Stýrivextir í hámarki

Stýrivextir í hámarki

Samfélög sem byggð eru upp með það að markmiði að efla og bæta þá sem þau skipa hafa ómetanlegu hlutverki að gegna og ekkert getur komið í staðinn fyrir þau. Í kirkjunni koma saman frjálsir einstaklingar sem hafa greiðan aðgang að Guði sínum í gegnum lestur ritningarinnar og bæna. En þar sem slíkt fólk kemur saman er von á miklu meiri árangri. Þá deilir það reynslu sinni hvert með öðru, það sameinast í tilbeiðslu sinni og það styður hvert annað í blíðu og stríðu.

Samfélög sem byggð eru upp með það að markmiði að efla og bæta þá sem þau skipa hafa ómetanlegu hlutverki að gegna og ekkert getur komið í staðinn fyrir þau. Í kirkjunni koma saman frjálsir einstaklingar sem hafa greiðan aðgang að Guði sínum í gegnum lestur ritningarinnar og bæna. En þar sem slíkt fólk kemur saman er von á miklu meiri árangri. Þá deilir það reynslu sinni hvert með öðru, það sameinast í tilbeiðslu sinni og það styður hvert annað í blíðu og stríðu.

Stýrivextirnir háir

Í kirkjunni kemur saman hópur fólks sem leggur ekki aðeins rækt við hæfileika sína heldur vill leggja sitt af mörkum til samfélags sem miðar að því að þessir hæfileikar nýtist til góðra verka. Hér miðla menn hverjir öðrum dýrmætri þekkingu. Hér er góðum málefnum lagt lið. Allt skiptir þetta miklu máli.

Já, hér á sér stað mikil ávöxtun og stýrivextir eru háir! Einmitt í þeim anda sem guðspjall dagsins fjallar um: Voru þetta ekki verðbréfamiðlarar sem þarna voru að störfum? Er aldrei friður fyrir peningatalinu? Hvernig talar þessi texti til okkar sem hingað erum komin? Það þykir nú ekki amalegt þessa dagana að sitja uppi með ósnortnar eigur frá því sem lagt var fyrir. Frekar er það nú hitt, eins og við vitum, að spariféð hefur rýrnað meira og hraðar en tárum taki en skuldirnar vaxið upp úr öllu valdi.

Blessað fólkið sem hafði þá iðju að ávaxta talenturnar okkar. Bankarnir og þeir sem þar starfa sýndust að sönnu hafa ekki bara fundið leiðina til þess að margfalda þær svo um munaði. Þetta var sannarlega íslenska leiðin og við glöddumst hvert í kapp við annað – græddum fé og fengum stöðugt að heyra af því hversu flinkir við Íslendingar værum á þessu sviði. Góðir og trúir voru þeir þjónar. Hæfileikum þeirra var ekki við brugðið. Í dag vitum við betur. Og þó. Við vitum að ávöxtunin var ekki merkileg – en hæfileikarnir voru sannarlega til staðar. Þetta voru vafalítið upp til hópa ágætir einstaklingar en svo fór þetta allt á versta veginn.

Talenturnar hafa margfaldast

Ekki verður annað séð en að frelsaranum sé síst af öllu í nöp við það að sýslað sé með fjármagn svo það jafnvel margfaldist. Sá einn var raunverulega fordæmdur sem ekki ávaxtaði talenturnar sem skyldi. Nei, hann gróf þær í jörðu og þar sem þær voru vissulega öruggar en náðu hins vegar ekki að nýtast sem skyldi. Svo sneri húsbóndinn aftur úr förinni og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hann sá að ekki hafði neitt ávaxtast af því sem lagt hafði verið í hendur honum. Þess er þó að geta að talenturnar í sögunni hafa heldur betur borið ávöxt. Eftir að líking þessi fékk vængi og ferðaðist um heiminn komust þær inn í enska tungu og vísa til þess sem okkur er gefið. Þær vísa til þess sem á íslensku heitir hæfileiki. Já, guðsgjafirnar sem við fáum vissulega í margvíslegri mynd og ólíkri en notum hins vegar með misjöfnum árangri. Sumir hlúa vel að þeim. Aðrir láta þær grotna niður, grafa þær í jörð.

Og nú þar sem við stöndum á krossgötum eftir ósköpin öll þurfum við að hlúa að talentunum okkar sem aldrei fyrr. Við þurfum að gefa því gaum hvernig við nýtum þær því okkur er svo hætt við því að fela þær, grafa þær í jörðu þar sem ljós fær ekki á þær skinið og þær hvorki vaxa né koma að notum.

