni er lýst í guðspjöllunum sýnir að þessi boðskapur nær til alla manna á öllum tímum.  Allra sem fæðast hér á jörð því við erum öll elskuð börn Guðs hvar sem við fæðumst og hvernig sem við sjáfum okkur sjálf.  Sextugasta og fimmta grein stjórnarskrárinnar íslensku er í anda barnsins hennar Maríu um að “Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda á tillits til kynferðis, trúarbragða skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”

Boðskapur jólanna um fæðingu frelsarans felur í sér von fyrir mannkyn allt.  Von um betri heim, von um betra líf, von um frelsi frá illsku og ranglæti, von um frelsi til að njóta kærleiks, jafnréttis, virðingar, trausts og mannsæmandi lífs.  Uppfullir af þessum boðskap fóru hirðarnir til að sjá barnið sem uppfyllti alla þessa von og til að segja frá því sem þeir höfðu heyrt og séð.  “En María geymdi þetta allt í hjarta sér og hugleiddi það” segir í guðspjallinu um viðbrögð Maríu við frásögu þeirra. 
Okkur gefst tækifæri til að feta í sporin hennar Maríu og hugleiða hvað þessi boðskapur þýðir fyrir okkur hvert og eitt og fyrir heiminn allan. 

Ljósin, skrautið, tréð, allt sem minnir á jólin er tekið niður, því pakkað saman þar til næstu jól.  En boðskapnum “yður er í dag frelsari fæddur”  er ekki pakkað saman.  Við skulum geyma hann í hjarta okkar,  hugleiða hann, láta hann verka í lífi okkar, jafnt hversdags sem og á hátíðum.  Láta hann vísa okkur veginn í lífi og starfi.  Þá munum við halda gleðileg jól.

Dýrð sé Guði föður og sonar og heilags anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.