Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti, þessar andstæður hafa löngum verið manninum hugleiknar. Þær eru ekki bundnar við trúarbrögðin, þetta eru tveir ásar í tilvist okkar. Hvert viljum við stefna, og hvað viljum við forðast?

Himnaríki og helvíti, þessar andstæður hafa löngum verið manninum hugleiknar. Þær eru ekki bundnar við trúarbrögðin, þetta eru tveir ásar í tilvist okkar. Hvert viljum við stefna, og hvað viljum við forðast?

Í draumi sérhvers manns

Þetta höfum við í huga í uppeldi barnanna, í stjórnmálum, meðvitað og ómeðvitað ráða þessar andstæður ákvörðunum okkar í gegnum dagana. Nýverið sendu skólar og sveitarfélög ungmenni á íslensku myndina, „Leyf mér að falla“ – til að gera þeim í hugarlund hvers kona víti bíður þeirra sem ánetjast fíkniefnum. Það er gott dæmi um þessa viðleitni. Svo má deila um það hvort slíkur ótti hefur tilætuð áhrif en tilgangurinn fór ekki á milli mála. Umfjöllunarefni myndarinnar – eiturlyf eru að sama skapi dæmi um það hversu hárfín lína getur verið á milli þessa tveggja – himnaríkis og helvítis. Í því tilviki snýst leitin að einhvers konar alsælu, upp í andhverfu sína.

Það sem í fljótu bragði virðist vera hið mesta hnoss þarf ekki að vera rétti áfangastaðurinn á leið okkar í gegnum lífið. Því er reyndar stundum þveröfugt farið. „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“, orti Steinn Steinarr og hélt áfram:

„Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.“

Veruleikinn spyr ekki að því hvort við eltumst við mýrarljós eða höfum skynbragð á hvað er gott. Í þessum orðum skáldsins felst sú áminning að draumar okkar geti um síðir orðið okkur að falli. Og skilaboðin eru jafnan þau sömu: Sú viðleitni sem dregur okkur áfram getur þrátt fyrir allt verið leiðin til glötunar. Já, hvað er himnaríki? Er það nautn og friðsæld? Er að líf ríkt að tilgangi og merkingu? Getum við fengið innsýn í hin æðstu gildi á hinum ólíklegustu stöðum, jafnvel mitt í hörmungum og því versta ógeði sem maðurinn getur kallað yfir náunga sinn? Sú mynd birtist okkur nú í liðinni viku þegar kynntir voru friðarverðlaunahafar Nóbels í ár.

Murad og Mukwege

Þau Nadia Murad og Denis Mukwege eru tvær hugrakkar manneskjur sem hafa helgað lífi sínu baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðum. Sú fyrrnefnda slapp úr ánauð Ísis liða, og hefur unnið þrekvirki við að hjálpa öðrum konum sem eiga um sárt að binda eftir þau voðaverk sem sá hópur stendur fyrir. Sá síðarnefndi er kvensjúkdómalæknir sem hefur sett á fót sjúkrahús í hinni stríðshrjáðu Austur-Kongó ætluð konum sem eru fórnarlömb nauðgana í stríðinu sem geysað hefur í þessu landi um áratugaskeið. Nóbelsnefndin beindi sjónum sínum að því víti á jörðu sem birtist okkur á þessum svæðum – atburðir sem fólk á Vesturlöndum hefur ef til vill ekki veitt þá athygli sem hæfa ber. Í Austur-Kongó er áætlað að yfir fjórar milljónir manna hafi farist í þeim hamförum. Óhæfuverkin eru liður í því að eyðileggja líf fólks og brjóta niður samfélög

Mukwege sinnir þjónustu sinni af köllun, elur hann önn fyrir fórnarlömbum, veita þeim sálrænan og efnahagslegan stuðning og vekur athygli á þessum voðaverkum. Hann er prestsonur, og sannkristinn. Í ávarpi sem hann flutti á þingi lútherska heimsambandsins í fyrra, talaði hann um hlutverk sitt í þessum hryllingi og þá köllun að hlúa að þessum varanarlausu einstaklingum sem líða fyrir þá skelfingu sem þarna á sér stað. Merkilegt er að lesa greiningu hans á því hvers vegna þessi átök eiga sér stað. Hann segir þau ekki snúast um hugsjónir, trúarbrögð eða aðrar hugmyndir. Nei, það baki býr ásókn í verðmæti, góðmálmana sem enda svo í símunum okkar og öðrum tækjabúnaði.

