Orðið

Orðið

Þetta var eitt þeirra hugtaka sem hún átti eftir að breyta þegar hún hafði til þess vit og þroska. Sigurganga þessarar konu á hennar löngu ævi fólst í því að móta tungumál þeirra sem ekki gátu heyrt. Það var til marks um merkan áfanga á þeirri vegferð þegar nafni skólans var breytt. Orð kom í stað orðs – skólinn var ekki fyrir málleysingja heldur heyrnarlausa.

Fyrir þremur árum annaðist ég útför heyrnarlausrar konu sem látist hafði í hárri elli.


Málleysingjaskólinn


Fyrstu æviárin bjó hún með fjölskyldu sinni í litlu koti vestur á fjörðum en 7 ára gömul var hún send til Reykjavíkur og komið fyrir á heimili sem þá var kallað Málleysingjaskólinn. Eins og gefur að skilja var þetta áfall fyrir lítið barn að vera sett inn í svo framandlegar aðstæður fjarri fjölskyldu sinni. Fólkið hennar sagði mér frá því að þegar heimilisfólkið á hælinu hafi túlkað nafn hennar þá hefði það verið með þessum hætti: Vísifingur dreginn niður hægri augnhvarminn. Hún grét víst mikið, þessi umkomulausa litla stúlka að vestan.

 

Nafnið á heimilinu gefur vísbendingu um þær forsendur sem þar var unnið eftir. Fólk sem ekki gat heyrt né talað hlyti að vera mállaust. Málleysingjaskólinn endurspeglaði þá hugmynd.

 

Saga þessarar konu leitaði á mig þegar ég hugleiddi texta dagsins og velti því um leið fyrir mér hvort þeir ættu einhverja samleið með þeirri sýningu sem við opnum hér á Torginu nú í þessum töluðu orðum. Yfirskrift sýningar Jónu Hlífar Halldórsdóttur tengist einmitt málinu – hún heitir „Orðið“. Hún leikur sér með þetta hugtak sem er í senn samheiti yfir það sem tungumálið lýsir en getur að sama skapi verið ein mynd af sögninni að vera. Þannig verður tilvistin tengd málinu. Það að geta komið orðum að því sem mætir okkur í lífinu gefur þeim á sinn hátt tilvist og gildi.


Orð hafa vægi

 

Og í guðspjallinu var fjallað ungan mann sem hinn meinta illa andi hafði gert dumban, hann kom ekki upp orði, fyrir utan öll flogaköstin sem lýst er á átakanlegan hátt. Við þekkjum sjálfsagt flest bakgrunn slíkra frásagna sem ættaðar eru úr heimi þar sem þekking á efnisheiminum var takmörkuð. Fræðimenn hafa fundið heimildir frá þessu menningarsvæði þar sem því er lýst hvernig ætti að bregðast við í slíkum aðstæðum. Formúlur voru skráðar niður um það hvernig ætti að bera sig að við andasæringar, ýmsar jurtir og ritúöl þóttu koma að notum í þeim efnum. Fólk hefur vafalítið haft þær væntingar til Jesú að hann brygðist við á einhvern svipaðan hátt.

 

Frásögnin fjallar því öðru fremur um mátt orðsins andspænis öllum þeim úrræðum sem fólkið þekkti. Sagan segir frá ákalli Jesú:  „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“

 

Hér birtist okkur ein af mörgum kraftaverkafrásögnum þar sem Jesús læknar og líknar en sagan verður annað og meira en lýsing á afmörkuðum atburði. Slíkar lýsingar vísa alltaf út fyrir sig, þær eru hluti af þeirri boðun sem Biblían miðlar. Hún miðlar menningu sem kennd er við heilagt orð. Strax í boðorðunum erum við minnt á að orð okkar fela í sér ábyrgð. Það að leggja ekki nafn Guðs við hégóma er áminning um það að talandi okkar skiptir máli, orðin okkar hafa vægi. Raunar eru tvö af boðorðunum helguð orðunum – það áttunda varðar það hvernig við tölum um náunga okkar, baknag, rangar ásakanir, ill ummæli – við þessu varar textinn.

 

Hið sama kemur fram í Orðskviðunum sem hér voru lesin: „Haltu munni þínum fjarri fláum orðum og vörum þínum fjarri lygamálum.“


Sýning Jónu Hlífar

 

Mér finnst sýning Jónu Hlífar kallast á við þessar hugsanir. Um leið og ég sá yfirskriftina þótt mér hún bera þess merki að listamaðurinn er næmur fyrir því umhverfi þar sem verkin standa. Við erum vanari því að sjá myndir og form sem skilja mismikið eftir fyrir áhorfandann að skilja, móttaka og túlka en þar sem vel tekst til skapa myndirnar samtal og orðræðu.

