Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Geirsstaðir og heimskan

25. júní 2017

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvert mannsbarn á Íslandi skilur hvað átt er við þegar talað er um heimsku, eða einhver sagður heimskur, þó að vonandi sé nú ekki mikið gert af því. Ef orðinu heimska er slegið upp í Íslenskri orðsifjabók kemur í ljós að það er skylt orðinu heima. Heimskur er sá sem er heima alinn, eða hefur sjaldan farið að heiman og er því reynslulítill. Þetta kann að virðast harkalegt enda munu margir geta tekið undir að „heima sé best“ eins og stundum er sagt. Sumir ferðast lítið að heiman en eru engu að síður afar fróðir um umheiminn og hafa öðlast víðsýni, til dæmis með bóklestri eða samskiptum við fólk með ólíkan bakgrunn. Heimskan felst þá í því að vera ekki tilbúinn að líta upp úr eigin sjóndeildarhring og hafa skilning á að okkar eigin nafli er ekki alltaf besta viðmið þekkingar og viðhorfa.

Til dæmis get ég fullyrt að útsýnið héðan frá Geirsstaðakirkju sé mjög fallegt, jafnvel á skýjuðum degi eins og í dag, og eins og sjálfsagt flestum ykkar þykir mér orðið afskaplega vænt um umhverfið hér á Fljótsdalshéraði. En við vitum líka að sköpunarverkið er víða mjög fagurt, ekki aðeins hér. Ég hef ekki komið í seiðandi Amazon-regnskóga Suður-Ameríku, ekki séð nema á myndum hina stórbrotnu Viktoríufossa í Afríku og hvað þá Regnbogafjöllin litríku í Kína. Það leynist margt handan sjóndeildarhringsins okkar.

Í ritningarlestrum dagsins er sjónum beint að heimsku og visku. Páll postuli skrifar kristna söfnuðinum í Korintu og minnir meðlimi hans á að þau sjálf hafi ekki alltaf verið talin vitur eða merkileg í augum umheimsins. Guð kallaði hvorki keisarann né fólk úr efstu lögum þessa stéttskipta samfélags til þess að taka á móti og boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Í fyrstu, kristnu söfnuðunum var einkum að finna alþýðufólk, þræla, verslunarfólk og aðra sem efri stéttirnar litu niður á. Að manneskjur úr þessum hópi skyldu koma saman í kringum nýjan trúarboðskap, sem þar að auki byggðist á manni sem hafði verið krossfestur, - það hefur örugglega mörgum þótt hláleg heimska. Samt breytti þessi boðskapur lífi fólksins til góðs. Og þarna var að finna einn af fyrstu sprotunum á tré kristinnar kirkju, sem um þriðjungur mannkyns tilheyrir nú, öllum þessum öldum seinna.

Nú á dögum eru auðvitað líka ýmsir sem gera lítið úr kristindómnum, eða trú yfir höfuð, og finnst heimskulegt að leggja traust sitt á annað en það sem augað sér. Páll postuli bendir einmitt á að „Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða“ (1Kor 1.27).

Ef við á annað borð teljum að almáttugur hugur sé uppspretta lífs okkar, en ekki blind og miskunnarlaus tilviljun, hlýtur sá hugur að sjá svo margfalt víðar og geyma svo miklu dýpri visku en mannleg hugsun getur numið. Þess vegna rekumst við aftur og aftur í Biblíunni á það stef að áform Guðs snúi á hvolf reynslu eða áætlunum manneskjunnar. Lífið kemur á óvart, af því að höfundur lífsins kemur okkur stöðugt á óvart.

Þegar Jesús kvaldist og dó á krossinum sáu vinir hans aðeins sorg og vonleysi. En Guð notaði þetta tækifæri til að frelsa og gefa líf, til að fyrirgefa syndir allra þeirra, sem vilja treysta Jesú, og til að láta lífið sigra dauðann í eitt skipti fyrir öll. Þessu megum við treysta sem kristnar manneskjur. Í hinum krossfesta og upprisna Kristi felst viska Guðs.

Það getur verið stórt skref að treysta því í lífi okkar sem trúin boðar, og jafnvel verið ógnvekjandi að fylgja Guði en ekki bara því sem er mannlega talað viðurkennt. Ég minntist á orðsifjar heimskunnar í upphafi og hér geta þær e.t.v. líka komið okkur til hjálpar. Þetta íslenska orð má nefnilega ekki bara rekja til þess að vera heima alinn, heldur jafnvel líka til sænskrar mállýsku þar sem orðið hemmsk mun þýða hræddur eða huglítill. Þetta fer vel saman. Víðsýni út fyrir heimahagana, eða bara út fyrir sjónarmið eigin nafla, getur aukið á öryggi og hugrekki. Í trúnni felst þá viskan í því að horfa ekki bara út fyrir sjálfan sig heldur alla leið til skaparans: að fylgja Drottni en ekki bara því sem augað sér, það er sú viska sem gefur okkur þor og kraft í ólíkum aðstæðum.

Þessi viska trúarinnar hefur fylgt íslensku þjóðinni í gegnum aldirnar. Það erum við minnt á þegar við virðum fyrir okkur litlu torfkirkjuna sem við höfum hér fyrir augum, Geirsstaðakirkju. Vissulega er þetta hús ekki vígð kirkja sem slík heldur tilgátuhús sem má rekja til fornleifarannsókna á vegum Minjasafns Austurlands. Þeim stýrði Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur fyrir réttum 20 árum síðan. Þá fundust hér rústir af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum auk þess sem hringlaga garður fannst umhverfis rústirnar. Kirkjan var talin hafa verið einkakirkja fyrir heimilisfólkið á Geirsstöðum, reist seint á 10. öld eða stuttu fyrir tíma formlegrar kristnitöku í landinu.

Og sögu íslenskrar kristni má auðvitað rekja enn lengra aftur. Fjöldinn allur af þeim norrænu víkingum, sem numu hér land, hafði kynnst kristinni trú áður en þeir komu til landsins og hafði hún borist víða frá manni til manns, áður en skipulagt trúboð hófst hér. Reyndar eru minjar um heiðinn átrúnað á Íslandi á þessum tíma tiltölulega fáar, eins og áðurnefnd Steinunn hefur bent á. 1)

Rétt eins og hjá Korintubúunum sem Páll postuli skrifar til í pistli dagsins, var það fólk úr hópi íslenskrar alþýðu sem bar kristnina til landsins. Þetta gerðist áður en ráðandi öfl tóku pólitíska ákvörðun um kristnitökuna árið 1000.

Að messa hér við Geirsstaðakirkjuna svokölluðu í dag setur okkur því í svolítið sögulegt samhengi. Það minnir okkur á hvernig trúin á Jesú Krist hefur mótað samfélag okkar og siðinn í landinu um aldir. Guð gefi að viska trúarinnar muni áfram fá að hafa áhrif til góðs á þjóðlífið okkar um ókomna tíð.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

1) Steinunn Kristjánsdóttir: „Kristnitakan.“ Kirkjuritið 2004 (2), bls. 6.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1638.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar