Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Fórnin

30. mars 2018

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar afi minn heitinn var fjögurra ára eignaðist hann litla systur. Hún var sjöunda barn foreldra hans, sem voru bændur á jörð í Hrunamannahreppi, sem er núna löngu komin í eyði. En litla stúlkan varð líka síðasta barnið þeirra. Fæðingin gekk ekki sem skyldi, það var um langan veg að fara að sækja lækni og svo fór að móðirin lést af barnsförum nokkrum dögum síðar. Stúlkan litla var skírð við kistu móður sinnar og fékk nafn hennar.

Þessi saga er auðvitað ekkert einsdæmi. Ótal slíkar sögur eru til í flestum eða öllum íslenskum fjölskyldum. Sem betur fer eru þeir dagar nú að mestu að baki hér á Vesturlöndum að móðir þurfi að fórna lífi sínu þegar barnið hennar kemur í heiminn. En þetta var veruleikinn. Það þurfti að færa fórnir til að lífið fengi framgang sinn. Fórnin var hluti af gangi lífsins, bæði hjá dýrum og mönnum.

Með auknum lífsgæðum og framförum vísindanna hefur þessi hugsun um fórnina sem nauðsynlegan hluta af lífinu orðið fjarlægari okkur í nútímanum. Kannski gengur það svo langt að okkur finnist stundum eins og við eigum bara allt gott skilið án þess að þurfa að kosta neinu til. Ég meina, hver þarf að fórna nokkru þegar maður getur tekið þátt í leik á Facebook og unnið páskaegg?

Og þegar við lesum um að Jesús hafi fórnað lífi sínu fyrir okkur á krossinum, eins og föstudagurinn langi minnir okkur á, þá verður sú hugsun okkur e.t.v. fjarlæg eða óeðlileg fyrir vikið.

Eða hvað? Er fórnin kannski nær okkur en við höldum?

Jafnvel þó að við myndum detta í lukkupottinn í leiknum á Facebook og vinna girnilega páskaeggið, þá værum við samt búin að fórna ákveðnum persónuupplýsingum um okkur sjálf, sem forritið getur nú notað að vild!

Tökum annað dæmi:
Þegar við eignumst börn breytist líf okkar og við þurfum að fórna heilmiklum tíma, orku og fjármunum sem gætu annars farið í áhugamál eða skemmtanir okkar sjálfra. Ef á að kaupa nýjan bíl skiptir allt í einu engu máli hvort kagginn er flottur eða kraftmikill, heldur hvernig barnabílstólarnir passa og eru öruggir í aftursætinu og hvort barnavagninn kemst í skottið!

En fórnirnar sem við færum til að geta sinnt börnunum okkar, við færum þær auðvitað af gleði og ást! Við myndum að sjálfsögðu ekki vilja skipta og geta átt kraftmeiri bíl því að kærleikurinn til barnanna fyllir hjarta okkar.

Fórn Jesú á krossinum er líka færð af ást. Krossinn er tákn um kærleika Guðs til okkar allra. Föstudagurinn langi er þess vegna alls ekki bara sorgardagur hjá okkur kristnu fólki, heldur dagur kærleika og vonar.

Tökum enn eitt dæmi. Skoðum aðeins alkóhólistann og fórnirnar hans.
Virkur alkóhólisti færir dýrar fórnir fyrir sjúkdóminn sinn. Fyrsta fórnin er oft fjárhagurinn. Eftir því sem ástandið er verra geta svo fórnirnar orðið stærri og stærri, vinnan, húsnæðið, vinirnir og jafnvel fjölskyldan, ég veit ekki alveg hvaða röð er réttust.

Svo getum við snúið þessu við og sagt: Sú eða sá sem ætlar að snúa við blaðinu og vinna sigur á Bakkusi eða þeim fíknisjúkdómi sem verið er að glíma við, hún eða hann þarf líka að vera tilbúin(n) að færa fórn, ekki satt? Að geta setið með kók eða vatnsglas meðan aðrir hafa áfengi um hönd, kostar það ekki blóð, svita og tár?

Jú, auðvitað er það fórn. En það er stórkostleg fórn. Og hún er líka færð í kærleika. Af því að til að geta fórnað einhverju eins og flöskunni, þurfum við væntanlega að vera tilbúin að setja það sem við elskum í fyrsta sæti – ástvini okkar og okkur sjálf.

Jesús birtir okkur Guð á jörðinni. Hann birtir okkur líka tilgang lífsins sem er að elska. Kærleikurinn er æðsta takmark tilverunnar. En ef við erum ekki tilbúin að færa eina einustu fórn fyrir kærleikann, höfum við alls ekki skilið út á hvað kærleikur gengur.

Sagan um krossfestinguna sýnir okkur þetta vel.

Fyrir daga Jesú færðu Gyðingar dýrafórnir í helgidóminum sínum, vegna þess að samkvæmt Móselögunum kostaði samfélag þeirra við Guð sláturfórnir og brennifórnir. Manneskjan – breysk, ófullkomin, þá eins og nú – manneskjan gat ekki lifað í sátt við fullkominn og heilagan Guð nema fórna einhverju til.

En Jesús fullkomnar sáttmála manns og Guðs. Hann, sem er sjálfur bæði maður og Guð, dó á krossinum og færði þannig hina einu sönnu fórn fyrir syndir allra manna. Þetta er fórn sem var færð í algjörlega óeigingjörnum kærleika.

Guð gefur okkur fyrirgefningu sína og samfélagið við sig án þess að við þurfum að færa fórnir, vegna þess að Jesús hefur fært fórnina miklu á krossinum fyrir okkur.

Við heyrðum áðan í guðspjallinu andlátsorð Jesú: Það er fullkomnað.

Fórnin er færð. Verk kærleikans er fullkomnað.

Því megum við segja: Já Drottinn, ég vil þiggja þessa elsku þína og reyna að lifa mínu lífi með kærleikann sem æðsta markið, vegna þess að krossinn er ekki endalokin. Lífið í Guði er sterkara. Lífið lifir og kærleikurinn lifir!

Það segja páskarnir okkur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 919.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar