Stundum er bænin eina leiðin

Stundum er bænin eina leiðin

Þetta gætu verið skilaboð frá Lýðheilsustöð eða Landlækni, skilaboð frá skólayfirvöldum eða skátunum. Biblían er uppfull af slíkum hvatningarorðum, sístæðum sannleika um það sem mikilvægt er í mannlífinu, mikilvægt er fyrir mann og heim.

Orðskv. 4: 23-27

Op. 3: 10-13

Mk. 9: 14-29

 

Biðjum:

 

Ljósfaðir, viltu leiða mig,

ljá mér þinn sterka arm,

svala þorsta og sefa harm,

í sannleika skapa undur ný,

beina mér birtuna í. (sálmur 728:4) Amen.      

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Textarnir og orðin

 

Ávallt eru lesnir þrír textar í guðsþjónustum sunnudagsins í kirkjum landsins. Einn texti úr Gamla testamentinu, og svo tveir úr Nýja testamentinu, og annar þeirra úr guðspjöllunum.

 

Lestrarnir eru margvíslegir, ljóð, boð og bönn, frásagnir, dæmisögur, viskuorð, ævisögur, sögur þjóða, hvatning hverskonar.

 

Það er líkt og textar Biblíunnar geymi visku kynslóðanna, sem ávallt er þörf fyrir í mannlífinu, til huggunar, til uppörvunar, til skilnings á lífi og framgangi þess.

 

Textarnir fjalla nefnilega um lífið. Þeir eru ekki líffræðileg útskýring á því hvernig lífið varð til, heldur fjalla þeir meira um það af hverju það er til, hvert hlutverk okkar er og tilgangur hér í heiminum.

 

Við höfum nefnilega tilgang og við höfum hlutverki að gegna. Við höfum verk að vinna. Það er þörf fyrir þig og mig, okkur öll. Það er gert ráð fyrir okkur öllum, allir eru einstakir og mikilvægir.

 

Leiðbeiningar

 

Orðskviðir Salómons, sem kenndir eru við Salómon konung, son Davíðs konungs, sem Davíðssálmarnir eru kenndir við. Orðskviðirnir miðla visku og djúpri speki, stundum einföldum atriðum, sem virðast svo sjálfsögð og augljós, en eru kannski flóknari í framkvæmd.

 

Það er svo skemmtilegt með þessa texta hve sumir þeirra eru hversdagslegir. Eins og þessi texti dagsins úr Orðskviðunum.

 

Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru 
því að þar eru uppsprettur lífsins. 
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum 
og vörum þínum fjarri lygamálum. 
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er. 
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum. 
Víktu hvorki til hægri né vinstri, 
haltu fæti þínum frá illu.

Með öðrum orðum, vertu heill og sannur, segðu satt, komdu heiðarlega fram og vertu hugrakkur, og þér mun farnast vel. Þetta gætu verið skilaboð frá Lýðheilsustöð eða Landlækni, skilaboð frá skólayfirvöldum eða skátunum.

 

Biblían er uppfull af slíkum hvatningarorðum, sístæðum sannleika um það sem mikilvægt er í mannlífinu, mikilvægt er fyrir mann og heim.

 

Þolgæði

 

Svo eru það textarnir í Nýja testamentinu, fyrst textinn í Opinberunarbók Jóhannesar, síðustu bók Biblíunnar. Hann fjallar um þolgæði.

 

Textarnir eru í takt við tíma kirkjuársins, þar sem nú er fasta, undirbúningstími páskahátíðarinnar, sem er næsta stórhátíð kristninnar.

 

Á þessu tímabili eru dregnir fram textar sem snúa inn á við, sem eru til dæmis hvatning til þolgæðis.

 

Þolgæði er það þegar manneskjan tekst á við eitthvað verkefni, erfiðleika, eða annað þar sem reynir á okkur, reynir á þolinmæði og það að við höldum út. Textinn minnir mig á fótboltaleik, þar sem mínúturnar eru 90, við þurfum að klára leikinn. Munurinn er reyndar sá að postulinn segir að viðmælendur hans séu þegar komnir með kórónu, sigursveig, sem þeir skuli passa að enginn taki frá þeim. Á einhvern leyndardómsfullan máta er sigursveigurinn falin í þolgæðinu, þ.e.a.s. með því að halda okkur á réttri braut, svona líkt og fjallað er um í Orðskviðunum, þá munum við sigra, sigra í þeim skilningi að þannig erum við að lifa lífinu til fullnustu, í samræmi við vilja Guðs og hlutverk okkar hér í heiminum. Við þurfum s.s. að halda leikinn út, á hinum rétta og sanna vegi. Þetta er vonarrík hvatning, þar sem boðskapurinn er sá að Guð elskar okkur að fyrra bragði, þess vegna er sigurkórónan þegar okkar.

 

Guð elskar að fyrra bragði

 

Í guðspjalli dagsins er frásaga af Jesú, þar sem mannfjöldi var kominn saman í kringum hann og lærisveina hans. Það segir frá því að bæði Jesú og lærisveinarnir höfðu farið víða um til að lækna fólk.

 

Önnur frásaga fjallar um það er Jesús læknaði á hvíldardegi. Jesús sýndi það með framgöngu sinni að það að lækna, hjálpa, reisa við, stuðla að heilbrigði, fæða, klæða og sinna grunnþörfum manneskjunnar, skyldi alltaf vera frumskylda þeirra sem kenna sig við lífsveginn hans.

 

Í því er nefnilega fólgið fagnaðarerindið, að gera gott, vera heill og sannur, leggja sitt að mörkum til góðs í heiminum. Það er hlutverk okkar, þar getur við öll lagt okkar að mörkum.

 

Framkrafturinn þar felst í því að Guð elskar okkur að fyrra bragði, áður en við leggjum af stað. Guð elskar okkur þótt við séum ófullkomin. Guð elskar okkur þótt okkur mistakist. Guð elskar okkur svipað og foreldrar elska börnin sín. Í þeim krafti eigum við síðan að miðla þeirri elsku til annarra, og bera virðingu fyrir okkur sjálfum, bera einnig gæsku og mildi í eigin garð.

 

Með slíkri framgöngu í heiminum erum við að uppfylla öll lög og boð og bönn, sem Biblían geymir. Fagnaðarerindið er nefnilega uppfylling lögmálsins, uppfylling allra boðorða Biblíunnar.

 

En þarna í frásögu dagsins lenda lærisveinar hans í klemmu. Þeir geta ekki læknað. Það segir nokkuð ítarlega frá veikindum drengsins og faðir hans biður Jesú um hjálp. Bæði lærisveinarnir sjálfir og fólkið í kring undrast að lærisveinarnir geti ekki læknað drenginn, sem þýðir að þeim hefur orðið betur ágengt í öðrum aðstæðum. En miðað við lýsinguna þá hefur drengurinn hugsanlega verið flogaveikur.

 

Svar Jesú í þessum aðstæður er að sumt verði ekki læknað nema með bæn.

 

Bænin og börnin á Gaza

 

Með þykir þetta mjög merkilegt svar.

 

Í þessu svari miðlar Jesús þeim djúpa sannleika að stundum er bænin eini farvegurinn sem við mannfólkið höfum gagnvart raunum mannlífsins. Við erum nefnilega andlegar verur, sem höfum ekki bara líkama, heldur einnig sál og anda. Bænin nærir okkar andlegu hlið, okkar innri mann og getur sem slík haft nærandi áhrif á líf okkar hvers og eins, en einnig áhrif á umhverfi okkar og þar með heiminn allan.

Jesús hvetur okkur til að bera hvert annað á bænarörmum. Ég tel að við ættum að taka undir þá hvatningu Jesú og sérstaklega á þessum tímum núna, ófriðartímum og tímum jarðhræringa, biðja fyrir börnunum á Gaza, að Guð verndi börnin á Gaza og bjargi þeim úr þessum hrylling sem þau búa við, og vitanlega biðja einnig Guð að vernda og blessa öll börn í heiminum. Biðja fyrir friði í heiminum, í Úkraínu, á Gaza og hvarvetna sem ófriður ríkir. Biðja fyrir Grindvíkingum, framtíð þeirra og að farsæld verði svarið við óvissunni.

Til viðbótar við allt hitt sem við gerum og leggjum að mörkum til góðs fyrir mann og heim, líf og framtíð, skulum við einnig biðja.

Við tökum undir mótmæli allra þeirra sem mótmæla stríði og ofbeldi. Við tökum einnig undir hvatningu til stjórnvalda, og jafnvel mótmæli vegna aðgerðarleysis í garð fólks í viðkvæmri stöðu. Við leggjum fjármagn til hjálparsamtaka sem stuðla að friði. Við viljum gera meira, við viljum leggja okkar að mörkum. En þrátt fyrir þetta er það tilfinning vanmáttar sem gjarnan er ríkjandi í hjörtum okkar. En þá er það einmitt bænin sem er farsæll farvegur í slíkri stöðu. Að beina huga okkar og andlegum krafti í jákvæðan farveg bænarinnar, öðrum til blessunar, til gæfu og friðar í heiminum.

Því með samstilltu bænaátaki geta kraftaverkin gerst.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Prédikun flutt í Grensáskirkju á Konudaginn 2. sd. í föstu, 25. febrúar 2024.