Lof sé þér um ár og öld,
mikli Drottinn dýrðarinnar,
dýrðar vil ég minnast þinnar,
þér sé vegsemd þúsundföld.
Kynslóð eftir kynslóð lofar
kærleik þinn og speki' og mátt,
þú, sem ríkir öllu ofar,
allt þú blessar, stórt og smátt.
Miskunnsamur mjög þú ert,
ó, hve þú, minn Guð, ert góður,
gæskuríkur, þolinmóður,
öll þín verk það vitna bert.
Öll þín verk þitt veldi róma,
vegsama þitt dýrðarráð,
öll þín verk þó einkum hljóma
um þinn kærleik, líkn og náð.
Allra vona augu' á þig,
þú upp hendi þinni lýkur,
þú ert ætíð nógu ríkur
alla' að blessa' og einnig mig.
Öllum þeim, sem á þig kalla,
allt þú lætur gott í té,
frelsar þú og annast alla,
eilíft lof og dýrð þér sé.
Sl 145 - Sb. 1886 - Valdimar Briem