Sálmabók

465. Í svörtum himingeimi

1 Í svörtum himingeimi heiðbjört skín
blá heillastjarna, dýrmæt sköpun þín.
Í okkar forsjá falin er
að fara með á allan hátt til dýrðar þér.
Hallelúja. Hallelúja.

2 Við höfum starfað ökrum hennar á
og okkur bjargir sótt í djúpin blá.
Hún veitir yndi, yl og skjól
og athvarf undir þinni mildu náðarsól.
Hallelúja. Hallelúja.

3 En núna bráðna jöklar, brotnar ís,
nú brenna skógar hér í paradís
og eitur þrúgar lög og láð.
Ó, ljúfi faðir, gefðu okkur þrek og ráð.
Hallelúja. Hallelúja.

4 Ó, faðir, gefðu okkur vilja´ og vit
að vernda hennar fagra stjörnuglit.
Gefðu´ okkur kærleik, kraft og trú
og kjark að standa vörð um allt sem elskar þú.
Hallelúja. Hallelúja.

T Davíð Þór Jónsson 2017
L Arngerður María Árnadóttir 2017

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is