Friðarkonungurinn

Friðarkonungurinn

Í 2022 ár hefur fæðingarfrásagan um Jesú verið rifjuð upp. Atburðurinn markaði slík spor í Vestrænu samfélagi og víðar, að frá fæðingu Jesú teljum við árin. Það eru s.s. 2022 ár frá fæðingu hans. En hvernig var það fyrir fæðingu Jesú? Þekkir þú það?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
24. desember 2022
Flokkar

Biðjum: 

 

Heilagi Guð á himni og jörð 

hljómi þér lof og þakkargjörð! 

Blessað sé vald og viska þín! 

Vegsemd þér kveði tunga mín. Amen. 

 

Gleðileg jól 


Kæri söfnuður, kæru vinir, Gleðileg jól. 


Stundin er runnin upp, jólin eru komin, kirkjuklukkurnar hafa hringt inn jólin. Heilög stund.  

Læknirinn Lúkas, sem guðspjall aðfangadags er kennt við, var geysilega snjall að koma saman svo ríkri lýsingu í ekki lengri texta.  

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara … 


En þannig hefst jólaguðspjall Lúkasar, sem við heyrðum hér áðan, og við rifjum upp á hverjum jólum, endurtökum textann um fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem, Maríu og Jósef, hirðana og englana. Söng englana um frið 


Hversu fögur frásaga 


Frásagan er myndræn, við eigum auðvelt með að sjá atburðina fyrir okkur, og sviðsmyndin ein sú frægasta í heiminum, af jólabarninu í jötunni, sem við notum til dæmis hér í kór Bústaðakirkju, þar sem við setjum hana upp, María, Jósef og Jesúbarnið í jötunni. 


2022 


Í 2022 ár hefur fæðingarfrásagan um Jesú verið rifjuð upp. Atburðurinn markaði slík spor í Vestrænu samfélagi og víðar, að frá fæðingu Jesú teljum við árin. Það eru s.s. 2022 ár frá fæðingu hans.  


En hvernig var það fyrir fæðingu Jesú? Þekkir þú það? 


Filippus bróðir hans 

 

Við sjáum það í öðrum texta frá Lúkasi lækni, aðeins síðar í riti hans, þar sem segir: „Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjörðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, ...“ 

 

Árin voru jú talin frá þeim sem réði, frá valdhafanum. Hvað var Tíberías búinn að vera lengi keisari, jú fimmtán ár.  

Svo þegar næsti tók við, þá var byrjað að telja upp á nýtt.  

 

Valdhafar  

 

Við lesum þetta einnig í Konungabókunum tveimur í Gamla testamentinu. Þar er haldið utan um gang tímans í tengslum við valdaár hvers konungs. Það segir m.a.: „Rehabeam, sonur Salómons, varð konungur í Júda þegar hann var fjörutíu og eins árs að aldri. Hann ríkti sautján ár“. Svo segir stuttu síðar: „Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak, konungur Egypta, í herför gegn Jerúsalem.“ 

 

Hvaða ár var þar um að ræða, jú fimmta stjórnarár Rehabeams konungs.  

 

Svo var gjarnan tekið fram hvort konungarnir voru réttlátir eða hvort þeir nýttu stöðu sína til að nýðast á öðrum. Mikið er um svona vísanir um átök og hernað, eins og í textanum sem ég las. Almenningur lifði því gjarnan við átök og erfiðleika, óvissu og ófrið. Því slíkt hefur í árþúsundir fylgt hinum veraldlegu valdhöfum, þ.e. að berjast. 

 

Vonin um frið 

 

Vonin sem lifði hins vegar meðal fólksins var að friður kæmist á. Að framundan væri tími þar sem réttlæti og friður myndi ríkja. Einhver sá konungur átti að fæðast sem myndi koma þessum friði á og vísuðu spámenn Gamla testamentisins til þess en þjóðin lifði mörg árhundruð við einmitt andstæðu þessa, þ.e. átök og erfiðleika og þess vegna vænti fólk hins sigrandi friðarkonungs í aðdraganda fæðingar Jesú.   

 

Auðmýkt og mildi  

 

Raunin varð hins vegar sú að Jesús var ekki sá sigrandi konungur á hvítum hesti, sem margir væntu. Hann kom ekki í heiminn til að berjast með hnefum og vopnum gegn ofríki og illsku. Hann vísaði mannkyni nýja leið, auðmýktar og mildi, þar sem hann fæddist inn í þennan heim ekki í konungshöll við gnægðir, heldur í fjárhúsi, í umhverfi fátæktar og umkomuleysis, laut síðan í duftið á páskum, var tekinn af lífi, en reis upp til lífs á páskadagsmorgni.   

 

Undur  

 

Enda virðist mikill sannleikur fólgin í þeim lærdómi. Heimurinn virðist ofinn úr slíkum vefnaði að ef maðurinn krýpur í duftið, þá er hann reistur við. Hinir síðustu verða fyrsti og hinir fyrstu síðastir. Stundum virðist boðskapurinn svolítið öfugsnúinn miðað við mælikvarða heimsins. En þetta þekkja þau kannski best sem glímt hafa við fíkn hvers konar. Þar eru þessi lögmál hvað sýnilegust, þar sem leiðin að upprisu liggur í gegnum það að játa sig sigraðan.   

 

Teljum daga okkar  

 

Það er því ekki tilviljun að við skulum telja okkar daga frá fæðingu Jesú, því hann getur enn í dag, sem fyrr og síðar, verið okkur sá friðarkonungur sem við þurfum á að halda. Sá friðarkonungur sem býður okkur samfylgd í lífinu, sem býður okkur að gera líf okkar ríkara en við getum öðlast með öðrum hætti.   

 

Friðarkonungurinn 

 

Í 2022 ár hefur vestrænt samfélag ekki fundið annan betri friðarkonung. Enn teljum við árin okkar frá hinum fyrstu jólum, enn getur litla barnið í jötunni verið okkur uppspretta mildi og kærleika sem hvergi er annarsstaðar að finna.  

 

Djúpur sannleikur um samfylgd   

   

Og svo er það hinn djúpi sannleikur sem kynslóðirnar hafa miðlað um eðli lífsins,   

mildi, kærleika, góðvild og gæsku, en einnig um það að það er Guð sem vakir yfir, verndar og blessar, og að það sé raunverulega til Guð, sem lætur sig varða, og sérstaklega þegar sorgin kveður dyra eða aðrir erfiðleikar, þá vill Guð einmitt vera þar, með okkur á lífsveginum. 

 

Um þetta fjalla jólin.  

 

Guð vill að hjarta okkur hvers og eins sé jatan hans. Að fæðing Jesúbarnsins sé ekki aðeins eitthvað sem hafi gerst í fyrndinni, heldur gerist í lífi okkar hvers og eins.   

 

Stefán frá Hvítadal orti: 

 

Kveikt er ljós við ljós, 

burt er sortans svið. 

Angar rós við rós, 

opnast himins hlið. 

Niður stjörnum stráð, 

engill fram hjá fer. 

Drottins nægð og náð 

boðin alþjóð er. 

 

Guð er eilíf ást, 

engu hjarta' er hætt. 

Ríkir eilíf ást, 

sérhvert böl skal bætt. 

Lofið Guð sem gaf, 

þakkið hjálp og hlíf. 

Tæmt er húmsins haf, 

allt er ljós og líf. 

 

Megi heimili þitt vera hýbýli hans, sem vill veita þér af náð sinni: Samfélag og vináttu, frið og kærleika, ekki aðeins í dag, heldur alla daga.  

 

Gleðileg jól, kæri söfnuður, kæru vinir. Gleðileg jól. 

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen. 


Prédikun flutt á aðfangadagskvöld 2022 í Bústaðakirkju.