Öðruvísi jól

Öðruvísi jól

Inni í þessar erfiðu aðstæður berst boðskapur jólanna um nærveru Guðs meðal okkar mannanna. Orðið er Guð, segir Jóhannes í guðspjalli sínu. Þetta orð er kærleikurinn. Hjarta Guðs er fullt af kærleika til mannsins og er það opinberað í Jesú Kristi.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2020
Flokkar

Prédikun flutt á jóladag 2020 í Háteigskirkju og RUV. 

Jes. 62:10-12; Tit. 3:4-7;  Jóh. 1:1-14. 

Við skulum biðja: 

Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þegar við þreifum okkur áfram í myrkrinu og leiðir okkur til Jesú Krists sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.   

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

Gleðilega hátíð kæri söfnuður, nær og fjær. 

Við komum saman hér í Háteigskirkju í Reykjavík á jóladegi undir óvenjulegum kringumstæðum.  Kristið fólk um allan heim hefur fagnað fæðingarhátíð frelsarans á annan hátt en venja er til.  Fólkið í þjóðkirkjunni hefur verið einhuga um að fara eftir þeim reglum sem gilt hafa vegna heimsfaraldursins sem takmarka það að fjöldi fólks geti komið saman undir einu þaki.  Það hefur gerst sem seint hefði verið trúað að óreyndu, að ekki væri hægt að koma saman í kirkjum landsins til helgihalds á sjálfum jólunum.  En þökk sé tækninni þá er boðskapurinn um fæðingu frelsarans fluttur og um hann vitnað á öldum ljósvakans.   

Í gærkveldi heyrðum við lesna hina þekktu frásögu Lúkasar guðspjallamanns af fæðingu barnsins í Betlehem, fæðingu frelsarans sem hirðarnir fengu fyrstir manna að heyra um.  Í dag er það Jóhannes guðspjallamaður sem flytur okkur þær fréttir og er frásaga hans með öðrum hætti en Lúkasar.   

Hans frásögn byrjar ekki með fæðingu barnsins heldur miklu fyrr, áður en heimurinn varð til.  Áður en ljósið varð, himininn, gróðurinn, dýrin, maðurinn, já öll sköpunin.  Guð sagði og það varð.  Um þetta má lesa á fyrstu blaðsíðu Biblíunnar, í sköpunarsögunni sem skráð er í fyrstu Mósebók. 

Guð sagði, verði ljós og það varð ljós.  Guð sagði.  Í guðspjalli dagsins er talað um Orðið, orðið sem var í upphafi, orðið sem var hjá Guði, orðið sem var Guð.   

Orð hafa áhrif, það vitum við.  Þau tjá hugsanir, skoðanir, fyrirskipanir, kröfur og margt fleira.   Orðið sem var í upphafi og var hjá Guði og var Guð eins og segir í guðspjallinu er ekki það orð sem mælt er af munni mannsins. Það Orð er ekki eins og orðin sem við hugsum og tölum.  Þau orð eru oftar en ekki hlaðin tilfinningum sem við tengjum við hjartað.  Það getur verið þegar við rannsökum huga okkar og hjarta að við komum því ekki í orð svo aðrir heyri heldur látum það duga að spjalla við okkur sjálf án orða. Hugur okkar getur verið fullur af hugsunum og ráðleggingum um það hver við erum, hvað við eigum að gera, hvernig við leysum mál sem upp koma.  Það er munur á hugsun, orði og verki.  En hjá Guði er hugsun, orð og verk allt eitt.  Það sjáum við glöggt í sköpunarsögunni þar sem Guð sagði og það varð.   

Inn í sinn skapaða heim kom Guð sjálfur til að vera með okkur börnum sínum.  Með orði sínu skapaði hann himinn, jörð og allt líf.  Jörð sem er sameiginlegt heimili okkar allra, heimili sem nú berst við veiruna skæðu, sem hefur sýkt tugi milljóna út um allan heim, lagt á aðra milljón manns af velli og valdið mestu efnahagskreppu í manna minnum.  Nóg var við að eiga þó þessi ófögnuður gerði ekki vart við sig.  Áhrif loftslagsbreytinga er brýnt viðfangsefni, fátækt og ójöfnuður er víða, náttúruhamfarir láta á sér kræla og samkvæmt nýlegum fréttum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru yfir áttatíu milljónir manna á vergangi vegna átaka eða ofsókna víðs vegar um heim og hefur þeim fjölgað á þessu ári.  Fólkið hefur hrökklast frá heimkynnum sínum vegna árása vígahópa eða annarra hörmunga.  Ekki bætir kórónuveirufaraldurinn ástand þessa fólks því vopnahlé hefur verið virt af vettugi og fjöldi ríkja lokaði landamærum sínum þegar faraldurinn hófst.  Þannig reyndist mörgum erfitt að flýja átök og ofbeldi heima fyrir.  Heimsfaraldurinn hefur aukið á ójöfnuðinn í heiminum og harðast hefur það bitnað á þeim sem eru fátækastir og viðkvæmastir. 

Inni í þessar erfiðu aðstæður berst boðskapur jólanna um nærveru Guðs meðal okkar mannanna.  Orðið er Guð, segir Jóhannes í guðspjalli sínu.  Þetta orð er kærleikurinn.  Hjarta Guðs er fullt af kærleika til mannsins og er það opinberað í Jesú Kristi.  

