Svör sem birt voru í sama mánuði
Heiða spyr:
Mega foreldrar láta skíra barnið sitt inn í Þjóðkirkjuna þó þeir séu skráðir trúlausir eða í öðru trúfélagi?
Bryndís Malla Elídóttir svarar:
Komdu sæl Heiða.
Takk fyrir spurninguna.
Já, það er ekkert því til fyrirstöðu ef báðir foreldrar óska eftir því að barn þeirra sé skírt til kristinnar trúar, óháð því hvort þau sjálf séu skráð utan trúfélaga samkvæmt þjóðskrá eða tilheyra öðru trúfélagi.
Hins vegar er það ekki svo að með skírninni sé barnið sjálfkrafa skráð í Þjóðkirkjuna. Börn fylgja því trúfélagi sem móðir þess er skráð í og því þurfa foreldrarnir að skrá barnið sérstaklega í Þjóðkirkjuna. En það er auðvelt að gera það hjá prestinum um leið og skírnarskýrslan er fyllt út.
Skírnin er ekki skráning í trúfélag samkvæmt þjóðskrá, heldur heilög athöfn þar sem Guð tekur barnið að sér og skráir nafn þess í Lífsins bók. Í skírninni verður náð Guðs og blessun sú gjöf sem barnið þiggur og með henni fylgja bænir um að barnið megi lifa í sinni skírnarnáð.
Gert er ráð fyrir því að með því að foreldrar láti skíra barn sitt í nafni föður, sonar og heilags anda, þá takist þau á herðar þá ábyrgð að ala barnið upp í kristinni trú, kenni því að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orð hans og sakramenti og þjóna náunganum í kærleika.
Ef foreldrar eru trúlausir eða finna sig vanmáttug gagnvart þessu hlutverki en vilja samt sem áður að barnið sé skírt og eignist blessun Guðs, þá er ekkert því til fyrirstöðu að fela guðforeldrunum að annast trúaruppeldi barnsins.
Einnig er kirkjan með öflugt barnastarf, bækur og ýmsa fræðslu, þar sem börnin fá tækifæri til að kynnast frelsara sínum.
Ég trúi því að dýrmætari gjöf er vart hægt að gefa nýfæddu barni sínu en þá að bera það að helgri skírnarlaug, slíkt getur aldrei orðið annað en barninu til blessunar.
Kær kveðja,
Bryndís Malla Elídóttir
30/4 2009 · Skoðað 5819 sinnum
Forsíða · Skoða svarflokka · Höfundar · Leit