Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Vigfús Ingvar Ingvarsson

Fern kærleikstengsl

1. janúar 2018

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi - Amen

Enn eitt árið er að kveðja, fyrir okkur sem eldri erum, eitt af mörgum í langri keðju ára sem horfin eru á braut þó að þau hafi vissulega skilið eftir sig minningar og ýmis varanleg áhrif í lífi okkar og samfélagi.
Við mennirnir virðumst hafa vissa þörf fyrir að afmarka tímann, gera okkur dagamun á tímamótum þar sem við kveðjum hið liðna og horfum fram til nýs tíma.

Biblíutextar á gamlársdegi undirstrika góðar vonir en jafnframt er minnt á ábyrgð. Guðspjallið er nokkuð eftirminnileg dæmisaga Jesú um fíkjutréð. Þess má minnast að fíkjutré var stundum látið tákna Ísraelsþjóðina í líkingum. En sagt er frá manni nokkrum sem gróðursetti fíkjutré. Og tökum eftir að þetta fíkjutré var gróðursett í víngarði. Það var gróðursett þar sem jarðvegur var djúpur og góður og það naut verndar og umönnunar. Samt bar það engan ávöxt þegar hans átti að vera að vænta. Sá sem gróðursetti og átti jafnframt víngarðinn leggur til við starfsmann sinn, víngarðsmanninn, að tréð verði höggvið niður – það er að taka dýrmætt rými frá öðrum nytjagróðri. Og höfum í huga að á þessum suðlægu slóðum er lítið um góðan jarðveg.

En víngarðsmaðurinn biður trénu griða, að það fái eins árs frest til að sýna að það geti borið ávöxt og býðst til að hlúa vel að því. Þetta samþykkir víngarðseigandinn – en þetta er þá úrslitaárið.
Líkingin beinist upphaflega að Ísraelsþjóðinni. Sú þjóð hefur notið forréttinda – fengið óskipta athygli og umönnun Guðs. Henni ber að svara í samræmi við það.

Sá sem mikið þiggur
Sá sem mikið þiggur hlýtur að bera meiri ábyrgð en sá sem lítils nýtur. Af þeim, sem mikið fær í hendur af gáfum, auði og aðstöðu, má meira krefjast.
Við Íslendingar erum auðug þjóð. Við ráðum yfir miklum auðlindum til lands og sjávar og höfum fengið í arf menningu og menntun sem byggir á kristnum grunni. Einhver staðar var reiknað út að ef allir jarðarbúar gerðu kröfu til svipaðrar auðlindanotkunar og við Íslendingar þá þyrfti um 20 jarðhnetti til að mæta því. Það má segja að við gínum yfir miklu.

Það má leita eftir ávöxtum hjá okkur, sem þjóð og einstaklingum. Tréð í dæmisögunni var að nota takmarkaða auðlind án þess að bera ávöxt. Auður okkar byggir að verulegu leyti á auðlindum. Það var hlegið að Einari Benediktssyni er hann sett fram hugmyndir um sölu á norðurljósum. En nú erum við að selja norðurljósin fyrir stórfé allan veturinn. Við þurfum þó ekki beinlínis að vernda norðurljósin. Annað gildir um íslenska náttúru, land og sjó. Þeirri gullgæs er auðvelt að slátra í gáleysi.

Ábyrgð okkar á umhverfinu hlýtur að vera í samræmi við umfang þess sem er í okkar höndum. Ein leið til að nálgast þessi mál, fyrir okkur kristið fólk, er að minna sig á að virða náttúruna sem sköpun Guðs – eitthvað sem við höfum að láni frá skaparanum en er aldrei eiginleg eign okkar.

Upplýsingin svokallaða, sem setti efnisleg vísindi í öndvegi fyrir nokkur hundruð árum hér á Vesturlöndum, færði okkur vissulega margvísleg efnisleg gæði. En viðhorf upplýsingarinnar sviptu manninn jafnframt vitund um ábyrgð gagnvart Guði á gerðum sínum. Umhverfið varð aðeins hráefni eða viðfangsefni til frjálsra afnota fyrir manninn. Hann þurfti engum að standa reikningsskil.

