Kvöldin og morgnarnir

Kvöldin og morgnarnir

Ný dagrenning bíður þín
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
02. júní 2022

Í sköpunarljóðinu á upphafssíðum Biblíunnar segir:

„Það varð kvöld og það varð morgunn...“

Rauður þráður

Þetta er ákveðinn rauður þráður sem finna má í ritum Biblíunnar. Það varð kvöld og það varð morgunn. Kvöldið getur í þessu samhengi verið tákn erfiðleika og sorgar sem við manneskjurnar göngum í gegnum á lífsleiðinni, morguninn tákn nýs upphafs, nýrrar dagrenningar.

Rauði þráðurinn er því að handan kvöldsins bíður ný dagrenning. Þ.e.a.s. er við glímum við erfiðleika er úrlausn ávallt handan hornsins og er sorgin sækir okkar heim er huggunin ávallt á næstu grösum.    

Helgihald bæði kvölds og morgna

Í sumar verða guðsþjónustur í Fossvogsprestakalli bæði á sunnudagsmorgnum og sunnudagskvöldum.

Í Grensáskirkju verða messur með altarisgöngu alla sunnudaga klukkan 11 í sumar, utan sumarlokana frá 17. júlí til 1. ágúst. Þar leggjum við áherslu á samfélagið um Guðs borð og gengið verður til altaris alla sunnudagana. Þar verða nýir sálmar í fyrirrúmi, bænir og prédikun. Kirkjukór Grensáskirkju syngur undir stjórn kantors kirkjunnar.

Í Bústaðakirkju verða kvöldguðsþjónustur alla sunnudaga kl. 20, utan sunnudagsins um verslunarmannahelgina. Taize sálmar ásamt fleiri þekktum sálmum, kyrrðarstund, heimilislegt helgihald, bænir og hugleiðing. Fulltrúar Kammerkórs Bústaðakirkju leiða almennan safnaðarsöng við undirleik kantors kirkjunnar.

Andleg mannrækt í kirkjum landsins

Kirkjan er vettvangur andlegrar mannræktar og í Fossvogsprestakalli, í Bústaðakirkju og Grensáskirkju, viljum við bjóða upp á fjölbreytt helgihald í sumar.

Kvöldin verða heimilisleg með kyrrðina í forgrunni í Bústaðakirkju og altarisganga verður hvern helgan morgun í Grensáskirkju sem er kærkomið eftir heimsfaraldurinn. 

Ný dagrenning bíður þín ávallt handan hornsins.

Pistillinn var fyrst birtur í Morgunblaðinu 2. júní 2022.