Á jólakorti sem mér barst er mynd af manni sem stendur við opnar útidyr.  Fyrir innan stendur eldri kona sem styður sig við göngugrind. Maðurinn setur poka með ýmsum nauðsynjum við þröskuldinn.  Myndinni fylgir þessi texti og jólakveðja:   

Öðruvísi jól, öðruvísi ár! 

Við höfum öll orðið fyrir áhrifum, við höfum öll breyst.  Það eru ekki  vitringar sem koma með gjafir til nýfædda Jesúbarnsins í jötunni, heldur starfsmaður kirkjunnar sem afhendir aldraðri konu mat, en hún er í sóttkví. 

Ég heyri hinn fullorðna Jesú segja:   

Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.   

Hér á landi ríkir neyð á mörgum heimilum.  Aldrei hefur verið meira leitað til hjálparsamtaka en fyrir þessi jól.  Það er bágt til þess að vita að möguleikum fólks til lífsbjargar sé misskipt í okkar góða landi.  Börn eiga sér drauma og horfa til framtíðar.  Það þarf að tryggja öllum börnum möguleika til að láta drauma sína rætast.  Það er fagnaðarefni að barnamálaráðherra skuli hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þar sem gert er ráð fyrir því að þjónusta við börn sé stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra.  

Sú saga er sögð af kennara sem spurði börn í bekknum hvað þau langaði til að verða þegar þau yrðu stór.  Einn drengurinn svaraði að hann vildi verða sjómaður, annan langaði til að verða hermaður, sá þriðju vildi verða súpermann og sá fjórði skipstjóri.  Einn drengurinn sat hljóður og alvarlegur svo kennarinn spurði hann hvað hann langaði til að verða.  Drengurinn svaraði:  „Mig langar til að verða til blessunar.“  Það er háleitt markmið og göfugt og sem betur fer er fullt af fólki í þessum heimi sem er til blessunar fyrir aðra.  Þar má nú til dæmis nefna ykkur fjölmörgu sem sinnið sjúkum og öldruðum.  Ykkur sem standið vaktina og við treystum á þjónustu ykkar.  Þið eruð ljósið í myrkrinu á tímum heimsfaraldurs.   

Ljós og myrkur eru andstæður, en líf og ljós eru samstæður.  Sem betur fer er yfirleitt eitthvað ljós í myrkrinu.  Í skammdeginu hér norður frá beina ljós aðventu og jóla huga okkar frá myrkrinu sem fer illa í margan manninn.  Boðskapur jólanna um ljósið og lífið er okkur kærkominn.  Ljósið sem lýsti upp dimma nóttina á Betlehemsvöllum forðum þegar hirðarnir fengu fyrstir manna að heyra um fæðingu frelsarans lýsti ekki aðeins upp umhverfi þeirra.  Það lýsti líka upp tilveru þeirra og breytti stöðu þeirra.  Í miðjum heimsfaraldri er þessi sami boðskapur fluttur sem breytir lífsafstöðu hverrar manneskju sem við honum tekur.   Þessi boðskapur er gleði- og vonarboðskapur enda er erindi kristinnar kirkju nefnt fagnaðarerindi.  Jesús fæddist inn í okkar fallna heim.  Með fæðingu hans, lífi, dauða og upprisu finnum við von, huggun og gleði.    

Eins og Jóhannes sem nefndur er í guðspjalli dagsins kom til að vitna um ljósið vinnur kristin kirkja um víða veröld. Kirkjan er ekki Kristur en hennar hlutverk er að bera frelsaranum vitni, feta í sporin hans og vekja trú á hann.  Kirkjunnar fólk um allan heim leggur líkn með þraut og raungerir þá von sem býr í hjarta hverrar manneskju, vonina um betri heim og farsælt líf.  Og lífið sem talað er um í þessu samhengi er ekki aðeins lífið sem líkaminn fóstrar heldur einnig andlegt líf, líf sem nær til siðferðis, hugsunar og hegðunar og eilíft líf.  Lífið sem er í Orðinu sem varð hold, eins og guðspjallamaðurinn orðar fæðingu Jesúbarnsins, er ljós mannanna.  „Ég er ljós heimsins“ sagði Jesús um sjálfan sig.  Ljósið og lífið fylgjast að.   

Fæðing, ljós og líf. Nýtt upphaf, ný byrjun.  Þegar barn er í heiminn borið sér það ljósið í fyrsta sinn.  Er það ekki fallegt að sú sem fyrst veitir barninu stuðning og hjálp í þessum heimi skuli bera starfsheitið ljósmóðir?  Á sama hátt og ljósið mætir barninu nýfædda skín ljósið himneska inn í sál hverrar manneskju sem meðtekur kristið lífsviðhorf og trú.   

Jesús kom í heiminn til að lýsa hann upp.  Til að lýsa upp dimma veröld.  Til að minna okkur á að bera hvers annars byrðar.  Til að sá fræjum trúar, vonar og kærleika í hjörtu okkar og hugsanir.  Til að við getum átt allt með honum, alla daga okkar.  

Óvenjulegu ári er senn lokið.   Bjartari tíð er framundan þó sigurinn sé ekki í höfn.  Megi boðskapur jólanna um lífið og ljósið og Guð á meðal manna gefa okkur trú á sigur hins góða á jörð. 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.  

Takið postullegri blessun: 

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum.  Amen.