Svör sem birt voru í sama mánuði
Grétar Einarsson spyr:
Stundum virkar þjóðkirkjan sem mjög flókin stofnun. Því langar mig að vita eftirfarandi:
1.Hvernig er ákvarðanatöku háttað innan kirkjunnar varðandi mál sem snerta guðfræði og kenningu og helgisiði hennar?
2.Hversu miklu ráða söfnuðir og prestar um slík mál sérstaklega hvað varðar helgisiði?
Ég er að velta fyrir mér að hve miklu leiti yfirstjórn kirkjunnar hefur með söfnuði og presta að gera þegar kemur að athöfnum og siðum í kirkjum landsins.
Kristján Valur Ingólfsson svarar:
Um þetta gilda mjög skýrar reglur sem eru grundvallaðar í landslögum og starfsreglum þjóðkirkjunnar.
Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr.78/ 1997 segir svo í 10.gr.
Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.
Um kenningarleg málefni hefur biskup sér til ráðuneytis kenningarnefnd, sbr. 14.gr. laganna:
Biskup Íslands skipar ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
Verði gerðar tillögur til breytinga á helgisiðum og helgihaldi eða varðandi kenninguna koma þær til umfjöllunar biskupafundar sem unbýr málin í hendur prestastefnu. sbr. 19.gr. laganna.
Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir og nánar skal kveðið á um í starfsreglum, sbr. 59. gr. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu ....
Þetta er áréttað í 28.grein laganna sem fjallar um prestastefnu:
Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. ...
Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr.
10., 11. og 20. gr.
Endanleg afgreiðsla mála er varða helgisiðina fer síðan fram á Kirkjuþingi að fenginni umfjöllun prestasetefnu. Kenningarleg málefni geta komið til umfjöllunar á Kirkjuþingi, en þingið hefur ekki vald til að afgreiða breytingar á þeim. Sbr. 20. gr. laganna:
Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka.
Málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyra þó undir biskup Íslands, sbr. 10., 11., 19. og 28. gr. Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.
Um aðkomu safnaðanna að breytingum á helgisiðum eða kenningarlegum málefnum er það að segja að ef þau koma til umræðu á þeim vettvangi er þeim vísað til biskups til þess að þau fái umfjöllun í samræmi við lögin, eins og hér var greint frá. Bæði aðalsafnaðarfundur og héraðsfundur eru vettvangur til umræðu um öll má er varða starf kirkju og safnaðar, og væri eðlilegt að einnig þessi mál fengju umfjöllun á þeim vettvangi áður en þeim er vísað áfram, rétt eins og tillögum til breytinga á ýmsum sviðum kirkjustarfanna er hægt að vísa þangað.
Helgisiðabók og sálmabók þjóðkirkjunnar eru bindandi regla. Enginn söfnuður þjóðkirkjunnar hefur leyfi til að nota aðrar þesskonar bækur í sínu starfi.
Presturinn fær í vígslu sinni umboð til þess að bera ábyrgð á því að starfsemi safnaðar sé í samræmi við þær reglur sem prestastefna hefur samþykkt fyrir sitt leyti, kirkjuþing afgreitt og biskup staðfest.
Presturinn er þannig gæslumaður helgisiðanna eins og hann er sá sem útleggur Guðs orð í predikuninni fyrir söfnuðinn. Um þetta má lesa nánar í vígslubréfi presta, í lýsingu vígsluathafnarinnar og í siðareglum presta.
Ég vona að þetta svari spurningu þinni.
Kærar kveðjur, Kristján Valur.
22/2 2006 · Skoðað 4340 sinnum
Langar þig að bera fram spurningu? Gerðu það þá hér.
Forsíða · Skoða svarflokka · Höfundar · Leit