Galdurinn á bak við góða ávöxtun

Hver er galdurinn á bak við það að ávaxta talenturnar okkar frekar en að láta þær hvíla óhreyfðar og gagnslausar undir yfirborði jarðar? Já, hvernig getur samfélagið eflt og bætt höfuðstól hvers og eins okkar á þessum sviðum?

Fyrir það fyrsta þarf fólk að horfa inn í eigið hugskot. Já, rannsaka lífið, forgangsröðina og það hvernig við hugsum og störfum. Þekkjum við styrkleika okkar og veikleika? Kristur minnir okkur stöðugt á þetta og teflir í því sambandi oft fram ólíklegasta andstæðum einstaklinga þar sem sá stendur hinum langt framar sem er þó mun neðar í hinni tilbúnu virðingarröð sem okkur hættir svo oft til þess að setja. Nei, horfum í eigin barm og hugleiðum það hvernig við getum bætt okkur og eflt.

Kristur ræðst á þessa ósýnilegu pýramída allt í kringum okkur. Þá sem við röðum fólkinu á, því ofar sem dregur því meiri völd og því færri sem þar tróna. Og gjarnan reyna menn að þóknast þeim sem fyrir ofan er. Og hlusta einungis á þá sem þar eru. Hugleiðum boðskap Krists í þessu sambandi og hve frábrugðinn hann er slíku hátterni. Nei, þar sem pýramídinn er flatur eiga allir greið samskipti sín á milli og dýrmætar upplýsingar fara á milli manna, frjóar hugmyndir verða til, stuðningi er miðlað og samkraftur leysist úr læðingi.

Hugmynd sem virkar

„Guð gaf mér eyra“, syngja börnin gjarnan hér í sunnudagaskólanum. Það má að sönnu segja en við það má bæta að Guð gaf okkur ekki bara eyra, hann gaf okkur eyru, tvö stykki, og einn munn. Sú staðreynd ætti að minna okkur á það að hlusta og reyna að skilja þá sem í kringum okkur eru. Góð regla er að reyna fyrst að skilja viðmælandann áður en við förum sjálf að láta hann skilja okkur. Slík hlustun getur gert kraftaverk. Hún getur komið í veg fyrir leiðindi og átök, misskilning og kvabb en leitt af sér dýrmæta vináttu.

Þá er það heilagt hlutverk okkar að styrkja þá sem í kringum okkur eru. Þetta sagði Kristur við lærisveina sína. Hann minnti þá á það að þjónustan væri sú köllun sem ætti að stýra gjörðum þeirra og á hinum fyrsta skírdegi laugaði hann fætur þeirra með táknrænni athöfn og sýndi það hvernig sá sem fremstur er verður einnig þjónn hinna. Því ólíkt völdunum sem safnast fyrir á fárra hendur, er þjónustan nokkuð sem allir geta tileinkað sér.

Þessi afstaða er ekki sett fram í háfleygum orðum án nokkurrar tengingar við veruleikann. Nei, það er öðru nær. Hér er á ferðinni þaulreynd aðferð sem hefur margsannað gildi sitt. Hún byggir á hugsjónum kristinnar trúar en sækir einnig í aðrar hugmyndir sem miða að því að efla og bæta það góða sem í okkur er: hávaxtareikningar lífsins sem stuðla að því að talenturnar sem okkur er trúað fyrir margfaldast og eflast í gefandi samfélagi.

Þjónandi forysta

Ég vil nota tækifærið og minna ykkur á það sem framundan er hér í kirkjunni og lýtur einmitt að þessari ávöxtun. Ekki bara það hvernig við eflum og nærum talenturnar okkar heldur það hvernig við getum snúið yfir til betri vegar og lagt okkar af mörkum til þess að bæta stöðu mála hér á landi og víðar.

22. febrúar næst komandi verður málþing í kirkjunni þar sem hugmyndir þessar verða kynntar. Þær ganga undir heitinu þjónandi forysta og þið getið séð á dreifiritinu sem hér liggur frammi hvað til stendur í kirkjunni.

Við skulum einbeita okkur að því sem jákvætt er og uppbyggilegt svo að orðin sem meistarinn sagði í dæmisögunni eigi einnig við um okkur þegar dómurinn fellur fyrir lífi okkar og gjörðum: „Yfir litlu varstu trú, yfir mikið mun ég setja þig.“