Hann beindi orðum sínum að kristnum kirkjum um gjörvallan heim og hvatti til þess að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn kynbundnu ofbeldi. Hann benti á að alþjóðlegt bann væri við notkun efnavopna en ekki hefði verið tekið á ofbeldi gagnvart konum í stríði með sama hætti. Fagnaðarerindi 21. aldarinnar, ætti að snúast um baráttu okkar fyrir réttlæti, sannleika, lögum, frelsi. Þess vegna þarf að berjast gegn ranglæti og kvenhatri. Já, barátta okkar er af þessum heimi og þar tala orð Krists skýrast til okkar.

Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti. Það er ekki jafn langt á milli þessar andstæðna sem margur gæti ætlað. Ásókn í lífsgæði og auð leiða af sér óhæfuverk og hrylling. Og svo mitt í því umhverfi rís fólk sem sýnir okkur með verkum sínum hversu göfug mannsálin getur verið þegar hún er drifin áfram af sannri ást til náungans. Já, þessar andstæður birta okkur að sama skapi ólíkar hliðar á manneskjunni, hversu óendanlega mikil grimmd býr í brjósti okkar og svo um leið hve göfugt eðlið getur verið og stórbrotið.

Í guðspjalli dagsins líkir Jesús, himnaríki við brúðkaupsveislu. Hann talar aldrei um hin æðstu gæði nema í líkingum og jafnan er hið ófagra og ranga rætt af sama tilefni. Það er eins og annað geti ekki án hins verið. Yfir þessum orðum hvílir ísköld áminning um að dagar okkar eru ekki ótakmarkaðir og viðfangsefni okkar skipta máli. Ekkert gerist af sjálfu sér. Sögurnar enda ekki allar vel.„Líkt er um himnaríki“ – svona hefst frásögnin, en í lokin lesum við um grátur og gnístran tanna. Já, hún lýsir heimi sem er fullur af ofbeldi og ójöfnuði – í raun fjallar frásögnin um hálfgert borgarastríð sem verður þegar hópar neita að þekkjast boð konungsins.

Útvöldum gestum boðið og þjónar eru gerðir út af örkinni til að flytja gleðitíðindin. Tilboðið reyndist ekki höfða til þeirra sem boðið var. Þeir telja upp hverja ástæðuna á fætur annarri sem heillar meira og hugurinn beinist á aðrar brautir. Þá birtist okkur andstæða hins fagra og góða. Hugmyndir veislugestanna um hið ákjósanlega líf snúast upp í andhverfu sína. „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.“ Daglegt amstur og ásókn í ýmis lífsins gæði eru ef til vill gild afsökun en svo lesum við áfram um óhæfuverk sem unnin eru á þeim þjónum sem sendir voru út. Hver á fætur öðrum fer af stað en þeim er misþyrmt og þeir myrtir – rétt eins og við lesum um í fréttum af átakasvæðum heimsins. Já, og köllun okkar til að sinna systkinum okkar sem eiga um sárt að binda kafnar oftar en ekki undir fargi daglegs amsturs og annars sem höfðar meira til okkar.

„Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“, orti skáldið og í niðurlagi ljóðsins talar það um þennan draum sem leiðir okkur áfram

„Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.“

Í þessum spakmælastíl yrkir Steinn Steinarr um villurnar sem við getum ratað í á lífsgöngu okkar. Sjálfur þekkti hann vel hrakningar og hlutskipti hins útskúfaða. Barnungur þurfti að hann flytjast hreppaflutningum í algerri fátækt og neyð og var aðskilinn frá móður sinni. Textar Biblíunnar fegra heldur ekki tilveruna. Þeir minna okkur á það að líf margra er sannkölluð þrautarganga og það er hreint ekki sjálfgefið að leið okkar í átt að settu marki færi okkur himnasælu. Það getur allt eins verið að hún leiði okkur í átt frá þeim tilgangi sem okkur er ætlað að ná.

Þessi saga talar til okkar sem á okkar hátt erum útvalinn lýður. Við erum forréttindafólk í heimsþorpinu. Það er auðvitað ótrúlegt að geta búa við þau gæði sem við fáum notið. Við þurfum ekki að amast yfir því en sagan um himnaríki er að sama skapi áminning um þá ábyrgð sem í slíku felst. Mukwege, handhafi friðarverðlaunanna spyr, hvort við erum sem lærisveinar Krists i stakk búin til að mæta heimi sem er ofbeldisfullur. Hvað gerum við þegar við skynjum neyð náunga okkar, þeirra sem ekki hafa fengið sama hlutskipti í vöggugjöf? Eru klæðin okkar að sama skapi þau hinn réttu eða veljum við bara þau sem okkur hentar að íklæðast? Erum við í uppreisn gegn skapara okkar eða skynjum við þá köllun sem okkur er ætlað að fylgja?