Núvitundaríhugun, sjöundi hluti: Að (s)kanna líkamann

Núvitundaríhugun, sjöundi hluti: Að (s)kanna líkamann

Jesús var ekki bara fæddur í líkama, hann var líkami, hann var raunveruleg manneskja með allar þær skynjanir sem líkamanum tilheyra. Útgangspunktur okkar í andlegri iðkun er líkaminn. Það er ekki þrátt fyrir líkamann eða í baráttu við líkamann sem við nálgumst anda Guðs. Aðeins með því að dvelja í friði og sátt í þeim skynjunum sem líkaminn miðlar getum við verið nærverandi í þessu augnabliki núna.
Mynd

Núvitundaríhugun 7 í Grensáskirkju 14.5.20: Að (s)kanna líkamann

Verum velkomin til núvitundariðkunar á kristnum grunni í Grensáskirkju. Í dag ætlum við að snúa aftur að einfaldri en krefjandi æfingu sem hjálpar okkur að tengjast líkama okkar einmitt hér og nú. Þessi æfing er yfirleitt kölluð líkamsskönnun, að skanna líkamann, en í núvitundarhópnum okkar hér höfum við oft talað um líkamskönnun, að kanna líkamann. Hvers vegna þessi áhersla á líkamann? Jú, við erum engir englar, eins og Teresa frá Avíla komst að orði í bréfi til skriftaföður síns: „Við berum líkami. Það væri kjánaskapur ef við litum á okkur sem engla meðan við erum hér á jörðinni.“

Það er í gegn um líkama okkar sem við tengjumst bæði sjálfum okkur, umhverfi okkar og öðru fólki. Við erum líkami okkar, má segja, og á sama tíma andlegar verur. Hér og nú verður hvorugt skilið frá hinu. Það er í líkama okkar sem við tengjumst Guði, núinu, augnablikinu, eilífðinni, kjarna lífsins eða hvaða orð sem við viljum nota. Jesús var ekki bara fæddur í líkama, hann var líkami, hann var raunveruleg manneskja með allar þær skynjanir sem líkamanum tilheyra. Útgangspunktur okkar í andlegri iðkun er líkaminn. Það er ekki þrátt fyrir líkamann eða í baráttu við líkamann sem við nálgumst anda Guðs. Aðeins með því að dvelja í friði og sátt í þeim skynjunum sem líkaminn miðlar getum við verið nærverandi í þessu augnabliki núna.

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Í Filippíbréfinu segir: En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig. (Fil 3.20b-21).

Já, við erum hér, líkami, sál og andi, líkami, hugur og tilfinningar, allur pakkinn. Með því að finna tenginguna við líkama okkar, nærveru okkar í tíma og rúmi, verðum við færari um að tengjast dýrðarlíkama Krists, okkar innri líkama, nærveru Guðs í lífi okkar. Við hugum að andardrættinum, finnum hvernig loftið streymir inn um nasirnar og alveg niður í kviðarholið. Kannski finnum við kviðinn þenjast út aftur í bak, hreyfingu allan hringinn neðan við mitti. Kannski er andardrátturinn léttur, kannski djúpur, það er allt í lagi, við þurfum engu að breyta, bara finna.

Nú beinum við athyglinni niður í vinstri fót. Við finnum ilina hvíla á gólfinu, létta snertingu við undirlagið. Leyfum athyglinni að fara fram í stóru tá, svo næstu og næstu og næstu þar til við komum að litlu tánni. Gáum hvort við finnum jafnvel bilið á milli tánna. Síðan gætum við að táberginu og ristinni, svo ökkla, sköflungi og kálfa. Finnum það sem er að finna í vinstri fæti fyrir neðan hné, náladofi, hiti, kuldi, hvað sem er – eða kannski ekki neitt. Það er allt í lagi. Síðan einbeitum við okkur að hné og hnésbót, læri neðanverðu og síðan ofanverðu. Finnum við fyrir stóru vöðunum okkar, alveg upp í sitjanda?

Við finnum vinstri fót í heild sinni, tengjum aftur við andardráttinn og förum svo niður í hægri fót. Il – stóra tá – millitærnar – litla tá – táberg – rist – ökkli – sköflungur – kálfi. Tökum eftir skynjuninni í hægri fæti fyrir neðan hné. Næst beinum við athygli að hné – hnésbót – læri – upp í sitjanda. Svo finnum við andardráttinn og skynjum hægri fót í heild sinni.

Nú tökum við báðar hendur í einu. Byrjum á þumalfingri – vísifingur – langatöng – baugfingur – litlifingur – lófi – handarbak – úrnliður – framhandleggur – olbogi – upphandleggur – alveg upp í öxl. Hvað skynjum við? Finnum andardráttinn og báða handleggi í einu.

Næst beinum við athygli að kviðarholinu, allan hringinn aftur í bak, finnum hreyfingu andans. Mittið og svæðið í kring um naflann – brjóst og brjóstbak og upp í axlir. Þarna er oft spennu að finna, við finnum hana, tökum eftir henni og leyfum henni að fara eða vera. Líkamleg óþægindi eru oft hluti af lífi okkar, berjumst ekki gegn þeim, streitumst ekki á móti, leyfum því að vera sem er og þá er oft eins og það mýkist og missi tökin á okkur.

Nú beinum við ljósi athyglinnar að hálsinum framanverðum, svo að aftan og upp í hnakka. Svæðið í kring um eyrun – upp í hvirfil – enni – gagnaugu – augu – nef – kinnar – munnur – tunga – kjálki. Hvað skynjum við þarna?

Nú höfum við skannað allan líkama okkar, kannað hann og kynnst honum. Suma staði finnum við betur en aðra en í lokin finnum við allan líkamann sem heild. Líkaminn er ég og ég er líkaminn og þar er tengingin við kraft Guðs á himni og á jörðu.

Ljúkum með orðunum okkar: Ég er – ég er hér.                 

Þríeinn Guð gefi okkur kraft, kærleika og kjark allar okkar stundir. Amen.

Tilvitnun í Teresu frá Avíla er tekin úr bókinni Ákall úr djúpinu eftir Wilfrid Stinissen (1978), ísl. þýð. Jón Rafn Jóhannsson, Skálholtsútgáfan (án ártals), bls. 91