Trúin og lífið
Spurningar

Undirsíður

Skyld svör

  1. Hver er munurinn á Gamla og Nýja testamentinu?
  2. Er talað um bölbænir í Biblíunni?
  3. Foreldrar Maríu og systkini Jesú
  4. Hvaða ritningartexta má nota við hjónavígslu?
  5. Þjóðskrá og lífsins bók

Önnur svör

Svör sem birt voru í sama mánuði

  1. Bænirnar á vefnum
  2. Um hlutverk og ábyrgð skírnarvotta

Hefur merkingu texta verið breytt í nýju þýðingu Biblíunnar?

spyr:

Hvar er hægt, að nálgast texta nýrrar Biblíu? Er það rétt, sem sagt er að merkingu texta og orða hafi verið breytt frá frumtexta og viðurkendum útgáfum á Biblíunni, t.d. ensku útgáfunni, sem Kaþólskir nota?
Kveðja,

Einar Sigurbjörnsson svarar:

Útgáfudagur nýrrar Biblíu er ákveðinn 17. október og verða menn að bíða í þolinmæði eftir þeim degi. Útgáfan dróst lengur en áætlað hafði verið af því að tæknilegir örðugleikar komu upp í tengslum við umbrot og það tók lengri tíma að greiða úr en áætlað hafði verið.
Síðari hluti spurningar þinnar bendir til að það gangi sögur um þýðinguna sem ekki verði flokkaðar undir annað en róg og er erfitt að sitja undir því. Fólk það sem vann að þýðingu nýju Biblíunnar var allt sérfræðingar bæði í frumtextum hennar og íslenskri biblíu- og málhefð.
Auk þess gerði það sér far um að kynna sér lausnir þýðenda í nágrannalöndunum á ýmsum erfiðum textum. Þýðingin var samvinnuverkefni og unnin af nefndum og á síðustu stigum kom ritstjórn að verkinu til að samræma orðalag og málfar. Þetta á allt eftir að fjalla nánar um þegar Biblían kemur út. Þá er ekki ósennilegt að það verði eins og Salómon konungur segir í Orðskviðunum: „Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn, og þegar enginn er rógberinn, stöðvast deilurnar.
Eins og kol þarf til glóða og við til elds, svo þarf þrætugjarnan mann til að kveikja deilur." (Ok 26.20-21) Í sambandi við nýju þýðinguna þá var nú eins og ætíð áður stuðst við þær útgáfur á frumtextunum sem mestrar viðurkenningar njóta meðal þýðenda úti um allan heim og allar nýjar þýðingar styðjast við. Það er engin ein þýðing viðurkenndari en önnur. Það eru t.d. mjög margar enskar þýðingar á Biblíunni til og njóta margar viðurkenningar. Sú sem mörgum finnst mest koma til er kennd við Jakob konung I. og kom út í upphafi 17. aldar. Hún er ýmist nefnd Authorized Version eða King James´ Version. Eins og um margar aðrar biblíuútgáfur var henni ekki vel tekið í fyrstu og sættu þýðendurnir margir miklu ámæli fyrir slælegan framgang. Auk þess voru alls ekki allir enskumælandi menn á því að mega lesa þá útgáfu eina af Biblíunni sem enski kóngurinn leyfði! Eftir því sem leið á 17. öldina tóku menn þýðinguna í sátt og margir tala núna um hana sem hina einu viðurkenndu þýðingu Biblíunnar bæði rómversk-kaþólskir og mótmælendur. Frá því í lok 19. aldar hafa komið fram margar þýðingar á Biblíunni á ensku bæði austan hafs og vestan. Engin ein þeirra er viðurkennd þýðing umfram aðrar þó að þær njóti mismunandi hylli meðal fólks og þá af mörgum, ólíkum ástæðum.
Það er auðvitað hugsanlegt að áhangendur einnar kirkjudeildar vilji lesa eina þýðingu umfram aðra og séu jafnvel studdir til þess að forráðamönnum þeirrar kirkjudeildar. Ástæðan kann að vera sú að þeim finnist einhverjir staðir í betra samræmi við frumtextann. En oft er um að ræða smekk á eigin máli.
Við vonum að þessi orð svari spurningu þinni og eyði ótta þínum við væntanlega nýja biblíuþýðingu.

Ritnefnd nýrrar biblíuþýðingar
Einar Sigurbjörnsson Guðrún Kvaran Sigurður Pálsson

20/8 2007 · Skoðað 4019 sinnum


Þín ummæli

Nafn:
 
Netfang:
 
Ummæli:
 


Forsíða · Skoða svarflokka · Höfundar · Leit

Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar