Að hefja sig yfir lestina

Að hefja sig yfir lestina

Hvatning forsetans um að hefja sig yfir lestina, m.a. með því að forðast það að taka þátt í því að dreifa slúðri – svo ekki sé talað um að koma því af stað – talar fullkomlega inn í þema föstunnar og kallast á við inntakið í ritningartextum dagsins sem hafa það sameiginlegt fjalla um rétta og ranga, góða og vonda breytni og mikilvægi þess að velja rétt þar á milli.
Mynd

Prédikun flutt í Grensáskirkju og Bústaðakirkju 1. sd. í föstu, 18. febrúar 2024.

Lexía: Slm 1; pistill: 2Kor 13.5-8; guðspjall: Lúk 10.17-20


„En þá reynum við að hefja okkur yfir lestina og snúa smæðinni í styrk eins og áður sagði og gera okkur betri dag frá degi, sem einstaklingar og sem samfélag,“ Þessi orð lét Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, falla á dögunum í erindi sem hann hélt við veitingu stjórnunarverðlauna Stjórnvísis, þar sem fyrirmyndarstjórnendum í íslensku atvinnulífi eru veitt árleg verðlaun.

Forsetinn lét þessi orð falla í því samhengi að hann gerði það að umtalsefni að smæð íslensks samfélags gæti bæði verið kostur og galli. Hann talaði um það sem jákvætt einkenni íslensks samfélags hvernig okkur tækist að snúa smæðinni í styrk sem kæmi meðal annars fram krafti og áræðni. Undir þetta er sannarlega hægt að taka og benda á hvernig okkur hefur auðnast að takast á við náttúruhamfarir og önnur áföll en líka hvernig nýsköpun blómstrar og innleiðing tækninýjunga  virðist vera greiðari en í mörgum öðrum löndum.

En forsetinn talaði hins vegar einnig um að smæðinni fylgdu ókostir; samfélagið væri eins og lítið þorp og það gæti verið erfitt fyrir utanaðkomandi að komast inn í það og það gæti orðið samfélaginu fjötur um fót. Og svo talaði hann um að smæðin gæti alið á öðrum löstum og tiltók sérstaklega með leikrænum tilburðum þann löst að slúðra og breiða út gróusögur um náungann. Gróusögur og slúður eru auðvitað ekki eitthvað sérlegt einkenni á Íslensku samfélagi miðað við önnur lönd. Það að breiða út sögur um náungann, sögur sem jafnvel enginn fótur er fyrir, er gert alls staðar, og vel að merkja: Alls staðar eru lítil samfélög, einnig meðal milljónaþjóða. Þjóðverjar t.a.m., með sínar 85 milljónir, búa ekki allir í sömu borginni. Það eru ógrynni lítilla samfélaga vítt og breitt um landið þar sem nálægðin er mikil og allir vita allt um alla. Eins og forsetinn bendir á getur slík nálægð í litlu samfélagi verið uppspretta styrks og samheldni, en hún getur líka orðið uppspretta slúðurs og baktals og jafnvel tilhæfulausra gróusagna sem verða til þess að valda fólki miklum skaða og sársauka.

Það sem er kannski sérstakt við Ísland að þessu leyti er það að þjóðin í heild sinni er svo fámenn og innbyrðis tengd þvert á stéttir og búsetu að landið allt virkar eins og lítið þorp að þessu leyti. Það hefur kannski engin bein áhrif á fólk í opinberum embættum í Washington, svo dæmi sé tekið, að fólk sé að slúðra um það við eldhúsborðið í smábæ í Montana, en kjaftasaga um alþingismann sem komið er á kreik við eldhúsborð á Raufarhöfn getur næsta dag verið farin að breiðast út í Þingholtunum í Reykjavík og verið komin til eyrna viðkomandi og hans nánustu eða hennar á þriðja degi.

Að vísu hefur internetið haft svo miklar grundvallarbreytingar á eðli samfélagslegra tengsla og samskipta að stærð samfélaga hefur kannski ekki svo mikið að segja lengur um útbreiðslu gróusagna. Internetið hefur kannski bara magnað umfang þeirra og skaðsemi. En samt sem áður er það gilt íhugunarefni hvort að lítið, innbyrðis tengt, samfélag eins og það íslenska hafi í tímans rás þróað með sér meiri tilhneigingu til þess að koma á kreik gróusögum og dreifa þeim – hvort það sé eitthvað sérstaklega íslenskt við Gróu á leiti, erkitýpu allra kjaftakerlinga eins og Jón Thoroddsen lýsti henni í skáldsögum sínum Pilti og stúlku og Manni og konu. Það er altént ekki tilviljun að forsetinn vísaði í orðalag hennar þegar hann talaði um þennan löst Íslendinga en Jón lýsir henni þannig: „var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því.” Ég er reyndar ekki viss um að svarið við þessari spurningu sé „já“; við þurfum ekki annað en að líta á það t.d. hvernig „gula pressan“ í Bretlandi og víðar hefur um áratugaskeið smjattað á einkalífi fræga fólksins.

Er það virkilega þannig að ef manneskja verður þekkt í samfélaginu vegna starfa sinna eða einhvers annars, þá missi viðkomandi um leið grundvallarrétt hverrar manneskju til friðhelgi einkalífsins? Það getur ekki verið. Það er í raun samfélaginu til skammar hvernig friðhelgi einkalífsins er fótum troðin á opinberum vettvangi með því að klæða slúður í föt frétta af einkalífi fólks – ekki bara íslensku samfélagi heldur samfélagi manna almennt.

Yfirleitt eru engir almannahagsmunir fólgnir í þeim slúðursögum, sönnum eða upplognum, sem dreift er um fólk en því meiri hagsmunir eru í húfi fyrir þá einstaklinga sem málið varðar. Dreifing slúðurs ber merki um skort á virðingu fyrir fólki yfirleitt.  Í Lúkasarguðspjalli er að finna þetta orðtak: „Með þeim mæli, sem þið mælið, mun ykkur aftur mælt verða.“ Í samhengi þess sem hér um ræðir þýðir þetta að þeir sem gjarnan dreifa gróusögum um fólk verða að vera viðbúnir því að um þá sé einnig slúðrað.  Þegar allt kemur til alls bendir virðingarleysið fyrir öðrum sem slúðrið birtir því til skorts á sjálfsvirðingu.

Hvatning forsetans um að hefja sig yfir lestina, m.a. með því að forðast það að taka þátt í því að dreifa slúðri – svo ekki sé talað um að koma því af stað – talar fullkomlega inn í þema föstunnar og kallast á við inntakið í ritningartextum dagsins sem hafa það sameiginlegt fjalla um rétta og ranga, góða og vonda breytni og mikilvægi þess að velja rétt þar á milli. Fyrsti Davíðssálmur líkir þeim sem velur hið góða við tré sem er gróðursett hjá lind sem vökvar það þannig að það ber ávöxt á réttum tíma. Þessi lind, eins og það er þýtt, er í raun áveituskurður sem er grafinn gagngert í þeim tilgangi að veita vatni til þess að vökva trén í garðinum. Og ef manneskjan er tré, hvað er þá vatnið sem vökvar og tryggir að tréð beri góðan ávöxt? Í huga sálmaskáldsins er svarið við því ótvírætt: það er tóra, sem er þýtt sem „leiðsögn“ eða „lögmál“ Drottins. Með þessu orði er vísað til boðskapar ritningarinnar um líf í samræmi við vilja Guðs um góða sköpun þar sem allt er í jafnvægi og enginn skaðar annan í eigin sjálfsögðu viðleitni til þess að skapa sér og sínum öryggi og velsæld. Þennan boðskap tekur Kristur saman í tvöfalda kærleiksboðorðinu sem hann segir fela í sér allt lögmálið og spámennina og Páll orðar jafnvel enn betur í Rómverjabréfinu grunninntak lögmáls eða leiðsagnar Drottins þegar hann skrifar: „8 Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. 9 Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 10 Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.“

Fastan er tími íhugunar. Á föstunni er okkur ætlað að íhuga hvort trú okkar komi fram í breytni okkar eins og segir í pistli dagsins. Fastan er tíminn til þess að vera meðvitaður um það markmið að hefja sig yfir lestina og vera vakandi fyrir því hvort orð okkar og æði geri samferðafólki okkar mein, t.d. með því að taka þátt í því að dreifa skaðlegu slúðri um náungann eins og forsetinn gerði að umtalsefni.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.