4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Samfélag syndaranna
4. sunnudagur eftir þrenningarhátíðSamfélag syndaranna
Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal 6.2)
Kollekta:
Drottinn Guð, við biðjum þig: Stýr þú rás heimsins til friðar svo að kirkja þín
megi í rósemi og gleði þjóna þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með
þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Esek. 18.1-3,21-23
Orð Drottins kom til mín: Hvernig dettur ykkur í hug að taka ykkur þetta orðtak í munn í landi Ísraels: „Feðurnir eta súr vínber og synirnir fá sljóar tennur?“
Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skal enginn ykkar taka sér þetta orðtak í munn framar í Ísrael.
En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög og geri það sem er rétt og réttlátt, skal hann sannarlega lifa, hann skal ekki deyja. Afbrotanna, sem hann framdi, verður ekki minnst honum til skaða. Hann skal lifa vegna þess réttlætis sem hann iðkar. Þóknast mér dauði hins guðlausa? segir Drottinn Guð. Þóknast mér ekki miklu fremur að hann snúi frá breytni sinni og lifi?
Pistill: Róm 2.1-4
Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs?
Guðspjall: Jóh 8.2-11
Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.
Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“
En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“
Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“