Lífið breytir öllu

Lífið breytir öllu

Jafnvel þegar lífið er umkomulaust í smæð sinni og hverfulleik er það ríkulegri vottur um sköpun Guðs en stærstu furður alheimsins.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
18. desember 2009

Jólastjarna

Þegar horft er upp í stjörnuhimininn sækir sú hugsun að okkur, hvort líf sé að finna einhvers staðar í þeim ómælisvíddum sem þar mæta augum okkar. Horfir ekki hvelfingin til baka á okkur eins og vera með þúsund augu? Er einhver þarna úti sem spyr sig sömu spurninga? Þrátt fyrir alla þekkingu okkar vitum við ekki enn hvort líf sé að finna víðar en á þessari plánetu – en spurningin lætur okkur ekki í friði og enn leitum við. Af hverju? Jú, vegna þess að þrátt fyrir stærðirnar, fjöldann, aflið og furðurnar sem blasa við augum okkar er ekkert eins merkilegt og lífið Lífið breytir öllu.

Á jólahátíðinni fyrstu fengu hirðarnir óvænta heimsókn – ef til vill úr fjarlægum kimum alheimsins eða jafnvel einhverjum öðrum víddum tilverunnar. Boðskapurinn sem gestirnir færðu hirðunum var sá að nýtt líf væri komið í heiminn: „Yður er í dag frelsari fæddur“. Heimurinn varð aldrei samur, því lífið breytir öllu. Frelsari sá sem fæddist þessi fyrstu jól átti eftir að hafa mikil áhrif og fylgjendur hans halda heilög jól í minningu fæðingar hans. Jólin eru hátíð lífsins. Þau fjalla um dýrðina sem lífinu fylgir. Með þeim hætti birtist hinn almáttugi Guð sem lítið barn, eins og Einar í Heydölum lýsir þessum atburði:

Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri.

Sá sem þar kom í heiminn starfar enn og lifir enn. Hann er sá sem lét dauðann lúta í lægra haldi fyrir lífinu. Hann minnir okkur enn á undur lífsins og það hversu ríkar skyldur við berum gagnvart því. Sjálfur sagðist hann mæta okkur í okkar minnsta bróður – og þannig mætum við honum hvað eftir annað.

Boðskapurinn er sá sami. Jafnvel þegar lífið er umkomulaust í smæð sinni og hverfulleik er það ríkulegri vottur um sköpun Guðs en stærstu furður alheimsins.