Þegar heimurinn hrynur

Þegar heimurinn hrynur

Mannssonurinn kemur. Mannssonurinn kemur. Það er eftirvænting í þessum orðum, von hins góða, gleðileg sýn til framtíðar. Hann kemur – með mætti og mikilli dýrð.

En þegar eftir þrengingu þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og festingin mun riðlast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni og allar kynkvíslir jarðar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli. Matt 24.29-31

Mannssonurinn kemur. Mannssonurinn kemur. Það er eftirvænting í þessum orðum, von hins góða, gleðileg sýn til framtíðar. Hann kemur – með mætti og mikilli dýrð.

Að vísu er talað um þrengingar og að þeim loknum að sólin sortni og tunglið hætti að skína. Með öðrum orðum munu þrengingar heimsins leiða til loka hans, því ekki getur jörðin þrifist án sólarinnar með þeim lífverum sem við þekkjum í dag.

Hrap stjarnanna undirstrikar enn myndina af heimsendi sem spámenn Gamla testamentisins höfðu þegar séð fyrir og eru bakgrunnur orða Jesú (sjá t.d. Jes 13.9, Jóel 3.4, Amos 5.18). Dagur Drottins, endalok heimsins eins og við þekkjum hann, verður þegar Mannssonurinn, Jesús Kristur, kemur aftur – með mætti og mikilli dýrð.

Hann sem lifir og andar og er

Hvað segir þetta okkur? Er þessari lesningu ætlað að vekja hjá okkur ótta og angist? Nóg er nú samt! Ef von okkar er einvörðungu bundin við jörðina, við heiminn eins og hann kemur okkur fyrir sjónir, ef trú okkar nær ekki lengra en til nauðþurfta líkamans, ef kærleikur okkar takmarkast við okkar eigin þrönga sjóndeildarhring, þá er eins líklegt að við finnum til ótta við tilhugsunina um að allt taki þetta enda.

En orðum spámannanna og Jesú er ekki ætlað að skilja okkur eftir í ugg og ótta. Þau minna okkur á alvöru lífsins, að allt tekur enda, að þrengingar verða og kveinstafir koma. En þau segja okkur líka á að þó að allt fari á versta veg, mannlega talað, þó heimurinn hrynji, bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu, að þá er Guð ávallt með okkur.

Hann skilur ekki sköpun sína eftir svífandi um geiminn, hann er ekki hugsunarlaus hönnuður sem gleymir verki sínu að vinnunni lokinni. Nei, hann lifir og andar og er – hvert augnablik í tíma og rúmi og utan tíma og rúms – er í umhyggju sinni, vökull og einbeittur. Í mætti og mikilli dýrð.

Fyrirætlun til heilla

Guð á sér áætlun, áætlun til lífs en ekki dauða, til heilla en ekki óhamingju, fyrirætlanir um vonarríka framtíð (Jer 29.11). Sú áætlun gildir einnig þig. Fyrirætlun Guðs um vonarríka framtíð er fyrirætlun um líf þitt, hér og nú og á himnum.

Þó að þrengingar verði og heimurinn líði undir lok þá erum við ekki skilin eftir ein. Við eigum von, von um miklu betra líf handan heimsins, líf í fyllstu gnægð (Jóh 10.10), ekki eins og heimurinn gefur heldur í friði Guðs (Jóh 14.27).

Við horfum á með augunum hvernig heimurinn er. Vistin hér er ekki ávallt góð. En höfum hugfast að föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists (Fil 3.20) og þegar veröldin líður undir lok munum við safnast saman í dýrð Guðs. Þangað miðar líf okkar, þangað stefnir tilveran öll. Í mætti og mikilli dýrð.