14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
14. sunnudagur eftir þrenningarhátíðLitur: Grænn.
Þakkláti Samverjinn / Eining í Kristi
Lofa þú Drottin sála mín og gleym eigi neinum velgjörðum hans. (Sálm. 103,2).
Vers vikunnar:
„Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“ (Slm 103.2b)
Kollekta:
Drottinn, eilífi Guð án þín hljóta dauðlegir menn að falla. Við biðjum þig að varðveita kirkju þína í trúfastri miskunn þinni. Kom til hjálpar, vík frá öllum voða og leið okkur á vegi hjálpræðis þíns. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 12.1-6
Á þeim degi skaltu segja:
Ég vegsama þig, Drottinn. Þú varst mér reiður
en þér hvarf reiðin og þú huggaðir mig.
Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð.
Fagnið og gleðjist, þér sem búið á Síon,
því að Hinn heilagi Ísraels er mikill á meðal yðar.
Pistill: Gal 2.20
Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.
Guðspjall: Jóh 5.1-15
Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.