Von, trú og homo sapiens

Von, trú og homo sapiens

Því að vonin er ein sú dásamlegasta guðsgjöf sem manneskjunni er gefin. Og hver veit nema þrautseigja mannkynsins í gegn um árþúsundin, sem hefur gert henni kleift að yfirstíga ótrúlegustu hindranir og þrauka ósegjanlegustu hörmungar taki á sig birtingarmynd vonarinnar í félagslegu erfðamengi okkar. Vonin er sjaldnast fjarri, sannfæringin um að það sé ljós við enda ganganna.
Mynd

Það eru nú líklega ekki allir hér í kirkjunni sammála mér í því að óska sér meiri snjókomu það sem eftir er vetri en við sem höfum ánægju og yndi af skíðaíþróttinni – okkur finnst við bera sífellt skarðari hlut frá borði með hverjum vetrinum sem líður. En við eigum víst bjarta tíð í vændum því að á kyndilmessu 2. febrúar skein sól í heiði og skv. þjóðtrúnni veit það á bæði snjó og frost í framhaldinu eins og eftirfarandi veðurvísa, sem er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar ber vitni um:


Ef í heiði sólin sést

á sjálfa kyndilmessu

snjóa vænta máttu mest

maður upp frá þessu.


Þessi veðurspá fær svo sannarlega staðfestingu í veðurspá dagsins en rætur þessarar þjóðtrúar er reyndar ekki að finna hér á landi frekar en svo margt heldur barst hún með almanökum sunnan úr Evrópu á síðmiðöldum. Af sömu rót er hátíð sú vestan hafs, sem var í fréttum í vikunni og margir þekkja úr samnefndri kvikmynd, Groundhog day með Bill Murray í aðalhlutverki. Er trú manna sú að sjái múrmeldýr, sem skríður úr híði sínu þennan dag, sinn eigin skugga, þá muni enn vera harður vetur næstu sex vikurnar. Upphaf febrúarmánaðar hafði mikið vægi í hinum ýmsu samfélögum fyrr á tímum, líklega vegna þess að það markar nokkurn veginn miðjan veg á milli vetrarsólstaða og jafndægra á vori og þannig fögnuðu keltar til forna upphafi vorsins á þessum tíma og horfðu með eftirvæntingu fram til sáningar og sauðburðar.


Það er í raun merkilegt og skemmtilegt að velta því fyrir sér, af hverju einmitt sól í heiði, sem í sjálfu sér er jákvætt fyrirbæri, skuli vera tekin sem tákn um neikvæðar horfur veðurfarslega. Mann gæti helst grunað að þar spili inn í einhver djúpstæð og ómeðvituð tilfinning fyrir réttu eðli hlutanna, eða því sem á við á hverjum tíma og í hverjum aðstæðum. Dumbungur eða hríðarbylur sé e-ð sem mætti búast við í byrjun febrúar, í það minnsta í norðanverðri Evrópu og þess vegna veki heiðríkja á tímapunkti, sem litið er á sem hávetur, tilfinningu fyrir e-u óeðlilegu, að ekki sé allt eins og það á að vera, og þ.a.l. ugg í brjósti varðandi það sem koma skal. Annars konar tengingu við sólina er að finna í þeirri staðreynd að um þessar mundir er drukkið sólarkaffi víða um land með vöfflum og pönnukökum til þess að fagna sólinni sem lætur sjá sig eftir nokkurra mánaða fjarveru úr þröngum fjörðum.


En hvað sem þjóðtrúnni og veðurspám líður, þá er athyglisvert að 2. febrúar tengist einnig ljósinu í kirkjulegu samhengi en þá er Kyndilmessa, Missa Candelarum, sem þýðir í raun kertamessa eða ljósamessa eins og það er þýtt á þýsku. Þá var enda til siðs að helga öll þau kerti, sem nota skyldi í guðsþjónustum næsta árið og þekktist t.a.m. sá siður að ganga með logandi kerti í kringum kirkjuna, þar sem viðraði til þess. Einnig eru til dæmi um hátíðarveislur á þessum degi þar sem kveikt var á stóru kerti sem sérlega hafði verið steypt til notkunar á þessum degi.


Frá því snemma á miðöldum var þessari hátíð fagnað sem hreinsunarhátíð Maríu í tilefni af því er María kom með Jesú í musterið 40 dögum eftir fæðingu hans en skv. gyðinglegum sið taldist sængurkona „óhrein“ í trúarlegum skilningi 40 daga eftir að hún hafði alið sveinbarn. Bent hefur verið á það að þó að þessi löggjöf hafi útilokað nýbakaðar mæður frá þátttöku í opinberu helgihaldi, þá hafi hún um leið verndað þær, t.d. fyrir ástleitni eiginmanna sinna, á tíma er ástand þeirra var mjög viðkvæmt. Í heitinu hreinsunarhátíð Maríu liggur áherslan á Maríu, sem lýst er hrein af prestunum, en í mörgum mótmælendakirkjum í dag er dagurinn nefndur dagurinn, er Jesú var færður fram fyrir Guð í musterinu, sem er í raun í samræmi við frásögn Lúkasarguðspjalls, sem hljóðar svo:


En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.


Hvern færðu María og Jósef fram fyrir Drottinn í musterinu? Sveinbarnið Jesú vissulega – en það var ekki hvaða sveinbarn sem var. Höfundur Annars Pétursbréfs hefði ekki legið á svarinu: Það var morgunstjarna nýrrar dögunar sem foreldrarnir báru fram til helgunar – ný von í brotnum heimi, fyrirheit um nýtt upphaf – nýjan dag að lokinni niðdimmri nótt.


Þegar 2Pét talar um að morgunstjarnan renni upp í brjóstum okkar er átt við að hjarta okkar trú okkar og vilji – verði „vaggan hans“, eins og segir í jólasálminum. Og ef okkur auðnast – með Guðs hjálp – að gera hjarta okkar að vöggu Krists þá hvikum við ekki í trú okkar og trausti á vitnisburð upprisunnar um sigur lífsins yfir dauðanum, sigur kærleikans yfir illskunni. Höfundurinn líkir áhrifunum af komu Krists í þennan heim við dagsbirtuna sem fylgir dögun og sólarupprás, en tímanum fyrir komu Krists líkir hann við myrkan stað eins og hann kallar það. En á þessum myrka stað skína samt nokkrar ljóstírur sem eru orð spámanna G.t. sem að mati hins frumkristna safnaðar bentu öll meira eða minna fram til Jesú en vitanlega undir rós. Þannig var það í þeirra huga enginn annar en Jesús, sem var spámaðurinn að hætti Móse, sem talað er um í lexíunni, sem og þjónninn útvaldi sem Guð talar um í Jesaja 42 að hann hafi velþóknun á. Þetta er afskaplega fallegt myndmál og maður getur ímyndað sér spádómsorð G.t. um Jesú sem stjörnur á næturhimninum og eins konar fyrirboða um sólarupprásina sem í textanum er táknuð með orðinu „morgunstjarna“, svo að við rifjum upp orð lexíunnar:


„Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar.“


Gríska orðið, sem þýtt er sem „morgunstjarna“, er fósforos, sem merkir einfaldlega ljósgjafi og skýrir það nafngift hins sjálflýsandi frumefnis fosfórs. Í grískum skáldskap var Fósforos notað um hina björtu reikistjörnu Venus, sem má sjá skína skært á morgunhimninum, þegar aðrar stjörnur himinhvolfsins sjást ei lengur í dagsbirtunni og er það ástæða biblíuþýðingarinnar „og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar.“ En fósforos gæti líka vera skáldamál um sólina og í huga kristinnar Kirkju voru orð spámannsins Malakí um „sól réttlætisins“ skýr spádómur um komu Krists en hann skrifar: „En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu.“


Þetta beinir huga okkar að þjóðtrúnni sem tengd er Kyndilmessu en ólíkt sól réttlætisins boðar sól í heiði harðindi og ótíð en ekki lækningu. En þótt að sól hafi skinið í heiði hafa bændur og búalið örugglega ekki misst vonina um að þrátt fyrir allt myndi vora snemma.


Því að vonin er ein sú dásamlegasta guðsgjöf sem manneskjunni er gefin. Og hver veit nema þrautseigja mannkynsins í gegn um árþúsundin, sem hefur gert henni kleift að yfirstíga ótrúlegustu hindranir og þrauka ósegjanlegustu hörmungar taki á sig birtingarmynd vonarinnar í félagslegu erfðamengi okkar. Vonin er sjaldnast fjarri, sannfæringin um að það sé ljós við enda ganganna.


Við höfum lifað myrka og niðurdrepandi tíma síðast liðin ár – um það held ég að allir séu sammála. Covid-faraldurinn hefur verið ögrandi verkefni að glíma við en vonandi aðeins tímabundið verkefni. En nú er eins og birti af degi. Eftir langa, dimma og kalda nótt er líkt og morgunroðinn rísi upp af sjóndeildarhringnum og blikandi morgunstjarnan eins og glitrandi demantur þar fyrir ofan á ljósbláum himninum – eins og tákn um þá von að þrátt fyrir allt hafi hlutirnir tilhneigingu til þess að enda vel.


Vonin er lífsnauðsynleg til þess að komast í gegnum snjóskafla lífsins. Og Covid er sannarlega hvorki eini né stærsti skaflinn sem mannkynið sem heild þarf að ryðja úr vegi um þessar mundir. Erfiðustu verkefnin sem við er að eiga eru þau sem maðurinn ber sjálfur ábyrgð á sökum hroka síns og oflætis. Í spánýrri bók um erfðafræðilega sögu mannsins komast fornerfðafræðingarnir Johannes Krause og Thomas Trappe að þeirri niðurstöðu á grundvelli rannsókna sinna á erfðamengi mannsins að fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum hafi átt sér stað vissar stökkbreytingar í erfðaefni hins viti borna manns, homo sapiens, sem leiddu til þess að hann sætti sig ekki lengur við friðsæla og sjálfbæra tilveru safnarans og veiðimannsins heldur varð gripinn óslökkvandi tilhneigingu til að eignast og eignast sífellt meira, þar til hann hafði lagt undir sig allar plánetuna. Og nú er mannkynið að vakna upp með timburmenn, eins og þeir orða það, og það er eingöngu undir því sjálfu komið að ráða bót á vandræðunum sem það er búið að koma sér í. En  staðan er þó ekki vonlaus að mati erfðafræðinganna vegna þess að sami drifkraftur og aðlögunarhæfni og kom manninum í klandur gæti gert honum kleift að losa hann úr því.  


En sjálfur tel ég að eigi mannkyninu að auðnast þetta, þá sé nauðsynlegt að það tileinki sér þá afstöðu til lífsins og til sköpunarinnar sem gyðingdómur og kristni boða, þ.e. auðmýkt, þakklæti og hófsemi, sem væri og raunin ef sannarlega ríkti trú, von og kærleikur, líkt og Páll postuli orðar það svo fallega í kærleiksóðnum. Guð gefi að svo megi verða.


Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.