 

Hér er því öfugt farið. Orðin kalla fram myndir í huga okkar. „Það bága varir stutta stund en hið blíða lengi“ hér eru huggunarorð sem kunna að standa öndvert við því sem reynslan hefur fært okkur. Hannes Pétursson komst til að mynda að allt annarri niðurstöðu þegar hann orti: „Vestu hvað gleðin tefur tæpa stund en treginn lengi“. Og við þekkjum það úr lífi okkar og annarra hvernig afdrifaríkt misstig getur bundið enda á fasæla göngu. Hér er það aftur á móti mildin og umhyggjan sem sigra hörkuna. Víst er það í anda þess boðskapar sem hér er fluttur.

 

Hinum megin á veggnum er einmitt vitnisburður um langlífan tregann, leyfi ég mér að túlka og segja. Þar bregður Jóna Hlíf upp samheitum íslenskunnar af sögninni „að lifa“. Og ekki þarf lengi að rýna í þau til að skilja að sú tilvera sem þau lýsa er harla tregafull og skömm: „að tóra“, ,,að hjara“ og fleira nefnir hún.

 

Þessi óður listamannsins – Orðið, tengist einmitt því að vera til.


Orðin eru allt um kring

 

,,Í upphafi varð Orðið", segir í aðfararorðum Jóhannesarguðspjalls. Það er í samræmi við þann vitnisburð sem við lesum í Biblíunni um mátt orðsins. Þegar við mótum heiminn, verður til ný sköpun, við föngum hann í huga okkar – já búum til hug-tök sem síðan liggja til grundvallar því sem við metum og skiljum.

 

Orðin eru allt um kring. Þau gleðja og særa, upplýsa og blekkja, orðin sýkna og dæma, skýra og flækja. Samskipti okkar byggja á orðum og ekki aðeins hvert við annað. Við tölum við okkur sjálf. Í hljóðri hugsun, orðum við það sem á huga okkar hvílir.

 

Einhverjar rökræður eiga sér stað í huganum, með og á móti eins og í höfði okkar fari fram ráðstefna! Sérfróðir halda því reyndar fram að við þær aðstæður beitum við ólíkum hlutum heilans sem ræða saman á þennan sérstaka hátt. Börkurinn er víst rödd skynseminnar en frá heilastofninum berast frumstæðari skilaboð sem miða að því að uppfylla hvatir okkar. Hægri og vinstri hluti heilans eru eins og tvær ólíkar persónur, önnur varkár og gætin, hin áhættusækin. Allt fer þetta fram með orðum, þeim sömu og við tjáum með vörum okkar og nemum með eyrunum nú eða með öðrum hætti.

 

Þess vegna varð mér hugsað til þeirra einstaklinga sem samfélagið kallaði á sínum tíma „málleysingja“. Pilturinn í guðspjallinu var einn þeirra. Vestfirska stúlkubarnið sem fólkið táknaði með tárum, gekk að sama skapi inn í þann túlkunarheim.

 

Þetta var eitt þeirra hugtaka sem hún átti eftir að breyta þegar hún hafði til þess vit og þroska. Sigurganga þessarar konu á hennar löngu ævi fólst í því að móta tungumál þeirra sem ekki gátu heyrt. Það var til marks um merkan áfanga á þeirri vegferð þegar nafni skólans var breytt. Orð kom í stað orðs – skólinn var ekki fyrir málleysingja heldur heyrnarlausa.

 

Það er allt annað vera mállaus eða heyrnarlaus, því daufdumbir eiga sér tungumál. Hún tileinkaði sér það og miðlaði því áfram. Hún eignaðist eiginmann og börn sem ekki þjáðust af sama meini og hún, en áttu táknmálið að móðurmáli, sem þau notuðu í daglegum samskiptum á heimilinu og víðar.

 

Þar sem eyrun nema ekki hljóð þarf annað að koma til. Öll þurfum við að tjá þau orð sem á hjartanu hvíla og öll þurfum við að geta meðtekið þau áhrif sem umheimurinn miðlar. Þessum skilaboðum breytum við oftar en ekki í orð. Orð þurfa að berast. Orð gera okkur kleift að mynda hugsanir sem ekki verða táknaðar með hlutum.

 

Og Jesús notar orðin þegar hann rýfur einangrun hins veika barns. Þannig verður orð hans okkur til styrkingar á leið okkar í gegnum lífið.