Trúin og lífið
Spurningar

Undirsíður

Önnur svör

Svör sem birt voru í sama mánuði

  1. Kvíðir fólk dauðanum?
  2. Byggingarlag kirkna á Íslandi
  3. Hvernig er himnaríki?
  4. Hver er grundvöllur hjónavígsluformsins?
  5. Hvar eru alfa námskeið?
  6. Ferming fjórtán ára

Aðskilnaður hjóna á elliheimilum

Eygló spyr:

Kristin kirkja boðar að hjónabandið sé heilagt og þegar hjónaefni játast hvort öðru lýsir presturinn því yfir að það sem Guð hefur leitt saman megi maður eigi sundur slíta.

Hvernig stendur þá á því að íslenska Þjóðkirkjan skiptir sér ekki af því að hjón sem hafa jafnvel verið í hjónabandi í 50-60 ár eru aðskilin þegar þau á gamals aldri þurfa að vistast á elliheimili og því er borið við að þau þurfi mismikla þjónustu og því vistuð á mismunandi deildum og þannig skilin að, jafnvel þau ár sem þau eiga enn eftir ólifuð? Telst þetta ekki vera mannréttindabrot?

Bernharður Guðmundsson svarar:

Komdu sæl.

Þetta er þörf spurning og næsta átakanleg og varpar ljósi á aðstæður eldri borgara.

Spurningin höfðar sérstaklega til mín þar sem ég er sjálfur í hópi eldri borgara og auk þess í Öldrunarráði sem er ráðgefandi fyrir hið opinbera í þessum málaflokki Við þekkjum skortinn á hjúkrunarrými fyrir þá eldri borgara sem þurfa umönnun allan sólarhringinn og líka þann skort á heimaþjónustu sem gerir hjónum kleift að búa saman á eigin heimili eins lengi og gerlegt er. Þar er hinsvegar að verða breyting á að vona má , það virðist vera yfirlýst stefna stjórnvalda að efla stórlega heimaþjónustu, bæði hvað snertir hjúkrun, ræstingu, matarsendingar og félagslega aðstoð. Þetta kom glögglega í ljós í ræðu forsætisráðherra um áramótin, þetta hefur komið fram á fundum okkar með ráðuneytisfólki og þetta hefur verið afdráttarlaus tillaga kirkjunnar um árabil í málefnum aldraðra. Nú þurfum við hinsvegar öll að þrýsta á að þessi stefna verði framkvæmd! Þetta er tvímælalaust ákjósanlegu aðstæðurnar í stað allra þessara stofnana sem svipta eldri borgara oft sjálfræði sínu og reisn. Þá geta gömlu hjónin sem átt hafa sitt gullbrúðkaup búið saman eins lengi og hægt er

Hinsvegar er það svo að þegar einhver þarf sólarhringsumönnun, hvort sem hann er ungur eða gamall, verður viðkomandi að vera á sjúkradeild sem veitir slíka þjónustu. Þar er ekkert pláss fyrir hraustara fólk nema til heimsókna, enda mikil spurning hvort það væri eftirsóknarvert t.d. fyrir andlega fullfrískt fólk að vera vistað hjá maka sínum á deild fyrir heilaskaðaða.

Að þessu sögðu virðist mér þetta varla talið mannréttindabrot að hjón verða aðskilin vegna mikils sjúkleika annars þeirra. Hinsvegar hlýtur stofnunin, sem þau eru vistuð á, að sýna samúð og skilning og gera hjónunum það eins auðvelt og kleift er að njóta samvista hvort við annað þessi síðustu ár þeirra.

Með kærri kveðju,
Bernharður Guðmundsson

9/1 2006 · Skoðað 2935 sinnum


Þín ummæli

Nafn:
 
Netfang:
 
Ummæli:
 


Forsíða · Skoða svarflokka · Höfundar · Leit

Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar