Aldrei fleiri ofsóknir

Aldrei fleiri ofsóknir

Hér í Seltjarnarneskirkju í dag tökum við undir bænir kirkjufólks um allan heim og biðjum fyrir trúsystkinum okkar í Egyptalandi sem hafa mátt þola dauða og ofsóknir vegna trúar sinnar um árabil. Þau eru í sívaxandi hópi kristins fólks sem verður fyrir ofbeldi á okkar dögum. Aldrei í skráðri sögu kristninnar hafa jafnmargir látið lífið fyrir trú sína á Jesú Krist og á 21. öldinni.

Á pálmasunnudag létust 44 trúsystkini okkar þar sem þau komu saman í kirkjunni sinni til að minnast upphafs helgustu hátíðar kristins fólks. Margir eru enn undir læknishendi, illa slasaðir. Þessi systkini okkar tilheyra koptísku rétttrúnaðarkirkjunni í Egyptalandi og voru við helgihald í tveimur kirkjum í upphafi kyrruviku þegar sprengjum var kastað inn í hóp tilbiðjendanna. Í fyrra tilvikinu var sprengjunum beint að fólki með pálmagreinar í skrúðgöngu í Mar Girgis í borginni Tanta en síðar um daginn í dómkirkju heilags Markúsar í Alexandríu þar sem koptíski páfinn Tawadros II leiddi helgihaldið. Skemmst er að minnast svipaðra atburða um síðustu jól sem einnig beindust gegn þessari fornu kirkju sem um 10% Egypta tilheyra.

Kirkjuleiðtogar um allan heim hafa fordæmt árásirnar og kallað til bæna og stuðnings við kirkjurnar í Egyptalandi. Þannig minntist Frans páfi fórnarlambanna í bænum sínum á pálmasunnudag og vottaði fjölskyldum þeirra og samfélaginu kristins fólks í Egyptalandi einlæga samúð. Heimsráð kirkna, Alkirkjuráðið, brást við með ákalli um að standa vörð um þau grundvallarmannréttindi að geta iðkað trú sína frjálst og óþvingað. Dr. Olav Fykse Tveit, framkvæmdastjóri heimsráðsins, sagði: „Gagnvart slíkri mannvonsku verður mannkyn allt, fólk trúar og velvilja, að standa saman og endurnýja heitin um að virða og láta sér annt um hvert annað, að veita náunganum vernd og koma í veg fyrir ofbeldi sem þetta.“

Framkvæmdastjóri Kirknasambands Evrópu, faðir Heikki Huttunen, minnir á að koptísk kristni tilheyrir elstu kirkjum heims í vöggu menningar okkar. Friðsamlegt sambýli og gagnkvæm virðing ríki víðast hvar milli kristinna og múslima sem búa í þorpum, borgum og byggðum landsins sem Níl fæðir. „Við biðjum þess að hefð Egypta fyrir gestrisni á báða bóga yfir páska og Ramadan styrki og veiti von öllum þeim sem horfast í augu við þessa atburði sem guðlaus reiði og illska hefur valdið,“ segir faðir Huttunen.

Hér í Seltjarnarneskirkju í dag tökum við undir bænir kirkjufólks um allan heim og biðjum fyrir trúsystkinum okkar í Egyptalandi sem hafa mátt þola dauða og ofsóknir vegna trúar sinnar um árabil. Þau eru í sívaxandi hópi kristins fólks sem verður fyrir ofbeldi á okkar dögum. Aldrei í skráðri sögu kristninnar hafa jafnmargir látið lífið fyrir trú sína á Jesú Krist og á 21. öldinni.