Syndafall umhverfisspjalla
Það hefur verið sagt að tala mætti um umhverfisspjöllin af mannavöldum sem syndafall nútíma mannkyns. Iðrunin eða afturhvarfið í því samhengi ætti þá að vera vitundarvakning sem leiddi til róttækrar stefnubreytingar.
Iðrun eða sinnaskipti í hinni biblíulegu merkingu er alltaf róttæk viðhorfsbreyting sem hefur þá áhrif á gerðir. Raunar er um að ræða nýtt lífsviðmið. Rétt eins og syndin er röng lífsstefna en ekki einstök verk. Orðið fyrir synd í Nýja testamentinu merkir einmitt að skjóta fram hjá markinu, hafa ranga lífsstefnu.

Umhverfismálin munu í vaxandi mæli verða mál málanna og þá vitund um takmörk auðlinda og þá að orðtakið: „Lengi tekur sjórinn við“ – vísar á villigötur. Jú, hann hefur lengi tekið við rusli okkar en nú er fyrir lögnu nóg komið af því. Vitundin um takmörkun auðlinda ætti þá einnig að efla vitund okkar um mikilvægi þess að skipta auðnum réttlátlega á milli fólks. Krafan um réttlæti í þeim efnum heyrir til kjarnaatriðum kristinnar trúar.

Kærleikstengsl
Við höfum verið minnt á eilífa elsku Guðs, þrátt fyrir mannlega bresti og mistök. Elsku sem kölluð er náð, þ.e. óverðskulduð elska. Rétt eins og trénu í líkingunni var hlíft þó að það hafi brugðist.
En við erum kölluð til að svara elsku Guðs með því að elska hann á móti og leitast við að fylgja vilja hans. Það er m.a. undirstrikað í tvíþætta kærleiksboðorðinu um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.
Elska hefur með tengsl að gera, gefandi gagnkvæm tengsl sem rækta og viðhalda kærleika. Út frá boðskap Biblíunnar er hægt að tala um fern kærleikstengsl: Kærleikstengsl við Guð sem mikilvægt er að viðhalda m.a. með þátttöku í helgihaldi þar sem beðið er til Guðs og hann lofsunginn.
Svo má tala um kærleika í eigin garð – sjálfsvirðingu og sjálfssátt sem er annað en eigingjörn sjálfselska. Til að geta elskað náungann, sem fellur undir þriðju gefandi kærleikstengslin – til þeirrar elsku þurfum við þessa sjálfssátt.

Fjórðu kærleikstengslin væru við sköpunina, lifandi og dauða náttúru í kringum okkur. Við þiggjum ekki aðeins lífsviðurværi okkar úr náttúrunni heldur gefur hún okkur einnig svo mikið af innblæstri og uppörvun, með fegurð sinni og fjölbreytni. Þetta ber okkur að endurgjalda með umhyggju og ábyrgri ráðsmennsku sem okkur er af Guði falin yfir sköpun hans.

Náttúran getur einnig, eins og vináttan, eflt kærleikstengsl okkar við Guð. Á það minnir norska Heiðmerkurskáldið og skógarhöggsmaðurinn Hans Børli í litlu ljóði sem heitir Guðsþjónusta:

Ég sit hér í kirkju
úr skógarilmi og dögg og degi.
Bláklukkan hringir til messu,
hljóðlausum slögum.
Og presturinn er án andlits,
og predikunin án orða.
Heilagt sakramentið
er vorangan jarðar.
Laufsöngvari tístir við hreiður,
bjalla klífur upp strá.
Og djúpt í blessaðri þögninni
heyri ég lífshjartað slá.
Í heiminum er að finna traust,
ljós yfir stórt og smátt.

Eitthvað í þessa veru hafa margir fengið að upplifa á kyrrlátum stundum úti í fagurri náttúru. Það er vissulega dýrmætt að nýta vel þau tækifæri sem okkur gefast til að minnast þeirrar náðar sem við njótum. Umfram allt að rækta þau kærleikstengsl sem gefa lífinu gildi.

Tengsl við Guð, okkur sjálf, náungann og sköpun Guðs. Og nú þökkum við þér, Drottinn, að við megum horfa fram til nýs náðarárs. Tíma í fylgd með þér, Drottinn Guð og undir þinni vernd.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi varðveiti, hjörtu yðar og hugsanir í Jesú Kristi. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1343.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar