Svör sem birt voru í sama mánuði
Snorri spyr:
Um fermingar:
1. Er foreldrum heimilt að fara fram á að fylgjast með börnum sínum í fermingarfræðslu?
2. Þarf að greiða sérstaklega til viðkomandi sóknarprests vegna fermingarfræðslu barns?
Íris Kristjánsdóttir svarar:
Góðan dag, Snorri. Íris heiti ég og er prestur í Hjallaprestakalli, Kópavogi. Ég var beðin um að svara spurningum þínum um fermingarfræðslu og mun ég gera það eftir bestu getu:
1. Er foreldrum heimilt að fara fram á að fylgjast með börnum sínum í fermingarfræðslu?
Ég efa ekki að innan lang flestra safnaða fá foreldrar að fylgjast með í fræðslutímum fermingarfræðslunnar. Get þó hins vegar einungis sagt þér hvernig þessu er háttað hjá okkur í Hjallakirkju. Þar kemur skýrt fram á kynningarfundi hvert ár að foreldrum er velkomið að sitja fræðslutímana ef þau vilja. Ég hef verið prestur í 9 ár og aðeins einu sinni séð foreldri nýta sér þetta boð. Það held ég að skapist frekar af því að börnunum finnst ekkert spennandi að hafa mömmu eða pabba með í fræðslunni, heldur en áhugaleysi foreldra. En ég ítreka að foreldrar eru hjartanlega velkomnir.
2. Þarf að greiða sérstaklega til viðkomandi sóknarprests vegna fermingarfræðslu barns?
Fermingargjald er ákvarðað af Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og samkvæmt gjaldskrá frá síðasta ári er gjaldið kr. 9.300. Gjaldið er greiðsla fyrir fermingarfræðslu, þ.e. tímana sem barnið situr í fræðslunni, en ekki fermingarathöfnina sjálfa. Mikilvægt er að þetta komi fram. Því er um fræðslugjald að ræða. Viðkomandi sóknarprestur tekur við greiðslu. Innan stærri safnaða, þar sem fleiri prestar en einn starfa, skiptist gjaldið á milli prestanna. Og enn má taka fram að í slíkum söfnuðum er oft þörf að hafa fleiri fermingarfræðara og fá þeir aðilar einnig greitt af þessum peningum. Þannig er því háttað í Hjallasöfnuði.
Annar kostnaður fyrir fermingarbarn sem tengist fermingarfræðslu felst í bókakaupum og ferðakostnaði (í Vatnaskóg eða annað). Bækurnar kosta á bilinu 2-3.000 og ferðin kr. 4.000. Ferðin er þó val, ekki skylda.
Ég vil taka það fram að ofangreindar upplýsingar miða fyrst og fremst við aðstæður í Hjallaprestakalli. Prestaköll á Íslandi eru mörg og margvísleg og mismunandi hefðir á hverjum stað. Fræðslugjaldið, kr. 9.300, er þó hið sama alls staðar.
Vonandi hafa þessi orð svarað spurningum þínum á fullnægjandi hátt. Ef ekki, hafðu þá samband.
Kv. Íris Kristjánsdóttir,
Hjallakirkju
27/12 2005 · Skoðað 4577 sinnum
Forsíða · Skoða svarflokka · Höfundar · Leit