Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Þú ert nóg…

20. janúar 2019

Lúkas 19.1-10

I.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hann Sakkeus langaði til að sjá Jesú.

En kannski langaði hann ennþá meira til að vera séður, til að láta sjá sig.

Ef til vill þráði hann mest af öllu að ásjóna kærleika Guðs myndi sjá hann og færa honum boðskapinn: „Þú ert nóg.“

II.
Þegar prentlistin kom til sögunnar í kringum 1500 varð ritaður texti skyndilega aðgengilegur almenningi á Vesturlöndum, ekki bara yfirstéttinni og kirkjunnar mönnum. Jafnvel þó að læsi hafi fjarri því verið jafnalgengt og á síðari tímum, varð ritmálið smátt og smátt æ mikilvægara, til að koma á framfæri tilteknum boðskap, varðveita frásagnir og menningu eða sem samskiptatæki. Hinn skrifaði texti leysti þannig af hólmi að ýmsu leyti (en auðvitað alls ekki öllu) bæði myndræna tjáningu og munnlega geymd.

Núna, einmitt þessi misserin, upplifum við hins vegar aðra þróun sem margir hafa líkt við byltingu á borð við tilkomu prentlistarinnar. Hér er átt við þá þróun að hin sjónræna tækni, samfélagsmiðlar og annað myndrænt efni sem við upplifum í gegnum síma, tölvur og sjónvörp vegi þyngra en ritaður texti og hvað þá munnleg samskipti. Við sjáum aðra og viljum láta sjá okkur sjálf, eins og Sakkeus. En það sem meira er, þetta myndræna efni getur orðið að áreiti sem þrengir að lífi okkar í gegnum snjalltækin.

Margt ungt fólk á Íslandi eins og annars staðar í okkar heimshluta upplifir kvíða og depurð og segir jafnvel sjálft að hluta skýringarinnar megi rekja til sjónrænu tækninnar. Mörgum finnst að þeir verði að líta vel út á samfélagsmiðlum og láta umheiminn sjá sig með jákvæðum augum. Þetta getur valdið samanburði, samkeppni og andlegu álagi.

Inn í þessar aðstæður vildi hún Alda Karen tala á dögunum eins og frægt varð í fjölmiðlum. Alda er ung kona með mikinn eldmóð og hrífandi sjálfstraust og hún átti vafalaust þrjú umtöluðustu orð síðustu viku á Íslandi: Þú ert nóg. Með þessum orðum langaði hana til að uppörva þau sem fyndu fyrir depurð, óöryggi og jafnvel löngun til að binda enda á líf sitt. Að sjálfsögðu er þessi setning engin töfralausn á gríðarlega flóknum og viðkvæmum vanda. Það þekkjum við sem höfum í störfum okkar átt samtöl, bæði við þau sem eru sjálf á erfiðum stað andlega og við aðstandendur fólks, sem hefur svipt sig lífi. Og það getur í rauninni hver manneskja séð, að engar töfralausnir eru til, heldur krefst slíkur vandi margþættra og tímafrekra lausna og þverfaglegrar aðstoðar. Og því miður dugir það alls ekki alltaf til. Gagnvart því erum við sem samfélag býsna ráðalaus.

Gleymum þó ekki að hugsunin hjá henni Öldu virðist hafa verið jákvæð og falleg, að reyna að hjálpa fólki að vera öruggt í eigin skinni og benda því á að það þyrfti ekki stöðugt að bera sig saman við aðra. „Þú ert nóg“ eru í sjálfu sér góð skilaboð.

Við megum sjálfsagt öll vera duglegri við að uppörva og styðja hvert annað í því verkefni að vera manneskja, hrósa og hvetja. Getur verið að við séum stundum dálítið fljót að mynda okkur dóma um samferðafólkið og setja það í flokka? Jafnvel gefa út skotleyfi á fólk sem okkur finnst vera öðruvísi, hafi rangar skoðanir eða tali of mikið í heita pottinum?

III.
Út frá frásögninni í guðspjallinu er ljóst að Sakkeus hefur ekki verið vinsæll maður. Aðrir borgarbúar í Jeríkó hafa talið sig vita nákvæmlega hvern mann hann hefði að geyma. Enginn í þvögunni sem umkringdi Jesú hafði áhuga á að hleypa þessum lágvaxna manni fram fyrir sig, svo að hann gæti líka séð frelsarann. Og þegar Jesús hafði numið staðar hjá mórberjatrénu sem Sakkeus klifraði upp í, kallað á hann niður úr trénu og sýnt honum vináttu, varð fólkið yfir sig hneykslað. Í gegnum mannfjöldann gekk pískrið: Ætlar Jesús að gefa sig að öðrum eins syndara?

Kannski getum við alveg skilið fólkið sem fyrirleit Sakkeus. Hann var jú heimamaður sem hafði gengið í þjónustu rómverska heimsveldisins, sem kreisti aurana án afláts út úr íbúum yfirráðasvæða sinna. Sakkeus hafði klifrað upp metorðastigann og landað embætti yfirtollheimtumanns. Það getur hins vegar verið kalt á toppnum og með réttu eða röngu var hann af sínu eigin heimafólki álitinn svindlari, svíðingur.

En er það ekki stórkostlegt hvernig kærleiki Guðs er alltaf dýpri og sterkari en okkar mannlegu skoðanir á fólki? „Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt“ eins og segir í 1. Jóhannesarbréfi (3.20).

Við myndum okkur skoðanir – og stundum óþarflega sterkar – út frá því sem við sjáum og heyrum. En Guð þekkir hjörtu okkar allra. Guð sér það sem innra með okkur býr, þekkir hæfileika okkar og gjafir, drauma okkar og vonir, þekkir það sem veitir gleði og veldur sársauka í lífi okkar, og þekkir líka gallana okkar. Og Guð sér þetta allt, ekki með mannlegri dómhörku, heldur með sínum ástaraugum; með augum kærleika og miskunnar gagnvart þeim sem vilja snúa sér til hans.

IV.
Undanfarnar vikur hefur Rás 1 útvarpað gamalli perlu á kvöldin, sem er upplestur Gísla heitins Halldórssonar leikara á Góða dátanum Svejk eftir tékkneska rithöfundinn Jaroslav Hasek. Bókin um góða dátann Svejk gerist í fyrri heimsstyrjöldinni og er bráðfyndin ádeila á stríðsrekstur og samfélag sem spilar með í valda- og hernaðarbröltinu, en þó þannig að hver reynir stöðugt að bjarga eigin skinni.

Aðalpersónan Svejk þvælist á milli herdeilda, lögreglustöðva og fangaklefa og lendir í þjónustu herpresta og höfuðsmanna svo nokkuð sé nefnt. Eitt af því sem einkennir ferðir Svejks er að alls staðar reyna menn að átta sig á því hver hann er í raun og veru. Er hann fullkominn fábjáni, eins og hann virðist við fyrstu sýn og segist sjálfur vera, eða snjallastur allra sögupersónanna? Er hann hreinhjartaður sakleysingi eða hraðlyginn labbakútur? Er hann trúfastur dáti í þjónustu keisarans eða jafnvel rússneskur njósnari? Svarið liggur ekki alltaf í augum uppi og minnir á að hver einstaklingur getur átt sér margar og ólíkar hliðar eftir því sem vindarnir blása, sýnt styrkleika sína og galla á víxl.

Já, við manneskjurnar, við dæmum og flokkum eftir því sem augað sér og eyrað heyrir. Stundum er það skynsamleg nauðsyn, en í annan tíma hröpum við að ályktunum og gefum út skotleyfi á þau sem síst skyldi.

Sakkeus hafði bæði völd og peninga, en það veitti honum enga lífsfyllingu. Hann þráði að sjá Jesú, og eflaust þráði hann enn heitar að láta Jesú sjá sig. Hann fékk að upplifa takmarkalausan og fyrirgefandi kærleika Guðs; upplifa þekkinguna á dýrð Guðs „eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists“ með orðum Páls postula (2 Kor 4.6).

„Þú ert nóg“ voru umdeildustu orð liðinnar viku. Ef til vill geta þessi orð verið ákveðin leið til að túlka skilyrðislausan kærleika Guðs til okkar: „Þú ert nóg“ vill Guð hvísla að okkur, „Þú ert nóg, eins og þú ert“ í augum hans sem hefur skapað þig og frelsað til eilífa lífsins. Og ekki bara það: Guð vill vera okkur nóg, láta kærleiksríka nærveru sína veita okkur lífsfyllingu og gleði, svo við getum sagt eins og postulinn: „Náð hans nægir mér“.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 570.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar